Við lifum umbrotatíma. Í það minnsta er óhætt að segja að ef við hefðum séð þann atburð fyrir er ólíklegt að við hefðum kosið yfir okkur hrun fjármálakerfisins í þeirri mynd sem það birtist. Þegar hafist er handa við skrif þessarar ritgerðar standa yfir sögulegir dagar í stjórnmálunum á Íslandi. Á þessari stundu vitum við ekkert hvert þeir munu leiða okkur. Þessir tímar eru grundvöllurinn að viðfangsefni þessarar ritgerðar. Rannsóknarspurningin er: Hið íslenska bókmenntafélag – vegvísir að skilningi á hugtakinu „samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja“?
(Hagstofa Íslands, 2016)
Það sem birtist á þessari mynd liggur til grundvallar. Það sem hún sýnir, bæði uppsveiflan og niðursveiflan, hafði gríðarleg áhrif á líf okkar á Íslandi og hefur enn, sbr. fjölmenn mótmæli, afsögn forsætisráðherra og nýja ríkisstjórn í síðustu viku. Samfélagið okkar er ekki samt eftir og því kviknaði hugmyndin að leita í smiðju sögunnar að einhverju sem gæti hjálpað okkur í þeirri stöðu sem við erum.
Í hvaða stöðu erum við þar sem hjálpar er þörf? Við virðumst hafa tapað áttum og „ráfum enn í þokunni” eins og ágætur félagi orðaði það í vikunni. Undirliggjandi virðist sú hugmynd hafa skotið rótum að við vitum ekki lengur hvað hugtakið „samfélagsleg ábyrgð” þýðir. Þ.e.a.s., við höfum slitið fyrirtæki úr samhengi við samfélagið sem þau starfa í og gefið þeim undir fótinn að þau geti starfað í einhverju allt öðru samhengi í samfélaginu en við einstaklingarnir.
Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands gerir grein fyrir þessu í fræðigrein í bókinni Eilífðarvélin – Uppgjör við nýfrjálshyggjuna. Þar segir hún m.a.: „Talað hefur verið um alræði viðskiptalífsins, siðrof eða græðgisvæðingu svo dæmi séu nefnd.“ (Salvör Nordal, 2010, bls. 93) Hún færir rök fyrir því að áhrifavaldurinn að þessari hugmynd sé án efa bandaríski hagfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Milton Friedman og segir að grein Friedmans sé nánast skyldulesning hverjum þeim sem vill kynna sér umræðu um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. (Salvör Nordal, 2010, bls. 95)
Taka verður undir þessi orð Salvarar því grein Milton Friedman sem vísað er til virðist hafa haft víðtæk áhrif á umhverfi viðskiptalífsins á Íslandi í það minnsta. Svo mikil áhrif að hún er að því er virðist enn eftir hrunið í fullu gildi. Þannig urðu tvær nýlegar íslenskar vísindagreinar um þetta hugtak „samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja“ til þess að búa þetta verkefni til. Annars vegar skýrsla Viðskiptastofnunar Háskóla Íslands frá 2014 þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum könnunar á meðal íslenskra fyrirtækja sem öll hafa þetta hugtak í stefnu sinni (Snjólfur , Brynhildur, & Lára, 2014) og hins vegar grein Davíðs Sigurþórssonar þar sem hann setur fram tilgátu um hvort ástæða sé til að horfa á hugtakið fremur út frá því hvernig hagnaður fyrirtækjanna er búinn til en hvernig þau deila honum út. (Sigurthorsson, 2012)
Nálgunin sem þessar tvær fræðigreinar lýsa kveikti hugmyndina að þessu verkefni. Leitað er lausna á því eftir hugmyndum viðskiptafræðinnar hver „samfélagsleg ábyrgð“ fyrirtækjanna sé og gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut að samfélagsleg ábyrgð sé einangrað fyrirbæri sem hægt sé að mæla. Þannig eru hindranir samfélagsábyrgðar taldar upp sem
„kostnaður, tími... tæknileg atriði sem tengjast útfærslu...“
„Í litlu fyrirtæki er það einkum tími til að vinna skipulega með samfélagsábyrgð..“ „Tímaskortur, flest verkefni sem snerta samfélagsábyrgð eru til langs tíma og víkja fyrir skammtímaverkefnum...“
„erfiðara fyrir minni fyrirtæki sem eru að vaxa að setja pening í svona verkefni“. „Hindranir sem tengjast tæknilegum atriðum sem fyrirtækin minntust á voru t.d. áskoranir við innleiðingu mælikvarða á árangur, forgangsröðun sem og eftirfylgni og viðhaldi á árangri. (Snjólfur , Brynhildur, & Lára, 2014) Það leynir sér ekkert á lestri þessarar könnunar að svarendur líta á „samfélagslega ábyrgð“ sem sérstakt verkefni. Verkefni utan við það verkefni sem þau annars eru að sinna í fyrirtækinu. Verkefni sem þarf auk þess að vera hægt að mæla árangur í. Þau viðhorf sem lesa má út úr skýrslu Snjólfs, Brynhildar og Láru (2014) annars vegar og Davíðs (2012) hins vegar – þar sem ekkert fer á milli mála að leitað er að ákveðinni lausn á því hvernig skilja má þetta hugtak „samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja“ varð ásamt hruninu og afleiðingum þess kveikjan að þessari ritgerð. Hvaðan er sú hugmynd komin að hægt sé að búa til uppskrift að því hvernig skuli skilja hugtakið „samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja“? Er „samfélagsleg ábyrgð“ eitthvað eitt? Eða tvennt? Eða þrennt? Eitthvað mælanlegt? Vitum við ekki öll eitthvað um það hvað ábyrgð þýðir? Vitum við ekki líka öll eitthvað um það hvað samfélag þýðir? Hvers vegna er það eitthvað öðruvísi þegar við erum í þeirri stöðu að vera stjórnendur fyrirtækja?
Að yfirlögðu ráði er ekki tekist á við skilgreiningu hugtaksins „samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja“ að öðru leyti en því að gengið er út frá að hún sé sú sama hvort sem við á einstaklingur eða fyrirtæki. Að samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja snúi að því að leitast við að vera góður og ábyrgur borgari eins og við vissum einu sinni öll að við ættum að vera:
whereein the magazine´s editors thought that CSR, or the “social consciousness”, of managers meant that businessmen were responsible for the consequences of their actions in a sphere somewhat wider than that covered by their profit-and-loss statements (cited in Bowen, 1953, p. 44). Its is fascinating to note that 93.5% of the businessmen responding agreed with the statement. (Carroll, 1999, bls. 270)
Að mati Bowen, sem tilgreindur er í þessari grein sem faðir hugtaksins um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, var einmitt hugtakið engin töfralausn heldur innhélt einfaldlega það að breyta rétt.
Eins og Salvör bendir á í fræðigrein sinni virðist orsakanna um að við vitum ekki lengur hvað er rétt og rangt að leita í grein Miltons Friedman. Í greininni færir hann rök fyrir því að ábyrgð viðskiptalífsins varði hagnað fyrirtækja og sé takmörkuð við það eingöngu eða eins og nafn greinarinnar ber með sér „The Social Responsibility of Business Is to Increase Its Profits“. (Friedman, 1970 September 13th) Augljóst er að grein Friedmans hefur haft gríðarleg áhrif og nánast eins og hún hafi orðið fræ að nýjum trúarbrögðum. Trúarbrögðum viðskiptalífsins. Heimildamyndin Gasland lýsir þessum trúarbrögðum ágætlega. Þar er fjármagnið í forgrunni og engu skeytt um afleiðingarnar á samfélagið. Þar er samfélagi lýst þar sem stjórnendur fyrirtækjanna sem um er fjallað hugsa eingöngu um hagnað fyrirtækjanna og samfélagsleg ábyrgð er ekki til. (Fox, 2010) Bíómyndin Inside Job fjallar um sömu hugmyndafræði þó það sé gert með öðrum hætti. (Ferguson, 2010) Við Íslendingar þekkjum þessi trúarbrögð vel því myndin hérna efst í þessari ritgerð er myndræn lýsing á afleiðingum þessarar hugmyndafræði og í bíómyndinni Inside job er Ísland einmitt tekið sem dæmi í upphafi. Rannsóknarskýrsla Alþingis fjallar um afleiðingar þessarar hugmyndafræði í 8 bindum. (Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal, & Kristín Ástgeirsdóttir, 2010)
Því er þessi kafli hafður hér að það sé alveg skýrt að þörf er fyrir hjálp út úr þessum vandræðum. Íslenskt samfélag er lifandi sönnun þess að þessi hugmynd Milton Friedman um að samfélagsleg ábyrgð stjórnenda fyrirtækja sé einungis sú að auka hagnað þeirra stenst ekki. Það hlýtur að mega taka svo djúpt í árinni eftir þær afleiðingar sem þessi hugmynd hefur haft á okkur og við skynjum á hverjum degi hér á Íslandi þessa dagana, er það ekki augljóst? Hvað er þá til ráða?
Þá komum við loksins að því sem er viðfangsefni þessa verkefnis en það er að kanna hvort að það séu einhverjir þættir í stefnu og starfsemi Hins íslenska bókmenntafélags sem hægt er að hafa gagn af fyrir fyrirtæki sem vilja viðhafa samfélagslega ábyrgð á Íslandi? Hið íslenska bókmenntafélag hefur starfað óslitið frá árinu 1816 – er 200 ára á þessu ári. Ekkert annað félag getur státað af svo langri samfelldri sögu hér á landi. (Hið íslenska bókmenntafélag, 2016) Er eitthvað eitt atriði, einhvern vegvísi þar að finna sem getur hjálpað okkur í þeirri stöðu sem við erum? Leiðin sem farin verður að því er sú annars vegar að rýna í sögu félagsins eins og kostur er og hins vegar að leita fanga í útgáfu þess – lærdómsritunum – með það að markmiði að finna leiðsögn um hvernig megi nálgast þetta hugtak. Hér er einungis um að ræða stutta ritgerð og því er nálgun að viðfangsefninu eðli málsins samkvæmt yfirborðskennd. Einungis er leitað að vegvísi – einhverju atriði eða atriðum úr sögu félagsins eða lærdómsritum sem má álykta að geti hjálpað stjórnendum fyrirtækja á Íslandi upp úr því fari sem þeir virðast vera fastir í.
Áður en við skoðum viðfangsefnið Hið íslenska bókmenntafélag eru hér nokkur aðfararorð, sótt í Páli Skúlason heimspeking. Páli Skúlasyni hefur verið þetta viðfangsefni sem hér er fjallað um hugleikið. Þ.e. hann hefur verið ófeiminn við að láta í ljós þá skoðun að hann telji markaðshyggju og ofurvald peningaafla ógna mannlegri skynsemi. Í formála bókarinnar Ríkið og rökvísi stjórnmála spyr hann þeirrar spurningar „Hvernig getum við myndað heilsteypt og gott samfélag?“ (Páll Skúlason, 2013, bls. 9) Hann gengur út frá þeirri grunnhugmynd að við séum öll hugsandi skynsemisverur og leitumst við að finna, þekkja og gera það sem er sannast og réttast. Hann fullyrðir í lok formála sömu bókar að við, almenningur í íslensku samfélagi, höfum ekki enn öðlast þann skilning á okkur sjálfum sem okkur er lífsnauðsynlegur til að lifa farsællega. „Og því mun aldrei takast það ef það leggur sig ekki fram um að skilja tilgang og eðli stjórnmála heldur lætur valdamikla gaspara slá ryki í augu sín.“ (Páll Skúlason, 2013, bls. 10)
Páll er sannfærður um það að heimspeki og heimspekileg hugsun sé það sem okkur Íslendinga skorti til að menning okkar og þjóðlíf geti dafnað. Í fyrsta lagi séu það ákveðin lífsvandamál sem heimspekin ein geti hjálpað okkur að takast á við, í öðru lagi séu það verkfæri heimspekinnar – hugtökin sem eiga að hjálpa okkur að ná taki á heiminum og í þriðja lagi hjálpar heimspekin okkur að nálgast viðfangsefni út frá okkur sjálfum persónulega:
Heimspekin vill smíða heilsteypta, sjálfri sér samkvæma heimsmynd eða heimsskoðun sem getur nýst okkur til að átta okkur á heiminum öllum og á samhengi allra hluta í heiminum. Þetta verkefni valdi hún sér í upphafi og þessu verkefni hefur hún sinnt með góðum árangri í gegnum aldirnar hvar sem henni hefur gefist tækifæri til, það er að segja þar sem menn hafa skapað sér skilyrði til að iðka hana og gefið henni svirúm til að vaxa og dafna” (Páll Skúlason, Hugsunin stjórnar heiminum, 2014)
Hann nefnir af handahófi:
…greinarmun þekkingar og skoðunar, vísinda og trúar, rökræðu og kappræðu, forms og efnis, eðlis og eiginleika, veru og neindar, röksanninda og reynslusanninda, orsakar og afleiðingar, að ógleymdu sjálfu skynsemishugtakinu sem Aristóteles notaði fyrstur manna til að skilgreina eðli þeirrar veru sem við sjálf erum og setti þar með mark og mið í lífinu. Þetta trúlega ein mikilvægasta markmiðssetning sögunnar! Við eigum að vera skynsöm og haga okkur skynsamlega – og þessu fylgir meðal annars að við eigum að vera sjálfum okkur samkvæm, hafa samræmi milli orða og gerða, fella ekki dóma að óathuguðu máli, huga að forsendum skoðana okkar, hlusta á rök annarra, spyrja hvort mælikvarðarnir á hið sanna og rétta séu öruggir eða hvort hugsanlegt sé að okkur skjátlist hrapallega. Skynsemisvera beitir hugtökum til að höndla viðfangsefni sín og verkefni, hún yfirvegar það sem hún segir og gerir, hún lætur ekki taumlausar ástríður teyma sig á villigötur, hún sættir sig ekki við ofbeldið sem hún uppgötvar í heiminum heldur kallar til samstöðu í baráttunni gegn öllu böli, öllu því sem eyðileggur lífsskilyrði okkar. Heimspekin vill kenna okkur að vera skynsemisverur. Og kennsluaðferðin er að glíma við hugtökin sem við þurfum til að geta hugsað heilar og skapandi hugsanir um heiminn og okkar eigin veruleika. (Páll Skúlason, Hugsunin stjórnar heiminum, 2014, bls. 23-24)
Hér er kominn grundvöllur að leitinni að leiðarljósi í sögu og lærdómsritum Hins íslenska bókmenntafélags. Gengið er út frá því að maðurinn sé skynsemisvera og hafi vilja til að haga sér skynsamlega. Á grundvelli rannsóknarskýrslu Alþingis er óhætt að segja að við Íslendingar höfum ekki hagað okkur skynsamlega og eins og grein Salvarar bendir á hefur sú hegðan byggt á hugmynd Milton Friedman um að stjórnendur beri enga ábyrgð aðra en ávaxta fé hluthafanna. Við lifum afleiðingar þeirrar villu á hverjum degi á Íslandi og óhætt að fullyrða að sú hugmynd er ekki skynsamleg. Er einhvern vegvísi að skynsemi að finna í 200 ára sögu og Hins íslenska bókmenntafélags og lærdómsritum þess?
Skynsemi er raunar það fyrsta sem verður á vegi manns þegar rýnt er í sögu Hins íslenska bókmenntafélags. Félagið er stofnað í þeim tilgangi að vera til gagns fyrir íslenskt samfélag. Það hefur haft miklu hlutverki að gegna í þróun þess allt frá stofnun og má taka undir með Sigurði Líndal þar sem hann spyr þeirrar spurningar hvort félagið hafi ekki í raun lagt grundvöllinn að sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Með stofnun félagsins hafi „…sjálfsvitund þjóðarinnar verið skerpt og sjálfstraust aukið og hún þannig búin undir boðskap um að taka stjórn eigin málefna.“ (Sigurður Líndal, 1991)
Jón Sigurðsson hefur eftir stofnanda félagsins, Rasmus Christian Rask, í riti sem gefið er út um stofnan og athafnir félagsins fyrstu fimmtíu árin:
Eg læri ekki íslenzku til að nema af henni stjórnfræði eða hermennsku, eða þesskonar, en eg læri hana til þess að geta h u g s a ð e i n s o g m a ð u r, til þess að útrýma þeim kotúngs og kúgunar anda, sem mér hefur verið innrættur frá blautu barnsbeini, til þess að stæla hug og sál svo að ég geti gengið í hættur óskelfdur, og að sál mín kjósi heldur að segja skilið við líkamann, en að breyta út af því eða afneita sem hún hefur fengið fulla sannfæring um að sé satt og rétt. (Jón Sigurðsson, 1867, bls. 15)
Rasmus Christian Rask lærði íslensku til þess að geta hugsað eins og maður. Það eitt og sér gæti verið ágætis vegvísir en það var fleira hjá upphafsmanni þessum sem vert er vekja athygli á. Grípum aftur niður í afmælisrit Jóns Sigurðssonar þar sem hann vitnar í Rask:
Þjóðinni hnignar e k k i, nema þið hver um sig látið henni hnigna, þið, sem eigið að vera samtaka að halda henni við og efla blómgun hennar; málinu hnignar heldur ekki, nema þér sjálfir látið því hnigna og ofurseljið það. (Jón Sigurðsson, 1867, bls. 17) Þar höfum við það. Íslensku þjóðinni hnignar ekki nema að við leyfum henni það. Við sem eigum að vera samtaka um að halda henni við og efla blómgun hennar.
Augljóst er af lestri Jóns Sigurðssonar um fyrstu fimmtíu árin í sögu félagsins að bæði stofnanda félagsins, Rasmusi Christan Rask, og honum sjálfum, Jóni Sigurðssyni sem var formaður stjórnar félagsins í Kaupmannahöfn frá 1851 til dauðadags 1879, fyrst og fremst umhugað um að vera íslenskri þjóð til gagns. Það var hugsjón þeirra beggja og það sem rak þá áfram. Fyrst til stofnunar félagsins og síðan til eflingar þess og viðhalds. (Björn M. Olsen, 1916, bls. 12-18) Grípum enn niður í Jón:
Lög félagsins sýna ljóslega, hverjar grundvallarreglur Rask og þeir félagar höfðu fyrir augum, bæði í sjálfri stjórn félagsins og í framkvæmdum þess. Það er auðráðið, að þeir hafa í hvorutveggja leitazt við að haga félaginu svo að það gæti verið sem nytsamlegast og sem þjóðlegast…” (Jón Sigurðsson, 1867, bls. 22)
Ásetningurinn var að efla menntun og þekkingu Íslendinga, bæði alþýðu og menntaða menn, verða þannig Íslendingum að gagni. „Þannig var þá stofnaður þessi fjelagskapur, sem nú hefur starfað í hundrað ár til eflingar þjóðlegu íslensku menntalífi.“ (Björn M. Olsen, 1916, bls. 11) Það má hugsa sér verri vegvísi en þann að taka forgöngumenn Hins íslenska bókmenntafélags hér til fyrirmyndar – verða íslenskri þjóð að gagni.
Jón Sigurðsson varð forseti Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags árið 1851. (Björn M. Olsen, 1916, bls. 23) Hugsjónaeldur hans um að verða íslenskri þjóð að gagni hefur aldeilis lifað með okkur þar sem þjóðhátíðardagur okkar er haldinn hátíðlegur ár hvert á afmælisdegi hans. Forsetatitilinn ber Jón sem forseti Hins íslenska bókmenntafélags en forseti Íslands var hann aldrei, enda Ísland ekki lýðveldi í hans tíð. Jón lést í Kaupmannahöfn í desember árið 1879, áratugum áður en Ísland fékk sjálfstæði.
Föstudaginn 30. Apríl 1880 lagðist póstskipið Fönix við festar í Reykjavík eftir tólf daga siglingu frá Kaupmannahöfn. Meðal þess sem skipið flutti yfir hafið voru líkkistur tveggja þjóðþekktra Íslendinga, Jóns Sigurðssonar forseta og konu hans, Ingibjargar Einarsdóttur. Jón hafði látist viku af desember árið áður og Ingibjörg aðeins nokkrum dögum síðar... Fyrir dyrum var sorgarhátið fremur en hefðbundin jarðarför, athöfn þar sem Jón Sigurðsson var upphafinn og minning hans notuð til að blása fólki í brjóst von um bjartari tíð. Þarna urðu til söguþræðir um minningu hans sem margir hafa síðan tekið þátt í að spinna, oft í þágu ýmissa þjóðþrifamála. (Páll Björnsson, 2011, bls. 7)
Hér er ekki ætlunin að rekja ævi Jóns Sigurðssonar en þar sem viðfangsefnið sem lagt er upp með er að leita að vegvísi fyrir Íslendinga sem virðast villtir í þoku á 21. öld verður að teljast nokkuð skondið og vel við hæfi að rekast þar á þennan mann, Jón Sigurðsson forseta. Í ljósi viðfangsefnisins ekki annað hægt taka upp orð hans sem Guðrún Nordal grefur upp í erindi um hann á aðalfundi Hins íslenska bókmenntafélags 27. nóvember 2010 „Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur“. Þessa fyrirsögn tekur Guðrún Nordal upp eftir honum í umfjöllun um hann í aðdraganda afmælisárs hans 2011. (Guðrún Nordal, 2011, bls. 71)
Árið 1937 var ákveðið af Hinu íslenska bókmenntafélagi að gefa út árlega safn smárita um ýmis fróðleg efni og gaf félagið út af þessu tilefni ævisögu Benjamins Franklín í þýðingu Jóns Sigurðssonar. (Ólöf Dagný Óskarsdóttir, 2011, bls. 92) Tryggvi Gunnarsson endurútgaf bókina hjá Hinu íslenzka þjóðvinafélagi árið 1910 og segir í formála:
Jón Sigurðsson þýddi söguna og ritaði formálann. Þar segir hann, að eftirtektavert sé að heyra frásagnir um menn, sem með frábærum dugnaði hafi komist áfram og gert þjóð sinni gagn, og hverja aðferð þeir hafi valið til slíks, hvað þeim hafi auðnast að framkvæma, og hver aðdragandi hafi verið að framkvæmd þeirra. (Franklin, 1910 ) Því er komið inn á þetta hér að Benjamin Franklin var jafnframt því að vera augljóslega fyrirmynd Jóns Sigurðssonar, þjóðhetju okkar Íslendinga, mikilsmetinn stjórnmálamaður og frelsishetja Bandaríkjanna. Einn þeirra sem fékk það verkefni að skrifa stjórnarskrá Bandaríkjanna. (Franklin, 1910 , bls. 94-95) Í formála Sigurðar Líndal að lærdómsritinu Mennt og máttur eftir Max Weber segir hann að Weber hafi öðrum fremur litið á Benjamín Franklín sem „fulltrúa auðhyggjunnar“ eða „anda fjármagnsskipulagsins“:
Innst inni felur auðhyggjan í sér, að fjáröflun er gerð að sjálfstæðu markmiði, sem siðferðileg skylda er að rækja: aflaðu fjár sem mest þú mátt, löglega og heiðarlega, en gættu jafnframt hófsemi. Tilgangurinn er ekki sá einn að fullnægja þörfum, hvað þá lífsnautnum, heldur sjálfstætt markmið, sem raunar ber vitni um þá dyggð, er kallast trúmennska í starfi og öðrum fremur einkennir siðfræði auðhyggjunnar. En hvað sem slíku líður, er þetta sjálfstætt markmið, sem ekki verður gefin nein skynsamleg skýring á. (Weber, 1996, bls. 21)
Sigurður segir jafnframt í sama formála:
Ekki ruddu lífsviðhorf auðhyggjunnar sér rúms í einu vetfangi, heldur urðu þau að vinna bug á marvíslegri mótstöðu. Þannig er enginn vafi á því að, hugmyndir Franlíns hefðu á miðöldum valdið almennri hneykslan. Siðspekingar hefðu fordæmt þær sem ágirnd auvirðilegustu tegundar, stórhættulega sálarheill manna. Jafnvel á þessari öld er líklegt, að flestir veigruðu sér við að boða peningahyggju af jafn opinskárri hreinskilni. En í Massachusetts, heimalandi Franklíns fékk boðskapur hans almennar undirtektur á 18 öld. Auðhyggjan hafði þannig sigrazt á því neikvæða viðhorfi til peninga, sem siðspekingar miðalda höfðu alið á og lengi gætti síðan. Í annan stað er þess að gæta, að peningahyggja eða gróðafýsn út af fyrir sig var ekkert nýmæli. Hún hafði fylgt mönnum frá örófi alda. Og lengstum hafa menn ekki verið vandir að meðulum við fjáröflunariðju sína. En gróðasjónarmið, sem við það eru miðuð, að einskis skuli svifizt, bera ekki vitni um eiginlega auðhyggju. Liggur til þess sú einfalda ástæða, að búskapur í anda hennar fær ekki staðizt, þar sem verkalýður er agalaus og enginn getur treyst öðrum í viðskiptum – að ekki sé minnzt á, að auðs sé aflað með ráni og gripdeildum. Slíkir eru einmitt viðskiptahættir í þjóðfélögum, þar sem borgaralegt fjármagnskerfi hefur ekki náð að þróast.”
Max Weber var hagfræðingur sem skrifaði um þjóðfélagsfræði og aðferðafræði var honum hugleikin. Hann hallaðist að þjóðernishyggju sem fólst í því að sérhver þjóð ætti að glæða með sér sjálfstraust og og skapa sér menningu við hæfi. „Ein helzta forsenda þess væri, að hún nyti frjálsræðis, en þekkti jafnframt takmörk sín.“ (Weber, 1996, bls. 13)
„Max Weber óskaði þess öðru fremur að verk sín yrðu grundvöllur umræðu.“ (Weber, 1996, bls. 19)
Niðurstöður
Farið var af stað með það verkefni að kanna hvort í 200 ára starfsemi og sögu Hins íslenska bókmenntafélags væri einhvern vegvísi að finna fyrir villtar sálir frjálshyggjunnar á Íslandi á fyrstu áratugum 21. aldar. Vegvísi fyrir þá sem enn lifa í þeirri trú að samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja sé utan við sviga í samfélagi manna. Ekki leikur vafi á því að þann vegvísi er að finna í sögu og starfsemi Hins íslenska bókmenntafélags. Saga félagsins og starfsemi í tvær aldir kemur höfundi fyrir sjónir sem einn samfelldur vegvísir. Sá vegvísir felst í anda frumkvöðlanna – þeim anda „að vera til gagns“.
Hér hefur engum tíma verið varið í að varpa ljósi á söguna eða einstaka atburði sem styðja þessa fullyrðingu heldur eingöngu dregin út þau efnisatriði sem pössuðu viðfangsefninu í svo stuttu verkefni. Saga félagsins og arfleifð þess fer ekki neitt – hún er þarna, aðgengileg fyrir hvern þann sem vill kynna sér hana. Lagt var upp með að leita í lærdómsritin í þessu verkefni en einungis er tæpt á einu slíku hér þar sem efniviður sögunnar var nægur til að svara spurningunni.
Stjórnendur fyrirtækja sem eru í vandræðum með hugtakið „samfélagslega ábyrgð“ gætu margt lært af því að kynna sér sögu félagsins, að ekki sé minnst á sögu og fyrirætlanir þjóðhetja þessara tveggja auðvaldssamfélaga, Íslands og Bandaríkjanna, Jóns Sigurðssonar og Benjamín Franklín. Kannski geta hugleiðingar Max Weber um aðferðafræði hjálpað hugmyndasmiðum viðskiptafræðinnar til að leiðrétta þá villu sem gerir það að verkum að við ráfum enn rammvillt í þokunni…
Heimildaskrá:
Björn M. Olsen. (1916). Hið íslenska bókmenntafjelag 1816-1916 Minningarrit
aldarafmælisins 15. ágúst 1916. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafjelag. Sótt 13. Apríl 2016, frá: https://archive.org/stream/hislenskab00bj#page/86/mode/2up
Carroll, A. B. (1999). Corporate Social Responsibility Evolution of a Definitional construct. Business & Society , 268-295. Ferguson, C. H. (Director). (2010).
Inside job [Motion Picture]. Fox, J. (Director). (2010). Gasland [Motion Picture].
Franklin, B. (1910 ). 1706-1790. Æfisaga Benjamíns Franklíns (Jón Sigurðsson þýddi) (2. útgáfa, fyrst gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi 1839 útg.). Reykjavík (ekki vitað hvenær var fyrst gefin út): Hið íslenzka þjóðvinafélag .
Friedman, M. (1970 September 13th). The Social Responsibility of Business is to Increase its profits. The New York Magazine.
Guðrún Nordal. (2011). Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur.
Jón Sigurðsson - Hugsjónir og stefnumál (bls. 71-80). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
Hagstofa Íslands. (2016). Sótt 13. apríl frá: Fjármunamyndun 1990-2015 Magnvísitala: http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Efnahagur/Efnahagur__thjodhagsreikningar__fjarmunamyndun_fjarmunaeign__fjarmunamyndun/THJ03105.px/chart/chartViewLine/?rxid=bbb6ce7c-166d-40da-92ba-438478d94d65
Hið íslenska bókmenntafélag. (2016). Sótt 13. apríl, 2016, frá: Um félagið: http://hib.is/um-felagid/ Jón Sigurðsson. (1867). Hið íslenzka bókmenntafélag - stofnan félagsins og athafnir um fyrstu fimmtíu árin 1816-1866. Kaupmannahöfn: Bianco Luno. Sótt 13. apríl frá: https://archive.org/stream/Hidislenzkabokme000208944v0JonReyk/Hidislenzkabokme000208944v0JonReyk_orig#page/n5/mode/2up
Ólöf Dagný Óskarsdóttir. (25. maí 2011). Frumkvöðlar og félagsmyndun. Sótt 13. apríl frá: Skemman.is: http://hdl.handle.net/1946/8733
Páll Björnsson. (2011). Jón forseti allur - Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar. Reykjavík: Sögufélag.
Páll Skúlason. (2013). Ríkið og rökvísi stjórnmála. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Páll Skúlason. (2014). Hugsunin stjórnar heiminum. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Salvör Nordal. (2010). Samfélagsleg ábyrgð í viðskiptalífinu. Í Kolbeinn Stefánsson, Elífðarvélin - Uppgjör við nýfrjálshyggjuna (bls. 93-111). Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Sigurður Líndal. (1991). Bókmenntafélagið 175 ára. Skírnir, 271-274.
Sigurthorsson, D. (2004). The Icelandic Banking Crisis: A Reason to Rethink CSR? Journal of Business Ethics.
Snjólfur Ólafsson., Brynhildur Davíðsdóttir og Lára Jóhannsdóttir. (2014). Samfélagsábyrgð íslenskra fyrirtækja. Reykjavík: Háskóli Íslands Viðskiptafræðideild.
Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal, & Kristín Ástgeirsdóttir. (2010). Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna og tengdir atburðir - Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna. Reykjavík: Rannsóknarnefnd Alþingis skv. lögum nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna og tengdra atburða.
Weber, M. með formála eftir Sigurð Líndal (1996). Mennt og máttur. (Helgi Skúli Kjartansson, Þýð.) Reykjavík: 1996.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli