miðvikudagur, 23. desember 2009

Jólakveðja...

Guðjón Freyr frændi minn sendi mér fallega kveðju á fésbók á dögunum. Ekki flókna -einfaldlega lét mig vita að honum líkaði að ég talaði fallega til dóttur minnar á sama vettvangi.

Við þessa litlu kveðju fór um mig hlýr straumur - væntumþykja - streymdi um æðarnar og mér varð hugsað til Melafjölskyldunnar og Mela. Hvað mér þykir óskaplega vænt um ræturnar, átthagana og allt þetta fólk og hvað það skiptir mig miklu máli.

Er ekki vön að vera persónuleg hér á þessum vettvangi en langar til þess núna þegar jólin eru í nánd.

Fjölskylda mín er ekki bara mín nánasta fjölskylda - foreldrar og systkini - heldur stór hópur fólks. Sextán vorum við samtals börn þriggja hjóna, erum fimmtán eftir að Krummi frændi minn dó. Hópurinn er orðinn miklu stærri, makar, börn og barnabörn, hef ekki tölu á fjöldanum lengur - en - þekki þau öll.

Tengslum við þetta fólk allt saman verður ekki lýst með orðum. Sagan sem við eigum saman verður aldrei tekin frá okkur og þó samskiptin okkar á milli séu ekki mikil er ólýsanlegur þráður okkar á milli sem aldrei mun hverfa. Að alast upp við þær aðstæður að eiga stóran hóp uppalenda og áhrifavalda er eitthvað sem verður aldrei frá manni tekið.

Að þykja vænt um átthagana ekki heldur. Tilfinnarnar sem ég ber til Mela í Hrútafirði eru þeirrar gerðar að enginn staður annarr getur eignast slíkan sess. Söknuðurinn eftir því að eiga ekki lengur griðastað á æskuheimilinu hverfur aldrei - mun verða hluti af mér það sem eftir lifir ævi.

Veit að það er eins með dóttur mína, þó að hennar reynsla spanni mun styttri tíma er það tími sem aldrei gleymist og mun verða hluti af henni alla hennar ævi. Minningar frá jólum ekki síst. Jólin verða þrátt fyrir allt aldrei aftur söm. Ekki sagt með eftirsjá heldur ást á því sem var og er ekki lengur.

Við fjölskyldan frá Melum III kusum að kveðja staðinn þegar foreldrar okkar seldu jörðina. Eigum ekki sumarhús eða athvarf á staðnum eins og hinar fjölskyldurnar tvær. Það var okkar val - sem getur vel átt eftir að breytast einhvern tíma í framtíðinni þó ekkert bendi til þess nú.

Þessi breyting hefur haft mikil áhrif á okkur öll - mig grunar meiri áhrif en við gerum okkur grein fyrir. Eins og ég hef komið inn á hér í pistlum mínum áður er saga okkar sumpart saga breytinga í íslensku samfélagi. Flutningur úr sveit í borg.

Með þessum litla pistli þar sem ég opinbera væntumþykju mína til æskuheimilins og allra þeirra sem bjuggu í því samfélagi með mér sendi ég hlýjar jólakveðjur til ykkar allra sem mér þykir svo vænt um - hvar sem þið eruð í heiminum!

Elsku Jón, Þóra, Himmi, Sigga, Gústi, Dídí, Helga, Óli, Ingunn, Lilla, Sigurgeir, Kalli, Didda, Ella Dís, Elsa, Gunnar, Ína, Eggert, Þóra, Birna, Gunnar... og þið öll börn og barnabörn!

Ástarþakkir fyrir allt liðið - mér þykir vænt um ykkur öll og ég veit að þið vitið það!

Sendi engin jólakort í ár - þessi kveðja kemur í staðinn.

Fjölskyldan mín - foreldrar og systkini eiga að sjálfsögðu hlutdeild í þessari jólakveðju en eru ekki talin upp því ég ætla að eyða jólunum með þeim.

sunnudagur, 13. desember 2009

Draumur lítillar stúlku í íslenskri sveit og ótti þeirrar fullorðnu við að hann rætist ekki

Samfélagið Ísland frá hausti 2008 til dagsins í dag er samfélag sem hefur reynst mér erfiðara að sætta mig við en nokkurt annað tímabil samfélagsins Íslands sem ég hef upplifað.

Hvernig samfélagið þróast út úr þeirri stöðu sem það er í dag skiptir mig öllu máli. Mig langar til að lifa í alþjóðlegu samfélagi - punktur. Samfélagi þar sem frelsi ríkir til orðs og athafna. Samfélagi sem ber höfuðið hátt en er lítur hvorki á sig sem betra eða verra en önnur samfélög. Samfélagi þar sem fólk hefur sjálfstæðar skoðanir óháð flokkadráttum.

Ég á í tilvistarkreppu sem aldrei fyrr. Ég er hrædd sem aldrei fyrr. Ég hræðist afturhaldið sem tröllríður umræðunni. Afturhvarfið til gamalla tíma sem hvarflaði aldrei að mér að myndi koma aftur en ég í alvörunni orðin hrædd um að sé það sem bíður okkar.

Ég hræðist stjórnmálin sem eru fullkomlega sjálfhverf og pólitískar skotgrafir alvarlegri og djúpstæðari en nokkru sinni fyrr.

Ráðandi umræða í íslensku samfélagi um vonda útlendinga. Um okkur sem fórnarlömb sem allir eru vondir við er skelfilegur jarðvegur og ekki til þess fallin að leiða neitt gott af sér.

Íslendingar eru ekki fórnarlömb neinna nema sjálfs sín. Það er sannleikurinn fyrir mér. Hrun efnahagskerfisins er ekki innflutt hrun heldur afleiðing vondra stjórnmála.

Það er hægt að snúa við af þeirri braut en það gerist ekki nema að fólk komi út úr skápnum með að segja hvert það vill fara.

Það er hægt að innleiða hér kommúnisma ef að fólk vill það. Það er hægt að leiða yfir okkur einangrun ef fólk vill það. Það er hægt að búa hér til samfélag þar sem allur almenningur býr við áttahagafjötra eins og fyrrum ef að fólk vill það. Það er hægt að fara með samfélagið Ísland aftur á bak í öllu tilliti um fjörutíu ár ef að fólk vill það.

Það er líka hægt að velja aðrar leiðir. Til þess að velja aðrar leiðir verður fólk á Íslandi að gera kröfur um aðrar leiðir. Þeir sem vilja ekki leið afturhaldsins verða að vakna og láta heyrast í sér.

Ég vil aðrar leiðir. Ég vil ekki kommúnísma, einangrun eða samfélag sjálfsvorkunnar. Ég vil að hér verði skapaðar aðstæður þar sem frelsi í viðskiptum er sá grundvöllur sem uppbygging samfélagsins byggir á. Samfélag alþjóðahyggju í stað þjóðernishyggju. Samfélag opins hagkerfis. Samfélag frjálsrar hugsunar . Samfélag fjölbreytni. Samfélag víðáttu. Samfélag sem mig hefur dreymt um frá því að ég var lítil stúlka í íslenskri sveit.

sunnudagur, 6. desember 2009

Sýndarmennskan fullkomnuð

Umhverfisráðherra Íslands er yfirlýsingaglöð á loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn. Segir Íslendinga ekki mega við því að sýna ekki ábyrgð í loftslagsmálum og gefur út að Ísland muni ekki fara fram á viðhald undanþágu sem þeir hafa um leyfilega aukningu útblásturs gróðurhúsalofttegunda.

Fyrir mér er þetta fullkomun sýndarmennsku íslenskra stjórnmálamanna í alþjóðastjórnmálum.

Umhverfisráðherra lætur þess aldrei getið að Ísland er eitt fárra landa í heiminum ef ekki það eina þar sem stærstur hluti orkunotkunar er sjálfbær. Ísland er semsagt í fararbroddi á þessu sviði. Á þeim grundvelli fékk Ísland undanþágu og á þeim grundvelli ættu íslenskir stjórnmálamenn að halda uppi umræðu um þessi mál á alþjóðavettvangi. Vera stoltir af stöðu sinni í þessum málum og sýna ábyrgð í þeim ákvörðunum sem þeir taka. En NEI það er til of mikils mælst. Íslendingar kunna að tala hátt. Það er um það bil það sem þeir kunna best.

Umhverfisráðherra talar um að heimurinn þurfi að breyta lífsstíl sínum og sýna ábyrgð í verki í loftslagsmálum, þar geti Íslendingar verið í fararbroddi. Undir þessi orð umhverfisráðherra er hægt að taka. Sú ábyrgð felst í því að tala um hlutina af heiðarleika og upplýsa um raunverulega stöðu. Það gerir hún ekki frekar en aðrir sem hæst hafa um útblástur gróðuhúsalofttegunda á Íslandi.

Umræða hér um þessi mál eins og flest önnur sem skipta máli í stjórnmálum hér á landi er byggð á óheiðarleika. Að tala hátt og hafa uppi yfirlýsingar en tala ekki um það sem skiptir máli.

Það sem skiptir máli í stóra samhenginu um útblástur gróðurhúsalofttegunda heimsins er orkunotkun. Sjálfbær orkunotkun er markmiðið og það sem allir hljóta að stefna að ef að nást á einhver árangur sem skiptir máli. Þar hafa Íslendingar margt að kenna öðrum þjóðum.

Íslendingar eru umhverfissóðar í mörgu tilliti. En í því sem skiptir einhverju máli hvað varðar útblástur gróðurhúsalofttegunda heimsins eru þeir í fararbroddi. Þökk sé framsýnum stjórnmálamönnum fyrri tíma á Íslandi sem hugsuðu lengra en fram fyrir tærnar á sér.

Eitthvað annað en hægt er að segja um meirihluta stjórnmálamanna á Íslandi í dag sem virðist fyrirmunað að hugsa til framtíðar.

fimmtudagur, 3. desember 2009

Arfleifð Styrmis

Ég hef nokkrum sinnum leyft mér að hleypa út pirringi mínum út í Styrmi Gunnarsson fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins við Fésbókarvini mína. Ég verð að biðja þá hina sömu afsökunar á því. Því í flestum ef ekki öllum tilfellum er um að ræða alsaklaust fólk sem veit ekki hvað á það stendur veðrið þegar ryðjast fram fullyrðingar undirritaðrar uppfullar af reiði út í skoðanir sem hún vill meina að megi rekja til Styrmis sem ritstjóra Morgunblaðsins til margra ára.

Ég ætla að láta síðustu uppákomu í þessa veru verða til þess að ég geri grein fyrir hvaða skoðanir þetta eru helstar sem ég geri Styrmi Gunnarsson sem ritstjóra Morgunblaðsins ábyrgan fyrir að hafa innleitt hjá íslenskum almenningi og sem ég er svona ósátt við.

Fyrst af öllu verður að láta þess getið að þetta er ekki árás á manninn persónulega. Það er aftur á móti þannig að ég held að það sé vandfundinn sá maður sem ég er jafn ósammála í grundvallaratriðum og Styrmir Gunnarsson. Þau eru mörg „tabúin" í umræðu á Íslandi sem ég rek til hans fyrst og síðast og ætla ég hér að gera grein fyrir þeim helstu:

Þjóðareignarhugtakið

eigna ég honum og á honum litlar þakkir fyrir. Ég veit að vísu að hugmyndafræðingurinn er Þorsteinn Gylfason heitinn en sá maður sem fyrst og fremst á heiðurinn að því að þetta hugtak hefur náð þvílíku flugi í huga fólks og raun ber vitni er Styrmir Gunnarsson sem ritstjóri Morgunblaðsins og áróðursmeistari í að halda því á lofti í áratugi.

Fá hugtök hef ég heyrt og séð gera umræðu á Íslandi jafnmikið ógagn en þetta hugtak og gerir enn. Það væra að æra óstöðugan að skrifa meira um það, svo mikið hef ég reynt. Greinar um það eru allar meira og minna aðgengilegar hér á þessu bloggi eða í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu síðustu ár.

Í stuttu máli snúast þær allar um það að orðið „þjóð" og „eign" eiga ekki samleið og er glórulaus vitleysa. Við þekkjum öll orðið „ríki" og eigum að nota það í samhengi við orðið „eign" þegar fjallað er um eitthvað sem íslenskur ríkissjóður á eða vill eiga. Fyrir mér er ekki til betri skilgreining á orðinu „þjóð" en í bók Guðmundar Hálfdánarsonar um Íslenska þjóðríkið þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að þjóð sé í besta falli félagsleg ímyndun.

Fyrirmyndarríkið Sviss

Styrmir Gunnarsson hefur lengi verið baráttumaður fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum og reyndar gengið enn lengra og hefur barist fyrir atkvæðagreiðslum kjósenda um alla mögulega hluti innan sveitarfélaga og í stærra samhengi. Þetta túlka ég sem svo að fyrirmyndarríki hans sé Sviss.

Ég er þessum hugmyndum algjörlega ósammála og geri mér fulla grein fyrir því að ég á mér fáa fylgismenn í þeirri baráttu enda hef ég lítið haldið henni á lofti.

Ég vil sjá faglegt fulltrúalýðræði. Fulltrúalýðræði þar sem við sem kjósendur fáum tækifæri til að velja bestu mögulegu fulltrúana til þings. Fulltrúa sem hafa skoðanir sem þeir vilja berjast fyrir en eru ekki bundnir á klafa flokksátaka frá því þeir stíga inn á svið Alþingis. Ég vil að þessir fulltrúar afli sér bestu mögulegu upplýsinga, takist á við andstæð sjónarmið efnislega með rökum og taki ákvarðanir sem byggja á bestu þekkingu og skoðunum þeirra sjálfra á því hvað hentar heildarhagsmunum okkar best. Ég legg áherslu á orðið „heildar"hagsmunum og þá kem ég að enn einu atriði sem virðist eiga fáa fylgismenn þessa dagana en það er orðið...

Íbúalýðræði

Í þessu orði felst að mínu mati mótsögn. Lýðræði er merkilegt hugtak sem ekki á að leika sér með að vild. „Íbúalýðræði" er ekki til í mínum huga og gjörningar í þá veru að láta íbúa lítils sveitarfélags eða hverfis kjósa um eitthvað sem er fyrst og síðast mál sem snýr að öllum landsmönnum hefur ekkert að gera með orðið „lýðræði".

Besta dæmið til að skýra hvað ég á við er að ég eigi sem íbúi í Laugarneshverfi að eiga einhvern rétt umfram aðra Íslendinga að segja til um hvar Sundabraut skuli verða niðurkomin er fráleitt. Lega brautarinnar sem og staðsetning flugvallarins á að ákvarðast af heildarhagsmunum - ekki af hagsmunum lítils hóps í næsta nágrenni. Slík pólitík er stórhættuleg og býður upp á popúlisma eins og við verðum vör við á hverjum degi í umræðunni. Það getur aldrei verið „lýðræði" að lítill hópur manna geti ráðskast með heildarhagsmuni landsmanna að vild. Það er eins andstætt lýðræði og hugsast getur.

Og þá kem ég að síðasttalda atriðinu sem reyndar á mikið skylt við þessi tvö hér að ofan en það er

Prófkjör

Því hefur verið haldið mjög á lofti hér á landi að prófkjör séu hin „eina rétta lausn" til að velja fulltrúa á lista. Þetta sé lýðræðisleg aðferð og sú besta sem völ er á. Það tel ég algjörlega fráleitt og eins mikil afbökun á orðinu „lýðræði" og hugsast getur.

Prófkjör eru dýrasta fyrirkomulag sem hægt er að viðhafa til að velja fulltrúa á lista og þau eru jafnframt skelfilega óréttlát. Í stóru landsbyggðarkjördæmunum er það augljóst. Þeir sem eru vel þekktir og eiga stórt bakland t.d. úr íþróttafélögum eða félagsstarfi hvers konar, kannski bara þekktir einstaklingar í stórum sveitarfélögum innan kjördæmanna eiga mun auðveldara um vik en aðrir að komast á lista.

Til að prófkjör geti verið „lýðræðisleg" verður að tryggja öllum jafnan aðgang að fjármagni til að kynna sig því það er nú einu sinni svo í nútímasamfélagi að án kynningar veit enginn að þú sért til.

Peningaausturinn sem prófkjör óhjákvæmilega þýða ættu að hafa gert mönnum það löngu ljóst að þetta er ekki rétta aðferðin til að velja fólk á lista og þetta er ekki besta aðferðin heldur.

Það er í raun stórmerkilegt að flokkarnir hafi komist að niðurstöðu um að það að „lotta" með það sem þeir hafa að bjóða í kosningum sé besta aðferðin til að ná árangri.

Læt þetta duga að sinni sem upptalningu á hugmyndafræði Styrmis Gunnarssonar sem náð hefur að verða að „sannleika" í umræðunni síðustu áratugi. Sannleika sem í augum undirritaðrar eru fyrst og fremst tabú og eins fjarri því að vera „sannleikur" og hugsast getur.

miðvikudagur, 25. nóvember 2009

Ég hef heldur aldrei skilið lógíkina hjá þeim sem segjast trúa á guð...

...sagði góður maður við mig rétt í þessu. Fullyrðingin kom í kjölfar ummæla af hálfu undirritaðrar um að það vantaði eitthvað í lógíkina hjá annars góðum mönnum sem kæmust að þeirri niðurstöðu að ESB-aðild væri ekki mál málanna fyrir Íslendinga til framtíðar. Tilvitnunin var svo góð að ég varð að fá að fá að nota hana í fyrirsögn.

Fyrsta frétt sjónvarpsins í kvöld var enn ein fréttin um íslenska krónan hjálpaði Íslendingum svo mikið af því að útflutningsatvinnugreinarnar ganga svo vel með þennan sjálfstæða gjaldmiðil... núna.

Skilaboðin má auðveldlega skilja sem svo að við Íslendingar getum nú aldeilis verið glöð og ánægð með þennan góða gjaldmiðil sem bjargar okkur nú út úr kreppunni.

Ekki ætla ég að gera lítið úr mikilvægi útflutningsatvinnugreinanna, hef verið einarður stuðningsmaður þeirra í öllum mínum skrifum og verð það alltaf. Á það ekki síst við um sjávarútveg í öllu því bulli sem viðhaft er um þá mikilvægu atvinnugrein.

En það eru takmörk. Það eru takmörk fyrir því hvað sá stuðningur getur gengið langt. Takmörkin eru mín persónulegu lífskjör og annarra borgara í þessu landi.

Ég hafna því alfarið að vegna þess að útflutningsatvinnugreinarnar lifa nú góðu lífi vegna krónunnar til skamms tíma þurfi ekki að taka stefnuna á framtíðarlífskjör mín og annarra í landinu til lengri tíma.

Að ég eigi að vera glöð og ánægð með að kaupa te-ið mitt fyrir 550 krónur, ólívudós fyrir sömu upphæð, kaffið mitt fyrir 900 krónur, hvítlauksbrauð fyrir 300 krónur. Eignalaus í sambúð með manni sem skuldar 3 milljónir í bíl sem sem kannski mögulega fást 900 þúsund fyrir.

Að ég eigi að vera glöð og ánægð með að utanlandsferðir heyra sögunni til vegna þess að þær kosta svo mikið. Glöð og ánægð á þessari eyju í Atlantshafinu vegna þess að útflutningsatvinnugreinunum gengur svo vel... í augnablikinu.

Nei þetta er ekki boðleg röksemdafærsla. Það eru takmörk og þau liggja hér.

Langtímastefnu á nothæfan gjaldmiðil sem býður mér lífskjör á við það sem annars staðar gerist er skilyrðislaus krafa og verður ekki fórnað. Ekki einu sinni fyrir útflutningsatvinnugreinarnar... í augnablikinu.

sunnudagur, 22. nóvember 2009

...og svo því sé nú haldið til haga...

Þá er ég ekki óvinur sjávarútvegs eða landbúnaðar á Íslandi. Ég vil ekki fórna þessum atvinnugreinum. Um það snýst aðild að ESB ekki. Aðildarsamningar að ESB snúast um að samningsaðilar séu með hagsmuni Íslands á hreinu og berjist fyrir þeim.

Við stöndum frammi fyrir því núna að gera aðildarsamning við ESB. Hvert mun málflutningur af því tagi sem formaður Sjálfstæðisflokksins bauð okkur upp á í gær leiða okkur í samningaviðræðunum framundan? Máflutningur af þessu tagi hér:

„...ESB vill einsleitni og hvorki undanþágur né frávik... Með því að ganga inn í Evrópusambandið gefum við frá okkur fullt forræði í mikilvægum málaflokkum eins og stjórn fiskveiðiauðlindarinnar. Það er niðurstaðan, sama hvaða skoðun menn hafa á kerfinu sem gildir í Brussel...

Er það svo? Er formaður Sjálfstæðisflokksins semsagt búinn að ákveða niðurstöðu samningaviðræðnanna fyrirfram? Er það góð samningatækni?

Er það samningatæknin sem aðildarfélagar Sjálfstæðisflokksins í fjölbreyttum fyrirtækjum út um allt land viðhafa í samningaumleitunum sínum við erlenda aðila út um allan heim sem þeir eiga viðskipti við?

Meira að segja faðir minn - bóndi sem kvatt hefur ævistarfið áttar sig á því hversu hættulegur áróður andstæðinga ESB er. Áróður Bændasamtakanna sem hann les um í Bændablaðinu á tveggja vikna fresti. Áróður sem byggir ekki á neinu öðru en því að fá aðila í landbúnaði til að vera móti aðild hvað sem það kostar. Áróður er ekki upplýsing. Áróður er innræting.

Máflutningur formanns Sjálfstæðisflokksins í viðtali við Fréttablaðið í gær er af sama meiði. Máflutningur andstæðinga aðildar Heimssýnar er af sama meiði. Áróður og innræting. Áróður í þá veru að fá landsmenn alla til að vera á móti án þess að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni.

Áróður sem felst í því að segja aftur og aftur og aftur að Íslendingar geti ekki náð árangri í samningunum framundan. Að baráttan sé fyrirfram töpuð. Áróður sem er til þess eins fallin að veikja samningsaðila því hvaða þrýsting fá þeir í þessari stöðu um að gera almennilegan samning?

Að sjálfsögðu leggjum við upp í leiðangurinn með þá skýru kröfu að íslenskur sjávarútvegur standi sjálfstæður eftir. Um það á ekki að þurfa að deila og um það geta allir verið sammála.

Verum minnug þess að samningur Möltu við ESB innifelur 77 undanþágur hvorki meira né minna. Hvernig væri nú að upplýsa okkur öll um hvað í þessum undanþágum felst? Maltverjar eru eyja með svipaðan mannfjölda og Ísland. Mun minni og aðstæður aðrar allt aðrar að flestu leyti en það sem sameinar augljóslega er stærð þjóðarinnar. Og að þjóðin býr á eyju sem ekki á áföst við meginlandið. Mikill meirihluti landsmanna á Möltu er mjög ánægður með aðildarsamning að ESB.

Hvernig væri nú að læra af því? Að leggja upp í samningaviðræður full sjálfstrausts og með hagsmuni okkar á hreinu í stað þess að leggja í leiðangurinn með tapaða stöðu fyrirfram?

Pólitík

Íslendingar hafa allt mitt líf umgengist þetta orð „pólitík" eins og það sé slæmt, skítugt - orð sem maður má helst ekki taka sér í munn. Ráðningastofur hafa verið ófeimnar við að segja það upphátt í fyrirlestrum að það sé beinlínis óæskilegt fyrir framgang einstaklinga í íslensku viðskiptalífi að vera „pólitískir". Ég hef þó aldrei séð á glæru frá hinum sömu að það þyki þó gott að vera í liði hins „ópólitíska" flokks Sjálfstæðisflokksins en það er eitthvað sem við öll vitum og höfum alltaf vitað. Það er bara eitt af mörgum hlutum sem aldrei er talað um.

Ég er kominn á þann stað í lífinu núna að ég neita að taka þátt í þessari þöggun og meðvirkni lengur í íslensku samfélagi. Eftir skelfilegustu tegund hagsveiflu sem hugsast getur,. Fyrst gullaldaræði í hæstu hæðum þar sem græðgin var ráðandi afl og síðar hruns þar sem smásálarhátturinn og sjálfsblekkingin eru allsráðandi er mál að linni. Nú er tími játninga og fullkomins heiðarleika runninn upp.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki meira virði en framtíð íslensku þjóðarinnar. Framtíð okkar allra byggir á þeim ákvörðunum sem teknar eru núna og þar er full aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru grundvöllur að betri lífskjörum til framtíðar. Það er einlæg sannfæring mín og sú sannfæring byggir á reynslu og aftur reynslu og engu öðru. Reynsu af alþjóðaviðskiptum, opnun innri markaðarins, tilkomu evru og síðast en ekki síst þess að hafa starfað í íslensku inn- og útflutningsumhverfi allan þennan tíma með íslenska krónu sem gjaldmiðil.

Þeir eru eflaust margir sem skilja ekki hvað ég er að fara. Skilja ekki hvað ég geri Sjálfstæðisflokknum hátt undir höfði. Það vill þannig til að Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem lengstum hefur talist flokkur atvinnulífsins því ber sá flokkur mun meiri ábyrgð í þeirri stöðu sem við erum í en nokkur annarr flokkur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengstum verið stærsti flokkurinn og hann hefur verið við stjórnvölinn í næstum tvo áratugi samfleytt. Hann hefur leitt okkur inn í mestu uppsveiflu íslensks samfélags sem reyndist byggð á fullkomnum sandi og leiddi til skelfilegra afleiðinga en nokkurt okkar gat ímyndað sér. Að sitja uppi með þennan flokk í dag með óbreytta stefnu er óþolandi staða. Óþolandi fyrir íslenskt atvinnulíf og óþolandi fyrir íslenskan almenning. Við eigum betra skilið.

Þetta er pólitík sem þarfnast endurskoðunar við. Þetta er pólitík sem setur Flokkinn í forgrunn en skilur Íslendinga og framtíð þeirra eftir. Sjálfsblekkinguna og afneitunina á stöðu gjaldmiðilsins var hægt að fyrirgefa í góðærinu - en nú eftir hrunið er þessi sama sjálfsblekking og afneitun ófyrirgefanleg. Hún ber þess merki að þessum Flokki - Sjálfstæðisflokknum - er ógerlegt að takast á við það sem verður að takast á við. Að Flokkurinn - er orðinn einn helsti dragbítur á framfarir í íslensku samfélagi. Viðtalið við formann Flokksins í Fréttablaðinu í gær gerir það endanlega ljóst.

Orð flokksformannsins í gær um íslensku krónuna eru sem blaut tuska framan í okkur öll sem búum við stórkostlega skert lífskjör vegna veikrar stöðu hennar. Að Flokkurinn hafi ekki aðra sýn en þá að allt sé í himnalagi vegna þess að útflutningsatvinnugreinarnar búa við betri stöðu núna til skamms tíma vegna veikrar krónu sýnir fullkomið skilningsleysi gagnvart öðrum atvinnugreinum. Atvinnugreinum sem er að blæða út mörgum hverjum vegna þess sama. Vegna erlendra skulda sem eru tvöfalt hærri en fyrir hrun. Vegna aðfangakaupa sem eru tvöfalt hærri í verði en fyrir hrun.

Er í lagi að mati aðildarfélaga Sjálfstæðisflokksins að fórna atvinnustarfsemi hægri, vinstri til eins að halda Flokknum saman?

Staða gjaldmiðilsins er ekkert grín. Staða gjaldmiðilsins er ekkert aukaatriði. Staða gjaldmiðilsins er aðalatriði og hefur verið aðalatriði í íslensku efnahagslífi allt mitt líf sem bráðum fyllir fimm tugi. Það er skýlaus krafa að stjórnmálaflokkar á Íslandi sem vilja láta taka sig alvarlega komi með framtíðarstefnu um gjaldmiðil til framtíðar sem mark er á takandi.

Krafan er sterkari á Sjálfstæðisflokkinn en aðra flokka beinlínis vegna þess að Sjálstæðisflokkurinn telur sig vera flokk atvinnulífsins á Íslandi. Slíkum flokki fyrirgefst ekki stefnuleysi í gjaldmiðilsmálum eftir ris og hrun íslensks efnahagslífs. Tími stefnu er runninn upp. Tími stefnuleysis er að baki.

sunnudagur, 15. nóvember 2009

Áhyggjum deilt

Ég gerði að umræðuefni hér í smápistli áhyggjur mínar af því hvort að búið væri að gera klárt að allir sem koma að ESB samningaviðræðum viti hvert verkefnið er. Að verkefnið snýst um íslenska hagsmuni og ekkert annað. Að ná fram bestu mögulegum samningum við Evrópusambandið sem síðan verði lagðir í dóm þjóðarinnar.

Mig langar að halda aðeins áfram með þessar hugleiðingar. Þetta mál snýst um heiðarleika og er því vel við hæfi.

Ég hef raunverulegar áhyggjur af því ríkjandi viðhorfi margra að Ísland megi ekki sækja um undanþágur frá einu eða neinu . Að ekki megi leggja áherslu á sérstöðu Íslands um neitt. Því viðhorfi að það sé mikilvægt að Ísland undirgangist allt án þess að gera neinar kröfur. Slíkt viðhorf sýni svo mikla ábyrgð. Að með því að sækjast ekki eftir viðurkenningu á sérstöðu sýni Ísland svo mikla ábyrgð og sú afstaða geri landið að fyrirmyndarríki.

Ég hef raunverulega miklar áhyggjur af þessari afstöðu margra og þykir hún bera vott um hið gagnstæða við heiðarleika - sýndarmennsku. Sýndarmennsku sem oft er grunnt á í íslensku samfélagi.

Það skelfir mig að heyra málsmetandi fólk í áhrifastöðum tala af ábyrgðarleysi um sérstöðu Íslands í ýmsum málum, sérstöðu sem er raunveruleg og ástæða til að leggja áherslu og gera að aðalatriði.

Umræðan hér innanlands um umhverfismál er skýrasta dæmið sem ég á um þetta. Umræða þar sem lítið er gert úr undanþágu Íslands í Kyoto sem byggir fyrst og síðast á sérstöðu Íslands sem ríki sem náð hefur meiri árangri en aðrar þjóðir í notkun sjálfbærrar orku. Það er beinlínis sárt og vont að heyra talað um þessa undanþágu eins og hún sé af hinu vonda og eitthvað sem Íslendingar þurfa að skammast sín fyrir.

Fleiri skýr dæmi á ég í handraðanum um þetta sama viðhorf. Það hræðir mig að vita af því í viðræðunum framundan. Sá undirlægjuháttur og sýndarmennska sem að baki liggur hræðir mig raunverulega og skapar vantraust um að aðilar geri sér grein fyrir hvert verkefnið er. (Með "aðilum" er vísað til stórs hóps - baklands samninganefndarmanna sem erum við öll).

Reynsla af viðhorfi íslensku stjórnsýslunnar til núverandi stöðu Íslands á grundvelli EES samningsins er sama marki brennd. Viðhorf sem einkennist af vilja til að innleiða gerðir með meira íþyngjandi og harkalegri hætti en þarf þar sem skortur á skilningi íslensku atvinnulífi og íslenskum hagsmunum er áberandi er ekki til þess fallin að skapa traust til þessara aðila um að vera bestu samningamennirnir.

Það er ósk mín að Íslendingar vinni af heiðarleika í samningaviðræðunum framundan. Að þeir leggji til hliðar alla sýndarmennsku og sjálfsblekkingu og stefni að því einu að vinna að sem bestum samningi fyrir Ísland með heildarhagsmuni að leiðarljósi.

Aðalatriði þegar lagt er af stað er að vita hvar við erum. Við þurfum að vera heiðarleg og horfast í augu við stöðu okkar í dag. Við erum aðilar að EES samningnum - hvað þýðir það? Er ekki augljós ástæða til að við ræðum það? Eða viljum við halda áfram að vera óheiðarleg og lifa í sjálfsblekkingu um þá stöðu?

Heiðarleiki er stórt orð og mikilvægt í öllum mannlegum samskiptum. Erum við Íslendingar tilbúin að vera heiðarleg í raun?

Heiðarleiki er kjörorðið

Heiðarleiki var kjörorð númer eitt af þjóðfundi í gær, virðing númer tvö. Ég óska þess heitt að fundarmenn fylgi því eftir að gera kröfu um nákvæmlega þetta tvennt í samfélaginu okkar. Fátt væri okkur hollara en nákvæmlega þetta tvennt.

Heiðarleiki og virðing eru ekki þau orð sem mér dettur helst í hug þegar ég horfi á íslenskt samfélag síðasta árið. Óheiðarleiki og óvirðing hefur mér því miður sýnst miklu sterkarfi öfl í íslensku samfélagi síðustu misseri. Það eitt að þessi tvö orð heiðarleiki og virðing hafi verið efst á blaði þjóðfundar í gær gefur von um að breytinga gæti verið von og það eitt er mikilvægt.

Brýnasta viðfangsefnið sem við þurfum að gera kröfu um er heiðarleiki og virðing stjórnmálanna. Hvernig ætlum við að fylgja því eftir? Við getum verið viss um að til að ná fram breytingum þar þurfum við að sjá til þess að þær verði. Hvernig gerum við það?

Fyrst og síðast þurfum við að vera heiðarleg gagnvart okkur sjálfum - erum við það? Sýnir íslenskur almenningur almennt virðingu í samfélaginu í dag og krefst hann heiðarleika af sjálfum sér fyrst og síðan af öðrum?

fimmtudagur, 12. nóvember 2009

Stendur til að gera besta mögulega samning fyrir Ísland og Íslendinga?

Er örugglega hægt að treysta því að það standi raunverulega til að gera besta mögulega samning við ESB fyrir Ísland og Íslendinga? Er búið að ganga frá því að allir sem að koma viti að samningaviðræðurnar snúast um hagsmuni. Að verkefni samningamanna er að ná bestu mögulegu samningum með hagsmuni Íslands og Íslendinga að leiðarljósi?

Hversu líklegir eru forsvarsmenn stjórnmálaflokka og hagsmunsamtaka sem fyrirfram eru harðir í andstöðu sinni við aðild til þess að gefa fulltrúum sínum skýr skilaboð um hvert verkefnið er? Hversu líkleg er íslensk stjórnsýsla sem í mörg ár hefur unnið af miklum metnaði fyrir erlendar eftirlitsstofnanir til að breyta því viðhorfi sínu og hugsa um íslenska hagsmuni fyrst og fremst?

Er það svo að allir þessir aðilar séu með á hreinu að besta mögulega samningi til að leggja fyrir Íslendinga skuli náð? Fulltrúar allra stjórnmálaflokka, fulltrúar stjórnsýslu, fulltrúar hagsmunasamtaka?

Samingaviðræður við ESB eru svo óþægilegt mál í kolvitlausu umhverfi stjórnmálaflokka landsins að það skapar óöyggi og vantraust. Undirrót þeirra tilfinninga liggur í hræðslu allra við að tala um það sem skiptir máli og ekki síður gera kröfur til þess sem skiptir máli. Vantraustið snýr ekki að samninganefndinni sem slíkri - alls ekki - heldur að samfélagi sem gefur engar vísbendingar um að skilja um hvað málið snýst.

Flokknum sínum fylgir stór hluti kjósenda enn þrátt fyrir allt sem á undan er gengið. Ónýtan gjaldmiðil sem skerðir lífskjör okkar meira en nokkuð annað þarf ekki að ræða vegna þess að flokkurinn minn sér ekki ástæðu til þess. Flokkurinn er heilagari en allt. Flokkurinn er mikilvægari en lífskjör okkar allra eða framtíðarhorfur.

Ekkert hefur farið verr með lífskjör almennings á Íslandi í áratugi en þessi skelfilegi gjaldmiðill og hann gerir það enn. Það er þó ekkert til umræðu. Meirihluti stjórnmálaflokkanna er enn með óbreytta stefnu um að íslensku krónunni skuli viðhaldið. Það þrátt fyrir að allur íslenskur almenningur horfist í augu við stórkostlega skert lífskjör vegna stöðu hans. Utanlandsferðir eru lúxus fortíðar, laun lækka, skattar hækka, vextir eru jafnháir og fyrr, neysluvara og öll þjónusta hefur hækkað stórkostlega í verði. Allt vegna þess að krónan er ónýt.

Það er svo skrítið að þó að enginn fari í grafgötur með að pistlahöfundur hér sé sannfærður ESB sinni þá hefur hún jafnsterkar skoðanir á því að það sé mikilvægara en allt annað í því ferli sem framundan er að allir séu með á hreinu hvert verkefnið er. Það er aðalatrði málsins og það eina sem skiptir máli.

Hefur verið gert ljóst hver núverandi staða er? Eru Íslendingar almennt meðvitaðir um það? Umræðan bendir ekki til þess - miklu fremur bendir hún til þess gagnstæða. Enginn hefur í öllu þessu ferli frá því að umræðan kom fyrst upp af krafti séð ástæðu til að ræða að „reglugerðarfarganið" er meira og minna að koma yfir okkur nú þegar og það sem meira er túlkað eins þröngt og íþyngjandi og mögulegt er frá sjónarhóli lögfræðinga sem líta á ESB gerðir sem lög sem verði að fylgja í hvívetna. Hugleiðingar um það hafa verið birtar hér áður:http://signysig.bloggar.is/blogg/436638/Loggjafarvald_eda_logfraedingavald

Ef að við öll - landsmenn lifum í sjálfsblekkingu varðandi stöðuna í dag - hversu líkleg erum við þá til að veita það aðhald sem þörf er á í þessari umræðu?

Það er vont að treysta því ekki að allir séu meðvitaðir um hvert verkefnið er. Hlutverk samningamanna getur ekki verið neitt annað en að ná bestu mögulegu samningum til að leggja í dóm þjóðarinnar að samningaferli loknu. Er einhver von til þess að landsmenn sjái til þess að passað verði upp á hagsmunina í málinu ef meirihluti þeirra er búinn að ákveða niðurstöðuna fyrirfram?

þriðjudagur, 3. nóvember 2009

Vitlaus pólitík

Árum saman hafa íslensk stjórnvöld haft það að sérstöku markmiði að flytja ríkisstofnanir út á land með tilheyrandi kostnaði og óhagræði fyrir alla. Rökin að baki þessari hugmynd hafa verið þau að búa til störf úti á landsbyggðinni.

Ég hef aldrei skilið þessa pólitík. Hefur fundist hún lykta af því að stjórnmálamenn átti sig ekki á því hvað það er sem skiptir máli. Að það eitt sé eftirsóknarvert að „búa til störf" úti á landsbyggðinni óháð því hvers konar störf það eða hvað þau leiða af sér.

Núverandi ríkisstjórn þarf að fást til þessa vitlausu pólitík í núverandi ástandi. Nú þegar ekki þýðir annað en draga saman eins og kostur er í ríkisrekstrinum og leita þarf mestu mögulegu hagkvæmni og skilvirkni í stjórnsýslunni sem annars staðar er augljóslega eftirsóknarvert að fækka embættum ríkisins og draga sem kostur er úr dreifingu þeirra. Þá mótmæla landsbyggðar- og sveitarstjórnarmenn og tala um „aðför að landsbyggðinni" og orðfæri í sama dúr. Þar með er hagræði í ríkisrekstri orðin að byggðamáli.

Þetta er dæmi um hvert vitlaus pólitík leiðir okkur. Hún leiðir okkur á rangar brautir og leiðir til meiri kostnaðar til lengri tíma. Það skiptir máli að fara vel með peninga ríkisins - alltaf - líka þegar vel árar.

Það fer best á því alltaf að hugsa sem mest um skilvirkni og mesta hagkvæmni ríkisrekstrarins og að stjórnsýslan sé staðsett þar sem best fer á því að hún sé staðsett út frá heildinni en ekki út frá einstökum byggðarlögum eða skorti á framboði starfa þar á tilteknum tíma.

Skort á störfum á landsbyggðinni á ekki að reyna að svara með því að færa störf ríkisins þangað - það er röng stefna. Skort á störfum á landsbyggðinni verður aðeins mætt með raunverulegri verðmætasköpun - atvinnurekstri sem skiptir máli og hefur þýðingu til lengri tíma fyrir byggðarlagið.

Skortur á langtímahugsun og framtíðarsýn er Íslendingum dýr í þessu tilliti sem öðru.

mánudagur, 2. nóvember 2009

Hugleiðing um Jón Ásgeir án ábyrgðar í bak og fyrir...

Þar kom að því hugsaði ég þegar ég hlustaði á fréttir kvöldsins, þá er komið að hápunktinum. Verður veldi Jóns Ásgeirs endanlega hrundið eða ekki? Ég skal játa að fréttaflutningur helgarinnar um málefni þessa fyrirtækis og mögulegar afskriftir skulda þess fóru algjörlega framhjá mér og því veit ég ekkert um hvað það mál snýst nema það sem ég gat ályktað af fréttum kvöldsins.

Ég hef aftur á móti haft áhuga á Jóni Ásgeiri Jóhannessyni lengi sem viðskiptajöfri á Íslandi og ætla ekki að fara í neinar grafgötur með það. Mig hefur lengi langað til að vita hvort að Jón Ásgeir Jóhannesson sé óheiðvirður drullusokkur sem svífst einskis til þess að svíkja og pretta eða hvort að hann sé ótrúlega klár businessmaður sem nýtur trausts og virðingar hjá þeim aðilum sem hann á viðskipti við... Erlendis er óhjákvæmilegt að láta koma á eftir því Jón Ásgeir Jóhannesson hefur lengi verið hataður af þeim aðilum innanlands sem áttu meira og minna öll fyrirtæki landsins áður en hann kom til og því ekki alveg sanngjarnt að halda að hann gæti nokkru sinni notið sannmælis þeirra á meðal.

Jón Ásgeir Jóhannesson er sá maður í íslensku viðskiptalífi sem gerði hvorki meira né minna en að hrinda áratugaveldi sérhagsmunahóps Sjálfstæðisflokksins og fyrir þær sakir hefur hann ekki átt stóran vinahóp í röðum áhrifamanna á Íslandi. Forsætisráðherra landsins var í grímulausu stríði við manninn opinberlega árum saman og leyndi því ekkert. Ekkert sem frá forsætisráðherranum kom var þess eðlis að sú sem þetta ritar hafi lagt trúnað á það, til þess var forsætisráðherrann margnefndi of tengdur þeim sérhagsmunahópi sem tapaði stórum hluta sinna áhrifa á kostnað samkeppni sem þessi maður innleiddi svo myndarlega að íslenskur markaður varð ekki samur eftir.

Yfirlýsingar forsætisráðherra og annarra honum tengdum voru allaf persónugerðar gegn veldi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Einmitt það gerði málflutninginn svo ótrúverðugan fyrir manneskju eins og mig sem hafði allt mitt líf búið við viðskiptablokkir Kolkrabbans og Sambandsins. Það voru ekki eðlilegir viðskiptahættir viðhafðir á þeim markaði og þess vegna var ekki nóg að heyra fullyrðingar um sá sem hrinti þeim markaði væri glæpamaður sem ætti að taka úr umferð án dóms og laga.

Af því að fullyrðingar forsætisráðherrans einar og sér um þennan einstakling dugðu ekki til að maður tryði var maður settur í hóp með honum - óvininum. Það að leyfa sér að gagnrýna málflutning forsætisráðherrans um að veldi þessa manns skildi hrundið með öllum ráðum var nægilegt til þess að maður var í liði með honum - á móti forsætisráðherranum og fylgdarliði hans.

Ég þekki ekki Jón Ásgeir Jóhannesson persónulega og hef aldrei notið fyrirgreiðslu hans af einu eða neinu tagi en hann hefur vakið áhuga minn og sá áhugi er enn til staðar. Áhugi á að vita meira um hann og hvað er rétt og hvað er rangt af því sem um hann er sagt.

Það er ekki vafi í mínum huga að honum tókst það sem engum öðrum hafði tekist á undan honum og kannski ekki einu sinni gert tilraun til. Hann stofnaði verslun þar sem leiðarljósið var mest möguleg hagkvæmni í innkaupum og flutningum sem skilaði sér til neytenda. Bónus varð til og þó að Jóhannes faðir Jóns Ásgeirs hafi alltaf verið andlitið á bak við Bónus grunar mig að sonurinn hafi stjórnað fyrirtækinu og stefnu þess og framkvæmd frá upphafi og að hans hugmyndir hafi gert það að því veldi sem það er.

Ég heyrði af því sögur að Jón Ásgeir hafi ekki átt marga vini þegar hann var að byggja upp Bónus en einhvern veginn tókst honum það nú samt. Honum tókst að opna verslun sem leiddi af sér meiri kjarabætur fyrir almenning og láglaunafólk á Íslandi en nokkur önnur aðgerð stjórnvalda, stéttarfélaga eða annarra fyrirtækja hafði haft fram að því í minni tíð.

Hann hvorki meira né minna en bylti verðlagningu á neysluvöru á Íslandi og þó ekki sé nema fyrir það ætti hann að eiga einhverjar þakkir skildar. Bara sú stefna fyrirtækisins að selja vörur í verslunum keðjunnar út um allt land á sama verði og þannig jafna flutningskostnaðinn fyrir neytendur úti á landi var meiri kjarabót en almenningur hafði áður fengið að njóta í verslunum út um land.

Hann lét ekki þar við sitja heldur braut hann niður verðlagningu skipafélaganna líka með stofnun innkaupafyrirtækisins Baugs en nú eru sennilega allir búnir að gleyma því að upphaflega var Baugur innkaupafyrirtæki. Eftir tilkomu Baugs þýddi ekki lengur að selja flutning á gámum algjörlega eftir innihaldi þeirra heldur varð gámaflutningur eining sem varð að verðleggja sem slíka. Bara það atriði grunar mig að hafi haft meiri áhrif á hagkvæmni annarra fyrirtækja í innflutningi til landsins en hvarflar að okkur og þar með væntanlega og vonandi á verðlagningu á innflutningi til okkar allra.

Starfsmannastefna fyrirtækja í eigu Jóns Ásgeirs hefur komið manni fyrir sjónir sem öðruvísi en annarra fyrirtækja á Íslandi. Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að Jón Ásgeir hafi hlustað á hugmyndir einstaklinga í fyrirtækjum sem hann keypti og leyft þessum einstaklingum að koma hugmyndum sínum í framkvæmd sem ekki einu sinni fékkst áheyrn hjá stjórnendum um áður. Ég hef líka oft hugsað hvað það er eftirtektarvert hversu marga einstaklinga ég hef komist í kynni við sem hafa nánast verið aldir upp í Bónusverslunum og eru bara þar ár eftir ár og fá með tímanum að njóta meiri ábyrgðar.

Bókhald fyrirtækja í eigu Jóns Ásgeirs hefur bókstaflega verið í gjörgæslu stjórnvalda árum saman án þess að nokkur skapaður hlutur hafi komið út úr því nema einn vafasamur reikningur.

Það getur vel verið að þetta séu allt saman tilviljanir og Jón Ásgeir sé meiri drullusokkur og óheiðarlegri en aðrir. Til þess að sannfæra mig um það er þó ekki nóg að Lilja Mósesdóttir, Margrét Tryggvadóttir eða Bjarni Benediktsson segi það frekar en forsætisráðherrann Davíð Oddsson forðum.

Ekki heldur er nægilegt fyrir mig að heyra dómstól götunnar hrópa að veldi hans skuli brotið á bak aftur hvað sem það kostar af því að hann sé „útrásarvíkingur".

Nei hér þarf að vanda sig eins og í öllu sem gert er - alltaf. Það er ekki hægt að gera kröfu á Nýja Kaupþing um að gera eitt eða annað núna - af því að almenningur krefst þess. Það væri skelfileg niðurstaða.

Mér er fyrir löngu síðan orðið ljóst að það er tómt mál að tala um að allar ákvarðanir sem teknar eru innan bankanna núna verði okkur öllum ljósar eða að skapi að ekki sé talað um sanngjarnar að okkar mati. Það er ótrúlegt verk sem unnið er innan bankanna núna og það fólk sem hefur þann starfa er svo sannarlega ekki öfundsvert, ekki síst þar sem þakklætið fyrir verkin er ekkert nema vanþakklæti og óánægja. Annað er óumflýjanlegt í því andrúmslofti ofsókna sem hér hefur verið komið á. Ofsókna sem títtnefndur fyrrverandi forsætisráðherra ýtti úr vör og öll þjóðin tekur undir ómeðvitað.

Traust fyrirtækja ávinnst ekki á einum degi með því að skipta út. Það er grundvallarmisskilningur sem margir vilja halda á lofti. Traust Alþingis hefur ekki aukist nema síður sé við öll þau útskipti sem þar hafa orðið á síðustu tveimur þingum. Nei traust ávinnur maður sér með hegðun sinni á löngum tíma.

Skyldi það geta verið að Jón Ásgeir njóti trausts innan Kaupþings banka? Gæti verið pínulítill möguleiki á því að hann eigi slíkt traust skilið?

Hér verður að vera alveg skýrt að sú er þetta ritar hefur ekki hugmynd um það - frekar en hún hefur hugmynd um hvort hann eigi ekki að njóta trausts. Höfundur þessa pistils er ekki blind eða heyrnarlaus og er vel meðvituð um að krosseignatengsl aragrúa fyrirtækja sem Jón Ásgeir stendur á bak við eða hefur staðið á bak við hljóta að vekja spurningar sem þarft er að upplýsa. Það getur vel verið að allt sem á manninn hefur verið borið eigi eftir að koma í ljós að sé rétt.

En þangað til það liggur fyrir á ég enga ósk heitari en að til málsins verði vandað sem kostur er. Fyrst og síðast að stjórnmálamennirnir okkar geri okkur öllum þann greiða að láta vera að taka Davíð Oddsson sér til fyrirmyndar í þessu máli með því að skipa sér í flokka með og á móti einstaklingnum Jóni Ásgeiri - eða reyna að hafa áhrif á ákvörðun bankans í málinu. Það er hlutverk stjórnmálamanna að búa til ramma fyrir fyrirtæki að starfa eftir. Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að kveða upp úr sekt eða sakleysi manna - jafnvel ekki einu sinni þó um sé að ræða Jón Ásgeir Jóhannesson.

Sagan sem að baki þessu liggur er einfaldlega of stór og of fyrirferðarmikil til þess að hægt sé að einfalda málið með því að taka ákvörðun sem byggir á nafni hans. Ísland vill ekki vera land sem afgreiðir hlutina með sama hætti og Pútin gerði í Rússlandi - er það?

Ef við ætlum að reisa nýtt Ísland úr rústum og gera það með þeim hætti að þjóðfélagið sem rís úr rústunum verði öðruvísi en það sem fyrir var verðum við að hafa þolinmæði og þrek til að standa gegn dómstól götunnar hvar sem hann finnst - hvort sem hann er á Alþingi eða annars staðar.

sunnudagur, 1. nóvember 2009

Þegar stór tíðindi gerast eiga litlir kallar að þegja

Þegar stór tíðindi gerast eiga litlir kallar að þegja. Þessi tilvitnun í Stein Steinarr var skrifuð á borð þar sem ég naut matar í dag. Þessi orð eiga erindi í samfélag okkar í dag og ástæða til að vekja athygli á þeim.

Frá upphafi hruns fyrir ári síðan hefur það hrætt undirritaða það vægi sem smásálarlegur málflutningur hefur haft í íslensku samfélagi og nú ári síðar er þessi sami smásálarsöngur að festa sig enn frekar í sessi. Smásálin hugsar smátt og veröld hennar er smá. Hún viðheldur einangrunar- og þjóðernishyggju og sér óvini og óvildarmenn í hverju horni.

Það sem er enn verra við samfélagið Ísland í dag en smásálin er hið markvissa niðurbrot á öllu sem byggt hefur verið upp síðustu áratugi. Ekkert er lengur heilagt. Samningar eru þar ekki undanskildir.

Samstarf aðila vinnumarkaðarins sem loksins tókst að koma á eftir áralangan stöðugan ófrið sem engu skilaði skal nú brotið niður með markvissum hætti. Ráðamenn leyfa sér að hæðast að samstöðu þessara aðila og baráttu þeirra og þrýstingi á stjórnvöld að standa við þegar gerða samninga.

Árangur sem náðst hafði í jafnréttismálum með áratuga markvissu starfi í félagi eins og VR var hent á haugana á einum degi. Það sama virðist eiga að gera núna með samstöðu aðila vinnumarkaðarins.

Ekkert veldur mér meiri áhyggjum en nákvæmlega þetta atriði. Að þó sá árangur sem náðst hefur að byggja upp í íslensku samfélagi síðustu áratugi skuli allur brotinn á bak aftur og við förum fullkomlega aftur til fortíðar í öllu tilliti. Samfélags þar sem hver höndin var upp á móti annarri - alltaf - og þeir sem fyrst og fremst þjáðust fyrir - allur íslenskur almenningur.

Ábyrgðarleysi alþingismanna í þeirri stöðu sem við erum er svo óþolandi að því verður ekki með orðum lýst. Það er ekki þeirra hlutverk að brjóta niður með markvissum hætti þær stofnanir samfélagsins sem byggðar hafa verið upp og varða okkur miklu.

Hvar eru eiginlega skynsemisraddirnar? Leiðtogar til að lyfta okkur upp úr þessu skelfilega smásálarþjóðfélagi sem Ísland er að verða ef það er ekki þegar orðið? Leiðtogar sem tala okkur upp og gefa okkur von?

þriðjudagur, 27. október 2009

Hugleiðing um læriföður og íslenskt viðskiptaumhverfi

Áframhaldandi umræður á fésbókarsíðu bróður míns í dag um skattgreiðslur fyrirtækja minntu mig á samtal sem ástæða er til að rifja upp.

Þetta var samtal sem ég átti við Kristján heitinn Jónsson stofnanda og eiganda K. Jónssonar niðursuðuverksmiðjunnar á Akureyri. Eitt skipti af mörgum þar sem hann var í hlutverki læriföðursins og ég nemandans sem drakk í mig allt sem hann hafði að segja.

Hann var að ganga mér um verksmiðjusvæðið og segja mér sögu fyrirtækisins og bakgrunn. Hann sagði mér að ég áttaði mig kannski ekki á því en fyrir ekki svo mörgum árum hefðu Íslendingar varla þekkt hugtök eins og "eigið fé" eða "hagnað".

Bókhaldsþekking hefði verið af mjög skornum skammti og sannarlega ekki verið aðalatriði í rekstri fyrirtækja eins og hans. Því miður man ég ekki samtalið í smáatriðum og get því ekki endurtekið það en það sem stimplaðist inn var þessi vitneskja hversu stutt var síðan að íslenskt samfélag fór að þróast fyrir alvöru.

Kristján dáði Dani og Þjóðverja og naut þess að segja mér reynslusögur af þeim og hversu miklar fyrirmyndir þeir væru í rekstri fyrirtækja. Þeir væru fagmenn. Kynnu rekstur og hefðu þekkingu á viðskiptum og síðast en ekki síst kynnu að selja en það var eitthvað sem Kristján taldi Íslendinga alls ekki kunna. Hann sagði mér margar sögur af því hversu ótrúlega snjallir Danir væru í að versla með alla skapaða hluti. Fengju hugmyndir að samsetningu einhverra hluta og selja þá aftur með öllum þeim virðisauka sem í samsetningu þeirra fólst.

Danir eiga engar auðlindir og því hafa þær ekkert verið að þvælast fyrir þeim. Þeir hafa því þurft að sýna útsjónarsemi og hugvit til lífsviðurværis og auðvitað hafa þeir búið að staðsetningunni sem kannski má til sanns vegar færa að sé "auðlind" í sjálfu sér.

Það skemmtilega var að ég var sammála Kristjáni. Vann í umhverfi þar sem ég gat myndað mér skoðanir á því sem hann var að segja og ég var algjörlega sammála honum. Þessar tvær þjóðir hafa alltaf verið mitt uppáhald í viðskiptum og ég óskaði þess oft í bægslaganginum sem landar mínir viðhöfðu að þeir hefðu nú vit á því að læra meira af þessum nágrannaþjóðum, ég óska þess oft enn... í hljóði.

Þegar ég fór svo löngu síðar í Viðskiptaháskólann á Bifröst og fór að takast á við ýmiss lög og reglur viðskiptaumhverfisins áttaði ég mig á að allt var þetta meira og minna komið inn í íslenskan rétt vegna EES samningsins. Lög um bókhald (ef ég man rétt...), og nú brestur mig minni... man þetta ekki en meira og minna allt sem komið hafði reglu á íslenskt fyrirtækjaumhverfi kom inn vegna EES. Erlend áhrif höfðu þannig haft gríðarleg áhrif á þróun laga og reglna utan um íslenskt viðskiptaumhverfi á örfáum árum. Þó reyndar væri líka mjög áberandi hversu oft íslenski löggjafinn misskildi meginmálið og gerði afdrifaríkar vitleysur.

Þessi reynsla sem vísað er til hér að ofan kenndi mér margt. Hún kenndi mér að Íslendingar mættu svo gjarna að ósekju hætta oflátungshætti og sýna meiri auðmýkt og vilja til að læra af öðrum þjóðum sem í flestum tilfellum byggja á árhundraða reynslu umfram þá í viðskiptum. Þeir mættu líka að ósekju læra að bera virðingu fyrir fagmennsku og þeim atvinnugreinum sem hafa gert þeim kleift að lifa af og ekki bara það - heldur búa þeim lífskjör á við þau bestu í heimi.

Guðbergur Bergsson á einhverju sinni að hafa sagt "Íslendingar hafa alltaf hatast út í það sem þeir lifa á" Ég hallast að því að sú skilgreining sé rétt hvort sem rétt er eftir haft eða ekki. Íslendingar kunna fátt betur en að hatast út í þær atvinnugreinar sem fyrst og síðast hafa búið til undirstöður fyrir þau lífskjör sem við öll njótum. Er ekki kominn tími til að við förum að horfast í augu við það?

laugardagur, 24. október 2009

Meira um góðar og vondar atvinnugreinar

Vegna óbilandi áhuga á málefninu langar mig að halda aðeins áfram með hugleiðingar um góðar og vondar atvinnugreinar og gagnsleysi umræðu á þeim forsendum.

Átti lítið samtal um þetta á fésbókarsíðu bróður míns í dag en viðkomandi bróðir minn er Framsóknarmaður sem ég er ekki. Við erum þó oft sammála þegar að því kemur að ræða almennt um atvinnugreinar enda bæði alin upp í sveit sem er sá bakgrunnur sem við bæði höfum og hefur óhjákvæmilega mótað okkur þó niðurstaðan um hvar við staðsetjum okkur í pólitík sé ekki sú sama. Það er rétt að halda því til haga að þó það leyni sér ekki að ég styð ákveðinn flokk þá er ég ekki aðili að stjórnmálaflokki og þetta efni sem hér er til umræðu er einmitt ástæða þess.

Umræðan sem blossað hefur upp síðustu misseri um nauðsyn þess að skattleggja tilteknar atvinnugreinar umfram aðrar er umræða sem ég skil ekki. Er alveg tilbúin að hlusta á rök fyrir því og heyra af samanburði við skattlagningu sambærilegra atvinnugreina í öðrum löndum en ég er ekki tilbúin að hlusta á tilfinningaþrungna umræðu á þeim nótum að sjávarútvegurinn sé "þjóðareign" og þess vegna eigi þessi atvinnugrein að greiða sértæka skatta í ríkissjóð umfram aðrar atvinnugreinar. Það sama er uppi á teningnum hvað varðar orkuskatta á stóriðju. Það eru ekki nægileg rök að heyra hástemmdar yfirlýsingar um að áliðnaður sé svo "vond" framleiðsla að þess vegna eigi þessi atvinnugrein að greiða sértæka skatta í ríkissjóð.

Ég kaupi alveg þær hugmyndir að það sé ekki skynsamlegt að við förum úr einum öfgunum í aðrar. Förum úr því að lifa á sjávarútvegi, bankastarfsemi í skamman tíma og svo sé það stóriðjan. Mjög skynsamlegt að skoða þessa hluti heildstætt og stefna að því að Ísland verði ekki algjörlega háð einni atvinnugrein. Á þeim nótum er í góðu lagi að gagnrýna stóriðjuuppbyggingu. Ég kaupi líka rök sannra náttúruverndarsinna sem gagnrýna þá stefnu að leggja mikið land og fagra náttúru undir orkuver. Móðir mín er ein þeirra og ég ber fulla virðingu fyrir því.

En þegar sömu aðilar taka upp á áróðurskenndum yfirlýsingum um að þessi fyrirtæki skili svo litlum "arði" til þjóðarinnar og eigi á þeim forsendum ekki að eiga sér tilverurétt hér lokast á mér eyrun. Það sama gerist þegar talað er um að þessi fyrirtæki séu ekki of góð til að greiða skatta til okkar aumingja almúgans. Þá hætti ég að hlusta.

Fyrir mér er atvinnurekstur atvinnurekstur og verður alltaf. Atvinnurekstur er ekki góðgerðarstarfsemi og fyrirtæki hér verða ekki rekin á þeim forsendum hér frekar en annars staðar í heiminum. Almennt ganga fyrirtæki út á það að hámarka hagnað sinn og það er fullkomlega eðlilegt og rétt að þannig sé það. Eins og ég hef leyft mér að segja frá upphafi hruns er sjálfsagt að gera þá kröfu til atvinnurekstrar að skynsemin sé með í för. Gróðahyggja sem gengur út yfir öll mörk er vond hvar sem hún ber niður. En að fyrirtæki leiti mestu mögulegu hagkvæmni og leiti allra leiða til að búa til sem mest verðmæti kemur mér sem launþega fyrst og fremst til góða.

Illa rekin fyrirtæki greiða ekki há laun eða eru líkleg til að gera vel við starfsmenn sína. Rekstur sem skilar litlum eða engum arði er ekki líklegt til að gera mikið fyrir það samfélag sem hann starfar í.

Ef að íslensk stjórnvöld komast að þeirri niðurstöðu að rétta leiðin núna sé að skattleggja "auðlindir" sérstaklega og leggja þannig umfram álögur á tilteknar atvinnugreinar þá hljóta þau að hafa skotheld rök fyrir því. Ísland er ekki í tómarúmi í heiminum. Ísland er í hörðu samkeppnisumhverfi alþjóðlegs markaðar og allar ákvarðanir stjórnvalda hljóta að taka mið af því. Skattlagning á hráefni eða orkukaup er ekki venjuleg skattheimta heldur skattheimta sem hefur afgerandi áhrif á niðurstöðu rekstrarins og þar með á möguleika viðkomandi atvinnugreina til að skila hagnaði og nýta þá fjármuni í annars konar uppbyggingu eða starfsemi.

Svona mikill einfeldningur er ég nú í viðhorfi mínu til atvinnurekstrar. Ég hef brennandi áhuga á uppbyggingu samfélagsins okkar og ef það er eitthvað sem mig dreymir um þá er það að geta einhvern tímann rætt um atvinnulíf og rekstur almennt með þessum gleraugum.

Kostir og gallar í stað með og á móti

Ég hef lengi haft ástríðufullan áhuga á að umræða um atvinnulíf hér landi komist upp úr þeim hjólförum sem hún hefur meira og minna allt mitt líf verið í en það er að umræða um "góðar" atvinnugreinar annars vegar og "vondar" atvinnugreinar hins vegar.

Því miður hefur umræðan um góðar og vondar atvinnugreinar einungis orðið djúpstæðari með árunum og engin teikn á lofti um að það muni breytast.

Grunninn að áhuga mínum á þessu fyrirbæri má rekja til þess að ég ólst upp í atvinnugrein sem á þeim tíma var "vond". Landbúnaður og bændur voru afætur samfélagsins og vitræn umræða um kerfi greinarinnar, möguleikum hennar, kostum og göllum komst aldrei upp á yfirborðið.

Umræða um "vondar" atvinnugreinar og "góðar" leiðir af sér að aldrei er hægt að tala um það sem skiptir máli. Upphrópanirnar einar duga. Við þekkjum þetta vel og höfum séð afleiðingarnar.

Sjávarútvegur er dæmi um atvinnugrein sem ekki hefur verið hægt að eiga vitræna umræðu um í áratugi. Hvert hefur "með og á móti" umræða um kvótakerfið leitt okkar í áratugi? Jú tilfinningaþrungin umræða um eitthvað óskiljanlegt fyrirbæri eins og "sameign þjóðarinnar" hefur leitt okkur á þann stað að ákveðinn hópur samfélagsins trúir því statt og stöðugt að þessi atvinnugrein skuldi okkur öllum svo og svo mikið og því eigi þessi atvinnugrein umfram aðrar að greiða þá skuld til baka til okkar allra í formi sértækra skatta.

Það sama virðist uppi á teningnum núna hvað varðar álver og stóriðju. Þetta er "vond" starfsemi í augum ákveðins hóps og þess má hún gjöra svo vel að borga okkur öllum sértækan skatt.

Nú eru landbúnaður og ferðaþjónusta hæstmóðins og voðalega sætar og góðar atvinnugreinar slíkar atvinnugreinar má ekki gagnrýna fremur en það má tala um kosti "vondu" atvinnugreinanna. (Enginn minnist t.d. á að ferðaþjónusta verður seint talin í hópi þeirra atvinnugreina sem greiða hæstu launin. Þetta er sagt með fullri virðingu fyrir greininni um leið og þetta er að sjálfsögðu atriði sem skiptir máli þegar teknar eru ákvarðanir um stefnumótun atvinnulífs okkar til framtíðar.)

Ætlum við að halda svona áfram lengi enn? Gagnast umræða af þessum toga eitthvað framtíðarkynslóðum þessa lands eða okkur sjálfum?

Ég hef ákveðnar skoðanir á því að þegar að uppbyggingu atvinnulífs kemur þá sé ekki hægt að tala um Ísland sem eina heild. Við sem búum á Reykjavíkursvæðinu erum ekki á sama stað og landsbyggðin og það er grundvallaratriði að átta sig á því.

Maslow píramídinn er ágætis tæki til að skýra hvað ég á við. Mín skoðun er sú að landsbyggðin sé enn neðarlega í Maslow píramídanum á meðan Reykjavík og höfuðborgarsvæðið er komið mun ofar. Þarfirnar eru ólíkar og af því verður að taka mið í allri pólitískri stefnumótun þ.m.t. orkunýtingu og uppbyggingu stóriðju eða ekki.

Ég hef starfað í heimi inn- og útflutningsviðskipta allt mitt líf, innan flutningagreinarinnar mestan part sem er þjónustugrein við atvinnulífið fyrst og fremst. Sú reynsla hefur kennt mér hversu gríðarleg margföldunaráhrif erlendar fjárfestingar í uppbyggingu stóriðju hafa haft hér á landi. Eins og Ólafur Teitur sagði í þætti í Vikulokunum áðan "álversframleiðsla er peningamaskína". Það er hárrétt hjá honum og slík peningamaskína er gríðarlega mikilvægur grunnur fyrir ákveðin landssvæði til að komast ofar í Maslow píramídann. Peningamaskína af þeim toga sem stóriðja er býr til forsendur fyrir aðra fjölbreytta starfsemi að verða til. Ferðaþjónusta, landbúnaður eða gróðurhús hafa engin slík margföldunaráhrif.

Hvað sem hver segir um kvótakerfið þá er ekki vafi á að það kerfi hafði gríðarleg áhrif á styrk atvinnugreinarinnar sjávarútvegs sem aftur hafði gríðarleg áhrif á þróun hátæknigreina. Þannig er ekki vafi á því í mínum huga að sterk fjárhagsleg staða sjávarútvegsfyrirtækja sem var afleiðing kvótakerfisins byggði upp atvinnugreinina hátækni sem hefur þróast og er að þróast í margar áttir.

Það er mikilvægara en flest annað að við komumst upp úr skotgröfunum sem einkennir alla umræðu um framtíðarstefnumótun atvinnulífs hér á landi. Það gerum við með því að opna augun fyrir því að þarfir okkar og staða er ólík eftir því hvort við búum á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Horfum raunsætt á stöðu okkar og tökum ákvarðanir út frá því.

Hættum að tala um atvinnugreinar sem "vondar" eða "góðar" atvinnugreinar. Allar atvinnugreinar hafa kosti og galla og þær byggja hver á annarri. Fjölbreytni í atvinnutækifærum hlýtur að vera markmið sem við öll - hvar sem við búum á landinu - getum sameinast um.

mánudagur, 19. október 2009

Hugsum um börnin okkar…

Sagði Þorgerður Katrín í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. Þessi orð samhengi það sem þau eru sögð í lýsa skilningi á einhverjum allt öðrum heimi en undirrituð lifir í og gefa ástæðu til að fara yfir það.

Það eru fleiri sem hafa áhyggjur af því hvaða framtíð stjórnmálamenn Íslands ætla að búa börnunum okkar. Það á meðal annars við um þá sem þetta ritar. Hvaða framtíð skyldi það svo vera sem flokkurinn hennar Þorgerðar Katrínar ætlar að bjóða dóttur minni upp á?

Jú það er óbreytt staða. Þorgerður Katrín og Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um óbreytta stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Ísland skal vera áfram aðili að EES og standa utan Evrópusambandsins. Íslenska krónan er framtíðargjaldmiðill íslensku þjóðarinnar að mati þessa flokks. Gjaldmiðill sem hefur skaðað lífskjör íslensku þjóðarinnar stórkostlega síðustu áratugi og engar líkur eru á öðru en muni gera það áfram.

Gjaldmiðill sem ég sem íslenskur þjóðfélagsþegn hef þurft að þola afleiðingarnar af síðustu áratugi ætlar Þorgerður Katrín og Sjálfstæðisflokkurinn hennar dóttur minni og jafnöldum hennar að þola afleiðingarnar af áfram.

Gjaldmiðill sem þýðir að hver og einn einstaklingur þjóðarinnar þarf að greiða svo og svo mikið í kostnað fyrir að reka á hverjum einasta degi, hvern einasta mánuð, hvert ár, heilu mannárin. Gríðarlega háir vextir, óþolandi óstöðugleiki og sveiflur, verðtrygging, áttahagafjötrar. Já allt það skulu börnin okkar þurfa að þola til langrar framtíðar til að völd Sjálfstæðisflokksins séu tryggð.

Icesave er aukaatriði fyrir framtíðarkynslóðir þessa lands núna. Þar er margt annað svo miklu, miklu mikilvægara. Þó ekkert eins mikilvægt eins og það að búa kynslóðum þessa lands framtíð sem er öðruvísi en sú fortíð og nútið sem við þekkjum svo vel. Framtíð stöðugleika í hagkerfinu. Framtíð þar sem hægt er að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf - einmitt vegna stöðugleika. Framtíð þar sem venjulegt fólk hefur efni á að komast úr landi reglulega. Framtíð þar sem hægt er að kaupa vörur og þjónustu á mannsæmandi verði.

Framtíð án Sjálfstæðisflokksins og hans afturhaldsafla við stjórn landsins - það er óskaframtíð barnsins míns og annarra barna á Íslandi!

föstudagur, 16. október 2009

Hættum heimskunni...

Undirrituð hefur lengi undrað sig á mikilvægi þjóðernisins í pólitískri umræðu á Íslandi. Hefur aldrei skilið þjóðerniskenndina og í raun haft skömm á henni. Langar að reyna að skýra með dæmum hér að neðan hvað ég á við.

Dæmi um hversu fráleit sú fullyrðing er að Íslendingar "séu svo litlir að þeir geti ekki haft áhrif innan Evrópu".

Ekki sagt í þeirri fullvissu að undirrituð sé sú sem Danir líta til í hugmynd sinni heldur til þess að opna augu Íslendinga fyrir því hversu fráleit þessi fullyrðing er í umræðunni.

Hver einstaklingur heimsins hvaðan sem hann kemur hefur þau áhrif sem hann vill. Hvaðan svo sem hann kemur. Það vita Íslendingar sem haft hafa samskipti í alþjóðasamfélaginu lengi. Það er fyrir löngu kominn tími til að Íslendingar hætti að hafa stærrimáttarkennd eins og þeir hafa í íslenskri stjórnsýslu þegar þeir vilja endilega vera á undan öllum öðrum til að innleiða hér tilskipanir og reglugerðir ESB og gera það með meira íþyngjandi hætti en þarf.

Og það er á sama hátt ástæða til að hætta að hafa minnimáttarkennd "vegna þess að við getum ekki haft áhrif". Hvoru tveggja er óþolandi staða og algjörlega óþörf. Við Íslendingar höfum nákvæmlega jafnmikil áhrif og við viljum hafa og við eigum líka að gera þær skýru kröfur til stjórnsýslunnar að hún hugsi um íslenska hagsmuni og enga aðra þegar hún innleiðir hér ESB reglugerðir og tilskipanir. Það að vera Íslendingur er einfaldlega ekki svona merkilegt eins og allir vilja vera láta.

Við erum öll "manneskur" þegar við hittumst við borð 27 þjóða sem tölum saman á erlendu tungumáli.

Við erum öll í sömu stöðu. Sama hvort að "þjóðin" á bak við okkur er 300 þúsund eða 90 milljónir.

Til að særa nú engan hvarflar ekki að undirritaðri að það skipti engu máli hver stærð þjóðarinnar er í alþjóðlegum samskiptum. Auðvitað skiptir það máli. En að láta eins og Íslendingar þurfi að hafa einhverja sérstaka minnimáttarkennd vegna stærðar þjóðarinnar í alþjóðlegum samskiptum er algjörlega fráleitt. Sú hugsun leiðir okkur ekkert annað en að samfélag okkar verður "smátt" í raunveruleikanum. Hættum heimskunni!

mánudagur, 12. október 2009

Verð að gæta heildarhagsmuna...


„Ég er ekki í umhverfisráðuneytinu til að draga taum einstakra fyrirtækja, sjónarmiða eða hagsmunaaðila. Ég er í umhverfisráðuneytinu til að tala máli komandi kynslóða og umhverfisins - heildarhagsmuna." Þetta segir umhverfisráðherra í viðtali í Fréttablaðinu um helgina. Jafnframt segir hún „Ég hef fullan skilning á öllum þeim aðilum sem eru að spila sína stöðu á vellinum, ef svo má segja, fara fram með hagsmuni síns fyrirtækis, eða svokölluðum aðilum vinnumarkaðarins. Verkefni þessara aðila er að sinna og sjá um hagsmuni sinna umbjóðenda."

Er einhver til í að skýra þessi orð umhverfisráðherra fyrir mig? Hvaða forsendur eru að baki ákvarðanatöku hennar? Hvernig veit hún hvað eru heildarhagsmunir og hvað eru sérhagsmunir? Ef aðilar vinnumarkaðarins berjast bara fyrir „sér"hagsmunum hverjir eru það sem tala fyrir „heildar"hagsmunum?

sunnudagur, 4. október 2009

Raunsæi í stjórnmálin takk!

Ég er ein fimm systkina sem ólst upp á sveitbæ sem verið hafði í eigu ættarinnar í 400 ár. Faðir minn seldi jörðina þegar ljóst varð að ekkert okkar vildi taka við, það var erfið ákvörðun en raunsæ.

Bróðir minn sem fór í Bændaskólann á Hvanneyri sölsaði um og ákvað að fara í tölvufræði. Starfar í þeim geira í dag með hærri laun en hann hefði nokkurn tíma getað vænst að hafa sem bóndi. Annarr bróðir minn er líffræðingur. Um það leyti sem hann útskrifaðist voru kollegar hans ekki með miklar væntingar til hárra launa. Það gjörbreyttist þegar De Code kom hingað og þessi sérfræðigrein varð allt í einu eftirsóknarverð og ígildi hárra launa.

Við höfum öll fylgst með gríðarlegu breytingu sem orðið hefur í íslensku samfélagi síðustu áratugina. Samfélagi þar sem fjölbreytni atvinnutækifæra (á Stór Reykjavíkursvæðinu alla vega) - hafa aukist gríðarlega. Síðustu ár reyndar í fullkomnu gullæði sem augljóslega byggði á sandi en það breytir ekki því að við erum á öðrum stað núna en við vorum fyrir tuttugu árum síðan og ég er sannfærð um að við viljum ekki fara til baka.

Við viljum öll fjölbreytt atvinnutækifæri. Ástæða þess að ég tek dæmi af fjölskyldu minni hér að ofan er að í mínum huga getur hún verið fulltrúi fyrir þær breytingar sem orðið hafa í íslensku samfélagi og sem ég vil sjá að við horfumst í augu við.

Að landbúnaður á Íslandi er ekki og verður ekki undirstaða fjölbreyttra atvinnutækifæra til framtíðar. Landbúnaður verður áreiðanlega stundaður á Íslandi til langrar framtíðar og hann þarf að hafa skilyrði til þess eins og aðrir atvinnuvegir en hann á ekki að upphefja eða tala um í umræðunni eins og hann eigi að vera í forgrunni atvinnustefnu til framtíðar litið.

Það sama á við um sjávarútveg. Við skulum bera virðingu fyrir sjávarútvegi sem atvinnugrein en látum ekki eins og hann komi til með að standa undir þeim lífskjörum sem við viljum horfa til í framtíðinni.

Við þurfum á raunsæi að halda í umræðunni meira en nokkurs annars. Því hef ég haldið fram frá upphafi hruns og geri staðföst enn. Við eigum umfram allt að hætta að flokka atvinnuvegi í „góða" atvinnuvegi og „vonda" atvinnuvegi. Við eigum að vera raunsæ og horfa heildstætt á möguleika okkar og tækifæri og taka raunsæjar ákvarðanir.

Við eigum að styðja við uppbyggingu atvinnulífs í landinu hvaða nafni sem það nefnist. Það hugarfar sem hefur verið byggt undir síðustu mánuði að atvinnurekendur og fjárfestar séu glæpamenn þar til annað sannast er stórhættulegur jarðvegur og leiðir okkur ekkert nema afturábak.

Fréttir af fjárlagafrumvarpinu á föstudaginn var sannarlega ekki tilefni til bjartsýni. Frumvarp sem gerir ráð fyrir skattlagningu „auðlinda" búið til að því er virðist í fullkomnu tómarúmi innan veggja fjármálaráðuneytisins. Útfærsla hugmynda í þessa veru byggir á þeim jarðvegi sem byggt hefur verið undir í samfélaginu síðustu misseri. Jarðvegi fullkomins óraunsæjis til atvinnulífs í landinu. Höfum hugfast að til að „auðlindir" séu verðmæti þurfa að vera til kaupendur að þeim.

Við þurfum ekki á uppákomum af þessu tagi að halda. Við þurfum á því að halda að vita að stjórnmálamennirnir okkar viti í hvers konar samfélagi við lifum og hvaða tækifæri eru til staðar til að við komust einhvern tíma út úr því ástandi sem nú ríkir.

Grunnforsenda þess er uppbygging atvinnulífsins. Það er atvinnulífið sem býr til gæði þess samfélags sem við búum í. Það er styrkur fyrirtækjanna til athafna, greiðslu launa sem býr til þau samfélagslegu gæði sem við öll leitum eftir. Svo einfalt er það og það vitum við öll.

Okkar persónulega afkoma verður ekki til í tómarúmi heldur byggir á því hvaða atvinnustarfsemi er til í landinu. Þess vegna er skýlaus krafa til stjórnmálamanna að þeir átti sig á nákvæmlega því og vandi til þeirra ákvarðana sem teknar eru. Ákvarðanir núna til skemmri tíma skipta öllu máli. Við erum í vanda og eina leiðin til að komast út úr þeim vanda á sem skemmstum tíma er hröð uppbygging atvinnulífsins. Það er alveg sama hvað við heyrum margar útfærslur á afskrift lánanna okkar - það er aukaatriði ef að hjól atvinnulífsins komast ekki í gang.

Það er aðalatriði og það eiga þeir sem eru við stjórnvölinn - og líka hinir að hafa hugfast.

Raunsæi og samstöðu í stjórnmálin takk!

fimmtudagur, 1. október 2009

Forgangsmál 2004 og er enn 2009

Skrifað í tengslum við nefndarstarf í Framtíðarhópi Samfylkingarinnar 2004 eða 2005 en birt á bloggi 1. október 2009

Pistill skrifaður árið 2004 í ákveðnum tilgangi. Áminning um það sem ég vil ekki að verði viðvarandi viðfangsefni fyrirtækja og almennings á Íslandi til langrar framtíðar:

Ísland er lítið hagkerfi með sjálfstæða mynt – hverjir eru kostir þess?

Hvað er til umræðu á meðal forystumanna í íslensku atvinnulífi þessa dagana?
Hvað er það í rekstrarumhverfi fyrirtækjanna sem veldur þeim mestum áhyggjum?
Hvar er óvissuþátturinn mestur?

Gengi íslensku krónunnar. Það er sama í hvaða atvinnuvegi borið er niður, iðnaði, sjávarútvegi, ferðamennsku. Allar atvinnugreinar lifa við óstöðugt rekstrarumhverfi vegna íslensku krónunnar. Gríðarleg fjárfesting í virkjana- og stóriðjuframkvæmdum þessi misserin skiptir sköpum um styrk hennar. Hagkerfið er óstöðugt, Seðlabankinn hækkar vexti til að stemma stigu við verðbólgu sem heyrist að ekki sé fráleitt að nái tveggja stafa tölu á næsta ári. Áhrifavaldurinn – gríðarleg hækkun húsnæðisvísitölu.

Það þarf ekki stóriðjuframkvæmdir eða hækkun á húsnæðisverði til að íslenska krónan taki dýfu. Það er ekki lengra síðan en þrjú ár að verðbólgan fór úr böndum, þá vegna stóraukinnar fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis á sama tíma og erlend lántaka dróst saman. Íslenska krónan er lítil mynt í alþjóðlegum heimi – er von til þess að fyrirtæki hér búi einhvern tíma við stöðugleika með hana sem gjaldmiðil?

Óstöðugleiki í gengi gjaldmiðilsins leiðir af sér óstöðugleika í rekstri þeirra fyrirtækja sem eru með tekjur sínar og/eða kostnað í öðrum gjaldmiðlum. Rekstur hvaða fyrirtækis sem er gengur út á að gera áætlanir fram í tímann og leitast við að ná markmiðum þeirra. Áætlanir þar sem tekjur og gjöld eru í stöðugri óvissu er erfiður, stundum óviðráðanlegur. Þetta á ekki síst við um minni fyrirtæki í alþjóðaviðskiptum sem eiga minni möguleika á að tryggja sig fyrir gengisbreytingum en þau sem stærri eru.

Auk þess að losna við íslensku krónuna opnar innri markaður Evrópu Íslendingum ótal tækifæri í auknum viðskiptum. Markaður með sameiginlega mynt eykur viðskipti innan hans. Viðskiptakostnaður minnkar, gagnsæji eykst og síðast en ekki síst má gera ráð fyrir að sameiginleg mynt virki örvandi fyrir fjármálamarkaðinn. Sérfræðingar á sviði fjármála hafa oft talað um að íslenska krónan, sérregur eins og verðtryggingin virki fælandi á erlenda fjárfesta. Grundvöllurinn að aukinni fjölbreytni í fjárfestingum erlendra aðila hér á landi er mynt sem markaðurinn þekkir. Meiri fjölbreytni í erlendri fjárfestingu er eftirsóknarverð fyrir íslenskt atvinnulíf og ekki síður launþega og neytendur. Erlend fjárfesting kemur inn með nýja þekkingu og eykur aðhald á íslenskum fjármálamarkaði.

Aðild að EMU er mikilvægasta atvinnumálið. Engin aðgerð hefði jafnmikil áhrif í þá átt að tryggja jafnræði atvinnugreina eða auka gagnsæji og auðvelda samanburð á markaði. Áætlanagerð verður mun einfaldari og markvissari þar sem stærsta óvissuþættinum í rekstrinum væri að miklu leyti eytt – gengisáhættunni. EMU-aðild kemur ekki til greina án Evrópusambandsaðildar. Í ljósi þess óstöðugleika sem íslensk fyrirtæki búa við vegna íslensku krónunnar er augljós þörf á að ræða Evrópusambandsaðild í því samhengi.

Forsvarsmenn atvinnulífsins hafa þörf fyrir að opnað sé fyrir þetta samhengi hlutanna.

Birt til að minna á vanda síðasta áratugar og hvað er enn forgangsmál íslenskra stjórnmála í október 2009:

Ein af mörgum ástæðum þess að við eigum að stefna á aðild að ESB. Staða myntarinnar í dag er að gengi hennar er 20% veikara í dag en það hefur orðið veikast áður 1983 og 2001. Ástæðan er ekki veikar undirstöður heldur fullkomið vantraust markaðarins.

Spurningar sem ástæða er til að velta upp:
Hver væri "skuldavandi heimilanna" ef þessi staða krónunnar væri ekki raunveruleikinn?
Hver væri "skuldastaða sveitarfélaganna" í landinu?
Hver væri "skuldastaða sjávarútvegsfyrirtækja"?
Af hverju er öll áhersla umræðunnar á að afskrifa eða bjóða upp á skammtímalausnir í stað þess að gefa okkur von til framtíðar um lausn þessa vandamáls?

Ætlum við götuna fram á veg með sama vandamál á bakinu til langrar framtíðar?

fimmtudagur, 24. september 2009

Morgunblaðið – Im Memoriam

Mér er hryggð í huga. Sú frétt sem látið hefur verið að liggja síðustu vikurnar reyndist rétt. Árvakur eigandi Morgunblaðsins réði Davíð Oddsson fyrrverandi borgarstjóra, forsætisráðherra og seðlabankastjóra í stól ritstjóra í dag. Þar með lýkur ástar- haturssambandi mínu við þetta blað sem staðið hefur meiri hluta minnar ævi.

Ég ólst upp við „hin trúarbrögðin" Framsóknar- og samvinnufélagamegin sem þýðir að mér var innrætt að Morgunblaðið væri blað „hins vonda". Ég var tiltölulega ung þegar ég fór að setja spurningamerki við ýmislegt af því sem mér var innrætt en kynntist þó ekki Morgunblaðinu af eigin raun fyrr en ég fluttist til Reykjavíkur 16 ára gömul. Ég varð fljótt mjög hrifin. Blaðið var efnismikið og ótrúlega fjölbreytt ef maður horfði framhjá því sem augljóslega var pólitísk stefna blaðsins. Að mínu mati mun betra blað en Tíminn sem ég ólst upp við að ekki sé minnst á Þjóðviljann sem mér fannst fremur ómerkilegt áróðursrit þrátt fyrir að aðhyllast frekar vinstri stefnu.

Ég lærði með öðrum orðum sem lesandi fljótt að bera óendanlega virðingu fyrir þessu dagblaði sem ég var um leið ótrúlega reið úti vegna áhrifavalds þess. Ástar- haturssambambandið við þetta dagblað Morgunblaðið hófst.

Það fór ekki framhjá mér fremur en nokkrum öðrum hverjar voru pólitískar skoðanir blaðsins og að blaðið var fyrst og síðast málgagn Sjálfstæðisflokksins. Það var oft erfitt að lifa í íslensku samfélagi þessara tveggja valdablokka sem hér ríktu um áratugaskeið og ekkert hef ég þráð meir í mínu lífi en að okkur tækist að brjótast undan þeirri skelfingu.

Ég hélt um tíma að það mundi takast en allar götur frá því í október í fyrra hefur sú trú mín dofnað sífellt meir.

Morgunblaðið hefur leikið risastórt hlutverk í þessari sögu allri og henni er ekki lokið enn. Blaðið hefur átt góða tíma og slæma tíma. Síðustu árin undir stjórn Styrmis Gunnarssonar ofbauð mér oft grímulaus afturhaldsáróðurinn en lengst af var ég nú samt tryggur áskrifandi og lesandi. Sagði því meira að segja ekki upp þegar fjöldi skoðanabræðra og systra gerði það vegna yfirgengilegs áróðurs blaðsins.

Morgunblaðið er að mínu mati eitthvað sterkasta vörumerki sem til er á Íslandi og átti á sínum tíma þegar það loksins fékk samkeppni alla möguleika á því að halda yfirburðum sínum í þeirri samkeppni. Það kaus aðra leið. Það kaus að fara í heilagt stríð gegn samkeppninni og öll meðul voru notuð til að brjóta samkeppnina á bak aftur. Gekk meira að segja svo langt að keyra átti í gegn lög til að losa blaðið við samkeppnina. Á sama tíma varð blaðið sífellt leiðinlegra, þröngsýnna og afturhaldssamara og lesendum fækkaði jafnt og þétt.

Tilkynningin um ritstjórann í dag markar fyrir mér tímamót. Tímamót um að afturhaldsvaldaklíkan í Sjálfstæðisflokknum ætlar ekki að gefast upp - heldur berjast til síðasta blóðdropa. Fyrir mér þýðir það aðeins eitt - áframhaldandi illvíg og hatrammar deilur trúarbragðastjórnmála þar sem einskis verður svifist í að berjast um völdin.

Því er komið að slitum ástar- haturssambands míns við þetta blað og ég kveð það með þakklæti uppfull af sorg. Það er sorglegra en tárum taki að fara svo illa með virt dagblað og ótrúlega sterkt vörumerki eins og Morgunblaðið óhjákvæmilega er og hefur verið í íslensku samfélagi.

fimmtudagur, 27. ágúst 2009

Þröngsýni, þjóðernishyggja og strákastemming

Ég ólst upp í landi þar sem það hefur þótt með eindæmum neikvætt að vera „pólitískur". Ráðningaskrifstofur hafa verið ófeimnar við að segja það upphátt hversu neikvætt og viðkvæmt það væri fyrir umsækjendur starfa að leyfa sér að vera „pólitískir". Það hefur þó alltaf verið í góðu lagi að vera yfirlýstur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokknins og aldrei háð nokkrum manni á Íslandi svo vitað sé. Það var þó aldrei sagt upphátt - við vissum það bara.

Við höfum nú upplifað hvað svona dásamlega „ópólitískt" samfélag leiðir af sér.

Ég ólst upp í landi þar sem það hefur alltaf þótt sjálfsagt að ég væri tilbúin að greiða óhemju fjárhæðir fyrir það eitt að vera „sjálfstæð". Hvað í þessu orði „sjálfstæði" felst hefur þó aldrei þurft að ræða frekar.

Við höfum nú upplifað hversu „sjálfstæð" við erum í raun og hversu dásamleg staða það er.

Ég ólst upp í landi sem „strákar" hafa stjórnað. Umræðunni , stjórnmálunum og fyrirtækjunum.

Við erum langt því enn búin að átta okkur hvert það hefur leitt okkur og virðumst á hraðri leið í sama farið.

Ég hélt um tíma að þetta altumvefjandi gagnrýnislausa samfélag sem strákarnir stjórnuðu og þar sem þú máttir bara hafa ákveðnar skoðanir væri að riðlast. Ég lét mér aldrei detta í hug að það kæmi aftur. Nú er sú skelfilega staðreynd runninn upp að ég upplifi gamla samfélagið komið aftur.

„Stákarnir" vaða uppi undir titlunum „sérfræðingar", ýmist hagfræðingar, lögfræðingar nema hvoru tveggja sé. Álit hvers og eins þeirra er tekið upp af fjölmiðlamönnum eins og þar sé um að ræða „SANNLEIKANN". Þáttum sem ætlað er að dýpka umræðuna gera álit hvers og eins þeirra að aðalumræðuefni. Samfélagið snýst um „álit" karlsérfræðinga dag eftir dag og við hringsnúumst dag hvern eftir þeirra „áliti" þann daginn. Ein skoðun í dag og önnur á morgun.

Mér líður stundum eins og ég sé að kafna. Kafna í þröngsýni, þjóðernishyggju og strákastemmingu.

miðvikudagur, 10. júní 2009

Nei Lára Hanna

Ég er reið yfir því sem gerst hefur eins og Lára Hanna lýsti að þjóðin væri í kvöld. Ég er sammála henni að það skortir von - ljós við enda ganganna. Ég er sammála henni að ástandið er óþolandi og það er á stundum hreinlega vont að vera í íslensku samfélagi þessa daga. Ég get líka verið sammála henni um að það er áreiðanlega ekki allt eins og skildi við vinnubrögð eða viðbrögð íslenskra embættismanna við því sem gerst hefur. Íslendingar eiga margt ólært þegar kemur að almennum leikreglum. Það höfum við lengi vitað enda búið við sérkennilegt stjórnarfar trúarbragðastjórnmála í áratugi sem um margt á áreiðanlega meira skylt við Rússland en vestrænt lýðræði. Ég viðurkenni líka að ég nýt þeirra forréttinda að hafa enn vinnu og er því ekki í jafn slæmri stöðu og margir.

EN ég er algjörlega ósammála því að það sé hægt að „flýta réttlætinu". Ég er algjörlega ósammála og reyndar algjörlega miður mín að gömul vinkona mín uppfull af réttlætiskennd geti látið annað eins út úr sér. Á hvaða leið erum við eiginlega? Ætlum við með íslenskt samfélag á sama stað og viðgengst hér fyrr á öldum? Ætlum við með íslenskt samfélag á þann stað að menn verði dæmdir sekir án dóms og laga? Er það „réttlætið" sem íslenskur almenningur heimtar?

Mér er gjörsamlega ofboðið og það ekki í fyrsta skipti síðan hrunið varð. Við Íslendingar getum ekki verið svona gjörsamlega ábyrgðarlaus. Við búum í samfélagi. Samfélagi sem við höfum sammælst um að skuli fylgja ákveðnum leikreglum. Leikreglum þar sem enginn telst sekur fyrr en sekt hans er sönnuð. Samfélagi þar sem enginn skal leiddur fyrir rétt nema fyrir því sé rökstuddur grunur að viðkomandi hafi brotið af sér. Þetta eru algjörar grundvallarreglur sem ég vil geta gengið að vísum. Ég vil búa í siðuðu samfélagi. Réttarríki - umfram allt annað. "Réttlæti" tekur tíma.

Málflutningur af því tagi sem Lára Hanna bauð mér upp á í Spegli Ríkisútvarpsins rétt áðan - að heimta að einstökum mönnum sé stungið inn af því það hentar íslenskum almenningi til að fá útrás fyrir hefndarþorsta sinn er óboðlegur og óþolandi og þar að auki stórhættulegur.

Þetta er jarðvegur sem íslenskir stjórnmálamenn hafa meðal annarra ýtt mjög undir allar götur frá því að hrunið varð. Stjórnarandstaðan á Alþingi með Vinstri græna í broddi fylkingar ýtti undir jarðveg af þessu tagi leynt og ljóst dag eftir dag eftir dag þegar íslenska þjóðin þurfti ekki á neinu öðru að halda en þingmenn létu sér annt um hana. Þeir hughreystu hana, töluðu í hana jákvæðni og bjartsýni. Stjórnarandstaðan hagaði sér með algjörlega óábyrgum hætti og ól á múgsefjun . Nýja stjórnarandstaðan er við sama heygarðshornið. Elur á sundrungu. Lætur að því liggja að Íslendingar geti sem best sleppt því að standa við skuldbindingar sínar. Elur á þjóðernisrembu og ábyrgðarleysi alls almennings gagnvart því sem gerst hefur.

Við þurfum ekki á svona skelfilegum fullyrðingum að halda. Við þurfum ekki á því að halda að fólk á Alþingi tali af fullkomnu ábyrgðarleysi um það sem gerst hefur. Við þurfum ekki á því að halda að fjölmiðlar ali á sundrungu og upplausn samfélagsins. Þetta ástand getur endað með skelfingu.

Má ég biðla til stjórnmálamannanna að skilja þetta? Má ég biðja þá um að vanda sig þegar þeir tala? Má ég biðja fjölmiðlana í þessu landi þess sama? Má ég biðja þá sem eiga að hafa forystu í þessu samfélagi að tala af skynsemi ?

Við þurfum ekki myrkar miðaldir eða nornaveiðar fyrri alda. Slíkt ástand hefur ekkert að gera með „réttlæti".

sunnudagur, 31. maí 2009

Meira frá Berlín

Stjórnmálamenn og almenningur á Íslandi sjá ekki ástæðu til að ræða gengi gjaldmiðilsins þessa dagana. Það er enginn skortur á greinum í blöðum eða fréttum í fjölmiðlum sem fjalla um skuldir heimila og fyrirtækja en samhengi þess við gengi gjaldmiðilsins er sjaldnast nefnt. Mér finnst þetta vægt frá sagt stórundarlegt mál.

Ég var að koma frá Berlín. Keypti 400 evrur í flugstöðinni til að taka með mér. Þær kostuðu 72.000 krónur. Hefðu kostað 34. - 46.000 ef að gengið væri á bilinu 85 - 115 eins og raunin var hér einhvern tíma fyrir ekki löngu síðan. Semsagt meira en 100% hærri kostnaður af því að kaupa eyðslueyri í þessari útlandaferð en fyrir örstuttu síðan. Berlín var ekki dýr þegar horft er á verðið í evrum, en nokkuð annað er upp á tengingnum þegar umreiknað er í íslenskar krónur. Morgunverðurinn á hótelinu kostaði t.d. 13 evrur á manninn, ekki há upphæð í evrum en með gengi upp á 180 krónur eru það 2.340 krónur fyrir morgunverð á manninn, tæplega 5.000 krónur fyrir morgunverð á dag u.þ.b. 20. þúsund fyrir tvo í fjóra daga - fyrir morgunverð á hóteli.

Sama er uppi á tengingnum hjá okkur einstaklingunum á þessu litla heimili mínu í okkar daglega lífi á Íslandi vorið 2009. Höfuðstóll skuldarinnar á íbúðinni sem var 12 milljónir þegar lánið var tekið vorið 2004 stendur núna þetta á bilinu 23 - 24 milljónir. Skuldir litla fyrirtækisins sem sambýlismaður minn á hlut í er u.þ.b. 100% hærri í dag en þær voru fyrir nokkrum mánuðum síðan. Dóttirin sem var búin að skipuleggja Interrail ferð til Evrópu í haust verður að hætta við vegna þess að Evrópa er einfaldlega of dýr.

Allt er þetta vegna gengis gjaldmiðilsins sem er ónýt íslensk króna. Gjaldmiðillinn sem er búin að gera mér lífið leitt frá því ég man eftir mér á að halda áfram að eyðileggja líf dóttur minnar að því er virðist ef að stjórnmálamenn á Íslandi fá einhverju ráðið.

Og af hvaða ástæðu? Jú af þeirri ástæðu að "sjálfstæðið", "fullveldið" er svo mikils virði! Þið ættuð að skammast ykkur allir saman!

Dóttir mín viðhafði þau orð í Berlínarferðinni að hún tryði því ekki að þingmenn á Íslandi myndu ekki leyfa okkur að kjósa um það að ganga til aðildar við Evrópusambandið eftir að fyrir lægi hvað þar væri í boði. Þar hitti hún naglann á höfuðið eins og svo oft áður. Hún 19 ára gamall unglingurinn vill ekki trúa því fyrr en í fulla hnefana að íslenskir stjórnmálamenn ætli að standa í vegi fyrir því að hún fái að eiga valkosti um framtíð sína í þessu landi. Hún trúir því ekki að íslenskir stjórnmálamenn nútímans ætli henni þá framtíð að búa í samfélagi átthagafjötra. Átthagafjötra sem hún veit að móðir hennar og forfeður og mæður hafa þurft að búa við.

Ég vil trúa henni. Ég vil taka undir með henni að það geti hreinlega ekki verið að stjórnmálamenn á Íslandi sumarið 2009 taki þá ákvörðun að kjósa einangrun og höft fyrir komandi kynslóðir í þessu landi.

Gengi gjaldmiðils okkar er aðalatriði. Gengi gjaldmiðilsins hefur skert lífskjör okkar stórkostlega á nokkrum mánuðum. Gengi gjaldmiðilsins hefur fært líf mitt aftur til þess tíma sem mig langar ekkert til að upplifa aftur - fortíðarinnar þar sem litið var á utanlandsferðir sem bruðl á gjaldeyri.

Framtíð okkar, tækifæri til skamms tíma og lengri tíma eru öll undir því komin hvernig tekst að vinna okkur út úr gjaldmiðilskrísunni. Ekkert mál er jafnmikilvægt fyrir fyrirtæki og heimili í landinu, svo einfalt er það.

Þess vegna eiga Framsóknarmenn, Samfylkingarfólk, Sjálfstæðismenn, Vinstri grænir og Borgaraflokkur að tala um hvernig þeir ætli að vinna okkur út úr þessu máli. Alþingi á ekki að vera tala um neitt annað en nákvæmlega þetta mál. Ekkert er jafnmikilvægt fyrir lífskjör okkar í þessu landi, hvort sem litið er skamms eða lengri tíma.

Íslensk króna hefur runnið sitt skeið. Svo einfalt er það. Hvernig ætla menn að leysa þann vanda til framtíðar?

Lausnir óskast!

þriðjudagur, 26. maí 2009

Á söguslóðum í Berlín

Var að koma frá Berlín. Gaf dóttur minni ferð til borgar í Evrópu í útskriftargjöf, hún valdi Berlín. Engin tilviljun þar á ferð, en hún hefur eins og móðirin brennandi áhuga á stjórnmálum og sögu. Í því samhengi er Berlín sannarlega suðupottur.

Það var satt að segja ískyggilegt hversu oft mér datt staða íslenskra stjórnmála í dag í hug í þessari ferð um söguslóðir nasismans og síðar kommúnismans.

Við fór á DDR safnið - safn um Austur Þýskaland kommúnismans. Við fórum í 4ra tíma gönguferð með leiðsögn um Berlín og nasista í síðari heimsstyrjöldinni og við fórum í 6 tíma ferð með leiðsögn til Sacsenhausen, vinnubúða nasista í nágrenni Berlínar. Óhugnanleg saga og erfið en hefur um leið að geyma ótrúlega mikilvæg skilaboð til okkar nútímamanna. Hvað ber að varast í samfélagi okkar?

Þar er mér efst í huga hjarðhegðun. Hjarðhegðun og fylgispekt heillar þjóðar við uppreisnarseggi í kjölfar efnahagslegrar niðurlægingar. Þjóðerniskennd. Það skelfilega fyrirbæri sem enginn lýsir betur en Stefan Sweig í bók sinni Veröld sem var.

Hvoru tveggja er eitthvað sem íslensk stjórnmál eru fleytifull af þessa dagana. Það er reyndar ekkert nýtt að Íslendingar séu uppfullir af þjóðerniskennd - það hafa þeir alltaf verið - en nú keyrir um þverbak. Hjarðhegðunin er svo sem ekkert ný af nálinni heldur - en samt hefur hún aldrei birst mér jafnskýrt og nú.

Það að þjóðerniskennd og hjarðhegðun skuli vera svo rík í okkar samfélagi og nú er raunin er að mínu viti stórhættulegt ástand. Skortur á raunsæji og skynsemi stjórnmálanna er það líka.

Orð stjórnmálamanna sem hver um annan þveran tala út í eitt um að Íslendingar geti nánast hætt öllum innflutningi og framleitt allt sjálfir minnir óhugnanlega á hugmyndir kommúnistanna í Austur Þýskalandi.
Gagnrýnisleysi og fylgispekt heilu stjórnmálaflokkanna við hugtakið "sameign þjóðarinnar" er sama marki brennd. "Sameign þjóðarinnar" er stórhættulegt hugtak sem hefur verið misnotað miskunnarlaust í áróðursskyni í hátt í tvo áratugi. Ágætur maður, Helgi Áss Grétarsson benti mér raunar á það einu sinni að þessi áróður væri alveg í anda Göbbels áróðursmeistara nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Með því að endurtaka hlutinn nógu oft endar með því að almenningur fer að trúa því hversu vitlaus sem áróðurinn er.

Á grundvelli hugtaksins "sameign þjóðarinnar" hefur íslenska ríkið slegið eign sinni á allt land og auðlindir sem ekki voru í einkaeignarrétti og raunar gengið miklu, miklu lengra en nokkur gat ímyndað sér. Þetta hefur ríkisvaldið gert án umræðu um hugtakið pr se. Nú stendur til að halda áfram og ríkisvaldið ætlar sér að innkalla aflaheimildir sem útgerðarmenn hafa keypt. Þetta ætlar ríkisvaldið sér að gera á grundvelli þess að almenningur er því samþykkur vegna þess hversu móttækilegur hann er fyrir þessu hugtaki "sameign þjóðarinnar".

Þetta er óhugnanleg staða og ófyrirgefanleg. Það er ófyrirgefanlegt að stjórnmálamenn séu svo móttækilegir fyrir áróðri að þeir kasti fyrir róða allri rökhyggju og skynsemi og gefi sig áróðrinum á vald. Eignarréttur er ekki "þjóðar". "Þjóð" er ekki aðili að lögum, "þjóð" er í besta falli félagsleg ímyndun eins og Guðmundur Hálfdánarson færir svo skemmtilega rök fyrir í bók sinni Íslenska þjóðríkið - uppruni og endimörk. Eignarréttur þarfnast lögaðila - kennitölu - formlegs fyrirbæris. Við eigum ágætt orð yfir það sem við öll skiljum og eigum að nota yfir eignarrétt ríkisins - "ríkiseign". Það skiljum við og vitum hvað þýðir. Þess vegna á að fjalla um eignarrétt ríkis en ekki þjóðar.

Allt bullið um að ég og Íslendingar allir eigum fiskinn í sjónum er með þvílíkum ólíkindum að það verður seint toppað. Ég á ekki fiskinn í sjónum frekar en nokkur annarr og fráleitt að halda slíku fram. Eignarréttur útgerðarmanna á kvóta er eignarréttur viðkomandi til að veiða tiltekið magn - flóknara er það nú ekki. Mér er ómögulegt að sjá hið eina sanna réttlæti sem felst í því að taka eignarrétt viðkomandi útgerðarmanna af þeim til að færa hann ríkinu. Mér er satt að segja algjörlega ómögulegt að skilja hvernig annars sæmilega skynsamt fólk getur komist að þeirri niðurstöðu að í þessari gjörð felist hið eina sanna "réttlæti". Það er undarlegt það réttlæti verð ég að segja og algjörlega í samræmi við hugmyndir kommúnista fyrri tíma - að öllu sé betur komið á forræði ríkisins.

Að síðustu - hugmyndir íslenskra stjórnmálamanna nú á dögum að hið eina sanna réttlæti sé í því fólgið að allir hafi sömu laun. Það er kannski aðeins of djúpt í árinni tekið að íslenskir stjórnmálamenn hafi gengið alveg svo langt í hugmyndum sínum en samt virðist manni ekki að það sé langt undan. Þetta var hugmyndafræði kommúnista í Austur Þýskalandi. Ég skoðaði myndir af mönnum í hinum ýmsu greinum fyrirmyndarríkisins og þeir voru allir með sömu laun.

Stjórnarskráin. Það var eitt af því fyrsta sem þýskir nasistar komu í verk. Að breyta lögum til að gera þeim auðveldara fyrir að breyta stjórnarskránni. Íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki látið sér detta það í hug - en þeir létu sér samt detta það í hug á einhverjum verstu óreiðutímum sem verið hafa í íslensku samfélagi að flýta sér að breyta stjórnarskránni. Það var forgangsmál.

Ég er hér að gagnrýna alla flokka, þann flokk sem ég kaus jafnt og aðra flokka. Það geri ég af því að það er ekki vanþörf á. Það á að vera hægt að gera skýrar kröfur á stjórnmálamenn og flokka og mín krafa í þá veru snýr að skynsemi. Skynsemi og raunsæji um samfélagsleg málefni. Það er óþolandi og getur beinlínis reynst stórhættulegt til lengri tíma litið þetta óraunsæjisblaður sem einkennir íslensk stjórnmál þessa dagana.

Mér ofbýður að koma heim eftir fjögurra daga ferðalag og sjá fjölmiðla uppfulla af umræðu um kvótakerfið, eins og það sé forgangsmál íslenskra stjórnmála núna í kjölfar efnahagslegs hruns. Mér ofbýður þjóðerniskennd landa minna. Mér ofbýður viljaleysi þingmanna til að horfa á hagsmuni heildarinnar og að sama skapi einbeittan vilja þeirra til að hugsa út frá hagsmunum FLOKKSINS. Mér ofbýður feimnisleysi Ragnars Arnalds og félaga hans í Heimssýn í þá veru að reyna að banna umfjöllun fjölmiðla um Evrópusambandsaðild. Allt eru þetta atriði sem gera mig pólitískari en nokkru sinni fyrr og var þó nóg fyrir. Ekki flokkspólitískari - pólitískari. Á því er grundvallarmunur.

Er ekki ástæða til fyrir okkur öll að staldra aðeins við núna og íhuga hvert við viljum fara með þetta samfélag okkar?

sunnudagur, 17. maí 2009

Löggjafarvald eða lögfræðingavald?

Það hefur oft þótt ágæt aðferð þegar stefnumarkandi ákvarðanir eru teknar að greina núverandi stöðu. Þess sakna ég í umræðu Íslendinga um mögulega aðild að ESB.

Ég sakna þess að aldrei heyrist orð um það í hvaða stöðu við erum undir EES samningnum. EES aðildin og framkvæmd þess samnings er augljóslega eitt af aðalatriðum málsins. Ísland er aðili að EES og við hljótum að taka þá staðreynd með í reikninginn þegar við gerum upp hug okkar gagnvart fullri aðild að ESB.

Eitt af því sem oft er notað gegn aðild að ESB er að við megum ekki gerast aðilar af því að með því fáum við yfir okkur svo mikið reglugerðarfargan. Ég segi við þurfum að gerast aðilar að ESB vegna þess að EES er óþolandi staða til framtíðar.

Við höfum nú búið við EES samninginn í 15 ár. Með honum höfum við skuldbundið okkur til að taka við reglugerðum og tilskipunum ESB í tilteknum málaflokkum. Framkvæmd hans hefur þróast þannig að innleiðing og túlkun hefur af íslenskum stjórnvöldum verið látin lögfræðingum eftir nánast gagnrýnislaust . Látið er að því liggja að þegar ESB reglugerðir og tilskipanir eru annars vegar sé það bókstafurinn sem gildir. Með þeim hætti er gefið í skyn að engin pólitísk álitaefni séu til staðar við innleiðingu viðkomandi reglugerða og tilskipana ESB. Rétt innleiðing þeirra sé ein og aðeins ein - þröng og samkvæmt bókstafnum.

Þetta er að mínu viti óþolandi staða og krefst þess að við gerum okkur grein fyrir henni. Á grundvelli EES höfum við búið til kerfi þar sem við látum lögfræðingum innan ráðuneyta og stofnana eftir pólitíska stefnumótun í mörgum grundvallaratriðum samfélagsins.

Ég ber mikla virðingu lögfræðingum og þeirra þekkingu um það snýst málið ekki - svo það sé nú alveg klárt. Ég er aftur á móti ekki sannfærð um að það sé gott fyrirkomulag fyrir samfélagið okkar að við látum lögfræðingum sem ekki eru lýðræðislega kjörnir eftir lagasetningu. Þannig virkar þetta fyrirkomulag því miður í reynd. Ef að ESB reglugerðir og tilskipanir sem við erum skuldbundin til að taka upp eru ekki pólitísk álitaefni heldur lögfræðileg úrlausnarefni þá búum við lagsetningarvald lögfræðinga en ekki kjörinna fulltrúa.

Stjórnmálamennirnir hætta sér ekki út í að kynna sér þessar reglugerðir og tilskipanir ofan í kjölinn, þeir láta lögfræðingunum þetta eftir og segja okkur að „við verðum að taka þetta upp vegna EES". Þannig búum við Íslendingar í mörgum málaflokkum við lögfræðingavald í stað löggjafarvalds.

Þetta fyrirkomulag getur íslenskt samfélag ekki búið við til framtíðar. Um þetta þurfum við að tala.

laugardagur, 25. apríl 2009

Sjálfstæðisflokksheilkennið

Úr mér er allur vindur. Er búin að skrifa svo marga pistla um sama málefni að það er komin þurrð.

Hef setið eins og brjáluð manneskja á facebook í nokkrar vikur í þeim eina tilgangi að reyna mitt besta til að hafa áhrif auk, þess að skrifa nokkuð reglulega pistla sem engin viðbrögð hafa verið við. Því tímabili lýkur eftir morgundaginn og sannarlega tími til kominn.

Það er svo skrítið hvernig staða stjórnmála er í þessu landi og ég veit eiginlega ekki hvernig mér datt það í hug að mér tækist að hafa einhver áhrif þar á. Öllu er snúið upp í svart eða hvítt, rétt eða rangt, algott eða alvont.

Af því að ég er sannfærð um að ESB aðild sé það sem við þurfum að setja í forgang er það túlkað sem svo að ég hljóti að líta svo á að ESB sé algott fyrirbæri og allt sem frá því kemur stórgott. Af því ég berst fyrir því að fá kjósendur til að greiða Samfylkingunni atkvæði sitt þá hlýt ég að trúa á flokkinn og allt sem frá honum kemur hljóti að vera í mína þágu. Það er skemmst frá því að segja að hvorutveggja er fjær sanni.

Ég vinn í því alla daga að berja niður ofstækistúlkun íslenskra stjórnvalda á ESB-tilskipunum og reglugerðum. Það er mitt aðalstarf. Því fer fjarri að ég telji að Evrópusambandið sé algott og raunar eins fráleitt að halda því fram - eins og halda því fram að öll löggjöf frá Alþingi sé algóð. Gagnrýnisleysi einkennir alla upptöku ESB reglna hér á landi og er efni í margar greinar. En um það vilja íslenskir stjórnmálamenn ekki tala. Það er svo ágætt að hafa blóraböggul til að kenna um allt slæmt.

ESB er samband Evrópuþjóða og fyrir mér orkar allt sem frá sambandinu kemur tvímælis. Sumt er gott og annað vont - eins og gengur og gerist með flest í mannlegu samfélagi. Ég hef satt að segja aldrei kynnst neinu sem er yfir gagnrýni hafið og á ekki von á því að ég eigi eftir að kynnast slíku.

Sjálfstæðisflokkurinn er eitt þessara „algóðu" fyrirbæra. Forystumenn í íslensku atvinnulífi hafa litið á það sem sjálfsagt mál að styðja flokkinn og það verður að segjast að lítið hefur verið um gagnrýni á þeim bænum. Slíkir hallelújakórar eru engum hollir og það er mín sannfæring að við súpum nú seyðið af því gagnrýnisleysi.

Stjórnmálaflokkar þurfa aðhald. Karlaklúbburinn í íslensku atvinnulífi þarf aðhald. Það er beinlínis ógnvekjandi að upplifa að þrátt fyrir ástandið sem ríkt hefur hérlendis á þessum fyrsta áratug 21. aldar ætli framvarðasveit íslensks atvinnulífs að kjósa sama flokkinn yfir sig áfram.

Það verða engar breytingar nema við krefjumst þeirra. Á meðan forystumenn í íslensku atvinnulífi kjósa Sjálfstæðisflokkinn slag í slag án þess að gera nokkurn tíma kröfu um að flokkurinn hafi stefnu sem skiptir máli - verða engar breytingar.

Mig grunar að það sé staðan sem við eigum eftir að vakna upp við einu sinni enn...

föstudagur, 24. apríl 2009

Um hvað snúast kosningar á Íslandi að vori 2009?

Á morgun eru kosningar á Íslandi. Ég hef síðustu vikur skrifað marga pistlana um hvað þær kosningar snúast fyrir mér. Aðild að Evrópusambandinu. Þess vegna ætla ég að kjósa Samfylkinguna. Það er illskásti kosturinn eins og einn frambjóðandi þess flokks orðaði það svo skemmtilega fyrir mig á dögunum.

Ég kýs ekki Samfylkinguna vegna þess að ég sé sannfærð um að allt sé gott og blessað sem sá flokkur hefur á stefnuskránni, það er langur vegur þar frá. Ég er til dæmis í grundvallaratriðum ósammála flokknum um "þjóðar"eignarhugtakið og stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum. En mér er nauðugur einn kostur, ég verð að forgangsraða og núna er ESB aðild forgangsatriði íslenskra stjórnmála.

Um tíma eftir að ég sagði mig úr Samfylkingunni á haustdögum bar ég í brjósti þá von að Framsóknarflokkurinn gæti mótað stefnu sem ég gæti samsamað mig við. Formaðurinn slökkti þá von strax og hann tók við embætti þegar hann gaf út þá yfirlýsingu að ESB aðild væri seinni tíma mál og ekki forgangsatriði.

Ég er ekki sátt. Ekki sátt við þá óraunsæju pólitík sem einkennt hefur íslenska stjórnmálaumræðu fyrir þessar kosningar en þetta er einfaldlega það umhverfi sem mér er boðið upp á og aðrir kostir eru ekki í stöðunni.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði klofnað gæti vel verið að ég hefði fundið stað fyrir mínar pólitísku skoðanir en það gerðist ekki. Ég hef leyft mér hér á facebook að gera athugasemdir við það að kjósendur þess flokks sem eru sannfærðir um að ESB aðild sé forgangsatriði íslenskra stjórnmála í dag ætli samt að kjósa þann flokk. Það er eitthvað sem ég skil ekki en hef heldur betur fengið skýr skilaboð um að með því gekk ég of langt. Trúarbragðapólitíkin er svo sterk hér á landi að jafnvel þó Ísland sé í þeirri stöðu sem það er - er það ekki nægileg forsenda til að kjósa annan flokk.

Ég er alin upp í svona trúarbragðapólitík og veit vel út á hvað hún gengur en hún veldur mér ómældri sorg. Mér finnst það sorglegt að þetta skuli vera staðan.

Ég er í alvörunni hrædd við niðurstöðuna eftir morgundaginn. Ég er hrædd við að Íslendingar kjósi einangrun og "sjálfstæði" í anda Bjarts í Sumarhúsum sem við öll munum súpa seyðið af um langa framtíð.

Ég ætla samt að leyfa mér að vona hið gagnstæða. Ég ætla að leyfa mér að vona að í þessum kosningum munu kjósendur forgangsraða og meirihlutinn kjósa flokka sem hafa yfirlýsta stefnu um aðild að ESB. Þar eru ekki nema tveir kostir í stöðunni, annars vegar Samfylkingin og hins vegar Framsóknarflokkurinn.

Gleðilegan kosningadag!

þriðjudagur, 21. apríl 2009

Ég bjó í Toscana eftir allt saman!

Fyrir mig sem er alin upp í íslenskri sveit er stórmerkilegt að hlusta á pólitíska umræðu á Íslandi á árinu 2009.

Viðfangsefnin eru...
að tryggja "fæðuöryggi" íslensku þjóðarinnar með því að stórefla íslenskan landbúnað. Að efla með öllum ráðum íslenska framleiðslu á öllum sviðum og hætta sem mest innflutningi. Spara þannig gjaldeyri. Að ríkið taki til sín kvóta sjávarútvegsfyrirtækjanna og geri þar með verðmæti þessara sömu fyrirtækja að engu.

Sjálfsþurftabúskapur og ríkisvæðing - það eru lausnarorð stjórnmálamanna á Íslandi vorið 2009. Það er leið okkar út úr kreppunni. Mér er alveg gjörsamlega ómögulegt að fá nokkurn botn í þessa vitleysu alla saman.

Á uppvaxtarárunum voru bændur "vondir menn". Þá voru þeir sá hluti atvinnulífsins sem varð einna harkalegast fyrir barðinu á stjórnmálamönnum og ekki annað að skilja af umræðunni en þeim og atvinnugreininni landbúnaði væri um að kenna allt vont í íslensku samfélagi.

Nú er öldin önnur. Nú er landbúnaður orðin "sæt" atvinnugrein. Svo sæt að ekki er annað að skilja en að hann geti allt og allt sé mögulegt. Mér dettur einna helst í hug að ég hljóti að hafa misskilið eitthvað hrapallega á uppvaxtarárunum. Ég bjó eftir allt saman í sveit þar sem möguleikarnir voru ótalmargir. Við vorum bara svona miklir kjánar - við sáum ekki tækifærin. Útflutningur á íslensku grænmeti. Sjálfbært Ísland í framleiðslu á hveiti. Já ég bíð bara eftir að heyra að íslenskir bændur geti stefnt á útflutning á banönum til Kanaríeyja eins og ein kollega mín hafði á orði í hádeginu í dag.

Engum stjórnmálamanni dettur í hug að gagnrýna kerfi þessarar atvinnugreinar í dag. Það er bannorð. Íslenskt landbúnaðarkerfi er frábært og einna helst að það þurfi að stórauka niðurgreiðslur! Hvers lags stjórnmál eru þetta eiginlega? Í alvöru talað? Með fullri virðingu fyrir íslenskum sveitum og íslenskum bændum - er ekki þörf á jarðtengingu í umræðunni?

Ég tek það fram að ég ber mikla virðingu fyrir tilraunum í nýsköpun í landbúnaði hvers konar. Ég ber líka virðingu fyrir rótgróinni landbúnaðarframleiðslu. Ég ber líka mikla virðingu fyrir íslenskum sjávarútvegi. Þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Ég horfi á þessar atvinnugreinar raunsæjum augum og tel þær hvorki yfir gagnrýni hafna né sökudólga að öllu slæmu. Ég geri þá kröfu að talað sé um þessar atvinnugreinar - sem atvinnugreinar. Þær hvorki upphafnar eins og gert er í umræðu um landbúnað í dag eða talaðar niður eins og gert hefur verið í umræðu um kvótakerfið og þar með sjávarútveg í áratugi. Ég "á" ekkert í íslenskum sjávarútvegi frekar en öðrum atvinnurekstri. Ég er íslenskur ríkisborgari vissulega en það þýðir ekki að ég sé sem slík "eigandi að eign".

Við þurfum á jarðtengingu að halda Íslendingar. Við þurfum að vita í hvers konar landi við búum og hvers konar landi við viljum lifa. Við viljum örugglega öll fjölbreytt atvinnutækifæri. Það á við um okkur hvort heldur við búum í íslenskum sveitum eða í þéttbýli.

Við viljum eiga aðgang að neytendavöru á sem lægstu verði - viljum ekki neyðast til að kaupa íslenska vöru þó hún sé miklu dýrari í framleiðslu en erlend vara. Við viljum öll eiga aðgang að markaði þar sem raunveruleg samkeppni ríkir. Við viljum geta komist til útlanda á viðráðanlegu verði og án þess að þurfa að hafa áhyggjur af gjaldeyriseyðslu!

Við eigum ekki að láta stjórnmálamenn plata okkur með þjóðerniskenndri stjórnmálaumræðu sem á ekkert skylt við það samfélag sem við viljum búa í í dag á árinu 2009. Framtíðin sem stjórnmálamennirnir eru að tala til okkar um - er Ísland eins og það var á mínum uppvaxtarárum. Land sjálfsþurftabúskapar og óarðbærs sjávarútvegs.

Ég er ekki sammála Andra Snæ Magnasyni um margt en ég er hjartanlega sammála honum um eitt - við eigum ekki að láta stjórnast af hræðslu.

Við eigum fullt af tækifærum. Þau tækifæri felast í fullu samfélagi við Evrópuþjóðir. Aðild að ESB er sá grundvöllur sem við þörfnumst. Það er ekki töfralausn. Brjálæðið sem við höfum upplifað í íslensku samfélagi á fyrsta áratug þessarar aldar var "töfralausn". Við sjáum vel hvert slík stefna leiðir okkur. Við þurfum ekki fleiri slíkar töfralausnir. Við þurfum stefnu á hægfara breytingar til langs tíma. Stefnu sem tryggir Íslandi aðild að markaði í báðar áttir fyrir viðskipti með fjármagn vörur og þjónustu. Þau skilyrði fáum við með aðild að ESB.

Við ætlum ekki að fórna sjávarútvegi eða landbúnaði fyrir aðild að ESB. En það er jafnfráleitt að halda því fram að þessar atvinnugreinar séu óumbreytanlegar og kyrrstaða sé lausnin.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...