laugardagur, 24. september 2016

Lygin er botnlaus

Sannleikurinn er andstæða lyginnar. Það eina sem skiptir máli. Sókrates dó fyrir hann og Hanna Arendt helgaði líf sitt honum. Leitinni að sannleikanum. Sannleikann sem við finnum innra með okkur sjálfum.

Páll Skúlason talar um að ljósbera hugsunarinnar. Er það ekki fallegt? Ljósberar hugsunarinnar? Gæti það ekki átt við um sannleikann? Traustið? Fegurðina?

Ef maðurinn sjálfur er eini mælikvarðinn á gæði samfélags hvar erum við þá stödd núna? Eiga framtíðarkynslóðir eftir að minnast okkar sem kynslóðar sem skilur eitthvað eftir sig? Hvað?

Elska börn meira en annað fólk og engin setning hefur verið í meira uppáhaldi en setningin „Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það ekki, því slíkra er guðsríki.“ Hvers vegna er svo augljóst. Samvistir við börn eru samvistir við sannleikann.

Keypti mér nokkrar bækur eftir Sigmund Freud í þýðingu Sigurjóns Björnssonar hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi á dögunum. Er óendanlega þakklát þessum mönnum báðum. Sigmund Freud fyrir að færa mér visku sína og Sigurjóni Björnssyni fyrir að gera hana aðgengilega með því að þýða hana yfir á tungumálið mitt. Þakklát Hinu íslenska bókmenntafélagi fyrir að vera til og fyrir að hafa staðið að útgáfu allra þessara yndislegu bóka sem ég ætti engan möguleika á að lesa nema af því að það er til.

Þetta eru vinir mínir í dag. Þeir sem færa mér viskuna og gefa mér færi á að næra visku-ástina sem ég þarf svo á að halda.

Þið haldið örugglega að ég sé skrítin. Hef alltaf verið skrítin svo það er ekkert nýtt í því. Svo gott að leyfa sér að vera það. Leyfa sér að vera það sem maður er. Felur gleðina í sér. Gleðin er góð. Ljósberi hugsunarinnar.

Sálin er ekki bara til – sálin er allt.
Allt sem skiptir máli.

Ætla í lokin að segja ykkur svolítið. Svolítið sem hefur ítrekað komið upp í hugann síðustu daga.

Lýður og Ágúst Guðmundssynir voru strákar að hefja starfsemi á reyktum þorskhrognum í Kópavoginum þegar ég kynntist þeim fyrst. Hermann Guðmundsson, Róbert Wessmann og Baldur Guðnason voru sölumenn hjá Samskipum. Erlendur Hjaltason var stjórnarformaður flutningsfyrirtækisins þar sem ég starfaði. Höskuldur H. Ólafsson var deildarstjóri hjá Eimskip og gott ef ekki líka stjórnarformaður flutningsfyrirtækisins þar sem ég starfaði. Til að taka nokkur dæmi. Sjálf var ég starfandi í þjónustu við útflytjendur á lagmeti hjá Sölusamtökum lagmetis fyrst og síðar í þjónustu við –inn og útflytjendur hjá dótturfyrirtæki Eimskip þá, Jes Zimsen, síðar TVG-ZIMSEN.

Trúið mér, við vorum öll menn. Karlarnir sem nefndir eru og ég líka. Og erum enn.
Öll menn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...