þriðjudagur, 21. apríl 2009

Ég bjó í Toscana eftir allt saman!

Fyrir mig sem er alin upp í íslenskri sveit er stórmerkilegt að hlusta á pólitíska umræðu á Íslandi á árinu 2009.

Viðfangsefnin eru...
að tryggja "fæðuöryggi" íslensku þjóðarinnar með því að stórefla íslenskan landbúnað. Að efla með öllum ráðum íslenska framleiðslu á öllum sviðum og hætta sem mest innflutningi. Spara þannig gjaldeyri. Að ríkið taki til sín kvóta sjávarútvegsfyrirtækjanna og geri þar með verðmæti þessara sömu fyrirtækja að engu.

Sjálfsþurftabúskapur og ríkisvæðing - það eru lausnarorð stjórnmálamanna á Íslandi vorið 2009. Það er leið okkar út úr kreppunni. Mér er alveg gjörsamlega ómögulegt að fá nokkurn botn í þessa vitleysu alla saman.

Á uppvaxtarárunum voru bændur "vondir menn". Þá voru þeir sá hluti atvinnulífsins sem varð einna harkalegast fyrir barðinu á stjórnmálamönnum og ekki annað að skilja af umræðunni en þeim og atvinnugreininni landbúnaði væri um að kenna allt vont í íslensku samfélagi.

Nú er öldin önnur. Nú er landbúnaður orðin "sæt" atvinnugrein. Svo sæt að ekki er annað að skilja en að hann geti allt og allt sé mögulegt. Mér dettur einna helst í hug að ég hljóti að hafa misskilið eitthvað hrapallega á uppvaxtarárunum. Ég bjó eftir allt saman í sveit þar sem möguleikarnir voru ótalmargir. Við vorum bara svona miklir kjánar - við sáum ekki tækifærin. Útflutningur á íslensku grænmeti. Sjálfbært Ísland í framleiðslu á hveiti. Já ég bíð bara eftir að heyra að íslenskir bændur geti stefnt á útflutning á banönum til Kanaríeyja eins og ein kollega mín hafði á orði í hádeginu í dag.

Engum stjórnmálamanni dettur í hug að gagnrýna kerfi þessarar atvinnugreinar í dag. Það er bannorð. Íslenskt landbúnaðarkerfi er frábært og einna helst að það þurfi að stórauka niðurgreiðslur! Hvers lags stjórnmál eru þetta eiginlega? Í alvöru talað? Með fullri virðingu fyrir íslenskum sveitum og íslenskum bændum - er ekki þörf á jarðtengingu í umræðunni?

Ég tek það fram að ég ber mikla virðingu fyrir tilraunum í nýsköpun í landbúnaði hvers konar. Ég ber líka virðingu fyrir rótgróinni landbúnaðarframleiðslu. Ég ber líka mikla virðingu fyrir íslenskum sjávarútvegi. Þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Ég horfi á þessar atvinnugreinar raunsæjum augum og tel þær hvorki yfir gagnrýni hafna né sökudólga að öllu slæmu. Ég geri þá kröfu að talað sé um þessar atvinnugreinar - sem atvinnugreinar. Þær hvorki upphafnar eins og gert er í umræðu um landbúnað í dag eða talaðar niður eins og gert hefur verið í umræðu um kvótakerfið og þar með sjávarútveg í áratugi. Ég "á" ekkert í íslenskum sjávarútvegi frekar en öðrum atvinnurekstri. Ég er íslenskur ríkisborgari vissulega en það þýðir ekki að ég sé sem slík "eigandi að eign".

Við þurfum á jarðtengingu að halda Íslendingar. Við þurfum að vita í hvers konar landi við búum og hvers konar landi við viljum lifa. Við viljum örugglega öll fjölbreytt atvinnutækifæri. Það á við um okkur hvort heldur við búum í íslenskum sveitum eða í þéttbýli.

Við viljum eiga aðgang að neytendavöru á sem lægstu verði - viljum ekki neyðast til að kaupa íslenska vöru þó hún sé miklu dýrari í framleiðslu en erlend vara. Við viljum öll eiga aðgang að markaði þar sem raunveruleg samkeppni ríkir. Við viljum geta komist til útlanda á viðráðanlegu verði og án þess að þurfa að hafa áhyggjur af gjaldeyriseyðslu!

Við eigum ekki að láta stjórnmálamenn plata okkur með þjóðerniskenndri stjórnmálaumræðu sem á ekkert skylt við það samfélag sem við viljum búa í í dag á árinu 2009. Framtíðin sem stjórnmálamennirnir eru að tala til okkar um - er Ísland eins og það var á mínum uppvaxtarárum. Land sjálfsþurftabúskapar og óarðbærs sjávarútvegs.

Ég er ekki sammála Andra Snæ Magnasyni um margt en ég er hjartanlega sammála honum um eitt - við eigum ekki að láta stjórnast af hræðslu.

Við eigum fullt af tækifærum. Þau tækifæri felast í fullu samfélagi við Evrópuþjóðir. Aðild að ESB er sá grundvöllur sem við þörfnumst. Það er ekki töfralausn. Brjálæðið sem við höfum upplifað í íslensku samfélagi á fyrsta áratug þessarar aldar var "töfralausn". Við sjáum vel hvert slík stefna leiðir okkur. Við þurfum ekki fleiri slíkar töfralausnir. Við þurfum stefnu á hægfara breytingar til langs tíma. Stefnu sem tryggir Íslandi aðild að markaði í báðar áttir fyrir viðskipti með fjármagn vörur og þjónustu. Þau skilyrði fáum við með aðild að ESB.

Við ætlum ekki að fórna sjávarútvegi eða landbúnaði fyrir aðild að ESB. En það er jafnfráleitt að halda því fram að þessar atvinnugreinar séu óumbreytanlegar og kyrrstaða sé lausnin.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...