þriðjudagur, 13. desember 2016

Yfirlæti og sjálfsupphafning

Eru stjórnarhættir sem við erum orðin vön. Höldum að því er virðist að séu eðlilegir – hafa verið normið svo lengi að okkur dettur ekki í hug að annað sé tilhlýðilegt. Auðmýkt þekkjum við ekki, nema af afspurn.

Stjórnmál síðustu áratuga hafa snúist um eltingaleik í kringum gullkálfinn. Hinir hafa beðið í röðum eftir mat. Allan tímann hefur stór hópur fólks orðið sífellt fátækari, sífellt niðurlægðari og við höfum látið okkur vel líka. Í það minnsta er ekki að sjá að við höfum haft af því miklar áhyggjur. Ef við hefðum haft það væru raðirnar ekki enn til staðar.

Við höfum búið til kerfi til að eltast við „aumingjana“. Heilu embættin eru til, og deildarstjórar þeirra fengu feita kauphækkun á dögunum, sem hafa ekkert annað hlutverk en að eltast við aldrað og veikt fólk, að taka af því peningana til að tryggja að þeir séu örugglega áfram fátækir. Niðurlægðir. Njóti engrar virðingar.

Við stóðum í mótmælum á vormánuðum vegna þess að hrokafyllsti foringinn reyndist ekki hafa verið í neinum fötum. Heimtuðum kosningar og fengum þær. Í kosningunum hentum við flokknum sem reyndist okkur aldeilis betri en enginn á mestu niðurlægingatímum þjóðarinnar. Flokknum sem stóð í stórræðum í því að taka til eftir fjárhættuspil strákanna.

Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur þurft að sæta ábyrgð á hruninu. Það er tilhlýðilegt og við hæfi. Samfylkingin er kvenkyns og konur hafa alltaf verið góðar í því að taka við ábyrgð á ábyrgðarleysi strákanna.

Auðmýktin lætur á sér standa. Auðmýkt sem felst í því að tala ekki sífellt um sjálfan sig. Höfum haft stjórnmálaforystu svo lengi sem hefur verið í því að beina kastljósinu að sér, gera sjálfa sig að aðalatriði að við höldum að þannig eigi það að vera. Að það sé í góðu lagi að tala um sjálfan sig stöðugt. Hversu bjartsýnn maður sé að eðlisfari. Hversu jákvæður maður sé. Hversu lausnamiðaður. Og svo mætti lengi áfram telja.

Ætla að segja ykkur það núna að svona talar ekki heilbrigð forysta. Heilbrigð forysta er ekki í sífellu að kjamsa á sjálfum sér. Heilbrigð forysta talar um það sem þarf að tala um. Kjarna máls. Og þau eru næg viðfangsefnin sem við er að etja í íslensku samfélagi í jólamánuðinum 2016. Yfirlæti og sjálfsupphafning eru þættir sem við mættum svo gjarna láta tilheyra fortíðinni.

Virðing fyrir viðfangsefnunum, virðing fyrir öllu fólki (líka neikvæðu og fátæku fólki). Auðmýkt. Eru orð sem stjórnmálamennirnir okkar mættu svo gjarna læra að tileinka sér.

Þá kæmi kannski að því einn daginn að viðfangsefnin yrðu aðalatriðið en stjórnmálamennirnir sjálfir féllu í skuggann.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...