Það er merkilegt að vera Íslendingur þessa dagana. Lögmálin sem maður lærði í æsku falla hvert af öðru. Það er í fínu lagi að ljúga. Fínu lagi að svíkja. Til þess eins fallið að greiða þér leið til forystu. Popúlismi, sýndarmennska og lygi leiðandi öfl.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kjörinn með afgerandi meirihluta atkvæða til áframhaldandi forystu í Framsóknarflokknum í norð-austur kjördæmi. Sennilega fyrir afbragðs leik í upphafningu sýndarmennskunnar síðustu ár.
Kjósendur sýna vald sitt og hafa í hótunum við Alþingi vegna búvörusamnings sem allt í einu er orðið mál málanna. Ekki vegna þess að mönnum sé málið svo heilagt sem slíkt. Nei miklu fremur vegna þess að það er hentugt og vel til þess fallið að vekja á sér athygli núna, pólitískt. Populisminn blómstrar sem aldrei fyrr. Með stuðningi aflanna sem valdið hafa. Þeirra sem við höfum gefið vægi til að segja okkur hvaða skoðanir við eigum að hafa. Sem ef grannt er skoðað eru allt karlar. Páll Magnússon varð í 1. sæti Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi. Kollegu hans í áratugi Elínu Hirst var hent á haugana. Bjarni Benediktsson er aldrei spurður um hlutdeild sína í viðskiptalífinu fyrir hrun. Þorgerður Katrín þarf að gera grein fyrir „sínum málum“ en hún átti eiginmann sem var þátttakandi í hruninu. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson. Þarf ég halda lengi áfram?
Samfylkingunni er úti. Alveg sama hvað frá henni kemur, það er „out“. Höfum raungert atriðið í áramótaskaupinu þar sem Davíð Oddsson henti Samfylkingunni á haugana. Og látum okkur vel líka. Beinlínis smjöttum á því hvað hún er ömurleg, enda ekki við öðru að búast af flokki þar sem konur eru svo vondar við karla.
Svo er Samfylkingin líka “kvenpersóna”, því förum við auðvitað með hana eins og við förum með konur. Fullkomlega lógískt.
Konur eiga að þóknast körlum og sjá um að sólin skíni á þá. Um leið og þær gerast of fyrirferðarmiklar er voðinn vís. Best að gera þær bara að sökudólgum fyrir öllu saman. Það kunnum við. Kunnum við konur því það eru ekki síst við sem sjáum um þetta alltsaman. Að upphefja karla og gera lítið úr kynsystrum okkar. Það kunnum við betur en flest.
Björt framtíð var voða smart fyrir síðustu kosningar. Nú er hún „out“, nema ef búvörusamningurinn kemur þeim til bjargar. Viðreisn er „in“ og smörtust alls. Þar eru Guðirnir. Elítan sem við trúum á, nærum og upphefjum alla daga. Þurfa ekki einu sinni að hafa fyrir því, fá ókeypis kynningu í fréttum á hverjum einasta degi, því þau eru svo smart.
Fullt af góðu fólki Bjartri framtíð og ekki síður í Viðreisn nú. Báðir flokkar hafa á að skipa vel gerðum einstaklingum sem auðvelt er að eiga samleið með í mörgu í pólitík og sannarlega ástæða til að gleðjast yfir að manni sýnist vönduðu vali einstaklinga á lista Viðreisnar. En fyrr má nú rota en dauðrota. Hvers konar samfélag er þetta eiginlega sem ég bý í?
Ætlum við að halda þessari leið áfram lengi enn? Flokka heiðarlegt og grandvart fólk í „gott“ fólk og „vont“ fólk? Upphefja eiginleika eins og sýndarmennsku, lygi og sundrung? Halda sýndveruleikanum á lofti þar sem kúgun til hlýðni er leiðandi afl?
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli