Ég hef lengi haft ástríðufullan áhuga á að umræða um atvinnulíf hér landi komist upp úr þeim hjólförum sem hún hefur meira og minna allt mitt líf verið í en það er að umræða um "góðar" atvinnugreinar annars vegar og "vondar" atvinnugreinar hins vegar.
Því miður hefur umræðan um góðar og vondar atvinnugreinar einungis orðið djúpstæðari með árunum og engin teikn á lofti um að það muni breytast.
Grunninn að áhuga mínum á þessu fyrirbæri má rekja til þess að ég ólst upp í atvinnugrein sem á þeim tíma var "vond". Landbúnaður og bændur voru afætur samfélagsins og vitræn umræða um kerfi greinarinnar, möguleikum hennar, kostum og göllum komst aldrei upp á yfirborðið.
Umræða um "vondar" atvinnugreinar og "góðar" leiðir af sér að aldrei er hægt að tala um það sem skiptir máli. Upphrópanirnar einar duga. Við þekkjum þetta vel og höfum séð afleiðingarnar.
Sjávarútvegur er dæmi um atvinnugrein sem ekki hefur verið hægt að eiga vitræna umræðu um í áratugi. Hvert hefur "með og á móti" umræða um kvótakerfið leitt okkar í áratugi? Jú tilfinningaþrungin umræða um eitthvað óskiljanlegt fyrirbæri eins og "sameign þjóðarinnar" hefur leitt okkur á þann stað að ákveðinn hópur samfélagsins trúir því statt og stöðugt að þessi atvinnugrein skuldi okkur öllum svo og svo mikið og því eigi þessi atvinnugrein umfram aðrar að greiða þá skuld til baka til okkar allra í formi sértækra skatta.
Það sama virðist uppi á teningnum núna hvað varðar álver og stóriðju. Þetta er "vond" starfsemi í augum ákveðins hóps og þess má hún gjöra svo vel að borga okkur öllum sértækan skatt.
Nú eru landbúnaður og ferðaþjónusta hæstmóðins og voðalega sætar og góðar atvinnugreinar slíkar atvinnugreinar má ekki gagnrýna fremur en það má tala um kosti "vondu" atvinnugreinanna. (Enginn minnist t.d. á að ferðaþjónusta verður seint talin í hópi þeirra atvinnugreina sem greiða hæstu launin. Þetta er sagt með fullri virðingu fyrir greininni um leið og þetta er að sjálfsögðu atriði sem skiptir máli þegar teknar eru ákvarðanir um stefnumótun atvinnulífs okkar til framtíðar.)
Ætlum við að halda svona áfram lengi enn? Gagnast umræða af þessum toga eitthvað framtíðarkynslóðum þessa lands eða okkur sjálfum?
Ég hef ákveðnar skoðanir á því að þegar að uppbyggingu atvinnulífs kemur þá sé ekki hægt að tala um Ísland sem eina heild. Við sem búum á Reykjavíkursvæðinu erum ekki á sama stað og landsbyggðin og það er grundvallaratriði að átta sig á því.
Maslow píramídinn er ágætis tæki til að skýra hvað ég á við. Mín skoðun er sú að landsbyggðin sé enn neðarlega í Maslow píramídanum á meðan Reykjavík og höfuðborgarsvæðið er komið mun ofar. Þarfirnar eru ólíkar og af því verður að taka mið í allri pólitískri stefnumótun þ.m.t. orkunýtingu og uppbyggingu stóriðju eða ekki.
Ég hef starfað í heimi inn- og útflutningsviðskipta allt mitt líf, innan flutningagreinarinnar mestan part sem er þjónustugrein við atvinnulífið fyrst og fremst. Sú reynsla hefur kennt mér hversu gríðarleg margföldunaráhrif erlendar fjárfestingar í uppbyggingu stóriðju hafa haft hér á landi. Eins og Ólafur Teitur sagði í þætti í Vikulokunum áðan "álversframleiðsla er peningamaskína". Það er hárrétt hjá honum og slík peningamaskína er gríðarlega mikilvægur grunnur fyrir ákveðin landssvæði til að komast ofar í Maslow píramídann. Peningamaskína af þeim toga sem stóriðja er býr til forsendur fyrir aðra fjölbreytta starfsemi að verða til. Ferðaþjónusta, landbúnaður eða gróðurhús hafa engin slík margföldunaráhrif.
Hvað sem hver segir um kvótakerfið þá er ekki vafi á að það kerfi hafði gríðarleg áhrif á styrk atvinnugreinarinnar sjávarútvegs sem aftur hafði gríðarleg áhrif á þróun hátæknigreina. Þannig er ekki vafi á því í mínum huga að sterk fjárhagsleg staða sjávarútvegsfyrirtækja sem var afleiðing kvótakerfisins byggði upp atvinnugreinina hátækni sem hefur þróast og er að þróast í margar áttir.
Það er mikilvægara en flest annað að við komumst upp úr skotgröfunum sem einkennir alla umræðu um framtíðarstefnumótun atvinnulífs hér á landi. Það gerum við með því að opna augun fyrir því að þarfir okkar og staða er ólík eftir því hvort við búum á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Horfum raunsætt á stöðu okkar og tökum ákvarðanir út frá því.
Hættum að tala um atvinnugreinar sem "vondar" eða "góðar" atvinnugreinar. Allar atvinnugreinar hafa kosti og galla og þær byggja hver á annarri. Fjölbreytni í atvinnutækifærum hlýtur að vera markmið sem við öll - hvar sem við búum á landinu - getum sameinast um.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli