mánudagur, 1. ágúst 2016

Alger yfirráð?

„Mundu að glasið er hálffullt en ekki hálftómt sagði framkvæmdastjórinn þegar hann kvaddi mig fyrir 17 árum síðan, daginn sem þessi mynd var tekin.“ Undir niðri skynjaði ég reiðina – reiðina yfir því að ég hafði ekki orðið að vilja hans.  

Ég var uppfull af gleði þennan dag, ólýsanlegri gleði. Gleði yfir ástúðinni sem umvafði mig. Þakklætinu og væntumþykjunni sem streymdi frá hverju korti, hverri gjöf, hverri kveðju. Frá viðskiptavinum hér heima og samstarfsaðilum út um allan heim.  

Verður hugsað til þessara orða nú þegar þjáningin hefur fengið tilgang. Um leið og tilgangurinn varð ljós fauk þjáningin. Gleðin kom í staðinn.  

Þessi orð heyrast oft. Mundu að glasið er hálffullt en ekki hálftómt. Ein af mörgum klisjum Guðsins sem krefst skilyrðislausrar hlýðni. Tiltekinnar hegðunar. Hugsuninni er afneitað. Algjörlega. Hún er bannhelg. 

Okkur er bannað að líða illa. Harðbannað. Það er hluti stjórnunarinnar. Kjarni hennar. Þeim er útskúfað sem líður illa.  

Við eigum að vera jákvæð.
Megum ekki vera neikvæð. 

Við eigum að vera bjartsýn.
Megum ekki vera svartsýn. 

Eigum að vera til friðs.
Megum ekki vera til ófriðs. 

Við eigum að hlýða. 
Megum ekki vera óhlýðin. 

Okkur er umbunað fyrir hlýðni
Refsað fyrir óhlýðni 

„Strengjabrúður sem gera ekkert annað en bregðast við. Þetta er hinn raunverulegi sigur kerfisins“ ...segir Hanna Arendt um það sem gerðist í fangabúðunum í verki sínu um Alger yfirráð frá árinu 1951 í þýðingu Ólafar Emblu Eyjólfsdóttur í bókinni: Af ást til heimsins í ritstjórn Sigríðar Þorgeirsdóttur, bls. 191.

PS 

Biðst velvirðingar á því að birta þessa mynd í tíma og ótíma en hún er nauðsynleg. Nauðsynlegt hjálpargagn til að gera grein fyrir raunveruleikanum. Krefjast raunveruleikans.     


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...