föstudagur, 16. desember 2016

Samfélagssáttmála um stjórnkerfi fiskveiða?

Er umbylting á stjórnkerfi fiskveiða „stóra málið“ sem fyrir liggur í stjórnmálum dagsins á Íslandi? Í alvöru? Er það stóra vandamálið sem við er að etja núna?

Hélt ekki að sú stund rynni upp að ég sammála ritstjórum Morgunblaðsins en enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Ef marka má túlkun Kjarnans á viðhorfi ritstjóra Morgunblaðsins er sú stund runninn upp að ég er innilega sammála ritstjórum Morgunblaðsins.

Skil ekki þá röksemdafærslu að umbylting á stjórnkerfi fiskveiða sé forgangsmál stjórnmálanna á Íslandi haustið 2016. Finnst ástæða til að halda því til haga að heit afstaða alls almennings á Íslandi, þar með talið Reykvíkinga, til þessa máls er fyrst og fremst til komin vegna áróðurs Morgunblaðisins í áratugi. Hugtakið „sameign þjóðarinnar“ eða þjóðareign hefur reynst betri en enginn í því áróðursstríði.

Sátt um sjávarútveginn er sannarlega eftirsóknarverð. Sátt um auðlindagjald og fyrirkomulag fiskveiða. Sannarlega er það eftirsóknarvert að við Íslendingar sem heild náum sátt í því máli sem allir geta við unað.

Það er sú nálgun sem ég óska þeirri ríkisstjórn, hver sem hún verður, að hafa í forgrunni um hvernig tekið verður á þessu máli. Sú sátt verður að fá að taka tíma. Hún verður að taka tillit til allra sem hagsmuna eiga að gæta í málinu og fyrst og síðast verður hún að gæta heildarhagsmuna þjóðarinnar í málinu.

Þetta mál, fyrirkomulag fiskveiða er samt ekki stóra málið. Það er ekki málið sem þarft er að setja í forgang.

Sátt um stjórnkerfi fiskveiða í landinu getur verið prófsteinn á ný vinnubrögð. Nýja nálgun. Fínt mál til þess að innleiða nýja hugsun í stjórnmálin. Langtímahugsun. Hugsun sem hefur að markmiði að búa til samfélagssáttmála.

Orðið eitt hljómar eins og falleg tónlist.
Ber viskuna í sér.
Samfélagssáttmáli.

Vart hægt að hugsa sér að gera Íslendingum meira gagn en að hafa þá hugsun að leiðarljósi í þessu máli. Gætum nýtt málið til að byggja brú á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Gætum eytt orku okkar í eitthvað jákvætt. Eitthvað uppbyggilegt.

Að búa til samfélagssáttmála.
Ef við næðum því væru okkur allir vegir færir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...