Vegna óbilandi áhuga á málefninu langar mig að halda aðeins áfram með hugleiðingar um góðar og vondar atvinnugreinar og gagnsleysi umræðu á þeim forsendum.
Átti lítið samtal um þetta á fésbókarsíðu bróður míns í dag en viðkomandi bróðir minn er Framsóknarmaður sem ég er ekki. Við erum þó oft sammála þegar að því kemur að ræða almennt um atvinnugreinar enda bæði alin upp í sveit sem er sá bakgrunnur sem við bæði höfum og hefur óhjákvæmilega mótað okkur þó niðurstaðan um hvar við staðsetjum okkur í pólitík sé ekki sú sama. Það er rétt að halda því til haga að þó það leyni sér ekki að ég styð ákveðinn flokk þá er ég ekki aðili að stjórnmálaflokki og þetta efni sem hér er til umræðu er einmitt ástæða þess.
Umræðan sem blossað hefur upp síðustu misseri um nauðsyn þess að skattleggja tilteknar atvinnugreinar umfram aðrar er umræða sem ég skil ekki. Er alveg tilbúin að hlusta á rök fyrir því og heyra af samanburði við skattlagningu sambærilegra atvinnugreina í öðrum löndum en ég er ekki tilbúin að hlusta á tilfinningaþrungna umræðu á þeim nótum að sjávarútvegurinn sé "þjóðareign" og þess vegna eigi þessi atvinnugrein að greiða sértæka skatta í ríkissjóð umfram aðrar atvinnugreinar. Það sama er uppi á teningnum hvað varðar orkuskatta á stóriðju. Það eru ekki nægileg rök að heyra hástemmdar yfirlýsingar um að áliðnaður sé svo "vond" framleiðsla að þess vegna eigi þessi atvinnugrein að greiða sértæka skatta í ríkissjóð.
Ég kaupi alveg þær hugmyndir að það sé ekki skynsamlegt að við förum úr einum öfgunum í aðrar. Förum úr því að lifa á sjávarútvegi, bankastarfsemi í skamman tíma og svo sé það stóriðjan. Mjög skynsamlegt að skoða þessa hluti heildstætt og stefna að því að Ísland verði ekki algjörlega háð einni atvinnugrein. Á þeim nótum er í góðu lagi að gagnrýna stóriðjuuppbyggingu. Ég kaupi líka rök sannra náttúruverndarsinna sem gagnrýna þá stefnu að leggja mikið land og fagra náttúru undir orkuver. Móðir mín er ein þeirra og ég ber fulla virðingu fyrir því.
En þegar sömu aðilar taka upp á áróðurskenndum yfirlýsingum um að þessi fyrirtæki skili svo litlum "arði" til þjóðarinnar og eigi á þeim forsendum ekki að eiga sér tilverurétt hér lokast á mér eyrun. Það sama gerist þegar talað er um að þessi fyrirtæki séu ekki of góð til að greiða skatta til okkar aumingja almúgans. Þá hætti ég að hlusta.
Fyrir mér er atvinnurekstur atvinnurekstur og verður alltaf. Atvinnurekstur er ekki góðgerðarstarfsemi og fyrirtæki hér verða ekki rekin á þeim forsendum hér frekar en annars staðar í heiminum. Almennt ganga fyrirtæki út á það að hámarka hagnað sinn og það er fullkomlega eðlilegt og rétt að þannig sé það. Eins og ég hef leyft mér að segja frá upphafi hruns er sjálfsagt að gera þá kröfu til atvinnurekstrar að skynsemin sé með í för. Gróðahyggja sem gengur út yfir öll mörk er vond hvar sem hún ber niður. En að fyrirtæki leiti mestu mögulegu hagkvæmni og leiti allra leiða til að búa til sem mest verðmæti kemur mér sem launþega fyrst og fremst til góða.
Illa rekin fyrirtæki greiða ekki há laun eða eru líkleg til að gera vel við starfsmenn sína. Rekstur sem skilar litlum eða engum arði er ekki líklegt til að gera mikið fyrir það samfélag sem hann starfar í.
Ef að íslensk stjórnvöld komast að þeirri niðurstöðu að rétta leiðin núna sé að skattleggja "auðlindir" sérstaklega og leggja þannig umfram álögur á tilteknar atvinnugreinar þá hljóta þau að hafa skotheld rök fyrir því. Ísland er ekki í tómarúmi í heiminum. Ísland er í hörðu samkeppnisumhverfi alþjóðlegs markaðar og allar ákvarðanir stjórnvalda hljóta að taka mið af því. Skattlagning á hráefni eða orkukaup er ekki venjuleg skattheimta heldur skattheimta sem hefur afgerandi áhrif á niðurstöðu rekstrarins og þar með á möguleika viðkomandi atvinnugreina til að skila hagnaði og nýta þá fjármuni í annars konar uppbyggingu eða starfsemi.
Svona mikill einfeldningur er ég nú í viðhorfi mínu til atvinnurekstrar. Ég hef brennandi áhuga á uppbyggingu samfélagsins okkar og ef það er eitthvað sem mig dreymir um þá er það að geta einhvern tímann rætt um atvinnulíf og rekstur almennt með þessum gleraugum.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli