laugardagur, 17. janúar 2026

Að fara í framboð

Mig langar að vera í forystu framboðslista Viðreisnar til sveitarstjórnarkosninga í Reykjavík vorið 2026!

Að taka ákvörðun um að fara í framboð í forystu stjórnmálaflokks er ekki sjálfsagt. Ég lýg því ekki þegar ég segi að ákvörðunin um að gera það var tekin klukkan tvær mínútur í tólf á hádegi í gær, föstudaginn 16. janúar 2026. Það var eins og undirmeðvitundin tæki af mér ráðin og ýtti á „send“ á lyklaborðinu. Ég trúði því varla sjálf að ég hefði gert það – en ég gerði það og tilfinningin síðan er sú að ég er glöð með þá ákvörðun.

Síðan fyrir síðustu alþingiskosningar hefur búið um sig í mér þessi löngun til að láta slag standa og verða þátttakandi, í stað þess að vera alltaf á hliðarlínunni. Þrátt fyrir gríðarmikinn stjórnmálaáhuga var ég aldrei á þeim buxunum að verða beinn þátttakandi. Viðskiptalífið var minn staður – hélt ég.

Svo gerist eitthvað – eitthvað sem verður til þess að sá fræi í hausnum á manni í þá veru að kannski eigi maður heima á vettvangi. Á stjórnmálavettvangi. Og sú tilfinning ágerist og vex innra með manni. Ég hef samt ekki gert mikið af því að deila þeirri tilfinningu með öðrum, heldur haldið því fyrir sjálfa mig.

Alþingiskosningarnar síðasta haust fóru fram í lok nóvember og aðdragandinn var stuttur. Ég hafði lofað dóttur minni að passa dótturdæturnar – lífsblómin mín tvö – í síðustu viku nóvember og var því fjarri góðu gamni á lokasprettinum.

Í þeim kosningum bauð ég mig fram á lista í NV-kjördæmi – ef það væri eftirspurn lét ég vita af því að mig langaði til að vera með. Það var í fyrsta skipti sem ég gerði það – raunverulega, ekki bara til uppfyllingar. Í það skipti voru margir um hituna og eftirspurnin meiri en framboðið. Viðreisn fékk góða kosningu – kjörinn þingmann í hvert kjördæmi sem gladdi mig mjög.

Í haust, þegar Viðreisn bauð upp á fundi til að ákvarða hvernig skyldi raðað á lista, var ég eindreginn stuðningsmaður uppstillingar í öll sæti og talaði fyrir því á fundinum þar sem þau mál voru til umræðu. Niðurstaðan varð önnur. Niðurstaðan varð að bjóða upp á prófkjör í oddvitasæti.

Ég gældi strax við þá ákvörðun þá að gera þetta sem ég tók ákvörðun um í gær – að láta slag standa og gefa sjálfri mér þetta tækifæri. Ég ræddi það samt ekki við neinn, eins undarlega og það hljómar. Veit ekki af hverju.

Ég á fjölskyldu sem er öll mjög pólitísk og ég veit að ég get sótt til hennar stuðning. Þau komu mörg inn á Facebook í gær til að veita mér stuðning og mér þykir óendanlega vænt um það. Þegar ég tala um „fjölskyldu“ er ég að tala um Melafólkið – fjölskyldur 3ja bræðra sem bjuggu saman á Melum í Hrútafirði í mínum uppvexti – fólk sem er mér einstaklega kært og mér þykir svo undurvænt um.

Og svo er það auðvitað mín nánasta fjölskylda – bestu vinir mínir – systkini mín öll – maki minn og dóttir. Ég ræddi þessa ákvörðun ekki einu sinni við þau áður en hún var tekin. Ég veit það hljómar furðulega og það er stórundarlegt en þannig er það. Þetta var eitthvað sem ég þurfti að eiga við sjálfa mig og engan annan. Ég lét maka minn, dóttur og fjölskyldu vita fyrst í gær.

Það er áreiðanlega ekki besta veganestið þegar maður leggur í svona vegferð – að vera ekki búinn að undirbúa neitt eða gera neinar ráðstafanir um hvernig maður ætlar að fara að þessu – en það er samt svo í mínu tilfelli. Ég þurfti að gera þetta og ég þurfti að eiga ákvörðunina við sjálfa mig.

Hvernig ég ætla að fara að því að fá ykkur – fólk þarna úti – til að kjósa mig til forystu í 1. sæti Viðreisnar í Reykjavík – því um það snýst málið – á eftir að koma í ljós. Málið snýst um að ég er manneskja sem býð mig fram til forystu í stjórnmálaflokki sem mörg ykkar eru ekki einu sinni aðilar að.

Og ég er ekki enn farin að segja ykkur fyrir hvað ég stend. Af hverju ég vil upp á dekk í borgarmálunum.

Læt staðar numið hér – að sinni. Vildi  bara segja ykkur hvernig þessi ákvörðun var tekin. Það verður að duga í bili.

Minn innri maður tók af mér ráðin í gær og leiddi mig af stað í þessa vegferð. Hún verður stutt – einungis tvær vikur. Ég mun ekki leggja út í nein fjárútlát eða auglýsingaherferðir.

Ég þigg alla þá aðstoð sem hver og einn mögulega vill leggja fram í þágu míns framboðs. Ef þið hafið trú á mér og viljið leggja mér lið, megið þið svo gjarna gera það – ekki með peningum en með því að segja frá mér – þið sem þekkið til. Ef þið hafið trú á mér í þetta hlutverk megið þið hjálpa mér þannig að ná kosningu. Það er ekkert sem bannar það og ekkert hættulegt við það.

Málið snýst um að eftir tvær vikur – þann 31. janúar 2026 – munu félagsmenn í stjórnmálaflokknum Viðreisn kjósa sér forystumann til borgarstjórnar í Reykjavík í rafrænni kosningu. Við verðum fjögur, frambjóðendurnir í þeim kosningum, og eitt okkar mun sigra. Eitt okkar fjögurra mun standa uppi sem forystumaður Viðreisnar í Reykjavík að þeim kosningum loknum.

Ég geri mér engar grillur en löngunin er til staðar og ég er glöð með að hafa stigið þetta skref. Það er gott að standa með sjálfri sér.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað er ég að vilja upp á dekk?

Mér er engin launung á því að málefnið sem ýtir mér af stað í þessa vegferð eru leikskólamálin. Ég er komin fram á völlinn til að halda uppi...