þriðjudagur, 2. ágúst 2016

Hið fagra og hið góða

...gerði Guðni Jóhannesson, nýr forseti íslenska lýðveldisins, að umræðuefni í ræðu sinni gær. Hann sagði að við þyrftum að muna hið fagra og hið góða, og hann valdi lag sem sagði m.a. „lokaðu ekki sálina inni“.

Fékk gæsahúð og fór næstum því að gráta. Svo glöð – svo glöð að við séum komin með nýjan forseta sem ber okkur þessi skilaboð á fyrsta degi – betri skilaboð get ég ekki hugsað mér. Trúi því staðfastlega að við getum nú öll snúið okkur að því að verða heil aftur. Heil eftir sundrung síðustu áratuga.

Þennan morgunn mælist Hillary Clinton með gott forskot á Donald Trump. Skilaboð hennar eru í sömu átt og Guðna, „Sameinuð stöndum vér...“ sundruð föllum vér vitum við að kemur á eftir. Orð hennar hafa merkingu – merkingu sem við þekkjum svo vel. Skilaboð sem bera í sér kærleika í stað kröfu um hlýðni.

Tungumálið öðlast merkingu á ný með þessum tveimur manneskjum. Manneskjum sem eru þess vel meðvitaðar að þær eru manneskjur og ekkert annað. Manneskjur eins og við hin. Ófullkomnar og allskonar. Með ólíka sögu að baki, sögu tækifæra, áfalla, gleði og sorgar, sögu sem hefur gert okkur að þeim manneskjum sem við erum.

Kannski geta stjörnunar skýrt þennan viðsnúning sem ég upplifi að sé að rísa þessa dagana. Veit það ekki. Veit bara að það er gott að fá vonina aftur. Gott að fá tungumálið aftur. Gott að fá merkinguna aftur. Heilindi. Er orðið sem lýsir því sem ég hef saknað svo mjög og trúi að verði nú hafið aftur til vegs og virðingar.

Þeir skildu eftir handa okkur skilaboð fyrir 2.500 árum að „hið fagra og hið góða“ væri það eina sem skipti máli. Hef sannfærst um gildi og merkingu þeirra skilaboða. Held það skipti engu máli hverjir það voru sem komu þeim í orð. Hvort þeir hétu Sókrates eða Platon. Held að það sé grundvallarmisskilningur okkar að eyða púðri í að velta því fyrir okkur. Skilboðin ein hafa merkingu.

Hið fagra og hið góða er það eina sem skiptir máli í því verkefni að vera manneskja.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...