Forstjóri SanaFortis var með brostin augu í Lykke í gærkvöld. Tár rann niður hvarm. Skyldi líðan hans verða vísindalega sönnuð? Er það líklegt? Geta vísindin „mælt“ líðan manns?
Hef lesið nokkrar bækur í tengslum við nám mitt á Bifröst síðustu daga og vikur. Svo ólíklega eins og það kann að hljóma titla eins og: Leitin að tilgangi lífsins eftir Victor E. Frankl. Undir oki siðmenningar eftir Sigmund Freud auk fleiri ritgerða og fyrirlestra eftir hann. Hvað gengur fólki til? Leit sálgreiningar að skilningi eftir Sæunni Kjartansdóttur og loks bækur um heimspeki; Hugsunin stjórnar heiminum eftir Pál Skúlason, Síðustu daga Sókratesar eftir Platon og nú er ég með í höndunum Handan góðs og ills eftir Friedrich Nietzsche, áfram skal haldið á sömu braut.
Tilefnið og það sem kveikti í mér löngun til lesturs þessara bóka var lítið kver eftir Robert K. Greenleaf „The Servant as Leader“. Lestur þessa litla kvers leysti mig úr viðjum og kallaði fram styrk sem ég var annars búin að týna og gerði kröfu um að ég gerði meira, kafaði dýpra.
Persónulega er ég ekki í vafa að Páll Skúlason hefur rétt fyrir sér þegar hann spyr þeirrar spurningar í bók sinni Hugsunin stjórnar heiminum - hvort að heimspekin sé kannski alvaran sjálf, dauðans alvara? Fyrir mig er hún það - það hef ég upplifað á eigin skinni síðustu daga og vikur. Ég get ekki lifað án hennar.
Þessi yfirlýsing gerir kröfu um aðra játningu. Hef verið týnd og liðið illa lengi. Sú vanlíðan náði hámarki fyrir ári síðan þegar ég brotlenti svo kröftuglega að ég vissi ekki lengur hver ég var. Leið eins og sjálfið væri týnt og tröllum gefið. Treysti ekki sjálfri mér til að tala og alls ekki til að taka einfaldar ákvarðanir. Það var vond tilfinning og hún leiddi af sér margar aðrar vondar tilfinningar.
Það er vont að hafa vitund sem treystir engu sem þú gerir eða segir og er alltaf með svipuna á lofti í hvaða litlu og tilefnislausu aðstæðum sem er. En það var raunveruleikinn og við þá líðan hef ég verið að berjast núna í heilt ár.
Skyldi þessi líðan mín verða „vísindalega sönnuð“? Líðan mín fyrir ári þegar ég var 10 kg léttari og allir voru að tala um hvað ég liti vel út? Þegar sálin í líkamanum talaði til mín eins og versti harðstjóri allra tíma alla daga? Haldið þið að eitthvert mælitæki gæti sagt til um það hver líðan mín var þá? Hvað með núna? Núna þegar ég tek hverjum degi fagnandi og spegillinn segir mér að ég sé 10 kg þyngri en fyrir ári og enginn segir mér lengur að ég líti vel út?
Verður þessi breyting á líðan minni „vísindalega sönnuð“? Ég held ekki. Er sannfærð um ekki. Er þess fullviss að ekki nokkur einasti maður annarr en ég sjálf geti vitað með fullri vissu hvernig þessi breyting lýsir sér. Ég veit samt að hún er raunveruleg. Ég er til - þó að það verði ekki „vísindalega sannað“.
Las á dögunum að hugvísindum Sigmund Freud væri hafnað í Háskóla Íslands vegna þess að rannsóknir hans þyki ekki „vísindalegar“. Hef verið að lesa Freud síðustu daga og vikur og verð að segja að fátt hef ég lesið um dagana sem er „vísindalegra“ en skrif hans. Varfærni og auðmýkt eru orð sem koma upp í hugann. Aldrei fullyrðingar út í loftið. Ekki einu sinni þegar Hitler var kominn til valda og hann gerir tilraunir til að skýra hvaða mannlegu eiginleikar gætu legið að baki því sem þá var að gerast í Þýskalandi. Alltaf varfærinn og aldrei yfirlýsingaglaður. Gefur sig aldrei út fyrir að vera „með svörin“.
Hvað með forstjóra SanaFortis hér í upphafi. Hvort ætli sé líklegra að líðan hans yrði læknuð með pillu frá fyrirtæki hans eða einhver gæfi sér tíma til að hlusta á hann? (og hann sjálfur þyrði að horfast í augu við tilfinningar sínar og deila þeim með öðrum sem auðvitað er hluti málsins) Hvort ætli sé vænlegra til árangurs?
Gæti verið að Sigmund Freud sem í gegnum allan sinn feril spurði sig spurninga sé hollari hugsuður fyrir okkur nútímafólk en Frederick Winslow Taylor sem alltaf leitaði að hinu eina rétta svari?
Gæti verið að neistinn í augum okkar allra byggi á því að spyrja, spyrja og spyrja meira – það séu líkur á því hann slokkni ef við teljum okkur vera með svörin?
Er kannski leit okkar að hamingjunni falin í visku-ást öðru nafni heimspeki?
Er heimspekin kannski lífsgleðin sjálf?
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli