Konurnar í Stepford eru alltaf jákvæðar. Vel til hafðar og
fallegar. Heimili þeirra eru fullkomin eins og þær sjálfar og allt er eins og
það á að vera... nema... þær eru ekki til.
Sjálf þeirra eru ekki til. Þær hafa enga skoðun. Engar
tilfinningar. Fullkomnar strengjabrúður. Konurnar í Stepford eru vélmenni.
Sá þessa bíómynd í Kvennó og hún hafði sterk áhrif á mig.
Sá hana aftur í nýrri gerðinni en áhrifin minni. Myndin hefur svo sótt á mig
ítrekað síðustu ár, og holdgerðist í bresku heimildamyndinni um Japan á RÚV á
dögunum.
Þar voru karlarnir búnir að „göfga“ (meining orðsins hér
komin frá Nietszhe en síðar notuð í sem undirstaða í kenningum Freuds)
kynhvötina svo mjög að það dugði þeim vel að eiga kærustur í símanum. Þær
kærustur voru alveg eins og þeir vildu hafa þær. Rifust aldrei við þá, andmæltu
þeim aldrei, voru í alla staði fullkomnar. Ekki var hægt að greina neinn söknuð
eftir því að kynhvötinni væri svalað í raunheimi. Sýndarveruleikinn
fullkomnaður.
Áhrifin augljós. Japönum fækkar. Kynslóðirnar sem hafa
„göfgað“ sig svo mjög að þær lifa góðu lífi fram undir og yfir 100 ára aldur,
endurnýjun langt því frá að viðhalda stofnstærð. Lýsir sér í því að margir
hinna yngri kjósa að eignast ekki börn. Eðlileg afleiðing þess að karlarnir eru
orðnir náttúrulausir og alsælir með sín vélmenni.
Konurnar eru ekki alls kostar ánægðar með þetta að heyra,
þeirra kynhvöt virðist lifa, en ekki tilbúnar að fórna sjálfi sínu og gerast
strengjabrúður og þar stendur hnífurinn í kúnni.
Í þessu samfélagi mátti greina dugnað sem helsta
drifkraftinn. Dugnaðurinn hafði leitt það að af sér að karlarnir komu manni
fyrir sjónir sem fullkomnar strengjabrúður. Strengjabrúður samfélagsins.
Fullkomlega sjálfhverfir – alsælir með sjálfum sér og símanum sínum. Það
glittaði í eitthvað líf í sjálfi kvennanna. Það var eitthvað líf eftir
þar.
Er þetta fyrirmyndin? Það eina sem eftir er að holdgera
kærustuna í símanum í gervi kvenlíkama sem hagar sér í kynlífi eins og þær gera
í síðari gerð Stepford Wives? Þar stynja þær reglulega og hrópa upp
hvatningaryrði til karlsins um hvað hann sé stórkostlegur.
Hvað köllum við þessa þróun? Viljum við að hún raungerist
og fari víðar en til Japan? Á fyrir körlum í Bandaríkjunum og á Íslandi að
fullnægja kynhvötinni með vélmennum? Hvað með konurnar? Eiga þær eftir að týna
sjálfi sínu til fulls í sýndarveruleikanum? Á fyrir okkur að liggja að verða
fullkomnar strengjabrúður? Eins og konurnar í Stepford Wives? Jákvæðar. Vel til
hafðar, með fullkomin heimili, sálarlausar?
Horfi á samfélagið mitt sem á mörgum sviðum nálgast
samfélag frummanna sem Freud gerir grein fyrir í ritgerð sinni um Tótem og
tabú. Ritgerðin sú skýrir margt sem ég skildi ekki áður svo sem eins og
djúpstæðan ótta kvenna gagnvart körlum, djúpstæða þörf okkar allra fyrir sterka
föðurímynd, og nú nýjustu birtingarmyndina - grófa árásargirni ungra karla
gagnvart konum í stjórnunarhlutverki.
Allt þetta og miklu meira til er að finna í skrifum Sigmund
Freud. Það er ekki nema von að manninum sé hafnað. Ekki við öðru að búast í
landi sem hefur gert Viðskiptafræðina að Guði sínum. Viðskiptafræðina sem á sér
skýra fyrirmynd í Tótemguðinum og er dýrkaður sem slíkur á Íslandi og í
Bandaríkjunum og víðar. Breski
heimildaþátturinn frá Japan lýsir vel hvert stefnir. Ætlum við þangað? Til
Stepford?
Hvort ætli áherslan sé á hegðunina eða hugsunina í
Stepford?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli