sunnudagur, 17. júlí 2016

Hvað er svona merkilegt við það?

...að vera karlmaður? Var spurt í dægurlagatexta fyrir ég man ekki hvað mörgum árum síðan. Í gærkvöld var sýnd í sjónvarpinu heimildamynd með þessu heiti – Hvað er svona merkilegt við það? Er höfundum myndarinnar einstaklega þakklát fyrir gerð hennar og kem þeim þökkum hér með á framfæri.

Saga kvennabaráttu á Íslandi síðustu áratugi er saga sem þarft er að segja. Saga sem þarft er að varpa ljósi á akkúrat núna. Það er sálinni hollt að minnast þess hversu stórkoslega sigra við íslenskar konur höfum unnið þó enn sé langt í land. Það er hollt að fylla hjartað af þakklæti í garð þeirra kvenna sem voru í forystu þessarar göngu. Var svo gott að fá að sjá þær margar í myndinni í gær. Nota þetta tækifæri til að þakka þeim. Þakka þeim fyrir forystuna, fyrir að hafa þorað að brjótast gegn valdinu og þannig unnið okkur svo ómetanlegt gagn.

Var minnt á árangur íslenskrar kvennabaráttu með skýrum hætti síðastliðið sumar. Einhvern veginn er það svo að maður verður samdauna þeim tíðaranda sem maður lifir í og hættir til að gleyma þeim árangri sem náðst hefur. Átti samræður við unga hollenska stúlku að byrja starfsferilinn eftir útskrift úr virtum háskóla sem aldeilis ekki allir eiga aðgang að. Þessi stúlka sýndi ástríðufullan áhuga að fá að vita allt um íslenska kvennabaráttu. Ég reyndi að upplýsa hana af bestu getu og hugsaði einmitt um það þá hvað það væri eftirsóknarvert að geta flutt út þessa sögu. Hugsaði til þess að konur heimsins þyrftu að fá að vita um þessa sögu. Gladdist því ómælt þegar ég heyrði um tilvist myndarinnar þó það skuli ósagt látið hvort að þessi mynd eigi eftir að verða útflutningsvara.

Þessi hollenska stúlka gerði mér ljóst með skýrum hætti hversu hroðalega miklu aftar hollenskar konur eru í jafnréttisbaráttunni en þær íslensku. Rifjaðist upp fyrir mér eitthvað sem ég átti að vita en var einhvern veginn búin að gleyma – stöðu samstarfskvenna minna í hinum ýmsu vestrænum löndum á minni starfsævi. T.d. einnar þýskrar samstarfskonu minnar sem var mætt í vinnuna með barnið tveimur mánuðum eftir barnsburð af því að það var eitthvað sem hún þurfti að gera til að halda vinnunni. Þetta var einhvern tíma á árunum 1988 – 1992. Hollensk vinkona mín og samstarfskona sem eignaðist tvíbura og hætti í framhaldi að vinna. Þýsku samstarfskonurnar sem kusu að eignast ekki barn... Já við íslenskar konur megum svo gjarna verða sérfræðingar í sögu íslenskrar kvenfrelsisbaráttu. Það er saga til að vera stoltur af.

Að vera stoltar er þó ekki nóg. Við erum langt frá því komnar á þann stað að ástæða sé til að fagna því að jafnrétti sé náð. Langur vegur eftir. Eins og endir myndarinnar sem vísað er til gaf svo skýrt til kynna og við erum minnt kyrfilega á á hverjum einasta degi. Saga kvenna er þurrkuð út. Þurrkuð út pent og örugglega. Það hefur tekist vel til í þeim ranni allar götur frá hruni.

Borgarstjórinn í myndinni í gær er enn spunameistarinn og hugmyndafræðingur þess sem almenningur á Íslandi gerir að sínum sannleika. Trúir því að það sem hér gerðist árið 2008 sé vondum útlendingum um að kenna og körlum best treystandi til forystu um flest.

Steinunni Valdísi varð að ryðja burt af Alþingi, Guðlaugur Þór situr sem fastast. Þorgerður Katrín varð frá að hverfa vegna tengsla maka hennar við hrunið, Bjarni Benediktsson stendur keikur sem fjármálaráðherra þó sjálfur hafi hann verið viðskiptafélagi föðurbróður síns sem tókst að krækja í eign ríkisins Borgun að því er virðist fyrir slikk.

Í framhaldi af þessari málsgrein verður að taka skýrt fram að hér er ekki haldið fram einu eða neinu um viðkomandi einstaklinga af karlkyni einungis bent á hversu himinhrópandi mismunun er í gangi í samfélaginu þegar kemur að konum annars vegar og körlum hins vegar. Við erum tilbúin að fyrirgefa körlum allt konum ekkert. Karlar mega það sem konur mega ekki. Það eru algjörlega skýr skilaboð okkar almennings á Íslandi í kjölfar hrunsins og ekki hægt að fara í neinar grafgötur með það.

Öldin fram að þessu hefur verið öld strákanna. Öld þar sem karlkyns stjórnendur hafa verið gerðir að guðum og þeir eru þar enn. Þrátt fyrir algjört hrun þess samfélags sem við höfðum byggt upp í áratugi. Hrun í svo miklu, miklu víðari skilningi en hrun hagkerfisins. Hrun gildanna sem við ólumst upp við, hrun trausts á stofnanir samfélagsins, hrun trausts okkar hvert á öðru. Við sitjum eftir í samfélagi vantrausts þar sem stoðirnar - innviðirnir hafa verið fullkomlega vanræktir árum saman svo nú er allt kerfið sem á að halda utan um okkur – styðja okkur á heljarþröm. Á sama tíma erum við með auðuga unga karlkyns stjórnendur í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki við stjórnvölinn. Af því að við treystum þeim best.

Hagaskólastelpurnar orðuðu stöðu mála fyrir okkur í vetur með stórkostlegu atriði sínu sem ég leyfi mér að enda á hér...

„...vertu skynsöm, vertu dugleg týndu upp draslið sem aðrir skilja eftir týndu þér láttu þig hverfa...“

http://icelandmonitor.mbl.is/news/c...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...