sunnudagur, 7. ágúst 2016

Ertu til í að veita mér umburðarlyndi?

Forsetinn gerði mikilvægi umburðarlyndisins að stefi ræðu sinnar í gær. Vel við hæfi á þessum degi gleðinnar. Hef oft gert grein fyrir að ég elska þennan dag, Gleðigöngudaginn. Minn uppáhaldsdagur í íslensku samfélagi frá því hann var tekinn upp. Dagur gleðinnar.  

Var þó fjarri góðu gamni í gær þar sem skyldan kallaði. Skyldan sem í dag gengur út á að berjast fyrir gleðinni í eigin lífi. Þaðan koma hugrenningar mínar í þennan pistil dagsins. 

Hvernig væri að leyfa ástríðufullum konum með skoðanir að vera til? Hvernig væri að skoða að veita þeim umburðarlyndi?  

Hafið þið verið „tekin á teppið“ sem viðskiptavinir fyrir að hafa skoðun á því sem ykkur er boðið upp á?
Ég hef það.  

Hefur verið reynt að banna ykkur að skrifa eigin hugleiðingar og birta þær?
Ég hef það.  

Hefur ykkur verið neitað um skólagöngu í háskóla og gert að fara í undirbúningsdeild með stúdentspróf og 11 ára starfsreynslu sem lykilmanneskja í alþjóðastarfsumhverfi á grundvelli geðþótta fjölskylduhöfuðs, föður?
Ég hef það 

Hefur verið sóst eftir ykkur í starf og fengin til þess ráðningarstofa en ykkur ekki boðið neitt annað en starfið? Hvorki laun eða skilgreindur starfstitill?
Ég hef það.  

Hafið þið orðið fyrir árásum yfirmanns ykkar í vinnunni ítrekað – ekki fyrir að sinna ekki störfum ykkar – heldur fyrir að vera sú sem þið eruð?
Ég hef það. 

Hafið þið verið gerð ábyrg fyrir skoðun almennings á stjórnmálaflokki fyrir það eitt að vera stuðningsmenn hans og láta það óspart í ljósi opinberlega?
Ég hef það.  

Hefur verið ráðist á sjálf ykkar ítrekað með árásargirnina eina að vopni aftur og aftur og aftur? Gefið í skyn með fínlegum hætti hvar sem þið komið, hvar sem þið birtist að sjálf þitt sé ekki í lagi? Ástríðufullt. Hrifnæmt. Opið. Áhugasamt um lífið og tilveruna. 

Ég hef það og þannig er það. Þykir sjálfsagt og í lagi að hæðast með fínlegum hætti að sjálfi mínu þegar það sýnir innblástur. 

Ég hef upplifað allt þetta og miklu meira til. Ég er ástríðufull kona með skoðanir. Hafði líka einu sinni metnað. Búið að drepa hann fyrir löngu. Nú langar mig bara að fá að vera til. Neita því að vera fórnarlamb.  

Á Dale Carnegie námskeiði fyrir 13 árum grét ég þegar námskeiðshaldarinn gerði mikilvægi eldmóðsins að umtalsefni. Skil núna hvers vegna. Ég grét vegna þess að þessi sami eldmóður hafði alltaf unnið gegn mér. Óhlýðni mín var bannhelg. Og það hefur ekki batnað á þessari öld. Aðeins versnað. Nú þykir í lagi að hæðast að og brjóta niður konur með metnað og ástríður hægri, vinstri og við erum öll stolt þátttakendur í þeim leik.  

Kona má ekki sýna tilfinningar. Má ekki sýna hvatvísi. Kona á að vera kurteis. Sýni karlinum undirgefni og föðurnum aðdáun. Þannig á það að vera og það finnst okkur konum líka.  

Ég krefst þess að fá að vera til. Og fá að vera sú sem ég er. Ástríðufull. Hrifnæm. Opin. Og áhugasöm um lífið og tilveruna.  

Ertu til í að veita mér umburðarlyndi?     


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...