mánudagur, 26. september 2016

Trúarbrögð eða pólitík?

Fyrirliggjandi frumvarp menntamálaráðherra um námslán og námsstyrki kristallar fyrir mér það umhverfi sem ég vil að við brjótumst undan. Segjum skilið við. Kveðjum.

Verr samið frumvarp hef ég ekki séð lengi og hef ég þó séð þau mörg. Illa ígrundað, algjörlega sniðið að hagsmunum íslenska ríkisins og stofnunarinnar sem úthlutar lánunum, Lánasjóði íslenskra námsmanna. Borgararnir, við íslenskur almenningur, hagsmunir okkar, koma ekki einu sinni upp við samningu frumvarpsins. Það er augljóst hverjum þeim sem les. Geðþótti lánastofnunarinnar lögfestur í nánast öllum greinum.

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins líta á það sem hagsmuni sína að styðja þetta frumvarp í meginatriðum. Ganga svo langt að senda fulltrúa sína á opinbera fundi til að tala fyrir því. Ég spyr hvort að þetta viðhorf eigi meira skylt við trúarbrögð en nokkuð annað?

Hvaðan kemur sú afstaða þessara samtaka að styðja og fagna þessu frumvarpi? Hagsmuna hverra eru þau að gæta með þeirri eindregnu afstöðu? Hvað á íslenskt efnahagsumhverfi sameiginlegt með hinum Norðurlöndunum? Vextina? Launakjörin?

Hver er staða íslensks launafólks árið 2016? Almennra starfsmanna hins opinbera? Kvennastéttanna? Kennara svo dæmi sé tekið?

Er það forgangsmál núna haustið 2016 að lögfesta nýtt námslánakerfi þar sem vaxtaálag er ákvarðað af stjórn stofnunarinnar sem úthlutar lánunum?

Er það forgangsmál núna haustið 2016 að gera greiðslubyrði námslána þá sömu fyrir kennarann og fjármálaverkfræðinginn? Óháð launum þeirra að loknu námi? Af hverju er þetta pólitík Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins?

Hvaða hagsmuni og hverra hagsmuni eru þessi samtök að verja með stuðningi við þetta frumvarp?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...