miðvikudagur, 21. september 2016

Guðirnir í nútímanum

Fjöldi landa minna hefur snúið baki við Guði á himnum. Trúin á Guð lifir þó góðu lífi. Guðirnir eru í fleirtölu núna og þeir búa með okkur á jörðinni í stað þess að vera á himnum.

Mín afstaða að það sé tvímælalaust betra að Guð sé einn og að hann sé á himnum.

Sá Guð hefur reynst mér vel í gegnum lífið. Sýnt mér kærleika, væntumþykju og mildi. Guðirnir í fleirtölu á jörðinni eru refsiglaðir og enginn kærleikur þar í boði.

Með Guði í fleirtölu á jörðinni verður samfélagið gegnsýrt af trúarbrögðum og trúarbrögð rökræðir maður ekki eða efast um. Trúarbrögðum hlýðir maður í blindni. Gengst söfnuðinum á hönd. Ef maður gerir það ekki er von á refsingu.

Hugmyndafræðin um guðleg laun til elítunnar er grundvöllur trúarbragðanna. Hún slítur tengsl elítunnar við venjulegt fólk og gefur okkur færi á að dýrka það og dá sem Guði. Við byrjuðum á að gera íþróttamenn og kvikmyndastjörnur að Guðum. Nú eru Guðirnir orðnir miklu, miklu fleiri og trúarbrögðin mun samþættari inn í okkar líf. Stjórnendur fyrirtækja voru gerðir að Guðum með hugmyndafræði þar sem laun þeirra voru slitin úr samhengi við laun okkar hinna. Sú hugmyndafræði er við lýði enn.

Samfélag okkar er gegnsýrt af trúarbrögðum og hjarðhegðun þar sem sjálfstæðri hugsun er úthýst.

Sjálfstæð hugsun er ekki þóknanleg í samfélagi þar sem trúarbrögð ráða ríkjum. Guð er alvitur með geðþóttavald. Maður gagnrýnir ekki Guð eða rökræðir um Guð. Því Guð veit. Veit allt. Guð refsar. Refsar þeim sem hlýða ekki valdi hans.

Guð er karlkyns. Hefur alltaf verið karlkyns.

Kvikmyndirnar: ENRON - The smartest guys in the room. Inside job. Gasland og eflaust ótal margar fleiri gera grein fyrir þessum trúarbrögðum og áhrifum þess á samfélag. Við höldum samt enn ótrauð áfram. Sömu hugmyndafræði. Upphafningu Guða, ósnertanlegra Guða á meðal vor. Guða sem ekki má gagnrýna. Ekki má efast um. Má bara dýrka.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...