miðvikudagur, 14. september 2016

Val um visku eða heimsku

Horfði á „Smartest guys in the room“ í gær í samhengi við nám mitt í viðskiptafræði. Kvikmynd um það sem gerðist í þessu musteri Mammons ENRON í upphafi þessarar aldar.

Áreiðanlega séð hana áður, man það satt að segja ekki, lýsingin á upphafningu græðginnar er alltaf söm, hvort heldur á Íslandi, Bandaríkjunum eða Grikklandi til forna. Botnlaus, mannskemmandi og vond. Eyðileggjandi afl eins og við Íslendingar þekkjum svo vel.

Varð ekki reið í þetta skiptið. Miklu fremur sorgmædd. Sorgmædd yfir upphafningu heimskunnar. Að við nútímamenn á þessari litlu eyju skulum hafa kosið að ganga þessu afli á hönd. Skulum ekki enn átta okkur á því að við þurfum að beygja af leið.

Pólitíkin okkar á ekki að snúast um karla - hún á að snúast um okkur. Líf karla, kvenna og barna. Að búa til umhverfi sem tryggir okkur góðar aðstæður, gott samfélag til að búa í. Ísland á 21. öld til þessa hefur ekki verið gott samfélag að búa í.

Mælikvarðinn á gæði samfélags er maðurinn sjálfur. Samfélag vantrausts er ekki samfélag vellíðunar. Miklu fremur samfélag vanlíðunar. Mátti skynja það skýrt í þáttunum „Baráttan um Bessastaði“. Frambjóðendurnir, flestir, sem þar voru á sviðinu skynjuðu þetta. Skynjuðu það að almenningi á Íslandi leið ekki vel. Við eigum að geta sagt okkur það sjálf. Vantraust þýðir að fólki líður ekki vel. Fólki sem líður vel treystir.

Við stöndum frammi fyrir kosningum þar sem ákvörðun verður tekin um hvert við ætlum að fara næstu fjögur árin. Þær kosningar skipta gríðarlega miklu máli. Við getum valið leið viskunnar í stað heimskunnar.

Því gladdi það mig að sjá yfirlýsingu Guðna Ágústssonar á forsíðu Fréttablaðsins í gær. Verð að játa um leið að mér var skemmt að sjá framsetninguna. Framsetningu sem lýsir sér þannig að það er sem Guð hafi talað. Ef að karlarnir verða að leika Guði og það er okkur nauðsynlegt að leyfa þeim það þar sem við erum í stórum stíl hætt að trúa á hann á himnum verður svo að vera. Ef þeir hafa vit á að leiða okkur í átt til visku get ég fyrirgefið þeim það.

Sannleikurinn er mun betri vegvísir en lygin. Það mætti vera okkar fyrsta vers. Að gangast sannleikanum á hönd og hætta að ljúga.

Lygin birtist okkur m.a. í því að við tölum aldrei um það sem gerðist í hruninu. Tölum aldrei um það sem raunverulega gerðist hjá hverjum og einum einstaklingi. Gæti verið ágæt opnun í samhengi við framboð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til forystu í Framsóknarflokknum að birta höfuðstól láns míns opinberlega. Fyrir og eftir hrun.

Almenningur á Íslandi, (kjósendur sem hafa kosið að gera Samfylkinguna að eina sökudólg hrunsins) gæti þá séð samhengi hlutanna skýrt. Annars vegar hvað gerðist hjá „hinum venjulega manni“ við hrun íslensku krónunnar og hagkerfisins á haustmánuðum 2008 og hin hliðin er þá Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eigendamegin á þessu reikningsdæmi.

Við Sigmundur Davíð erum bæði Framsóknarbörn. Faðir Sigmundur Davíðs var þingmaður Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi, kjördæminu þar sem pabbi minn og bræður hans kusu flokkinn alla tíð. Stöðumynd af eignum og skuldum okkar sem einstaklinga fyrir og eftir hrun gæti gefið upplýsandi mynd af því sem raunverulega gerðist hér. Í samfélagi þar sem almenningur var notaður sem tilraunadýr í leik strákanna að gjaldmiðlinum.

Að síðustu kemur upp í hugann minning úr æsku sem lýsir ágætlega því sem mér liggur á hjarta. Undirskriftarlisti gekk í sveitinni til stuðnings starfandi lækni sem oft hafði orðið uppvís að því ítrekað að vera undir áhrifum áfengis við embættisstörf sín. Margir voru til í að skrifa undir. Það þarf vart að taka fram að viðkomandi læknir var karlkyns. Sveitungum mínum fannst fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að sýna honum stuðning til að halda embætti.

Eimir eftir af þessum hugsunarhætti enn?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...