mánudagur, 18. júlí 2016

Túlkun á réttu og röngu

„Enginn sá maður, sem er nokkurs verður, á að horfa í háska eða bana. Hann á aðeins að líta á hitt, hvort það, sem hann gerir, er rétt eða rangt, hvort hann breytir sem góður maður eða vondur.“ (Úr: Síðustu dagar Sókratesar e. Platón í þýðingu Sigurðar Nordal og Þorsteins Gylfasonar, 2006 útgáfu, bls. 49)

Ákvörðun Kjararáðs er tilefni til hugleiðinga.

Það vekur áhuga hvernig ákvörðun um hækkun tiltekins hóps embættismanna ríkisins um tugi prósenta er tekin og ekki síður umræður í kjölfar hennar.

Hér á fésbókinni hafa ýmsir látið í ljósi þá skoðun að launaupphæðirnar sem um ræðir eftir hækkun séu fyllilega réttmætar í samanburði við aðra sambærilega hópa og því sé á þeim grunni ástæðulaust að gera athugasemdir. Hækkunin sé réttlát.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins tók undir þessa skoðun í fréttum á RÚV í fyrradag þegar haft var eftir honum „...að það sé alveg skýrt í lögum að Kjararáð eigi að horfa til almennrar launaþróunar. Að helstu hópar launamanna hafi fengið tæplega 80% hækkun frá 2006 meðan til að mynda ráðuneytisstjórar hafi fengið tæplega 40%.“ Á þessum grunni réttlætir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hækkun hóps embættismanna ríkisins um upphæð sem samsvarar mánaðarlaunum annars hóps starfsmanna íslenska ríkisins með einni ákvörðun.

Þessi túlkun á réttu og röngu um mitt ár 2016 vekur áhuga minn.

Einu sinni bjuggum við til ríki til að koma á skipulagi og réttarreglum. Við vissum jafnframt einu sinni að allir skyldu jafnir fyrir lögunum. Ákvarðanir í þessa veru þar sem einn hópur embættismanna fær launahækkun sem samsvarar heilum mánaðarlaunum annars hóps – fellur hún undir að við vitum hvert hlutverk ríkisins er og er í hún í samræmi við að allir skulu jafnir fyrir lögunum?

Mér finnst ástæða til að spyrja slíkra grundvallarspurninga.

Hvað með hinn atvinnulausa sem fær 178.951 krónu? Og má ekki afla sér nokkurra tekna umfram það, því þá eltir hið sama ríki hann til að taka af honum það sem hann mögulega hefur fengið ofgreitt? Hvað með öryrkjann í sömu stöðu? Hvað með hinn aldraða í sömu stöðu?

Við höfum búið til ríkisvald sem hefur það hlutverk að sjá til þess að tilteknum einstaklingum samfélagsins sé örugglega haldið fátækum. Við vissum einu sinni að kerfið sem við bjuggum til var til þess ætlað að hjálpa þeim sem af einhverjum ástæðum lentu í vandræðum í lífinu. Urðu fyrir áföllum eða heilsubresti – nú eða bara eltust og þurftu því á hjálp ríkisins að halda.

Þessu hlutverki ríkisins höfum við breytt í grundvallaratriðum. Nú er hlutverk ríkisins að elta uppi þá sem eru í einhverju þessara hlutverka og tryggja með öllum ráðum að þeir séu örugglega fátækir.

Hluverk ríkisins er ekki lengur að hjálpa heldur að elta. Það er ekki að þjóna einstaklingnum heldur að refsa honum.

Kannski er staðan sú að skrifstofustjórinn sem við teljum réttlátt að fái nú 1,3 milljónir á mánuði fyrir störf sín hafi það að aðalstarfi að eltast við þann atvinnulausa eða öryrkjann til að tryggja að hann fái örugglega engar tekjur umfram 178.951 krónu á mánuði.

Ríkisvaldið sem um ræðir er ríkisvald sem báðir einstaklingar hafa greitt til alla sína ævi. Við höfum ákveðið að annar einstaklingurinn sé verður umbunar, hinn einstaklingurinn á skilið refsingu. Annar einstaklingurinn er „góður“, hinn „vondur“.

Svona skynjum við réttlæti á Íslandi árið 2016.

Er túlkun okkar dæmi um að við vitum hvað felst í því að vera góður maður og hvað er að vera vondur maður?

Kunnum við að greina rétt frá röngu?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...