föstudagur, 16. desember 2016

Samfélagssáttmála um stjórnkerfi fiskveiða?

Er umbylting á stjórnkerfi fiskveiða „stóra málið“ sem fyrir liggur í stjórnmálum dagsins á Íslandi? Í alvöru? Er það stóra vandamálið sem við er að etja núna?

Hélt ekki að sú stund rynni upp að ég sammála ritstjórum Morgunblaðsins en enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Ef marka má túlkun Kjarnans á viðhorfi ritstjóra Morgunblaðsins er sú stund runninn upp að ég er innilega sammála ritstjórum Morgunblaðsins.

Skil ekki þá röksemdafærslu að umbylting á stjórnkerfi fiskveiða sé forgangsmál stjórnmálanna á Íslandi haustið 2016. Finnst ástæða til að halda því til haga að heit afstaða alls almennings á Íslandi, þar með talið Reykvíkinga, til þessa máls er fyrst og fremst til komin vegna áróðurs Morgunblaðisins í áratugi. Hugtakið „sameign þjóðarinnar“ eða þjóðareign hefur reynst betri en enginn í því áróðursstríði.

Sátt um sjávarútveginn er sannarlega eftirsóknarverð. Sátt um auðlindagjald og fyrirkomulag fiskveiða. Sannarlega er það eftirsóknarvert að við Íslendingar sem heild náum sátt í því máli sem allir geta við unað.

Það er sú nálgun sem ég óska þeirri ríkisstjórn, hver sem hún verður, að hafa í forgrunni um hvernig tekið verður á þessu máli. Sú sátt verður að fá að taka tíma. Hún verður að taka tillit til allra sem hagsmuna eiga að gæta í málinu og fyrst og síðast verður hún að gæta heildarhagsmuna þjóðarinnar í málinu.

Þetta mál, fyrirkomulag fiskveiða er samt ekki stóra málið. Það er ekki málið sem þarft er að setja í forgang.

Sátt um stjórnkerfi fiskveiða í landinu getur verið prófsteinn á ný vinnubrögð. Nýja nálgun. Fínt mál til þess að innleiða nýja hugsun í stjórnmálin. Langtímahugsun. Hugsun sem hefur að markmiði að búa til samfélagssáttmála.

Orðið eitt hljómar eins og falleg tónlist.
Ber viskuna í sér.
Samfélagssáttmáli.

Vart hægt að hugsa sér að gera Íslendingum meira gagn en að hafa þá hugsun að leiðarljósi í þessu máli. Gætum nýtt málið til að byggja brú á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Gætum eytt orku okkar í eitthvað jákvætt. Eitthvað uppbyggilegt.

Að búa til samfélagssáttmála.
Ef við næðum því væru okkur allir vegir færir.

þriðjudagur, 13. desember 2016

Yfirlæti og sjálfsupphafning

Eru stjórnarhættir sem við erum orðin vön. Höldum að því er virðist að séu eðlilegir – hafa verið normið svo lengi að okkur dettur ekki í hug að annað sé tilhlýðilegt. Auðmýkt þekkjum við ekki, nema af afspurn.

Stjórnmál síðustu áratuga hafa snúist um eltingaleik í kringum gullkálfinn. Hinir hafa beðið í röðum eftir mat. Allan tímann hefur stór hópur fólks orðið sífellt fátækari, sífellt niðurlægðari og við höfum látið okkur vel líka. Í það minnsta er ekki að sjá að við höfum haft af því miklar áhyggjur. Ef við hefðum haft það væru raðirnar ekki enn til staðar.

Við höfum búið til kerfi til að eltast við „aumingjana“. Heilu embættin eru til, og deildarstjórar þeirra fengu feita kauphækkun á dögunum, sem hafa ekkert annað hlutverk en að eltast við aldrað og veikt fólk, að taka af því peningana til að tryggja að þeir séu örugglega áfram fátækir. Niðurlægðir. Njóti engrar virðingar.

Við stóðum í mótmælum á vormánuðum vegna þess að hrokafyllsti foringinn reyndist ekki hafa verið í neinum fötum. Heimtuðum kosningar og fengum þær. Í kosningunum hentum við flokknum sem reyndist okkur aldeilis betri en enginn á mestu niðurlægingatímum þjóðarinnar. Flokknum sem stóð í stórræðum í því að taka til eftir fjárhættuspil strákanna.

Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur þurft að sæta ábyrgð á hruninu. Það er tilhlýðilegt og við hæfi. Samfylkingin er kvenkyns og konur hafa alltaf verið góðar í því að taka við ábyrgð á ábyrgðarleysi strákanna.

Auðmýktin lætur á sér standa. Auðmýkt sem felst í því að tala ekki sífellt um sjálfan sig. Höfum haft stjórnmálaforystu svo lengi sem hefur verið í því að beina kastljósinu að sér, gera sjálfa sig að aðalatriði að við höldum að þannig eigi það að vera. Að það sé í góðu lagi að tala um sjálfan sig stöðugt. Hversu bjartsýnn maður sé að eðlisfari. Hversu jákvæður maður sé. Hversu lausnamiðaður. Og svo mætti lengi áfram telja.

Ætla að segja ykkur það núna að svona talar ekki heilbrigð forysta. Heilbrigð forysta er ekki í sífellu að kjamsa á sjálfum sér. Heilbrigð forysta talar um það sem þarf að tala um. Kjarna máls. Og þau eru næg viðfangsefnin sem við er að etja í íslensku samfélagi í jólamánuðinum 2016. Yfirlæti og sjálfsupphafning eru þættir sem við mættum svo gjarna láta tilheyra fortíðinni.

Virðing fyrir viðfangsefnunum, virðing fyrir öllu fólki (líka neikvæðu og fátæku fólki). Auðmýkt. Eru orð sem stjórnmálamennirnir okkar mættu svo gjarna læra að tileinka sér.

Þá kæmi kannski að því einn daginn að viðfangsefnin yrðu aðalatriðið en stjórnmálamennirnir sjálfir féllu í skuggann.

sunnudagur, 13. nóvember 2016

Yfirlæti og mannorðsmorð


Við skellum nokkrum kellingum á bálið reglulega og fáum viðhlæjendur marga.
Þær hafa reynst vera kellingar, og hverjum er ekki sama um kellingar?
Jafnvel vinstri sinnaðar kellingar?
Guð hjálpi þér, verra getur það ekki orðið.
Sumar reyndar hafa ekki verið sérlega vinstri sinnaðar, þá skellir maður bara á þær merkimiða um að þær séu það og málið er leyst. Svo hentugt. Svo yfirmáta hentugt.
Að vera vinstri sinnaður er náttúrulega út úr korti. Heimskt. Svo yfirmáta heimskt.
Það vita allir og þess vegna dettur það engum heilvita manni í hug.

Strákarnir. Þessir á miðjunni og til hægri. Maður minn. Þeir eru svo vel siðaðir. Svo góðir. Fallega klæddir og vel máli farnir. Aðdáunarverðir á allan hátt og svo miklu betur gerðir en við hin að öllu leyti. Gera aldrei neitt rangt. Ekkert.

Fullkominn popúlismi verður að heilagri kú. Eins og hendi sé veifað. Og það virkar. Snarvirkar.

Þeir sem voga sér að hafa skoðun á því að miðjuflokkarnir tveir – þessir með vel gerða fólkinu, þessu sem er ekki til vinstri, þið vitið, fari í stjórnarmyndunarviðræður með Sjálfstæðisflokknum, eru dólgar. Algjörlega morgunljóst. Fólk sem leyfir sér að tjá tilfinningar sínar er náttúrulega bara „vinstri menn“!

Hvað annað!
Á bálið með það, þar getur það verið með kellingunum!

Vei þeim sem leyfir sér að tala niður elsku hjartans drengina okkar.
Góðu drengina okkar.
Það skal fá það óþvegið.

En kellingarnar, þær mega brenna.    

föstudagur, 21. október 2016

Stjórnmálin í aðdraganda kosninga

Stjórnmálin á Íslandi eru mér endalaus uppspretta hugleiðinga. Mig dreymir um breytingar í íslensku samfélagi Hefur dreymt um þær breytingar lengi. Veit um leið að þær breytingar verða ekki á einum degi, ekki einu sinni á einu kjörtímabili. Þær breytingar munu verða á löngum tíma.

Breytingarnar snúast um að við öll fáum tækifæri til að búa með með reisn. Jafnt einstæða móðirin sem barnið hennar sem hinn auðugi sem hinn fátæki. Við öll. Fáum tækifæri til að lifa eins og manneskjur. Manneskjur sem hafa val um eigið líf. Val um námsleiðir. Val um störf. Val um að gera mistök.

Ég bý í samfélagi þar sem þetta val er ekki til staðar. Mér er troðið í aðstæður sem ég kæri mig ekkert um að vera í og ef mér hugnast ekki að taka þátt í leiknum er mér útskúfað. Kerfið allt er á einhvers konar sjálfsstýringu þar sem einstaklingurinn er aukaatriði. Kerfið er til fyrir sig sjálft og fyrir þá sem eiga peninga.

Þeir sem deila með mér pólitískum hugsjónum um breytingar hafa kosið að trúa á töfralausnir. Hvert tækið á fætur öðru er búið til sem á að bjarga heiminum. Í staðinn fyrir að nota tímann til að þróa tækið sem tók áratugi að búa til erum við í því að sparka í það. Sundra því. Henda því.

Af því að minn kandídat varð ekki formaður er tækið ónýtt. Af því að konur eru vondar við karla er tækið ónýtt. Af því að einn frambjóðandi er ekki sammála mér um eitt atriði er tækið ónýtt. Af því að stuðningsmaður er ekki sammála mér um forgangsröðun er tækið ónýtt.

Ég er fullkominn og ætlast til fullkomnunar tækisins. Það má ekki fá tíma til að þroskast. Ekki fá andrými eða svigrúm til eins eða neins. Tækið á að koma fram á völlinn fullskapað og að mínu höfði.

Svona horfi ég á samherja mína í pólitík. Kjósendur sem vilja eins og ég sjá breytingar á íslensku samfélagi.

miðvikudagur, 12. október 2016

Endurtekning og afturhvarf

Mælikvarðinn á gæði samfélags er maðurinn sjálfur. Líðan hans. Svo megið þið svara hvort að vel hafi tekist til á Íslandi á þessari öld. Hvort að líðan einstaklingsins í íslensku samfélagi sé dæmi um fyrirmyndarsamfélagið. Hvort að sú pólitík sem rekin hefur verið hér á þessari öld sé umfram allt sú pólitík sem skuli viðhaldið.

Fyrirsögnin hér að ofan vísar til minnar skynjunar á því hvaða afstöðu við höfum tekið. Við viljum afturhvarf og við viljum endurtekningu. Það er okkar ályktun. Ekki hægt að skilja niðurstöður skoðanakannana nú í aðdraganda kosninga neitt öðruvísi.

Afnám hafta hefur verið samþykkt á Alþingi. Það er nú aldeilis til að blása manni í brjóst bjartsýni að blessuð íslenska krónan verði bráðum aftur frjáls í alþjóðlegu fjármálaumhverfi. Alþjóðlegu fjármálaumhverfi þar sem skammtímagróðahyggjan er drifkrafturinn.

Stöðugleiki segja menn. Stöðugleiki er það sem við öll keppum að. Stöðugleiki um hvað? Áframhald þeirra stjórnmála sem hér hefur ráðið ríkjum alla mína ævi?

Stöðugleiki í raun er sannarlega eftirsóknarverður, stöðugleiki hagstjórnar þannig að við öll venjulegt fólk getum einbeitt okkar að því að lifa. Með öllum þeim fjölbreytileika sem það felur í sér. Slíkur stöðugleiki hefur aldrei verið til staðar í landinu og verður ekki á meðan við kjósum endurtekninguna. Mögulega stöðugleiki um það að hinur ríku verði ríkari og hinir fátæku fátækari. Vissulega ákveðin tegund af stöðugleika.

Atvinnustefna minnar ævi: Stóriðja, loðdýrarækt, fiskeldi, spilavíti (fjármálaþjónusta), ferðaþjónusta, svo nokkuð sé nefnt. Græðgi alltaf í forgrunni. Sjávarútvegurinn sker sig úr. Þar hefur átt sér stað raunveruleg hagræðing, raunveruleg verðmætasköpun. En þar hafa menn kosið að deila um keisarans skegg í 25 ár með tilheyrandi afleiðingum fyrir samfélagið allt. Deilan um fyrirkomulag fiskveiða og útgreiðslu arðs af auðlindinni er úrlausnarefni. Úrlausnarefni þar sem menn með gagnstæða hagsmuni þurfa að setjast niður og hlusta hver á annan. Ræða sig niður á lausn þar sem allir geta sætt sig við. Þar er það landsbyggðin fyrst og fremst sem á mismunandi hagsmuni. Reykvíkingar eiga ekki aðra hagsmuni um sjávarútveg en að hann sé sem best rekinn og sem arðbærust atvinnugrein.

Ég ætla að vera eins ósmart og hægt er að hugsa sér í komandi kosningum. Alveg eins ósmart og ég var í þeim síðustu. Ég ætla að kjósa Samfylkinguna. Það ætla ég að gera vegna þess að ég treysti henni. Treysti henni til að hafa fókusinn þar sem hann þarf að vera nú þegar loksins er kominn tími til að byggja upp eftir 8 ár í tiltekt.

Síðustu kosningar voru mikilvægar, ótrúlega mikilvægar. Kosningarnar nú eru það ekki síður. Samt er það svo að ég kýs að horfa ekki á pólitískar umræður. Reyndi, en ég get það ekki. Læt öðrum eftir að álykta hvers vegna.

Ég trúi á skynsama, raunhæfa langtímahugsun í afstöðu til mála. Trúi á að góð pólitík sé pólitík þar sem horft er til þess hvernig samfélag við viljum búa til og veltum upp hugmyndum um hvernig sé best að komast þangað.

Ég sem fyrr vil samfélag víðsýni, fjölbreyttra atvinnutækifæra þar sem öllum er gert mögulegt að lifa með reisn. Öldruðum, sjúkum, heilsuhraustum, ungum, öllum.

Samfélag kærleika og uppbyggingar fyrir manninn.

mánudagur, 10. október 2016

8 ár liðin

frá hruni. 8 ár frá hruni íslenska hagkerfisins. 8 ár sem hafa farið í tiltekt. Uppbygging innviða hefur verið á hold á meðan.

Margir liggja í valnum. Margir sem voru veikir fyrir eru bognir eða brotnir en öll höldum við áfram að hlaupa. Hlaupa eins og ekkert sé, því við erum töffarar. Töffarar af guðs náð.

Ungt fólk getur ekki flutt að heiman því húsnæði er svo dýrt. Hvort heldur að kaupa eða leigja. Á sama tíma og stórir árgangar komu inn á húsnæðismarkaðinn lá allt í láginni. Engir peningar til að byggja upp, ekki einu sinni til að halda í horfinu. Ekkert hægt að gera annað en að taka til. Meira að segja ríkissjóður notaður til að taka til.

Samgöngumál svelt. Málaflokkur sem hreinlega hvarf út af borðinu og hefur ekkert sést til síðan.

Stærstu fyrirtæki landsins meira og minna í fangi lífeyrissjóðanna, sjóðanna sem við höfum greitt í frá því við byrjuðum að vinna. Skv. tilkynningu sem mér barst frá sjóðnum mínum í dag má ég gera ráð fyrir lífeyri upp á 234.000 krónur á mánuði þegar ég verð 67 ára.

Stuðningur ríkisins allur á því formi að ganga út frá að ég sé glæpamaður. Glæpamaður sem svífst einskis til þess að svindla á kerfinu. Svindla á kerfinu sem ég hef greitt til frá því ég hóf störf.

Mín pólitíska hugsjón gengur út á breytingar á þessu. Ég vil búa í samfélagi þar sem pólitíkin snýst um að búa í haginn fyrir okkur öll. Samfélag þar sem gengið er út frá því að einstæðar mæður og einstæðir feður séu til. Samfélag sem gengur út frá því að fólk misstígi sig í lífinu og þarfnist stuðnings.

Samfélag sem vill búa vel að öldruðum og börnum. Samfélag sem byggir á kærleika og því að byggja upp og styðja. Samfélag sem virðir alla til jafns. Samfélag sem gengur út frá því að það gangi misjafnlega. Samfélag sem gengur út frá því að styðja mig og þig þegar á móti blæs á sama tíma og það lítur á það sem meginhlutverk sitt að við fáum öll jöfn tækifæri til að velja okkur leiðir. Velja okkur líf.

Ég vil segja skilið við pólitík sem gengur út frá því að meginhlutverk hennar sé að byggja undir forréttindi hinna ríku á kostnað okkar hinna. Pólitík þar sem við hringsnúumst endalaust í biluðu Parísarhjóli. Eins og hamstrar.

Hrunið var ekki lítilvægur atburður. Hrunið hafði gríðarleg áhrif á samfélag okkar og þau áhrif eru ekki horfin. Hrunið breytti öllu og ekkert verður aftur samt.

Við höfum eytt 8 árum í að trúa á töfralausnir séu til á vanda okkur. Stöndum enn í þeirri trú. Ég trúi ekki á töfralausnir. Sannfærð um að töfralausnir séu ekki til.

Það er bara til raunveruleiki. Raunveruleiki sem verður að taka á af skynsemi, trúverðugleika og kærleika. Raunveruleiki þar sem við horfum á samfélagið okkar eins og það er og tökum ákvarðanir um hvernig við viljum sjá í framtíðinni. Með langtímasjónarmið að leiðarljósi.

Langtímasjónarmið þar sem markmiðið er gott samfélag. Samfélag fyrir alla.

Þórarinn Eldjárn orðar draum minn um íslenskt samfélag framtíðarinnar:
Fagurfræði mín er einföld; fegrar allt.

föstudagur, 7. október 2016

Stjórntæki valdhafa

Þú mátt ekki vera memm!

Við skemmtum skrattanum á hverjum degi.
Birtingarmyndir þess eiga sér engin takmörk.

Ofbeldi, að sjálfsögðu ekki líkamlegt ofbeldi heldur andlegt, einelti og yfirlæti vinsæl stjórntæki og óspart notuð.

Munið þið eftir „gáfumennunum“ á menntaskólaárunum? Þessum sem voru yfir aðra hafnir af því að þeir voru svo gáfaðir og miklu betur gerðir en annað fólk? Það viðhorf og sú framkoma er í góðu lagi núna. Upphafin á hverjum degi og samþykkt. Viðhorfið flokkar fólk í „gott fólk“ og „vont fólk“. Yfirlæti. Gott orð – lýsir því sem við er átt.

Ofbeldi sem lýsir sér í því að tiltekin tegund manna má ekki vera sú sem hún er. Það er bannað. Bara ákveðin tegund manna leyfð. Fjöldinn á vaktinn. Komin upp á tærnar um leið og einhver verður uppvís að ótilhlýðilegri hegðun. Lætur í ljós skoðun t.d. sem má ekki hafa. Oftar en ekki eru konur beittar ofbeldinu. Þær mega ekki vera þær sjálfar. Þær mega bara eins og ég vil að hún sé. Hafa þá skoðun sem ég vil að hún hafi og þar er engin málamiðlun leyfð. Engin. Konur eiga að hlýða. Punktur.

Eineltið megið þið reikna út sjálf. En það bókstaflega grasserar í opinberu rými á Íslandi sem aldrei fyrr. Stjórntæki sem konur kunna betur en aðrir, eru sérfræðingar í.

Ég hélt ekki að það væri hægt að komast á lægra pólitískt plan en við fórum síðast en í þúsandasta sinn skjátlaðist mér um það. Það eru engin mörk á því hversu lágt við erum tilbúin að fara með pólitíkina.

Sú staða sem við erum í er ekki á neinna annarra ábyrgð en okkar sjálfra. Það erum við og engir aðrir sem höfum búið til þá mynd af stjórnmálunum sem við horfum upp á núna.

Stjórnmál þar sem hægri mennirnir einir hafa sjálfstraust til að vera til.
Þeir hafa sjálfstraust til þess af því að við gefum þeim það.

fimmtudagur, 6. október 2016

Heilindi

Hvaðan kemur þetta orð heilindi? Hvað þýðir það?
Sundrung. Er það ekki andstæða heilinda?

Raunveruleiki, óraunveruleiki.
Sannleikur, lygi.
Fegurð, ljótleiki.
Sköpun, skrifræði.
Traust, vantraust.
Merking, merkingarleysi.
Auðmýkt, dramb.

Hvað þýða þessi orð?
Hvað standa þau fyrir?

Ef við tökum dæmi; vantraust annars vegar og traust hins vegar.
Hvaða líðan stendur hvort orð fyrir?

Er ekki rétt hjá mér að orðið eitt, vantraust, láti okkur líða einhvern veginn?
Og traust einhvern veginn öðruvísi?

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er fjallað um ungar stúlkur sem þjást af kvíða og þunglyndi. Fylgni er á milli aukins kvíða og þunglyndis og mikillar notkunar á samskiptamiðlum.

Fyrir ekki svo löngu síðan var forsíðufrétt á Fréttatímanum að við værum að brenna út. Kulnun af völdum streitu væri raunverulegt vandamál í samfélaginu.

Visku-ást – hvaðan kemur það orð?
Sókrates þegar hann dó fyrir sannleikann – hvað þýddi það?
Hvaða sannleikur var það sem hann dó fyrir?

Þegar Hanna Arendt benti okkur á að Eichmann - væri ekki skrímsli - heldur maður.
Hvað var hún að meina með því?

Og með þessar spurningar liggjandi hér opnar á minni persónulegu samskiptasíðu fer ég í próf í reglum Guðsins.

þriðjudagur, 4. október 2016

Kjósum gott líf...

er yfirskrift fundar Samtaka iðnaðarins sem stendur yfir núna um atvinnulíf í aðdraganda kosninga. Fyrirsögn fundarins vekur sérstakan áhuga minn og er tilefni hugleiðinga.

Hver kýs ekki gott líf?
Kjósum við ekki öll gott líf?
Höfum við val um það?

Er komið að því að búa í haginn fyrir okkur? Okkur öll?
Búa til efnahagsumhverfi þar sem við sjálf erum við stjórnvölinn í eigin lífi?

Svo það sé sagt einu sinni enn, stjórnmálin alla þessa öld hafa snúist um að búa í haginn fyrir strákana, strákana að leik með gjaldmiðilinn, hlutabréf í fyrirtækjunum, og okkur hin. Það umhverfi þýðir ekki gott líf og mér finnst að það megi tala um það. Tala um það upphátt. Núna þegar forsvarsmenn fundarhaldara, Samtaka iðnaðarins mæta með fulltrúa á pólitíska fundi til að styðja illa samið frumvarp til breytinga á umhverfi um Lánasjóð íslenskra námsmanna svo dæmi sé tekið. Það frumvarp þýðir ekki gott líf. Nema fyrir fáa.

Ég er ekki í stríði við Samtök iðnaðarins, svo það sé nú sagt. Ég er í stríði við hagsmunaöfl sem vinna að því öllum árum að tryggja sömu pólitík áfram við lýði og þar eru öll samtökin í Húsi atvinnulífsins fremst í flokki. Samtökin í Húsi atvinnulífsins haga sér eins og það sé fullkomlega eðlilegt að þau styðji pólitíska stefnu stjórnmálaflokka sem þau hafa alltaf stutt. Ég ætla að segja þeim það núna að það er ekkert eðlilegt við það.

Fyrrum framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins skrifar grein nýlega, um það sem hann kallar „nýlendustefnu höfuðborgarsvæðisins“ gagnvart landsbyggðinni. Hann minnist ekki á það einu orði um hvað pólitíkin hefur snúist á Íslandi síðustu 8 árin. Ekki einu. Það er ekki hægt að lesa annað út úr greininni en hér hafi verið fullkomlega eðlilegar pólitískar aðstæður síðustu 8 árin og staða landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu sé nýtilkomin.

Skrif af þessu tagi kalla á viðbrögð. Skýr viðbrögð. Margt má taka undir í greininni en það vantar alveg kjarna málsins. Um hvað stjórnmálin á Íslandi hafa snúist síðustu ár og hvaða hagsmuni er verið að verja með málatilbúnaði af þessu tagi.

Á Íslandi býr fólk á landsbyggð og á höfuðborgarsvæði. Á Íslandi býr ungt fólk, miðaldra fólk og gamalt fólk. Á Íslandi búa öryrkjar, margir af völdum atvinnulífs sem kemur fram við fólk eins og skepnur, ekki menn. Auðlindin mannauður er þurrausin, ekki sjálfbær á Íslandi nútímans. Miðaldra konum og körlum er hent á haugana hægri, vinstri og þykir hið besta mál.

Á Íslandi býr fólk sem á í alls kyns tímabundnum vandræðum. Er atvinnulaust, stríðir við sjúkdóma, andlega vanlíðan af öllu tagi. Á Íslandi býr líka fólk sem líður vel í öllum meginatriðum, sem betur fer. Í landinu býr allskonar fólk, í allskonar aðstæðum. Tímabundnum og langvarandi. Allskonar.

Stjórnmál eiga að snúast um aðstæður og umhverfi fyrir allt þetta fólk. Að búa í haginn þannig að við öll getum við lifað mannsæmandi lífi með reisn.

Mannsæmandi líf með reisn.

Er líf þar sem ekki ríkisvaldið lítur ekki á það sem hlutverk sitt að berja einstaklinga niður í svaðið sem eiga í vandræðum heldur styður þá til sjálfsbjargar. Bannar þeim ekki að líða illa heldur hjálpar þeim til að líða vel.

Lánasjóðsfrumvarpið kristallar allt það sem er vont í framkomu ríkisvaldsins gagnvart einstaklingnum á Íslandi. Það er í fínu lagi og besta mál að ríkisvaldið veiti styrki til náms. Það er gott markmið og það skal ég styðja. En allt annað í þessu frumvarpi er vont. Það er samið fyrir ríkisvaldið og hagsmunir borgarans komast ekki að. Frumvörp, lagasetning á Alþingi á að snúast um hag heildarinnar, ekki hag ríkisins.

Með samtryggingu samtaka í Húsi atvinnulífsins og Sjálfstæðisflokksins verður til andrúmsloft þar sem litið er á það sem sjálfsagt að Húsið styðji allt sem frá Flokknum kemur. Það fór til að mynda ekki mikið fyrir stuðningi samtaka Hússins við aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu á sínum tíma. Það var ótækt. Vitlaus flokkur var í forsvari.

Ríkið er ekki til fyrir sjálft sig. Ríkið er til fyrir okkur. Lög eiga að vera samin fyrir okkur og með hagsmuni okkar í huga, ekki ríkisins. Ríkið á að vinna eftir lögunum. Ekki koma að samningu þeirra, efnislega. Við kjósum okkur stjórnmálamenn til að hafa skoðanir og það eru þeir sem eiga að búa til umhverfið. Kerfið á ekki að vera á sjálfsstýringu.

Kerfi þar sem ríkið býr til lögin sem það á sjálft að fara eftir þýðir samfélag sem er illþolanlegt að búa í. Kerfi sem þýðir ekki gott líf fyrir flesta.

Heilbrigð stjórnsýsla. Heilbrigt atvinnulíf. Stuðningur við þá sem minna mega sín og þurfa á stuðningi að halda. Þannig samfélag vil ég sjá. Það samfélag verður aldrei til ef samtrygging ráðandi afla á kostnað hagsmuna heildarinnar verður ráðandi um langa hríð enn.

Hagsmuni heildarinnar.
Manngæsku gagnvart þeim sem á þurfa að halda.
Umhverfi þar sem við getum öll átt gott líf.

mánudagur, 26. september 2016

Trúarbrögð eða pólitík?

Fyrirliggjandi frumvarp menntamálaráðherra um námslán og námsstyrki kristallar fyrir mér það umhverfi sem ég vil að við brjótumst undan. Segjum skilið við. Kveðjum.

Verr samið frumvarp hef ég ekki séð lengi og hef ég þó séð þau mörg. Illa ígrundað, algjörlega sniðið að hagsmunum íslenska ríkisins og stofnunarinnar sem úthlutar lánunum, Lánasjóði íslenskra námsmanna. Borgararnir, við íslenskur almenningur, hagsmunir okkar, koma ekki einu sinni upp við samningu frumvarpsins. Það er augljóst hverjum þeim sem les. Geðþótti lánastofnunarinnar lögfestur í nánast öllum greinum.

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins líta á það sem hagsmuni sína að styðja þetta frumvarp í meginatriðum. Ganga svo langt að senda fulltrúa sína á opinbera fundi til að tala fyrir því. Ég spyr hvort að þetta viðhorf eigi meira skylt við trúarbrögð en nokkuð annað?

Hvaðan kemur sú afstaða þessara samtaka að styðja og fagna þessu frumvarpi? Hagsmuna hverra eru þau að gæta með þeirri eindregnu afstöðu? Hvað á íslenskt efnahagsumhverfi sameiginlegt með hinum Norðurlöndunum? Vextina? Launakjörin?

Hver er staða íslensks launafólks árið 2016? Almennra starfsmanna hins opinbera? Kvennastéttanna? Kennara svo dæmi sé tekið?

Er það forgangsmál núna haustið 2016 að lögfesta nýtt námslánakerfi þar sem vaxtaálag er ákvarðað af stjórn stofnunarinnar sem úthlutar lánunum?

Er það forgangsmál núna haustið 2016 að gera greiðslubyrði námslána þá sömu fyrir kennarann og fjármálaverkfræðinginn? Óháð launum þeirra að loknu námi? Af hverju er þetta pólitík Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins?

Hvaða hagsmuni og hverra hagsmuni eru þessi samtök að verja með stuðningi við þetta frumvarp?

laugardagur, 24. september 2016

Lygin er botnlaus

Sannleikurinn er andstæða lyginnar. Það eina sem skiptir máli. Sókrates dó fyrir hann og Hanna Arendt helgaði líf sitt honum. Leitinni að sannleikanum. Sannleikann sem við finnum innra með okkur sjálfum.

Páll Skúlason talar um að ljósbera hugsunarinnar. Er það ekki fallegt? Ljósberar hugsunarinnar? Gæti það ekki átt við um sannleikann? Traustið? Fegurðina?

Ef maðurinn sjálfur er eini mælikvarðinn á gæði samfélags hvar erum við þá stödd núna? Eiga framtíðarkynslóðir eftir að minnast okkar sem kynslóðar sem skilur eitthvað eftir sig? Hvað?

Elska börn meira en annað fólk og engin setning hefur verið í meira uppáhaldi en setningin „Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það ekki, því slíkra er guðsríki.“ Hvers vegna er svo augljóst. Samvistir við börn eru samvistir við sannleikann.

Keypti mér nokkrar bækur eftir Sigmund Freud í þýðingu Sigurjóns Björnssonar hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi á dögunum. Er óendanlega þakklát þessum mönnum báðum. Sigmund Freud fyrir að færa mér visku sína og Sigurjóni Björnssyni fyrir að gera hana aðgengilega með því að þýða hana yfir á tungumálið mitt. Þakklát Hinu íslenska bókmenntafélagi fyrir að vera til og fyrir að hafa staðið að útgáfu allra þessara yndislegu bóka sem ég ætti engan möguleika á að lesa nema af því að það er til.

Þetta eru vinir mínir í dag. Þeir sem færa mér viskuna og gefa mér færi á að næra visku-ástina sem ég þarf svo á að halda.

Þið haldið örugglega að ég sé skrítin. Hef alltaf verið skrítin svo það er ekkert nýtt í því. Svo gott að leyfa sér að vera það. Leyfa sér að vera það sem maður er. Felur gleðina í sér. Gleðin er góð. Ljósberi hugsunarinnar.

Sálin er ekki bara til – sálin er allt.
Allt sem skiptir máli.

Ætla í lokin að segja ykkur svolítið. Svolítið sem hefur ítrekað komið upp í hugann síðustu daga.

Lýður og Ágúst Guðmundssynir voru strákar að hefja starfsemi á reyktum þorskhrognum í Kópavoginum þegar ég kynntist þeim fyrst. Hermann Guðmundsson, Róbert Wessmann og Baldur Guðnason voru sölumenn hjá Samskipum. Erlendur Hjaltason var stjórnarformaður flutningsfyrirtækisins þar sem ég starfaði. Höskuldur H. Ólafsson var deildarstjóri hjá Eimskip og gott ef ekki líka stjórnarformaður flutningsfyrirtækisins þar sem ég starfaði. Til að taka nokkur dæmi. Sjálf var ég starfandi í þjónustu við útflytjendur á lagmeti hjá Sölusamtökum lagmetis fyrst og síðar í þjónustu við –inn og útflytjendur hjá dótturfyrirtæki Eimskip þá, Jes Zimsen, síðar TVG-ZIMSEN.

Trúið mér, við vorum öll menn. Karlarnir sem nefndir eru og ég líka. Og erum enn.
Öll menn.

föstudagur, 23. september 2016

Nýlendustefna hverra gagnvart hverjum?

Vilhjálmur Egilsson gerir að umtalsefni nýlendustefnu höfuðborgarsvæðisins gagnvart landsbyggðinni í grein í Skessuhorni fyrir skemmstu. Áhugavert orðaval og tilefni til hugleiðinga.

Mér þykir vænt um Vilhjálm Egilsson og held við séum samherjar í pólitík í mörgum málum. Auðvelt að taka undir margt af því sem hann segir í umræddri grein. Sannarlega eru aðstæður fólks út um land ekki þær sömu og aðstæður fólks á höfuðborgarsvæðinu. Þannig hefur það aldrei verið og þannig er það ekki. Á ábyrgð hverra er sú staða uppi? Hverjir hafa setið í stjórnarráðinu síðustu 18 árin? Árin sem Vilhjálmur nefnir í umræddri grein?

Hvað hefur veriðfangsefni stjórnmálanna á Íslandi þessi sömu 18 ár? Síðustu 8 ár? Hvað var verið að fást við? Voru samgöngumál þar efst á blaði? Úthlutun fjármagns ríkisins til hinna ýmsu málaflokka? Menntamála? Húsnæðismála? Heilbrigðismála? Var það viðfangsefnið?

Staða ferðaþjónustunnar út um allt land í dag. Hverjum megum við þakka hana?

Hver hefur rekið nýlendustefnu gagnvart hverjum síðustu 18 ár? Hvenær kemur að því að stjórnmál á Íslandi fari að snúast um venjulegt fólk? Búa í haginn fyrir venjulegt fólk? Hafa þau gert það síðustu 18 ár? Síðustu 8 ár?

Í gærkvöldi horfði ég á „kappræður“ stjórnmálanna í sjónvarpinu á RÚV. Þar stóðu þeir sem við höfum gefið vægi til þess fullir sjálfstrausts.

Þau sem hafa verið í tiltektinni voru ekki eins keik. Ekki við því að búast. Það erum við sem búum þessar aðstæður til.

Við gefum Bjarna Benediktssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni heimild til að standa í stafni fullir sjálfstrausts. Sennilega af því að við erum svo ánægð með stjórnmálin þeirra.

fimmtudagur, 22. september 2016

Utangenaerfðir

Erum við svo tengd efninu, að við verðum að tengja við það, jafnvel þó að uppgötvunin standi fyrir utan? Leggjum við einhvern skilning í orðið? Hvað eru „erfðir“ fyrir utan genið? Gæti verið að við ættum orð yfir það?

Horfði á þátt í sjónvarpinu í gærkvöldi, þar sem tilefnið var vonbrigði vísindamanna við að genamengi mannsins hefði ekki komið með þau svör sem vænst var. Reifaðar rannsóknir á „þessu sem stendur fyrir utan“ genið, mögulegum áhrifum þess á manninn. Leyndi sér ekki að mótstaða vísindanna er mikil við þennan möguleika.

Var flogaveik þegar ég var lítil og fram að tvítugu. Hef átt við alls kyns krankleika að stríða sem á uppruna sinn í taugakerfinu, og uppgötvanir sumarsins í félagsskap Freud og heimspekinga fyrri alda hafa bjargað lífi mínu. Bjargað lífi mínu í orðsins fyllstu merkingu og gera það á hverjum degi.

„Kulnaður“ andinn, ég sem lifandi lík, hef lifnað við í félagsskap með hugsuðum fyrri alda. Þar sem visku-ást, öðru nafni heimspeki, gegnir grundvallarhlutverki.

Þetta með tungumálið er nýjasta áhugamálið. Þessi tilhneiging okkar nútímamanna til að nota ekki tungumálið, orðin sem við eigum, heldur búa til ný. Ný orð sem oftar en ekki hafa enga tengingu og gætu allt eins verið kínverska. Orð eins og „háþrýstivökvabrotun“, „utangenaerfðir“, kulnun (er það ekki taugaveiklun?) Á ótal fleiri dæmi en nenni ekki að grafa þau upp núna og sannarlega hafa þau ekki fests í minninu enda hafa þau enga merkingu. Enga tengingu við eitt eða neitt. Eru bara innantóm tilgerðarleg orð nýja Guðsins. Það er túlkun mín.

Og þá kem ég að öðru. Mér. Vísindin hafa útskúfað „mér“. Þá á ég við, „ég“ er ákveðin skynjun á veruleikanum sem enginn annarr hefur. Það hvernig ég skynja heiminn er einstakt og enginn annarr skynjar hann eins. Þessa skynjun mína eru vísindin búin að útskúfa. Ekkert sem ég segi eða mér finnst er samþykkt sem „vísindi“, ef ég passa ekki upp á að merkja það vel einhverjum öðrum. Hver skyldi hann vera þessi einhver sem vísað er til?

Í viðskiptafræðinni er mælst til að ég noti ákveðið kerfi. Kerfi þar sem vísað er til hvaðan hugmyndin er komin. Hugmyndin má ekki koma frá mér. Þá er hún einskis virði. Allar greinar viðskiptafræðinnar eiga sér „föður“, hef enga móður fundið, eru þær til?

Ef einhver hefur nennt að lesa hingað þá ætla ég að taka nokkur dæmi um sjónvarpsþætti og kvikmyndir sem lýsa þessu mun betur sem ég er reyna að koma orðum að hér. Skynjun minni sem ég sé (og skynja) að er á fullu út um allt, ekki bara í höfðinu á mér, heldur í höfði margra annarra út um allan heim. Skynjun sem segir mér að við þurfum að beygja af leið. Af leið dýrkunar á Guðinn, þangað sem við höfum alltaf farið. Í það að þroska manninn. Þroska manninn og búa til visku. Visku til að skilja eftir fyrir framtíðarkynslóðir.

Lukka eða Lykke, á dagskrá RÚV á miðvikudagskvöldum: http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/lukka/20160713
Age of ignorance, kanadísk bíómynd frá 2007: http://www.imdb.com/title/tt0819953/
The man who knew infinity: http://www.imdb.com/title/tt0787524/
Creation, bíómynd um sjálfan Charles Darwin, http://www.imdb.com/title/tt0974014/
Heimur mannkynsins, þáttaröð á mánudagskvöldum á RÚV: http://www.imdb.com/title/tt4162128/

Leynir sér ekki á upptalningunni að ég er þeirri kynslóð sem læt sjónvarpsstöð ennþá mata mig á efni.

Kannski er ekki allt sem sýnist.

miðvikudagur, 21. september 2016

Guðirnir í nútímanum

Fjöldi landa minna hefur snúið baki við Guði á himnum. Trúin á Guð lifir þó góðu lífi. Guðirnir eru í fleirtölu núna og þeir búa með okkur á jörðinni í stað þess að vera á himnum.

Mín afstaða að það sé tvímælalaust betra að Guð sé einn og að hann sé á himnum.

Sá Guð hefur reynst mér vel í gegnum lífið. Sýnt mér kærleika, væntumþykju og mildi. Guðirnir í fleirtölu á jörðinni eru refsiglaðir og enginn kærleikur þar í boði.

Með Guði í fleirtölu á jörðinni verður samfélagið gegnsýrt af trúarbrögðum og trúarbrögð rökræðir maður ekki eða efast um. Trúarbrögðum hlýðir maður í blindni. Gengst söfnuðinum á hönd. Ef maður gerir það ekki er von á refsingu.

Hugmyndafræðin um guðleg laun til elítunnar er grundvöllur trúarbragðanna. Hún slítur tengsl elítunnar við venjulegt fólk og gefur okkur færi á að dýrka það og dá sem Guði. Við byrjuðum á að gera íþróttamenn og kvikmyndastjörnur að Guðum. Nú eru Guðirnir orðnir miklu, miklu fleiri og trúarbrögðin mun samþættari inn í okkar líf. Stjórnendur fyrirtækja voru gerðir að Guðum með hugmyndafræði þar sem laun þeirra voru slitin úr samhengi við laun okkar hinna. Sú hugmyndafræði er við lýði enn.

Samfélag okkar er gegnsýrt af trúarbrögðum og hjarðhegðun þar sem sjálfstæðri hugsun er úthýst.

Sjálfstæð hugsun er ekki þóknanleg í samfélagi þar sem trúarbrögð ráða ríkjum. Guð er alvitur með geðþóttavald. Maður gagnrýnir ekki Guð eða rökræðir um Guð. Því Guð veit. Veit allt. Guð refsar. Refsar þeim sem hlýða ekki valdi hans.

Guð er karlkyns. Hefur alltaf verið karlkyns.

Kvikmyndirnar: ENRON - The smartest guys in the room. Inside job. Gasland og eflaust ótal margar fleiri gera grein fyrir þessum trúarbrögðum og áhrifum þess á samfélag. Við höldum samt enn ótrauð áfram. Sömu hugmyndafræði. Upphafningu Guða, ósnertanlegra Guða á meðal vor. Guða sem ekki má gagnrýna. Ekki má efast um. Má bara dýrka.

þriðjudagur, 20. september 2016

Sýndarveruleikinn nærður

Það er merkilegt að vera Íslendingur þessa dagana. Lögmálin sem maður lærði í æsku falla hvert af öðru. Það er í fínu lagi að ljúga. Fínu lagi að svíkja. Til þess eins fallið að greiða þér leið til forystu. Popúlismi, sýndarmennska og lygi leiðandi öfl.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kjörinn með afgerandi meirihluta atkvæða til áframhaldandi forystu í Framsóknarflokknum í norð-austur kjördæmi. Sennilega fyrir afbragðs leik í upphafningu sýndarmennskunnar síðustu ár.

Kjósendur sýna vald sitt og hafa í hótunum við Alþingi vegna búvörusamnings sem allt í einu er orðið mál málanna. Ekki vegna þess að mönnum sé málið svo heilagt sem slíkt. Nei miklu fremur vegna þess að það er hentugt og vel til þess fallið að vekja á sér athygli núna, pólitískt. Populisminn blómstrar sem aldrei fyrr. Með stuðningi aflanna sem valdið hafa. Þeirra sem við höfum gefið vægi til að segja okkur hvaða skoðanir við eigum að hafa. Sem ef grannt er skoðað eru allt karlar. Páll Magnússon varð í 1. sæti Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi. Kollegu hans í áratugi Elínu Hirst var hent á haugana. Bjarni Benediktsson er aldrei spurður um hlutdeild sína í viðskiptalífinu fyrir hrun. Þorgerður Katrín þarf að gera grein fyrir „sínum málum“ en hún átti eiginmann sem var þátttakandi í hruninu. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson. Þarf ég halda lengi áfram?

Samfylkingunni er úti. Alveg sama hvað frá henni kemur, það er „out“. Höfum raungert atriðið í áramótaskaupinu þar sem Davíð Oddsson henti Samfylkingunni á haugana. Og látum okkur vel líka. Beinlínis smjöttum á því hvað hún er ömurleg, enda ekki við öðru að búast af flokki þar sem konur eru svo vondar við karla.

Svo er Samfylkingin líka “kvenpersóna”, því förum við auðvitað með hana eins og við förum með konur. Fullkomlega lógískt.

Konur eiga að þóknast körlum og sjá um að sólin skíni á þá. Um leið og þær gerast of fyrirferðarmiklar er voðinn vís. Best að gera þær bara að sökudólgum fyrir öllu saman. Það kunnum við. Kunnum við konur því það eru ekki síst við sem sjáum um þetta alltsaman. Að upphefja karla og gera lítið úr kynsystrum okkar. Það kunnum við betur en flest.

Björt framtíð var voða smart fyrir síðustu kosningar. Nú er hún „out“, nema ef búvörusamningurinn kemur þeim til bjargar. Viðreisn er „in“ og smörtust alls. Þar eru Guðirnir. Elítan sem við trúum á, nærum og upphefjum alla daga. Þurfa ekki einu sinni að hafa fyrir því, fá ókeypis kynningu í fréttum á hverjum einasta degi, því þau eru svo smart.

Fullt af góðu fólki Bjartri framtíð og ekki síður í Viðreisn nú. Báðir flokkar hafa á að skipa vel gerðum einstaklingum sem auðvelt er að eiga samleið með í mörgu í pólitík og sannarlega ástæða til að gleðjast yfir að manni sýnist vönduðu vali einstaklinga á lista Viðreisnar. En fyrr má nú rota en dauðrota. Hvers konar samfélag er þetta eiginlega sem ég bý í?

Ætlum við að halda þessari leið áfram lengi enn? Flokka heiðarlegt og grandvart fólk í „gott“ fólk og „vont“ fólk? Upphefja eiginleika eins og sýndarmennsku, lygi og sundrung? Halda sýndveruleikanum á lofti þar sem kúgun til hlýðni er leiðandi afl?

mánudagur, 19. september 2016

Geðþóttinn

Á dögunum var sýndur á RÚV þáttur sem klipptur hafði verið saman um Björn Th. Björnsson. Viðtal við hann um eina bók hans vakti sérlega athygli mína fyrir það að Björn gerði skýra grein fyrir því hver saga Íslendinga er gagnvart þeim sem minna mega sín. Nú liggur þessi bók á borðinu mínu og bíður lesturs, Haustskip heitir hún.

Nútíminn knýr mig til að kynna mér þessa sögu. Nútími þar sem við njótum þess að brjóta á og fara illa með einstaklinga alla daga. Njótum þess að brjóta einstaklinginn niður ef þess er mögulega nokkur kostur. Höfum verið að dunda okkur við það alla þessa öld. En við gerum það í felum. Gerum það þar sem enginn sér til. Gerum það á grundvelli laga þar sem geðþóttinn er lögfestur.

Geðþóttinn er svo þægilegur. Svo endemis einfaldur í meðförum. Svo gott að hafa vald til að gera bara nákvæmlega það sem manni sýnist, gagnvart hverjum þeim sem um ræðir. Túlka umhverfið svona í dag, og hinsegin á morgun. Hafa vald til að fara verulega illa með einhvern ef mér svo hugnast. Einstaklinga eða fyrirtæki, hvort heldur er. Bara að það sé örugglega tryggt að ég hafi valdið. Valdið til að gera það sem mér sýnist.

Best finnst okkur að lemja á þeim sem bágust hafa kjörin. Hefur tekist svo vel upp í því að nú er staða þeirra margra gjörsamlega vonlaus. Allar bjargir bannaðar. Sjálfsvirðing er of mikið. Hana á enginn skilið sem á í erfiðleikum. Það er of mikill lúxus.

Það sem vakti áhuga minn í viðtalinu við Björn Th. Björnsson og ég ætla að láta verða til þess að lesa þessa bók hans, Haustskip er þessi saga mannvonskunnar á Íslandi. Mannvonskunnar gagnvart lítilmagnanum. Saga sem ég átti að vera vel meðvituð um en var búin að gleyma. Gleyma í amstri dagsins þar sem neikvætt hreyfiafl er við stjórnvölinn. Sundrungarafl sem öll orkan fer í að reyna að lifa með.

Áherslan er öll á að hlusta á Guðina. Karlana sem við höfum gefið vægi til að vita. Skýrasta dæmið Kári Stefánsson. Kári opnar munninn til að segja eitthvað og samfélagið ætlar gjörsamlega um koll að keyra. Með fullri virðingu fyrir Kára Stefánssyni þá er meðhöndlun þess sem hann hefur að segja ekki skýrð öðruvísi en að hann tilheyri Guðunum.

Skoðun Guðanna hefur vægi. Skoðun þrælsins hefur ekkert vægi.

Íslenskt samfélag er í mínum huga óbyggilegt. Get ekki lifað í þessu fjandsamlega andrúmslofti. Andrúmslofti Guða og þræla. Andrúmslofti þar sem sundrungin ein ríkir og þeir einu sem vekja athygli á því eru þeir sem krefjast hlýðni af öðrum. Krefjast jákvæðni. Krefjast þess að tilfinningar séu útilokaðar. Krefjast þess að við séum ekki menn.

Gott samfélag er ekki svona. Gott samfélag er samfélag þar sem manni líður vel. Þar sem fjöldanum líður vel. Til að líða vel þarf ég leyfi til að vera nákvæmlega sú sem ég er og engin önnur. Gott samfélag sýnir kærleika.

Geðþóttinn innifelur ekki kærleika.
Geðþóttinn er vald yfir öðrum.

miðvikudagur, 14. september 2016

Val um visku eða heimsku

Horfði á „Smartest guys in the room“ í gær í samhengi við nám mitt í viðskiptafræði. Kvikmynd um það sem gerðist í þessu musteri Mammons ENRON í upphafi þessarar aldar.

Áreiðanlega séð hana áður, man það satt að segja ekki, lýsingin á upphafningu græðginnar er alltaf söm, hvort heldur á Íslandi, Bandaríkjunum eða Grikklandi til forna. Botnlaus, mannskemmandi og vond. Eyðileggjandi afl eins og við Íslendingar þekkjum svo vel.

Varð ekki reið í þetta skiptið. Miklu fremur sorgmædd. Sorgmædd yfir upphafningu heimskunnar. Að við nútímamenn á þessari litlu eyju skulum hafa kosið að ganga þessu afli á hönd. Skulum ekki enn átta okkur á því að við þurfum að beygja af leið.

Pólitíkin okkar á ekki að snúast um karla - hún á að snúast um okkur. Líf karla, kvenna og barna. Að búa til umhverfi sem tryggir okkur góðar aðstæður, gott samfélag til að búa í. Ísland á 21. öld til þessa hefur ekki verið gott samfélag að búa í.

Mælikvarðinn á gæði samfélags er maðurinn sjálfur. Samfélag vantrausts er ekki samfélag vellíðunar. Miklu fremur samfélag vanlíðunar. Mátti skynja það skýrt í þáttunum „Baráttan um Bessastaði“. Frambjóðendurnir, flestir, sem þar voru á sviðinu skynjuðu þetta. Skynjuðu það að almenningi á Íslandi leið ekki vel. Við eigum að geta sagt okkur það sjálf. Vantraust þýðir að fólki líður ekki vel. Fólki sem líður vel treystir.

Við stöndum frammi fyrir kosningum þar sem ákvörðun verður tekin um hvert við ætlum að fara næstu fjögur árin. Þær kosningar skipta gríðarlega miklu máli. Við getum valið leið viskunnar í stað heimskunnar.

Því gladdi það mig að sjá yfirlýsingu Guðna Ágústssonar á forsíðu Fréttablaðsins í gær. Verð að játa um leið að mér var skemmt að sjá framsetninguna. Framsetningu sem lýsir sér þannig að það er sem Guð hafi talað. Ef að karlarnir verða að leika Guði og það er okkur nauðsynlegt að leyfa þeim það þar sem við erum í stórum stíl hætt að trúa á hann á himnum verður svo að vera. Ef þeir hafa vit á að leiða okkur í átt til visku get ég fyrirgefið þeim það.

Sannleikurinn er mun betri vegvísir en lygin. Það mætti vera okkar fyrsta vers. Að gangast sannleikanum á hönd og hætta að ljúga.

Lygin birtist okkur m.a. í því að við tölum aldrei um það sem gerðist í hruninu. Tölum aldrei um það sem raunverulega gerðist hjá hverjum og einum einstaklingi. Gæti verið ágæt opnun í samhengi við framboð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til forystu í Framsóknarflokknum að birta höfuðstól láns míns opinberlega. Fyrir og eftir hrun.

Almenningur á Íslandi, (kjósendur sem hafa kosið að gera Samfylkinguna að eina sökudólg hrunsins) gæti þá séð samhengi hlutanna skýrt. Annars vegar hvað gerðist hjá „hinum venjulega manni“ við hrun íslensku krónunnar og hagkerfisins á haustmánuðum 2008 og hin hliðin er þá Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eigendamegin á þessu reikningsdæmi.

Við Sigmundur Davíð erum bæði Framsóknarbörn. Faðir Sigmundur Davíðs var þingmaður Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi, kjördæminu þar sem pabbi minn og bræður hans kusu flokkinn alla tíð. Stöðumynd af eignum og skuldum okkar sem einstaklinga fyrir og eftir hrun gæti gefið upplýsandi mynd af því sem raunverulega gerðist hér. Í samfélagi þar sem almenningur var notaður sem tilraunadýr í leik strákanna að gjaldmiðlinum.

Að síðustu kemur upp í hugann minning úr æsku sem lýsir ágætlega því sem mér liggur á hjarta. Undirskriftarlisti gekk í sveitinni til stuðnings starfandi lækni sem oft hafði orðið uppvís að því ítrekað að vera undir áhrifum áfengis við embættisstörf sín. Margir voru til í að skrifa undir. Það þarf vart að taka fram að viðkomandi læknir var karlkyns. Sveitungum mínum fannst fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að sýna honum stuðning til að halda embætti.

Eimir eftir af þessum hugsunarhætti enn?

mánudagur, 12. september 2016

Kona í heimi karla

Þeim fannst gott að geta leitað til mín. Voru hvergi öruggari. Hringdu alltaf í mig þegar mikið lá við. Og þó ekki lægi mikið við. Bara þegar þeir þurftu á þjónustu að halda, því ég var þeirra. Var þjónn þeirra. Þeir vissu það. Þekktu það og vildu hvergi annars staðar vera. Ég var sú sem þeir vissu að vakti yfir hag þeirra og gerði allt til að svara þörfum þeirra.  

Var síðust til að fá farsíma. Sat heima klukkutímum saman um helgar - taldi það ekki eftir mér. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Fannst gaman að gefa - gerði það með gleði.  

Síðust til að fá stjórnunarstöðu. Fékk hana ekki fyrr en rétt áður en ég hætti. Strákarnir komu og höfðu enga þekkingu, ekki á bransanum, ekki á viðskiptunum. Stundum með gráður, stundum ekki. Fóru beint í stjórnunarstöður - fengu miklu hærri laun. Ekki bara 10% eða 15% eða hvað það nú er, miklu, miklu hærri. Félagar mínir hinum megin við hafið skyldu þetta ekki og ræddu þetta við mig. Af hverju var þeim alltaf gert að fara í söluheimsóknir með strákum sem ekkert vissu um viðskiptin? Um bransann? Ég sagði þeim að svona væri þetta á Íslandi.  

Ég gaf, gaf og gaf. Þar til ekkert var eftir. Ekkert nema skelin. Þegar ég leitaði til þeirra seinna eftir hjálp, var svarið „ég veit ekki hvernig þú ert á staðnum“ eða hvernig sem það var nú orðað. Veit ekki hvort kjaftasagan hafði náð þangað eða hvort þetta var bara eðlislægt vantraust til kvenna. Mun líklega aldrei vita það.  

Lygin er kröftug. Árangursríkari en flest. Þarft ekki annað en koma henni af stað og hún vinnur verkið sjálf eftir það. Við ættum að þekkja það í nútímanum sem notum hana ítrekað og leyfum henni að eiga sviðið.  

Kom að því að ég vildi ekki bara gefa. Vildi líka fá. Fá stöðu. Fá að stjórna. Gerði það alltaf hvort eð var. Vildi fá það viðurkennt. Í raunveruleikanum. Það stóð ekki til boða. Þeir lögðu mikið á sig til að koma í veg fyrir það. Merkilega mikið raunar.  

Í háskólanum þar sem sökudólgaábendingin tók sig upp um tíma fékk ég að heyra frá karlkyns vini mínum að ég ætti að læra af þessu þegar hópur hans neitaði mér um aðgang. Ég hafði aldrei unnið með honum. Hann hafði enga reynslu af því að vinna með mér í hóp en var þess umkominn að segja að ég mætti ekki vera sú sem ég er. Að lækka rostann í konu er viðurkennt. Það ekki bara má – það á.  

Lærði að lifa með þessu. Lærði að lifa með því að fá metnaði mínum ekki svarað. Var sárt, rosalega sárt, en staðreynd sem hægt var að lifa með. Lifa dáin. Það gerum við margar.   

Þeir gerðu mig næstum gjaldþrota. Nokkur ár fóru í baráttu við kerfið um að ég ein bæri ekki ábyrgð á því sem gerðist í hruninu. Fyrir heppni sem byggir á vinnu annarra vannst sigur í þeim slag. Enginn hefur minnsta áhuga á að vita nokkuð um hvað gerðist.  

Ég má ekki tala um karla sem hóp. Má ekki nota orðið karlar í niðrandi samhengi. Karlar máttu taka frá mér lífið, lífsgleðina. Máttu nýta mig þar til ekkert var eftir af mér og henda mér svo út á berangurinn. Það er í lagi. Að konur geri kröfur um annað en þjónkun og þjónustu við karla er fáheyrð frekja.  

Af því að karlar eru Guðir og konur þjónar þeirra. Ef slagur verður milli karls og konu er karlinn fórnarlamb og konan sökudólgur.  

Þennan jarðveg höfum við búið til og nærum og gefum súrefni alla daga.  

Karlar njóta ástar. 

Ást til kvenna er skilyrt.   


sunnudagur, 7. ágúst 2016

Ertu til í að veita mér umburðarlyndi?

Forsetinn gerði mikilvægi umburðarlyndisins að stefi ræðu sinnar í gær. Vel við hæfi á þessum degi gleðinnar. Hef oft gert grein fyrir að ég elska þennan dag, Gleðigöngudaginn. Minn uppáhaldsdagur í íslensku samfélagi frá því hann var tekinn upp. Dagur gleðinnar.  

Var þó fjarri góðu gamni í gær þar sem skyldan kallaði. Skyldan sem í dag gengur út á að berjast fyrir gleðinni í eigin lífi. Þaðan koma hugrenningar mínar í þennan pistil dagsins. 

Hvernig væri að leyfa ástríðufullum konum með skoðanir að vera til? Hvernig væri að skoða að veita þeim umburðarlyndi?  

Hafið þið verið „tekin á teppið“ sem viðskiptavinir fyrir að hafa skoðun á því sem ykkur er boðið upp á?
Ég hef það.  

Hefur verið reynt að banna ykkur að skrifa eigin hugleiðingar og birta þær?
Ég hef það.  

Hefur ykkur verið neitað um skólagöngu í háskóla og gert að fara í undirbúningsdeild með stúdentspróf og 11 ára starfsreynslu sem lykilmanneskja í alþjóðastarfsumhverfi á grundvelli geðþótta fjölskylduhöfuðs, föður?
Ég hef það 

Hefur verið sóst eftir ykkur í starf og fengin til þess ráðningarstofa en ykkur ekki boðið neitt annað en starfið? Hvorki laun eða skilgreindur starfstitill?
Ég hef það.  

Hafið þið orðið fyrir árásum yfirmanns ykkar í vinnunni ítrekað – ekki fyrir að sinna ekki störfum ykkar – heldur fyrir að vera sú sem þið eruð?
Ég hef það. 

Hafið þið verið gerð ábyrg fyrir skoðun almennings á stjórnmálaflokki fyrir það eitt að vera stuðningsmenn hans og láta það óspart í ljósi opinberlega?
Ég hef það.  

Hefur verið ráðist á sjálf ykkar ítrekað með árásargirnina eina að vopni aftur og aftur og aftur? Gefið í skyn með fínlegum hætti hvar sem þið komið, hvar sem þið birtist að sjálf þitt sé ekki í lagi? Ástríðufullt. Hrifnæmt. Opið. Áhugasamt um lífið og tilveruna. 

Ég hef það og þannig er það. Þykir sjálfsagt og í lagi að hæðast með fínlegum hætti að sjálfi mínu þegar það sýnir innblástur. 

Ég hef upplifað allt þetta og miklu meira til. Ég er ástríðufull kona með skoðanir. Hafði líka einu sinni metnað. Búið að drepa hann fyrir löngu. Nú langar mig bara að fá að vera til. Neita því að vera fórnarlamb.  

Á Dale Carnegie námskeiði fyrir 13 árum grét ég þegar námskeiðshaldarinn gerði mikilvægi eldmóðsins að umtalsefni. Skil núna hvers vegna. Ég grét vegna þess að þessi sami eldmóður hafði alltaf unnið gegn mér. Óhlýðni mín var bannhelg. Og það hefur ekki batnað á þessari öld. Aðeins versnað. Nú þykir í lagi að hæðast að og brjóta niður konur með metnað og ástríður hægri, vinstri og við erum öll stolt þátttakendur í þeim leik.  

Kona má ekki sýna tilfinningar. Má ekki sýna hvatvísi. Kona á að vera kurteis. Sýni karlinum undirgefni og föðurnum aðdáun. Þannig á það að vera og það finnst okkur konum líka.  

Ég krefst þess að fá að vera til. Og fá að vera sú sem ég er. Ástríðufull. Hrifnæm. Opin. Og áhugasöm um lífið og tilveruna.  

Ertu til í að veita mér umburðarlyndi?     


þriðjudagur, 2. ágúst 2016

Hið fagra og hið góða

...gerði Guðni Jóhannesson, nýr forseti íslenska lýðveldisins, að umræðuefni í ræðu sinni gær. Hann sagði að við þyrftum að muna hið fagra og hið góða, og hann valdi lag sem sagði m.a. „lokaðu ekki sálina inni“.

Fékk gæsahúð og fór næstum því að gráta. Svo glöð – svo glöð að við séum komin með nýjan forseta sem ber okkur þessi skilaboð á fyrsta degi – betri skilaboð get ég ekki hugsað mér. Trúi því staðfastlega að við getum nú öll snúið okkur að því að verða heil aftur. Heil eftir sundrung síðustu áratuga.

Þennan morgunn mælist Hillary Clinton með gott forskot á Donald Trump. Skilaboð hennar eru í sömu átt og Guðna, „Sameinuð stöndum vér...“ sundruð föllum vér vitum við að kemur á eftir. Orð hennar hafa merkingu – merkingu sem við þekkjum svo vel. Skilaboð sem bera í sér kærleika í stað kröfu um hlýðni.

Tungumálið öðlast merkingu á ný með þessum tveimur manneskjum. Manneskjum sem eru þess vel meðvitaðar að þær eru manneskjur og ekkert annað. Manneskjur eins og við hin. Ófullkomnar og allskonar. Með ólíka sögu að baki, sögu tækifæra, áfalla, gleði og sorgar, sögu sem hefur gert okkur að þeim manneskjum sem við erum.

Kannski geta stjörnunar skýrt þennan viðsnúning sem ég upplifi að sé að rísa þessa dagana. Veit það ekki. Veit bara að það er gott að fá vonina aftur. Gott að fá tungumálið aftur. Gott að fá merkinguna aftur. Heilindi. Er orðið sem lýsir því sem ég hef saknað svo mjög og trúi að verði nú hafið aftur til vegs og virðingar.

Þeir skildu eftir handa okkur skilaboð fyrir 2.500 árum að „hið fagra og hið góða“ væri það eina sem skipti máli. Hef sannfærst um gildi og merkingu þeirra skilaboða. Held það skipti engu máli hverjir það voru sem komu þeim í orð. Hvort þeir hétu Sókrates eða Platon. Held að það sé grundvallarmisskilningur okkar að eyða púðri í að velta því fyrir okkur. Skilboðin ein hafa merkingu.

Hið fagra og hið góða er það eina sem skiptir máli í því verkefni að vera manneskja.

mánudagur, 1. ágúst 2016

Alger yfirráð?

„Mundu að glasið er hálffullt en ekki hálftómt sagði framkvæmdastjórinn þegar hann kvaddi mig fyrir 17 árum síðan, daginn sem þessi mynd var tekin.“ Undir niðri skynjaði ég reiðina – reiðina yfir því að ég hafði ekki orðið að vilja hans.  

Ég var uppfull af gleði þennan dag, ólýsanlegri gleði. Gleði yfir ástúðinni sem umvafði mig. Þakklætinu og væntumþykjunni sem streymdi frá hverju korti, hverri gjöf, hverri kveðju. Frá viðskiptavinum hér heima og samstarfsaðilum út um allan heim.  

Verður hugsað til þessara orða nú þegar þjáningin hefur fengið tilgang. Um leið og tilgangurinn varð ljós fauk þjáningin. Gleðin kom í staðinn.  

Þessi orð heyrast oft. Mundu að glasið er hálffullt en ekki hálftómt. Ein af mörgum klisjum Guðsins sem krefst skilyrðislausrar hlýðni. Tiltekinnar hegðunar. Hugsuninni er afneitað. Algjörlega. Hún er bannhelg. 

Okkur er bannað að líða illa. Harðbannað. Það er hluti stjórnunarinnar. Kjarni hennar. Þeim er útskúfað sem líður illa.  

Við eigum að vera jákvæð.
Megum ekki vera neikvæð. 

Við eigum að vera bjartsýn.
Megum ekki vera svartsýn. 

Eigum að vera til friðs.
Megum ekki vera til ófriðs. 

Við eigum að hlýða. 
Megum ekki vera óhlýðin. 

Okkur er umbunað fyrir hlýðni
Refsað fyrir óhlýðni 

„Strengjabrúður sem gera ekkert annað en bregðast við. Þetta er hinn raunverulegi sigur kerfisins“ ...segir Hanna Arendt um það sem gerðist í fangabúðunum í verki sínu um Alger yfirráð frá árinu 1951 í þýðingu Ólafar Emblu Eyjólfsdóttur í bókinni: Af ást til heimsins í ritstjórn Sigríðar Þorgeirsdóttur, bls. 191.

PS 

Biðst velvirðingar á því að birta þessa mynd í tíma og ótíma en hún er nauðsynleg. Nauðsynlegt hjálpargagn til að gera grein fyrir raunveruleikanum. Krefjast raunveruleikans.     


sunnudagur, 31. júlí 2016

Stepford wives fyrirmyndin?


Konurnar í Stepford eru alltaf jákvæðar. Vel til hafðar og fallegar. Heimili þeirra eru fullkomin eins og þær sjálfar og allt er eins og það á að vera... nema... þær eru ekki til.
Sjálf þeirra eru ekki til. Þær hafa enga skoðun. Engar tilfinningar. Fullkomnar strengjabrúður. Konurnar í Stepford eru vélmenni. 

Sá þessa bíómynd í Kvennó og hún hafði sterk áhrif á mig. Sá hana aftur í nýrri gerðinni en áhrifin minni. Myndin hefur svo sótt á mig ítrekað síðustu ár, og holdgerðist í bresku heimildamyndinni um Japan á RÚV á dögunum. 

Þar voru karlarnir búnir að „göfga“ (meining orðsins hér komin frá Nietszhe en síðar notuð í sem undirstaða í kenningum Freuds) kynhvötina svo mjög að það dugði þeim vel að eiga kærustur í símanum. Þær kærustur voru alveg eins og þeir vildu hafa þær. Rifust aldrei við þá, andmæltu þeim aldrei, voru í alla staði fullkomnar. Ekki var hægt að greina neinn söknuð eftir því að kynhvötinni væri svalað í raunheimi. Sýndarveruleikinn fullkomnaður. 

Áhrifin augljós. Japönum fækkar. Kynslóðirnar sem hafa „göfgað“ sig svo mjög að þær lifa góðu lífi fram undir og yfir 100 ára aldur, endurnýjun langt því frá að viðhalda stofnstærð. Lýsir sér í því að margir hinna yngri kjósa að eignast ekki börn. Eðlileg afleiðing þess að karlarnir eru orðnir náttúrulausir og alsælir með sín vélmenni. 

Konurnar eru ekki alls kostar ánægðar með þetta að heyra, þeirra kynhvöt virðist lifa, en ekki tilbúnar að fórna sjálfi sínu og gerast strengjabrúður og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Í þessu samfélagi mátti greina dugnað sem helsta drifkraftinn. Dugnaðurinn hafði leitt það að af sér að karlarnir komu manni fyrir sjónir sem fullkomnar strengjabrúður. Strengjabrúður samfélagsins. Fullkomlega sjálfhverfir – alsælir með sjálfum sér og símanum sínum. Það glittaði í eitthvað líf í sjálfi kvennanna. Það var eitthvað líf eftir þar. 

Er þetta fyrirmyndin? Það eina sem eftir er að holdgera kærustuna í símanum í gervi kvenlíkama sem hagar sér í kynlífi eins og þær gera í síðari gerð Stepford Wives? Þar stynja þær reglulega og hrópa upp hvatningaryrði til karlsins um hvað hann sé stórkostlegur. 

Hvað köllum við þessa þróun? Viljum við að hún raungerist og fari víðar en til Japan? Á fyrir körlum í Bandaríkjunum og á Íslandi að fullnægja kynhvötinni með vélmennum? Hvað með konurnar? Eiga þær eftir að týna sjálfi sínu til fulls í sýndarveruleikanum? Á fyrir okkur að liggja að verða fullkomnar strengjabrúður? Eins og konurnar í Stepford Wives? Jákvæðar. Vel til hafðar, með fullkomin heimili, sálarlausar?

Horfi á samfélagið mitt sem á mörgum sviðum nálgast samfélag frummanna sem Freud gerir grein fyrir í ritgerð sinni um Tótem og tabú. Ritgerðin sú skýrir margt sem ég skildi ekki áður svo sem eins og djúpstæðan ótta kvenna gagnvart körlum, djúpstæða þörf okkar allra fyrir sterka föðurímynd, og nú nýjustu birtingarmyndina - grófa árásargirni ungra karla gagnvart konum í stjórnunarhlutverki. 

Allt þetta og miklu meira til er að finna í skrifum Sigmund Freud. Það er ekki nema von að manninum sé hafnað. Ekki við öðru að búast í landi sem hefur gert Viðskiptafræðina að Guði sínum. Viðskiptafræðina sem á sér skýra fyrirmynd í Tótemguðinum og er dýrkaður sem slíkur á Íslandi og í Bandaríkjunum og víðar.  Breski heimildaþátturinn frá Japan lýsir vel hvert stefnir. Ætlum við þangað? Til Stepford? 

Hvort ætli áherslan sé á hegðunina eða hugsunina í Stepford?  

sunnudagur, 24. júlí 2016

Farg lyginnar

Svona viljum við hafa það...
- ekkert vesen
- og allt í góðu lagi...

Sungu þau í áramótaskaupi gærkvöldsins frá árinu 2006.

Charles Darwin krafðist þess gagnstæða í bíómyndinni sem sýnd var á eftir. Hann krafðist þess að fá að tjá sig um sorg sína. Krafðist þess! Ruddi upp hurðum og gafst ekki upp. Því hann vissi hvað var að veði. Sál hans var að veði. Líf hans var að veði. Hann varð að fá að tala um fargið sem á honum hvíldi til að ná heilbrigði á ný.

Hversu þakklát getum við mannkynið ekki verið fyrir þá kröfu hans?
Kröfu Charles Darwin að fá að vera hann sjálfur?
Kröfu hans að fá að vera manneskja?

Hvernig samfélagi lýsir textinn sem sunginn var í áramótaskaupinu árið 2006?
Samfélag þar sem er „ekkert vesen“ og „allt í góðu lagi“?
Hvernig samfélag er það?
Hvernig er samfélagið okkar í dag árið 2016?
Hefur ofangreint slagorð breyst?
Eða er það kannski enn „ekkert vesen“ og „allt í góðu lagi“?
Er það dæmi um samfélag þar sem við megum vera manneskjur?

Megum við vera manneskjur?

laugardagur, 23. júlí 2016

Hlýddu!

Minnist ungrar stúlku sem sýndi mér allt að því lotningu. Var svo yfirkomin vegna þjónustukönnunar sem hún hafi verið að vinna í taka saman þar sem ég var í aðalhlutverki. Hún mátti til með að leyfa sér að tala um hana því hún hafði aldrei séð neitt þessu líkt. Signý Sigurðardóttir var svo vinsæl. Hún var beinlínis elskuð af viðskiptavinum sínum. 

Könnunin vakti líka framkvæmdastjórann.  Hann áttaði sig, var ekki orðinn Guð þá. Þeir voru almennt ekki orðnir Guðir þá. Hann bauð mér gull og græna skóga, endurmenntun í HÍ á kostnað fyrirtækisins og einn ef ekki tvo daga í viku sem ég mátti sinna náminu. Allt skyldi gert til að halda mér. Halda mér sem var fyrirtækinu svona mikils virði. Það var of seint. Ég gat ekki meir.

Valdi frekar Viðskiptaháskólann á Bifröst þar sem ég fékk ekki inngöngu nema í Frumgreinadeild. Undirbúningsdeild fyrir stúdentspróf, þrátt fyrir stúdentspróf með nálægt 9 í meðaleinkunn og 11 ára starf í alþjóðaviðskiptum þar sem ég var hafði gengt lykilhlutverki. Nei það var ekki nóg. Ég var ekki nóg. 

Man eftir Niels dönskukennaranum mínum á Reykjaskóla þegar hann sló (léttilega) stílabókinni hlæjandi á hausinn á mér um leið og hann sagði, „du er enstående, taler hele timen ud men du lytter på hvad jeg siger“.

Man þetta af því mér þykir vænt um þessi orð. Þau voru jákvæð, voru hrós. Hefur alltaf fundist gott að fá hrós.  Fann á dögunum blað sem ég hafði skrifað og geymt frá árinu 2006:

 Óskýrt umboð = frustration
 Óskýr sýn
 Lokuð eyru
 Krafa um jákvæðni
 => krafa um skilyrðislausa hlýðni
=>Í stað starfsgleði
     Þunglyndi

Óhlýðni er eiginleiki sem mér er í blóð borinn. Get ekki og hef aldrei getað gengist undir það að hlýða hvað sem það kostar. Þessi eiginleiki hefur ekki hjálpað mér neitt. Sennilega hefur hann orðið til að útskúfa mér. Því Guðunum finnst óþægilegt að umgangast óhlýðið fólk. Það er frumforsenda þess að geta verið Guð að hafa fylgjendur sem hlýða. 

Hvers vegna er ég að þessu?  Til að krefjast þess að fá sannleikann fram í dagsljósið. Til að segja sannleikann og krefjast þess að þið sitjið uppi með hann hvort sem þið kærið ykkur um hann eða ekki. Því það vont að sitja undir lyginni. Það á enginn að þurfa að sitja undir lygum. En við erum mörg sem gerum það. Af því það er svo hentugt. Hentug leið til að losna þá sem eru óþægilegir.

Ég fékk merkimiða. Merkimiða sem var svo hentugt að skella á mig. Ljúga til að losna við óþægindin. Ljúga á manneskjuna sem var óhlýðin. Þannig var hægt að tryggja í eitt skipti fyrir öll að hægt væri að losna við hana. Það vill enginn hafa manneskju í vinnu sem er óhlýðin. Guðirnir kæra sig allra síst um slíkt. 

Merkimiðinn sagði að Signý væri „svo erfið í samskiptum“.
Þegar hann þýddi í raun: Signý er óhlýðin. 

föstudagur, 22. júlí 2016

Þú mátt ekki vera memm!

Þegar ég var lítil kom ég oft í heimsóknir til Reykjavíkur. Í þessum heimsóknum bjuggum við á Háteigsveginum hjá afa og ömmu. Þar á bak við húsið var róló og hann er þar enn. Mér fannst það mikið ævintýr að vera til og að hitta nýja krakka til að leika við var það skemmtilegasta af öllu.

Í dag birtist hún mér aftur og aftur þessi minning af kotrosknu stelpunni. Stelpunni sem kom til Reykjavíkur þar sem tíðkuðust aðrir siðir en hún átti að venjast í barnahópnum á Melum.

Einn siður umfram aðra kom i huga mér á dögunum. Sú venja krakkanna í Reykjavík að spyrja þessarar spurningar; „má ég vera memm“? Mér fannst þetta sérkennileg spurning. Talaði upphátt um það. Ætti það ekki að vera sjálfgefið að allir mættu „vera memm“?

Þetta rifjaðist upp því ég á enn orðin fullorðin erfitt með þetta. Erfitt með að skilja skilyrta hópa. Hópa þar sem bent er á einn og sagt við hann að hann megi ekki vera memm.

Gefur auga leið að það þýðir að það hefur verið mér erfitt að vera Íslendingur síðustu misserin. Þar sem sá hópur hefur verið fullkomlega skilyrtur af ráðandi mönnum í 25 ár. Sú skilyrðing dýpkar sífellt og þykir orðið sjálfsagt í íslensku samfélagi að benda á einn - gera hann tortryggilegan og þar með útskúfa honum. Má allsstaðar og þykir tilhlýðilegt. Innan fyrirtækja og stofnana; skellum merkimiða á einstaklinginn og þar með er hann úr leik! Ótrúlega árangursrík aðferð nú sem fyrr í sögunni.

Við vissum einu sinni að þessi breytni var ekki rétt í opinberu rými. Við vissum að hegðan McCarthy var ljótt dæmi í mannkynssögunni og réðum okkur ekki af hneykslan og fordæmingu á hópum þar sem skilyrðing var reglan.

Við vissum að það var hluti framfaranna að vera umburðarlyndur og kærleiksríkur. Erum fyrir löngu síðan búin að tapa því. Eins og svo mörgu öðru sem einu sinni var sjálfsagður hluti þess að teljast til hinna „siðmenntuðu þjóða“.

Við vissum einu sinni að sannleikurinn var eftirsóknarverður.
Í dag kjósum við lygina miklu fremur.

Liggur fyrir að Donald Trump gæti orðið næsti forseti Bandaríkjanna.
Sannleikurinn er sá að Hillary er vond kona.

Maðurinn hefur lítið breyst eftir allt saman.
Kannski bara nákvæmlega ekki neitt.
Við erum eftir allt saman bara mennsk.
Hvað það felur í sér?
Að vera mennskur?

fimmtudagur, 21. júlí 2016

Er heimspeki alvaran sjálf - dauðans alvara?

Forstjóri SanaFortis var með brostin augu í Lykke í gærkvöld. Tár rann niður hvarm. Skyldi líðan hans verða vísindalega sönnuð? Er það líklegt? Geta vísindin „mælt“ líðan manns?

Hef lesið nokkrar bækur í tengslum við nám mitt á Bifröst síðustu daga og vikur. Svo ólíklega eins og það kann að hljóma titla eins og: Leitin að tilgangi lífsins eftir Victor E. Frankl. Undir oki siðmenningar eftir Sigmund Freud auk fleiri ritgerða og fyrirlestra eftir hann. Hvað gengur fólki til? Leit sálgreiningar að skilningi eftir Sæunni Kjartansdóttur og loks bækur um heimspeki; Hugsunin stjórnar heiminum eftir Pál Skúlason, Síðustu daga Sókratesar eftir Platon og nú er ég með í höndunum Handan góðs og ills eftir Friedrich Nietzsche, áfram skal haldið á sömu braut.

Tilefnið og það sem kveikti í mér löngun til lesturs þessara bóka var lítið kver eftir Robert K. Greenleaf „The Servant as Leader“. Lestur þessa litla kvers leysti mig úr viðjum og kallaði fram styrk sem ég var annars búin að týna og gerði kröfu um að ég gerði meira, kafaði dýpra.

Persónulega er ég ekki í vafa að Páll Skúlason hefur rétt fyrir sér þegar hann spyr þeirrar spurningar í bók sinni Hugsunin stjórnar heiminum - hvort að heimspekin sé kannski alvaran sjálf, dauðans alvara? Fyrir mig er hún það - það hef ég upplifað á eigin skinni síðustu daga og vikur. Ég get ekki lifað án hennar.

Þessi yfirlýsing gerir kröfu um aðra játningu. Hef verið týnd og liðið illa lengi. Sú vanlíðan náði hámarki fyrir ári síðan þegar ég brotlenti svo kröftuglega að ég vissi ekki lengur hver ég var. Leið eins og sjálfið væri týnt og tröllum gefið. Treysti ekki sjálfri mér til að tala og alls ekki til að taka einfaldar ákvarðanir. Það var vond tilfinning og hún leiddi af sér margar aðrar vondar tilfinningar.

Það er vont að hafa vitund sem treystir engu sem þú gerir eða segir og er alltaf með svipuna á lofti í hvaða litlu og tilefnislausu aðstæðum sem er. En það var raunveruleikinn og við þá líðan hef ég verið að berjast núna í heilt ár.

Skyldi þessi líðan mín verða „vísindalega sönnuð“? Líðan mín fyrir ári þegar ég var 10 kg léttari og allir voru að tala um hvað ég liti vel út? Þegar sálin í líkamanum talaði til mín eins og versti harðstjóri allra tíma alla daga? Haldið þið að eitthvert mælitæki gæti sagt til um það hver líðan mín var þá? Hvað með núna? Núna þegar ég tek hverjum degi fagnandi og spegillinn segir mér að ég sé 10 kg þyngri en fyrir ári og enginn segir mér lengur að ég líti vel út?

Verður þessi breyting á líðan minni „vísindalega sönnuð“? Ég held ekki. Er sannfærð um ekki. Er þess fullviss að ekki nokkur einasti maður annarr en ég sjálf geti vitað með fullri vissu hvernig þessi breyting lýsir sér. Ég veit samt að hún er raunveruleg. Ég er til - þó að það verði ekki „vísindalega sannað“.

Las á dögunum að hugvísindum Sigmund Freud væri hafnað í Háskóla Íslands vegna þess að rannsóknir hans þyki ekki „vísindalegar“. Hef verið að lesa Freud síðustu daga og vikur og verð að segja að fátt hef ég lesið um dagana sem er „vísindalegra“ en skrif hans. Varfærni og auðmýkt eru orð sem koma upp í hugann. Aldrei fullyrðingar út í loftið. Ekki einu sinni þegar Hitler var kominn til valda og hann gerir tilraunir til að skýra hvaða mannlegu eiginleikar gætu legið að baki því sem þá var að gerast í Þýskalandi. Alltaf varfærinn og aldrei yfirlýsingaglaður. Gefur sig aldrei út fyrir að vera „með svörin“.

Hvað með forstjóra SanaFortis hér í upphafi. Hvort ætli sé líklegra að líðan hans yrði læknuð með pillu frá fyrirtæki hans eða einhver gæfi sér tíma til að hlusta á hann? (og hann sjálfur þyrði að horfast í augu við tilfinningar sínar og deila þeim með öðrum sem auðvitað er hluti málsins) Hvort ætli sé vænlegra til árangurs?

Gæti verið að Sigmund Freud sem í gegnum allan sinn feril spurði sig spurninga sé hollari hugsuður fyrir okkur nútímafólk en Frederick Winslow Taylor sem alltaf leitaði að hinu eina rétta svari?

Gæti verið að neistinn í augum okkar allra byggi á því að spyrja, spyrja og spyrja meira – það séu líkur á því hann slokkni ef við teljum okkur vera með svörin?

Er kannski leit okkar að hamingjunni falin í visku-ást öðru nafni heimspeki?

Er heimspekin kannski lífsgleðin sjálf?

þriðjudagur, 19. júlí 2016

Hið íslenska bókmenntafélag - vegvísir til skilnings á hugtakinu “samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja”?

Við lifum umbrotatíma. Í það minnsta er óhætt að segja að ef við hefðum séð þann atburð fyrir er ólíklegt að við hefðum kosið yfir okkur hrun fjármálakerfisins í þeirri mynd sem það birtist. Þegar hafist er handa við skrif þessarar ritgerðar standa yfir sögulegir dagar í stjórnmálunum á Íslandi. Á þessari stundu vitum við ekkert hvert þeir munu leiða okkur. Þessir tímar eru grundvöllurinn að viðfangsefni þessarar ritgerðar. Rannsóknarspurningin er: Hið íslenska bókmenntafélag – vegvísir að skilningi á hugtakinu „samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja“?



(Hagstofa Íslands, 2016)

Það sem birtist á þessari mynd liggur til grundvallar. Það sem hún sýnir, bæði uppsveiflan og niðursveiflan, hafði gríðarleg áhrif á líf okkar á Íslandi og hefur enn, sbr. fjölmenn mótmæli, afsögn forsætisráðherra og nýja ríkisstjórn í síðustu viku. Samfélagið okkar er ekki samt eftir og því kviknaði hugmyndin að leita í smiðju sögunnar að einhverju sem gæti hjálpað okkur í þeirri stöðu sem við erum.

Í hvaða stöðu erum við þar sem hjálpar er þörf? Við virðumst hafa tapað áttum og „ráfum enn í þokunni” eins og ágætur félagi orðaði það í vikunni. Undirliggjandi virðist sú hugmynd hafa skotið rótum að við vitum ekki lengur hvað hugtakið „samfélagsleg ábyrgð” þýðir. Þ.e.a.s., við höfum slitið fyrirtæki úr samhengi við samfélagið sem þau starfa í og gefið þeim undir fótinn að þau geti starfað í einhverju allt öðru samhengi í samfélaginu en við einstaklingarnir.

Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands gerir grein fyrir þessu í fræðigrein í bókinni Eilífðarvélin – Uppgjör við nýfrjálshyggjuna. Þar segir hún m.a.: „Talað hefur verið um alræði viðskiptalífsins, siðrof eða græðgisvæðingu svo dæmi séu nefnd.“ (Salvör Nordal, 2010, bls. 93) Hún færir rök fyrir því að áhrifavaldurinn að þessari hugmynd sé án efa bandaríski hagfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Milton Friedman og segir að grein Friedmans sé nánast skyldulesning hverjum þeim sem vill kynna sér umræðu um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. (Salvör Nordal, 2010, bls. 95)

Taka verður undir þessi orð Salvarar því grein Milton Friedman sem vísað er til virðist hafa haft víðtæk áhrif á umhverfi viðskiptalífsins á Íslandi í það minnsta. Svo mikil áhrif að hún er að því er virðist enn eftir hrunið í fullu gildi. Þannig urðu tvær nýlegar íslenskar vísindagreinar um þetta hugtak „samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja“ til þess að búa þetta verkefni til. Annars vegar skýrsla Viðskiptastofnunar Háskóla Íslands frá 2014 þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum könnunar á meðal íslenskra fyrirtækja sem öll hafa þetta hugtak í stefnu sinni (Snjólfur , Brynhildur, & Lára, 2014) og hins vegar grein Davíðs Sigurþórssonar þar sem hann setur fram tilgátu um hvort ástæða sé til að horfa á hugtakið fremur út frá því hvernig hagnaður fyrirtækjanna er búinn til en hvernig þau deila honum út. (Sigurthorsson, 2012)

Nálgunin sem þessar tvær fræðigreinar lýsa kveikti hugmyndina að þessu verkefni. Leitað er lausna á því eftir hugmyndum viðskiptafræðinnar hver „samfélagsleg ábyrgð“ fyrirtækjanna sé og gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut að samfélagsleg ábyrgð sé einangrað fyrirbæri sem hægt sé að mæla. Þannig eru hindranir samfélagsábyrgðar taldar upp sem
„kostnaður, tími... tæknileg atriði sem tengjast útfærslu...“
„Í litlu fyrirtæki er það einkum tími til að vinna skipulega með samfélagsábyrgð..“ „Tímaskortur, flest verkefni sem snerta samfélagsábyrgð eru til langs tíma og víkja fyrir skammtímaverkefnum...“
„erfiðara fyrir minni fyrirtæki sem eru að vaxa að setja pening í svona verkefni“. „Hindranir sem tengjast tæknilegum atriðum sem fyrirtækin minntust á voru t.d. áskoranir við innleiðingu mælikvarða á árangur, forgangsröðun sem og eftirfylgni og viðhaldi á árangri. (Snjólfur , Brynhildur, & Lára, 2014) Það leynir sér ekkert á lestri þessarar könnunar að svarendur líta á „samfélagslega ábyrgð“ sem sérstakt verkefni. Verkefni utan við það verkefni sem þau annars eru að sinna í fyrirtækinu. Verkefni sem þarf auk þess að vera hægt að mæla árangur í. Þau viðhorf sem lesa má út úr skýrslu Snjólfs, Brynhildar og Láru (2014) annars vegar og Davíðs (2012) hins vegar – þar sem ekkert fer á milli mála að leitað er að ákveðinni lausn á því hvernig skilja má þetta hugtak „samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja“ varð ásamt hruninu og afleiðingum þess kveikjan að þessari ritgerð. Hvaðan er sú hugmynd komin að hægt sé að búa til uppskrift að því hvernig skuli skilja hugtakið „samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja“? Er „samfélagsleg ábyrgð“ eitthvað eitt? Eða tvennt? Eða þrennt? Eitthvað mælanlegt? Vitum við ekki öll eitthvað um það hvað ábyrgð þýðir? Vitum við ekki líka öll eitthvað um það hvað samfélag þýðir? Hvers vegna er það eitthvað öðruvísi þegar við erum í þeirri stöðu að vera stjórnendur fyrirtækja?

Að yfirlögðu ráði er ekki tekist á við skilgreiningu hugtaksins „samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja“ að öðru leyti en því að gengið er út frá að hún sé sú sama hvort sem við á einstaklingur eða fyrirtæki. Að samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja snúi að því að leitast við að vera góður og ábyrgur borgari eins og við vissum einu sinni öll að við ættum að vera:

whereein the magazine´s editors thought that CSR, or the “social consciousness”, of managers meant that businessmen were responsible for the consequences of their actions in a sphere somewhat wider than that covered by their profit-and-loss statements (cited in Bowen, 1953, p. 44). Its is fascinating to note that 93.5% of the businessmen responding agreed with the statement. (Carroll, 1999, bls. 270)

Að mati Bowen, sem tilgreindur er í þessari grein sem faðir hugtaksins um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, var einmitt hugtakið engin töfralausn heldur innhélt einfaldlega það að breyta rétt.

Eins og Salvör bendir á í fræðigrein sinni virðist orsakanna um að við vitum ekki lengur hvað er rétt og rangt að leita í grein Miltons Friedman. Í greininni færir hann rök fyrir því að ábyrgð viðskiptalífsins varði hagnað fyrirtækja og sé takmörkuð við það eingöngu eða eins og nafn greinarinnar ber með sér „The Social Responsibility of Business Is to Increase Its Profits“. (Friedman, 1970 September 13th) Augljóst er að grein Friedmans hefur haft gríðarleg áhrif og nánast eins og hún hafi orðið fræ að nýjum trúarbrögðum. Trúarbrögðum viðskiptalífsins. Heimildamyndin Gasland lýsir þessum trúarbrögðum ágætlega. Þar er fjármagnið í forgrunni og engu skeytt um afleiðingarnar á samfélagið. Þar er samfélagi lýst þar sem stjórnendur fyrirtækjanna sem um er fjallað hugsa eingöngu um hagnað fyrirtækjanna og samfélagsleg ábyrgð er ekki til. (Fox, 2010) Bíómyndin Inside Job fjallar um sömu hugmyndafræði þó það sé gert með öðrum hætti. (Ferguson, 2010) Við Íslendingar þekkjum þessi trúarbrögð vel því myndin hérna efst í þessari ritgerð er myndræn lýsing á afleiðingum þessarar hugmyndafræði og í bíómyndinni Inside job er Ísland einmitt tekið sem dæmi í upphafi. Rannsóknarskýrsla Alþingis fjallar um afleiðingar þessarar hugmyndafræði í 8 bindum. (Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal, & Kristín Ástgeirsdóttir, 2010)

Því er þessi kafli hafður hér að það sé alveg skýrt að þörf er fyrir hjálp út úr þessum vandræðum. Íslenskt samfélag er lifandi sönnun þess að þessi hugmynd Milton Friedman um að samfélagsleg ábyrgð stjórnenda fyrirtækja sé einungis sú að auka hagnað þeirra stenst ekki. Það hlýtur að mega taka svo djúpt í árinni eftir þær afleiðingar sem þessi hugmynd hefur haft á okkur og við skynjum á hverjum degi hér á Íslandi þessa dagana, er það ekki augljóst? Hvað er þá til ráða?

Þá komum við loksins að því sem er viðfangsefni þessa verkefnis en það er að kanna hvort að það séu einhverjir þættir í stefnu og starfsemi Hins íslenska bókmenntafélags sem hægt er að hafa gagn af fyrir fyrirtæki sem vilja viðhafa samfélagslega ábyrgð á Íslandi? Hið íslenska bókmenntafélag hefur starfað óslitið frá árinu 1816 – er 200 ára á þessu ári. Ekkert annað félag getur státað af svo langri samfelldri sögu hér á landi. (Hið íslenska bókmenntafélag, 2016) Er eitthvað eitt atriði, einhvern vegvísi þar að finna sem getur hjálpað okkur í þeirri stöðu sem við erum? Leiðin sem farin verður að því er sú annars vegar að rýna í sögu félagsins eins og kostur er og hins vegar að leita fanga í útgáfu þess – lærdómsritunum – með það að markmiði að finna leiðsögn um hvernig megi nálgast þetta hugtak. Hér er einungis um að ræða stutta ritgerð og því er nálgun að viðfangsefninu eðli málsins samkvæmt yfirborðskennd. Einungis er leitað að vegvísi – einhverju atriði eða atriðum úr sögu félagsins eða lærdómsritum sem má álykta að geti hjálpað stjórnendum fyrirtækja á Íslandi upp úr því fari sem þeir virðast vera fastir í.

Áður en við skoðum viðfangsefnið Hið íslenska bókmenntafélag eru hér nokkur aðfararorð, sótt í Páli Skúlason heimspeking. Páli Skúlasyni hefur verið þetta viðfangsefni sem hér er fjallað um hugleikið. Þ.e. hann hefur verið ófeiminn við að láta í ljós þá skoðun að hann telji markaðshyggju og ofurvald peningaafla ógna mannlegri skynsemi. Í formála bókarinnar Ríkið og rökvísi stjórnmála spyr hann þeirrar spurningar „Hvernig getum við myndað heilsteypt og gott samfélag?“ (Páll Skúlason, 2013, bls. 9) Hann gengur út frá þeirri grunnhugmynd að við séum öll hugsandi skynsemisverur og leitumst við að finna, þekkja og gera það sem er sannast og réttast. Hann fullyrðir í lok formála sömu bókar að við, almenningur í íslensku samfélagi, höfum ekki enn öðlast þann skilning á okkur sjálfum sem okkur er lífsnauðsynlegur til að lifa farsællega. „Og því mun aldrei takast það ef það leggur sig ekki fram um að skilja tilgang og eðli stjórnmála heldur lætur valdamikla gaspara slá ryki í augu sín.“ (Páll Skúlason, 2013, bls. 10)

Páll er sannfærður um það að heimspeki og heimspekileg hugsun sé það sem okkur Íslendinga skorti til að menning okkar og þjóðlíf geti dafnað. Í fyrsta lagi séu það ákveðin lífsvandamál sem heimspekin ein geti hjálpað okkur að takast á við, í öðru lagi séu það verkfæri heimspekinnar – hugtökin sem eiga að hjálpa okkur að ná taki á heiminum og í þriðja lagi hjálpar heimspekin okkur að nálgast viðfangsefni út frá okkur sjálfum persónulega:

Heimspekin vill smíða heilsteypta, sjálfri sér samkvæma heimsmynd eða heimsskoðun sem getur nýst okkur til að átta okkur á heiminum öllum og á samhengi allra hluta í heiminum. Þetta verkefni valdi hún sér í upphafi og þessu verkefni hefur hún sinnt með góðum árangri í gegnum aldirnar hvar sem henni hefur gefist tækifæri til, það er að segja þar sem menn hafa skapað sér skilyrði til að iðka hana og gefið henni svirúm til að vaxa og dafna” (Páll Skúlason, Hugsunin stjórnar heiminum, 2014)

Hann nefnir af handahófi:

…greinarmun þekkingar og skoðunar, vísinda og trúar, rökræðu og kappræðu, forms og efnis, eðlis og eiginleika, veru og neindar, röksanninda og reynslusanninda, orsakar og afleiðingar, að ógleymdu sjálfu skynsemishugtakinu sem Aristóteles notaði fyrstur manna til að skilgreina eðli þeirrar veru sem við sjálf erum og setti þar með mark og mið í lífinu. Þetta trúlega ein mikilvægasta markmiðssetning sögunnar! Við eigum að vera skynsöm og haga okkur skynsamlega – og þessu fylgir meðal annars að við eigum að vera sjálfum okkur samkvæm, hafa samræmi milli orða og gerða, fella ekki dóma að óathuguðu máli, huga að forsendum skoðana okkar, hlusta á rök annarra, spyrja hvort mælikvarðarnir á hið sanna og rétta séu öruggir eða hvort hugsanlegt sé að okkur skjátlist hrapallega. Skynsemisvera beitir hugtökum til að höndla viðfangsefni sín og verkefni, hún yfirvegar það sem hún segir og gerir, hún lætur ekki taumlausar ástríður teyma sig á villigötur, hún sættir sig ekki við ofbeldið sem hún uppgötvar í heiminum heldur kallar til samstöðu í baráttunni gegn öllu böli, öllu því sem eyðileggur lífsskilyrði okkar. Heimspekin vill kenna okkur að vera skynsemisverur. Og kennsluaðferðin er að glíma við hugtökin sem við þurfum til að geta hugsað heilar og skapandi hugsanir um heiminn og okkar eigin veruleika. (Páll Skúlason, Hugsunin stjórnar heiminum, 2014, bls. 23-24)

Hér er kominn grundvöllur að leitinni að leiðarljósi í sögu og lærdómsritum Hins íslenska bókmenntafélags. Gengið er út frá því að maðurinn sé skynsemisvera og hafi vilja til að haga sér skynsamlega. Á grundvelli rannsóknarskýrslu Alþingis er óhætt að segja að við Íslendingar höfum ekki hagað okkur skynsamlega og eins og grein Salvarar bendir á hefur sú hegðan byggt á hugmynd Milton Friedman um að stjórnendur beri enga ábyrgð aðra en ávaxta fé hluthafanna. Við lifum afleiðingar þeirrar villu á hverjum degi á Íslandi og óhætt að fullyrða að sú hugmynd er ekki skynsamleg. Er einhvern vegvísi að skynsemi að finna í 200 ára sögu og Hins íslenska bókmenntafélags og lærdómsritum þess?

Skynsemi er raunar það fyrsta sem verður á vegi manns þegar rýnt er í sögu Hins íslenska bókmenntafélags. Félagið er stofnað í þeim tilgangi að vera til gagns fyrir íslenskt samfélag. Það hefur haft miklu hlutverki að gegna í þróun þess allt frá stofnun og má taka undir með Sigurði Líndal þar sem hann spyr þeirrar spurningar hvort félagið hafi ekki í raun lagt grundvöllinn að sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Með stofnun félagsins hafi „…sjálfsvitund þjóðarinnar verið skerpt og sjálfstraust aukið og hún þannig búin undir boðskap um að taka stjórn eigin málefna.“ (Sigurður Líndal, 1991)

Jón Sigurðsson hefur eftir stofnanda félagsins, Rasmus Christian Rask, í riti sem gefið er út um stofnan og athafnir félagsins fyrstu fimmtíu árin:

Eg læri ekki íslenzku til að nema af henni stjórnfræði eða hermennsku, eða þesskonar, en eg læri hana til þess að geta h u g s a ð e i n s o g m a ð u r, til þess að útrýma þeim kotúngs og kúgunar anda, sem mér hefur verið innrættur frá blautu barnsbeini, til þess að stæla hug og sál svo að ég geti gengið í hættur óskelfdur, og að sál mín kjósi heldur að segja skilið við líkamann, en að breyta út af því eða afneita sem hún hefur fengið fulla sannfæring um að sé satt og rétt. (Jón Sigurðsson, 1867, bls. 15)

Rasmus Christian Rask lærði íslensku til þess að geta hugsað eins og maður. Það eitt og sér gæti verið ágætis vegvísir en það var fleira hjá upphafsmanni þessum sem vert er vekja athygli á. Grípum aftur niður í afmælisrit Jóns Sigurðssonar þar sem hann vitnar í Rask:

Þjóðinni hnignar e k k i, nema þið hver um sig látið henni hnigna, þið, sem eigið að vera samtaka að halda henni við og efla blómgun hennar; málinu hnignar heldur ekki, nema þér sjálfir látið því hnigna og ofurseljið það. (Jón Sigurðsson, 1867, bls. 17) Þar höfum við það. Íslensku þjóðinni hnignar ekki nema að við leyfum henni það. Við sem eigum að vera samtaka um að halda henni við og efla blómgun hennar.

Augljóst er af lestri Jóns Sigurðssonar um fyrstu fimmtíu árin í sögu félagsins að bæði stofnanda félagsins, Rasmusi Christan Rask, og honum sjálfum, Jóni Sigurðssyni sem var formaður stjórnar félagsins í Kaupmannahöfn frá 1851 til dauðadags 1879, fyrst og fremst umhugað um að vera íslenskri þjóð til gagns. Það var hugsjón þeirra beggja og það sem rak þá áfram. Fyrst til stofnunar félagsins og síðan til eflingar þess og viðhalds. (Björn M. Olsen, 1916, bls. 12-18) Grípum enn niður í Jón:

Lög félagsins sýna ljóslega, hverjar grundvallarreglur Rask og þeir félagar höfðu fyrir augum, bæði í sjálfri stjórn félagsins og í framkvæmdum þess. Það er auðráðið, að þeir hafa í hvorutveggja leitazt við að haga félaginu svo að það gæti verið sem nytsamlegast og sem þjóðlegast…” (Jón Sigurðsson, 1867, bls. 22)

Ásetningurinn var að efla menntun og þekkingu Íslendinga, bæði alþýðu og menntaða menn, verða þannig Íslendingum að gagni. „Þannig var þá stofnaður þessi fjelagskapur, sem nú hefur starfað í hundrað ár til eflingar þjóðlegu íslensku menntalífi.“ (Björn M. Olsen, 1916, bls. 11) Það má hugsa sér verri vegvísi en þann að taka forgöngumenn Hins íslenska bókmenntafélags hér til fyrirmyndar – verða íslenskri þjóð að gagni.

Jón Sigurðsson varð forseti Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags árið 1851. (Björn M. Olsen, 1916, bls. 23) Hugsjónaeldur hans um að verða íslenskri þjóð að gagni hefur aldeilis lifað með okkur þar sem þjóðhátíðardagur okkar er haldinn hátíðlegur ár hvert á afmælisdegi hans. Forsetatitilinn ber Jón sem forseti Hins íslenska bókmenntafélags en forseti Íslands var hann aldrei, enda Ísland ekki lýðveldi í hans tíð. Jón lést í Kaupmannahöfn í desember árið 1879, áratugum áður en Ísland fékk sjálfstæði.

Föstudaginn 30. Apríl 1880 lagðist póstskipið Fönix við festar í Reykjavík eftir tólf daga siglingu frá Kaupmannahöfn. Meðal þess sem skipið flutti yfir hafið voru líkkistur tveggja þjóðþekktra Íslendinga, Jóns Sigurðssonar forseta og konu hans, Ingibjargar Einarsdóttur. Jón hafði látist viku af desember árið áður og Ingibjörg aðeins nokkrum dögum síðar... Fyrir dyrum var sorgarhátið fremur en hefðbundin jarðarför, athöfn þar sem Jón Sigurðsson var upphafinn og minning hans notuð til að blása fólki í brjóst von um bjartari tíð. Þarna urðu til söguþræðir um minningu hans sem margir hafa síðan tekið þátt í að spinna, oft í þágu ýmissa þjóðþrifamála. (Páll Björnsson, 2011, bls. 7)

Hér er ekki ætlunin að rekja ævi Jóns Sigurðssonar en þar sem viðfangsefnið sem lagt er upp með er að leita að vegvísi fyrir Íslendinga sem virðast villtir í þoku á 21. öld verður að teljast nokkuð skondið og vel við hæfi að rekast þar á þennan mann, Jón Sigurðsson forseta. Í ljósi viðfangsefnisins ekki annað hægt taka upp orð hans sem Guðrún Nordal grefur upp í erindi um hann á aðalfundi Hins íslenska bókmenntafélags 27. nóvember 2010 „Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur“. Þessa fyrirsögn tekur Guðrún Nordal upp eftir honum í umfjöllun um hann í aðdraganda afmælisárs hans 2011. (Guðrún Nordal, 2011, bls. 71)

Árið 1937 var ákveðið af Hinu íslenska bókmenntafélagi að gefa út árlega safn smárita um ýmis fróðleg efni og gaf félagið út af þessu tilefni ævisögu Benjamins Franklín í þýðingu Jóns Sigurðssonar. (Ólöf Dagný Óskarsdóttir, 2011, bls. 92) Tryggvi Gunnarsson endurútgaf bókina hjá Hinu íslenzka þjóðvinafélagi árið 1910 og segir í formála:

Jón Sigurðsson þýddi söguna og ritaði formálann. Þar segir hann, að eftirtektavert sé að heyra frásagnir um menn, sem með frábærum dugnaði hafi komist áfram og gert þjóð sinni gagn, og hverja aðferð þeir hafi valið til slíks, hvað þeim hafi auðnast að framkvæma, og hver aðdragandi hafi verið að framkvæmd þeirra. (Franklin, 1910 ) Því er komið inn á þetta hér að Benjamin Franklin var jafnframt því að vera augljóslega fyrirmynd Jóns Sigurðssonar, þjóðhetju okkar Íslendinga, mikilsmetinn stjórnmálamaður og frelsishetja Bandaríkjanna. Einn þeirra sem fékk það verkefni að skrifa stjórnarskrá Bandaríkjanna. (Franklin, 1910 , bls. 94-95) Í formála Sigurðar Líndal að lærdómsritinu Mennt og máttur eftir Max Weber segir hann að Weber hafi öðrum fremur litið á Benjamín Franklín sem „fulltrúa auðhyggjunnar“ eða „anda fjármagnsskipulagsins“:

Innst inni felur auðhyggjan í sér, að fjáröflun er gerð að sjálfstæðu markmiði, sem siðferðileg skylda er að rækja: aflaðu fjár sem mest þú mátt, löglega og heiðarlega, en gættu jafnframt hófsemi. Tilgangurinn er ekki sá einn að fullnægja þörfum, hvað þá lífsnautnum, heldur sjálfstætt markmið, sem raunar ber vitni um þá dyggð, er kallast trúmennska í starfi og öðrum fremur einkennir siðfræði auðhyggjunnar. En hvað sem slíku líður, er þetta sjálfstætt markmið, sem ekki verður gefin nein skynsamleg skýring á. (Weber, 1996, bls. 21)

Sigurður segir jafnframt í sama formála:

Ekki ruddu lífsviðhorf auðhyggjunnar sér rúms í einu vetfangi, heldur urðu þau að vinna bug á marvíslegri mótstöðu. Þannig er enginn vafi á því að, hugmyndir Franlíns hefðu á miðöldum valdið almennri hneykslan. Siðspekingar hefðu fordæmt þær sem ágirnd auvirðilegustu tegundar, stórhættulega sálarheill manna. Jafnvel á þessari öld er líklegt, að flestir veigruðu sér við að boða peningahyggju af jafn opinskárri hreinskilni. En í Massachusetts, heimalandi Franklíns fékk boðskapur hans almennar undirtektur á 18 öld. Auðhyggjan hafði þannig sigrazt á því neikvæða viðhorfi til peninga, sem siðspekingar miðalda höfðu alið á og lengi gætti síðan. Í annan stað er þess að gæta, að peningahyggja eða gróðafýsn út af fyrir sig var ekkert nýmæli. Hún hafði fylgt mönnum frá örófi alda. Og lengstum hafa menn ekki verið vandir að meðulum við fjáröflunariðju sína. En gróðasjónarmið, sem við það eru miðuð, að einskis skuli svifizt, bera ekki vitni um eiginlega auðhyggju. Liggur til þess sú einfalda ástæða, að búskapur í anda hennar fær ekki staðizt, þar sem verkalýður er agalaus og enginn getur treyst öðrum í viðskiptum – að ekki sé minnzt á, að auðs sé aflað með ráni og gripdeildum. Slíkir eru einmitt viðskiptahættir í þjóðfélögum, þar sem borgaralegt fjármagnskerfi hefur ekki náð að þróast.”

Max Weber var hagfræðingur sem skrifaði um þjóðfélagsfræði og aðferðafræði var honum hugleikin. Hann hallaðist að þjóðernishyggju sem fólst í því að sérhver þjóð ætti að glæða með sér sjálfstraust og og skapa sér menningu við hæfi. „Ein helzta forsenda þess væri, að hún nyti frjálsræðis, en þekkti jafnframt takmörk sín.“ (Weber, 1996, bls. 13)

„Max Weber óskaði þess öðru fremur að verk sín yrðu grundvöllur umræðu.“ (Weber, 1996, bls. 19)

Niðurstöður

Farið var af stað með það verkefni að kanna hvort í 200 ára starfsemi og sögu Hins íslenska bókmenntafélags væri einhvern vegvísi að finna fyrir villtar sálir frjálshyggjunnar á Íslandi á fyrstu áratugum 21. aldar. Vegvísi fyrir þá sem enn lifa í þeirri trú að samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja sé utan við sviga í samfélagi manna. Ekki leikur vafi á því að þann vegvísi er að finna í sögu og starfsemi Hins íslenska bókmenntafélags. Saga félagsins og starfsemi í tvær aldir kemur höfundi fyrir sjónir sem einn samfelldur vegvísir. Sá vegvísir felst í anda frumkvöðlanna – þeim anda „að vera til gagns“.

Hér hefur engum tíma verið varið í að varpa ljósi á söguna eða einstaka atburði sem styðja þessa fullyrðingu heldur eingöngu dregin út þau efnisatriði sem pössuðu viðfangsefninu í svo stuttu verkefni. Saga félagsins og arfleifð þess fer ekki neitt – hún er þarna, aðgengileg fyrir hvern þann sem vill kynna sér hana. Lagt var upp með að leita í lærdómsritin í þessu verkefni en einungis er tæpt á einu slíku hér þar sem efniviður sögunnar var nægur til að svara spurningunni.

Stjórnendur fyrirtækja sem eru í vandræðum með hugtakið „samfélagslega ábyrgð“ gætu margt lært af því að kynna sér sögu félagsins, að ekki sé minnst á sögu og fyrirætlanir þjóðhetja þessara tveggja auðvaldssamfélaga, Íslands og Bandaríkjanna, Jóns Sigurðssonar og Benjamín Franklín. Kannski geta hugleiðingar Max Weber um aðferðafræði hjálpað hugmyndasmiðum viðskiptafræðinnar til að leiðrétta þá villu sem gerir það að verkum að við ráfum enn rammvillt í þokunni…


Heimildaskrá:

Björn M. Olsen. (1916). Hið íslenska bókmenntafjelag 1816-1916 Minningarrit
aldarafmælisins 15. ágúst 1916. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafjelag. Sótt 13. Apríl 2016, frá: https://archive.org/stream/hislenskab00bj#page/86/mode/2up
Carroll, A. B. (1999). Corporate Social Responsibility Evolution of a Definitional construct. Business & Society , 268-295. Ferguson, C. H. (Director). (2010).
Inside job [Motion Picture]. Fox, J. (Director). (2010). Gasland [Motion Picture].
Franklin, B. (1910 ). 1706-1790. Æfisaga Benjamíns Franklíns (Jón Sigurðsson þýddi) (2. útgáfa, fyrst gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi 1839 útg.). Reykjavík (ekki vitað hvenær var fyrst gefin út): Hið íslenzka þjóðvinafélag .
Friedman, M. (1970 September 13th). The Social Responsibility of Business is to Increase its profits. The New York Magazine.
Guðrún Nordal. (2011). Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur.
Jón Sigurðsson - Hugsjónir og stefnumál (bls. 71-80). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
Hagstofa Íslands. (2016). Sótt 13. apríl frá: Fjármunamyndun 1990-2015 Magnvísitala: http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Efnahagur/Efnahagur__thjodhagsreikningar__fjarmunamyndun_fjarmunaeign__fjarmunamyndun/THJ03105.px/chart/chartViewLine/?rxid=bbb6ce7c-166d-40da-92ba-438478d94d65
Hið íslenska bókmenntafélag. (2016). Sótt 13. apríl, 2016, frá: Um félagið: http://hib.is/um-felagid/ Jón Sigurðsson. (1867). Hið íslenzka bókmenntafélag - stofnan félagsins og athafnir um fyrstu fimmtíu árin 1816-1866. Kaupmannahöfn: Bianco Luno. Sótt 13. apríl frá: https://archive.org/stream/Hidislenzkabokme000208944v0JonReyk/Hidislenzkabokme000208944v0JonReyk_orig#page/n5/mode/2up
Ólöf Dagný Óskarsdóttir. (25. maí 2011). Frumkvöðlar og félagsmyndun. Sótt 13. apríl frá: Skemman.is: http://hdl.handle.net/1946/8733
Páll Björnsson. (2011). Jón forseti allur - Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar. Reykjavík: Sögufélag.
Páll Skúlason. (2013). Ríkið og rökvísi stjórnmála. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Páll Skúlason. (2014). Hugsunin stjórnar heiminum. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Salvör Nordal. (2010). Samfélagsleg ábyrgð í viðskiptalífinu. Í Kolbeinn Stefánsson, Elífðarvélin - Uppgjör við nýfrjálshyggjuna (bls. 93-111). Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Sigurður Líndal. (1991). Bókmenntafélagið 175 ára. Skírnir, 271-274.
Sigurthorsson, D. (2004). The Icelandic Banking Crisis: A Reason to Rethink CSR? Journal of Business Ethics.
Snjólfur Ólafsson., Brynhildur Davíðsdóttir og Lára Jóhannsdóttir. (2014). Samfélagsábyrgð íslenskra fyrirtækja. Reykjavík: Háskóli Íslands Viðskiptafræðideild.
Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal, & Kristín Ástgeirsdóttir. (2010). Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna og tengdir atburðir - Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna. Reykjavík: Rannsóknarnefnd Alþingis skv. lögum nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna og tengdra atburða.
Weber, M. með formála eftir Sigurð Líndal (1996). Mennt og máttur. (Helgi Skúli Kjartansson, Þýð.) Reykjavík: 1996.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...