Skrifað í tengslum við nefndarstarf í Framtíðarhópi Samfylkingarinnar 2004 eða 2005 en birt á bloggi 1. október 2009
Pistill skrifaður árið 2004 í ákveðnum tilgangi. Áminning um það sem ég vil ekki að verði viðvarandi viðfangsefni fyrirtækja og almennings á Íslandi til langrar framtíðar:
Ísland er lítið hagkerfi með sjálfstæða mynt – hverjir eru kostir þess?
Hvað er til umræðu á meðal forystumanna í íslensku atvinnulífi þessa dagana?
Hvað er það í rekstrarumhverfi fyrirtækjanna sem veldur þeim mestum áhyggjum?
Hvar er óvissuþátturinn mestur?
Gengi íslensku krónunnar. Það er sama í hvaða atvinnuvegi borið er niður, iðnaði, sjávarútvegi, ferðamennsku. Allar atvinnugreinar lifa við óstöðugt rekstrarumhverfi vegna íslensku krónunnar. Gríðarleg fjárfesting í virkjana- og stóriðjuframkvæmdum þessi misserin skiptir sköpum um styrk hennar. Hagkerfið er óstöðugt, Seðlabankinn hækkar vexti til að stemma stigu við verðbólgu sem heyrist að ekki sé fráleitt að nái tveggja stafa tölu á næsta ári. Áhrifavaldurinn – gríðarleg hækkun húsnæðisvísitölu.
Það þarf ekki stóriðjuframkvæmdir eða hækkun á húsnæðisverði til að íslenska krónan taki dýfu. Það er ekki lengra síðan en þrjú ár að verðbólgan fór úr böndum, þá vegna stóraukinnar fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis á sama tíma og erlend lántaka dróst saman. Íslenska krónan er lítil mynt í alþjóðlegum heimi – er von til þess að fyrirtæki hér búi einhvern tíma við stöðugleika með hana sem gjaldmiðil?
Óstöðugleiki í gengi gjaldmiðilsins leiðir af sér óstöðugleika í rekstri þeirra fyrirtækja sem eru með tekjur sínar og/eða kostnað í öðrum gjaldmiðlum. Rekstur hvaða fyrirtækis sem er gengur út á að gera áætlanir fram í tímann og leitast við að ná markmiðum þeirra. Áætlanir þar sem tekjur og gjöld eru í stöðugri óvissu er erfiður, stundum óviðráðanlegur. Þetta á ekki síst við um minni fyrirtæki í alþjóðaviðskiptum sem eiga minni möguleika á að tryggja sig fyrir gengisbreytingum en þau sem stærri eru.
Auk þess að losna við íslensku krónuna opnar innri markaður Evrópu Íslendingum ótal tækifæri í auknum viðskiptum. Markaður með sameiginlega mynt eykur viðskipti innan hans. Viðskiptakostnaður minnkar, gagnsæji eykst og síðast en ekki síst má gera ráð fyrir að sameiginleg mynt virki örvandi fyrir fjármálamarkaðinn. Sérfræðingar á sviði fjármála hafa oft talað um að íslenska krónan, sérregur eins og verðtryggingin virki fælandi á erlenda fjárfesta. Grundvöllurinn að aukinni fjölbreytni í fjárfestingum erlendra aðila hér á landi er mynt sem markaðurinn þekkir. Meiri fjölbreytni í erlendri fjárfestingu er eftirsóknarverð fyrir íslenskt atvinnulíf og ekki síður launþega og neytendur. Erlend fjárfesting kemur inn með nýja þekkingu og eykur aðhald á íslenskum fjármálamarkaði.
Aðild að EMU er mikilvægasta atvinnumálið. Engin aðgerð hefði jafnmikil áhrif í þá átt að tryggja jafnræði atvinnugreina eða auka gagnsæji og auðvelda samanburð á markaði. Áætlanagerð verður mun einfaldari og markvissari þar sem stærsta óvissuþættinum í rekstrinum væri að miklu leyti eytt – gengisáhættunni. EMU-aðild kemur ekki til greina án Evrópusambandsaðildar. Í ljósi þess óstöðugleika sem íslensk fyrirtæki búa við vegna íslensku krónunnar er augljós þörf á að ræða Evrópusambandsaðild í því samhengi.
Forsvarsmenn atvinnulífsins hafa þörf fyrir að opnað sé fyrir þetta samhengi hlutanna.
Birt til að minna á vanda síðasta áratugar og hvað er enn forgangsmál íslenskra stjórnmála í október 2009:
Ein af mörgum ástæðum þess að við eigum að stefna á aðild að ESB. Staða myntarinnar í dag er að gengi hennar er 20% veikara í dag en það hefur orðið veikast áður 1983 og 2001. Ástæðan er ekki veikar undirstöður heldur fullkomið vantraust markaðarins.
Spurningar sem ástæða er til að velta upp:
Hver væri "skuldavandi heimilanna" ef þessi staða krónunnar væri ekki raunveruleikinn?
Hver væri "skuldastaða sveitarfélaganna" í landinu?
Hver væri "skuldastaða sjávarútvegsfyrirtækja"?
Af hverju er öll áhersla umræðunnar á að afskrifa eða bjóða upp á skammtímalausnir í stað þess að gefa okkur von til framtíðar um lausn þessa vandamáls?
Ætlum við götuna fram á veg með sama vandamál á bakinu til langrar framtíðar?
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli