þriðjudagur, 4. október 2016

Kjósum gott líf...

er yfirskrift fundar Samtaka iðnaðarins sem stendur yfir núna um atvinnulíf í aðdraganda kosninga. Fyrirsögn fundarins vekur sérstakan áhuga minn og er tilefni hugleiðinga.

Hver kýs ekki gott líf?
Kjósum við ekki öll gott líf?
Höfum við val um það?

Er komið að því að búa í haginn fyrir okkur? Okkur öll?
Búa til efnahagsumhverfi þar sem við sjálf erum við stjórnvölinn í eigin lífi?

Svo það sé sagt einu sinni enn, stjórnmálin alla þessa öld hafa snúist um að búa í haginn fyrir strákana, strákana að leik með gjaldmiðilinn, hlutabréf í fyrirtækjunum, og okkur hin. Það umhverfi þýðir ekki gott líf og mér finnst að það megi tala um það. Tala um það upphátt. Núna þegar forsvarsmenn fundarhaldara, Samtaka iðnaðarins mæta með fulltrúa á pólitíska fundi til að styðja illa samið frumvarp til breytinga á umhverfi um Lánasjóð íslenskra námsmanna svo dæmi sé tekið. Það frumvarp þýðir ekki gott líf. Nema fyrir fáa.

Ég er ekki í stríði við Samtök iðnaðarins, svo það sé nú sagt. Ég er í stríði við hagsmunaöfl sem vinna að því öllum árum að tryggja sömu pólitík áfram við lýði og þar eru öll samtökin í Húsi atvinnulífsins fremst í flokki. Samtökin í Húsi atvinnulífsins haga sér eins og það sé fullkomlega eðlilegt að þau styðji pólitíska stefnu stjórnmálaflokka sem þau hafa alltaf stutt. Ég ætla að segja þeim það núna að það er ekkert eðlilegt við það.

Fyrrum framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins skrifar grein nýlega, um það sem hann kallar „nýlendustefnu höfuðborgarsvæðisins“ gagnvart landsbyggðinni. Hann minnist ekki á það einu orði um hvað pólitíkin hefur snúist á Íslandi síðustu 8 árin. Ekki einu. Það er ekki hægt að lesa annað út úr greininni en hér hafi verið fullkomlega eðlilegar pólitískar aðstæður síðustu 8 árin og staða landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu sé nýtilkomin.

Skrif af þessu tagi kalla á viðbrögð. Skýr viðbrögð. Margt má taka undir í greininni en það vantar alveg kjarna málsins. Um hvað stjórnmálin á Íslandi hafa snúist síðustu ár og hvaða hagsmuni er verið að verja með málatilbúnaði af þessu tagi.

Á Íslandi býr fólk á landsbyggð og á höfuðborgarsvæði. Á Íslandi býr ungt fólk, miðaldra fólk og gamalt fólk. Á Íslandi búa öryrkjar, margir af völdum atvinnulífs sem kemur fram við fólk eins og skepnur, ekki menn. Auðlindin mannauður er þurrausin, ekki sjálfbær á Íslandi nútímans. Miðaldra konum og körlum er hent á haugana hægri, vinstri og þykir hið besta mál.

Á Íslandi býr fólk sem á í alls kyns tímabundnum vandræðum. Er atvinnulaust, stríðir við sjúkdóma, andlega vanlíðan af öllu tagi. Á Íslandi býr líka fólk sem líður vel í öllum meginatriðum, sem betur fer. Í landinu býr allskonar fólk, í allskonar aðstæðum. Tímabundnum og langvarandi. Allskonar.

Stjórnmál eiga að snúast um aðstæður og umhverfi fyrir allt þetta fólk. Að búa í haginn þannig að við öll getum við lifað mannsæmandi lífi með reisn.

Mannsæmandi líf með reisn.

Er líf þar sem ekki ríkisvaldið lítur ekki á það sem hlutverk sitt að berja einstaklinga niður í svaðið sem eiga í vandræðum heldur styður þá til sjálfsbjargar. Bannar þeim ekki að líða illa heldur hjálpar þeim til að líða vel.

Lánasjóðsfrumvarpið kristallar allt það sem er vont í framkomu ríkisvaldsins gagnvart einstaklingnum á Íslandi. Það er í fínu lagi og besta mál að ríkisvaldið veiti styrki til náms. Það er gott markmið og það skal ég styðja. En allt annað í þessu frumvarpi er vont. Það er samið fyrir ríkisvaldið og hagsmunir borgarans komast ekki að. Frumvörp, lagasetning á Alþingi á að snúast um hag heildarinnar, ekki hag ríkisins.

Með samtryggingu samtaka í Húsi atvinnulífsins og Sjálfstæðisflokksins verður til andrúmsloft þar sem litið er á það sem sjálfsagt að Húsið styðji allt sem frá Flokknum kemur. Það fór til að mynda ekki mikið fyrir stuðningi samtaka Hússins við aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu á sínum tíma. Það var ótækt. Vitlaus flokkur var í forsvari.

Ríkið er ekki til fyrir sjálft sig. Ríkið er til fyrir okkur. Lög eiga að vera samin fyrir okkur og með hagsmuni okkar í huga, ekki ríkisins. Ríkið á að vinna eftir lögunum. Ekki koma að samningu þeirra, efnislega. Við kjósum okkur stjórnmálamenn til að hafa skoðanir og það eru þeir sem eiga að búa til umhverfið. Kerfið á ekki að vera á sjálfsstýringu.

Kerfi þar sem ríkið býr til lögin sem það á sjálft að fara eftir þýðir samfélag sem er illþolanlegt að búa í. Kerfi sem þýðir ekki gott líf fyrir flesta.

Heilbrigð stjórnsýsla. Heilbrigt atvinnulíf. Stuðningur við þá sem minna mega sín og þurfa á stuðningi að halda. Þannig samfélag vil ég sjá. Það samfélag verður aldrei til ef samtrygging ráðandi afla á kostnað hagsmuna heildarinnar verður ráðandi um langa hríð enn.

Hagsmuni heildarinnar.
Manngæsku gagnvart þeim sem á þurfa að halda.
Umhverfi þar sem við getum öll átt gott líf.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...