Þeim fannst gott að geta leitað til mín. Voru hvergi öruggari. Hringdu alltaf í mig þegar mikið lá við. Og þó ekki lægi mikið við. Bara þegar þeir þurftu á þjónustu að halda, því ég var þeirra. Var þjónn þeirra. Þeir vissu það. Þekktu það og vildu hvergi annars staðar vera. Ég var sú sem þeir vissu að vakti yfir hag þeirra og gerði allt til að svara þörfum þeirra.
Var síðust til að fá farsíma. Sat heima klukkutímum saman um helgar - taldi það ekki eftir mér. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Fannst gaman að gefa - gerði það með gleði.
Síðust til að fá stjórnunarstöðu. Fékk hana ekki fyrr en rétt áður en ég hætti. Strákarnir komu og höfðu enga þekkingu, ekki á bransanum, ekki á viðskiptunum. Stundum með gráður, stundum ekki. Fóru beint í stjórnunarstöður - fengu miklu hærri laun. Ekki bara 10% eða 15% eða hvað það nú er, miklu, miklu hærri. Félagar mínir hinum megin við hafið skyldu þetta ekki og ræddu þetta við mig. Af hverju var þeim alltaf gert að fara í söluheimsóknir með strákum sem ekkert vissu um viðskiptin? Um bransann? Ég sagði þeim að svona væri þetta á Íslandi.
Ég gaf, gaf og gaf. Þar til ekkert var eftir. Ekkert nema skelin. Þegar ég leitaði til þeirra seinna eftir hjálp, var svarið „ég veit ekki hvernig þú ert á staðnum“ eða hvernig sem það var nú orðað. Veit ekki hvort kjaftasagan hafði náð þangað eða hvort þetta var bara eðlislægt vantraust til kvenna. Mun líklega aldrei vita það.
Lygin er kröftug. Árangursríkari en flest. Þarft ekki annað en koma henni af stað og hún vinnur verkið sjálf eftir það. Við ættum að þekkja það í nútímanum sem notum hana ítrekað og leyfum henni að eiga sviðið.
Kom að því að ég vildi ekki bara gefa. Vildi líka fá. Fá stöðu. Fá að stjórna. Gerði það alltaf hvort eð var. Vildi fá það viðurkennt. Í raunveruleikanum. Það stóð ekki til boða. Þeir lögðu mikið á sig til að koma í veg fyrir það. Merkilega mikið raunar.
Í háskólanum þar sem sökudólgaábendingin tók sig upp um tíma fékk ég að heyra frá karlkyns vini mínum að ég ætti að læra af þessu þegar hópur hans neitaði mér um aðgang. Ég hafði aldrei unnið með honum. Hann hafði enga reynslu af því að vinna með mér í hóp en var þess umkominn að segja að ég mætti ekki vera sú sem ég er. Að lækka rostann í konu er viðurkennt. Það ekki bara má – það á.
Lærði að lifa með þessu. Lærði að lifa með því að fá metnaði mínum ekki svarað. Var sárt, rosalega sárt, en staðreynd sem hægt var að lifa með. Lifa dáin. Það gerum við margar.
Þeir gerðu mig næstum gjaldþrota. Nokkur ár fóru í baráttu við kerfið um að ég ein bæri ekki ábyrgð á því sem gerðist í hruninu. Fyrir heppni sem byggir á vinnu annarra vannst sigur í þeim slag. Enginn hefur minnsta áhuga á að vita nokkuð um hvað gerðist.
Ég má ekki tala um karla sem hóp. Má ekki nota orðið karlar í niðrandi samhengi. Karlar máttu taka frá mér lífið, lífsgleðina. Máttu nýta mig þar til ekkert var eftir af mér og henda mér svo út á berangurinn. Það er í lagi. Að konur geri kröfur um annað en þjónkun og þjónustu við karla er fáheyrð frekja.
Af því að karlar eru Guðir og konur þjónar þeirra. Ef slagur verður milli karls og konu er karlinn fórnarlamb og konan sökudólgur.
Þennan jarðveg höfum við búið til og nærum og gefum súrefni alla daga.
Karlar njóta ástar.
Ást til kvenna er skilyrt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli