föstudagur, 24. apríl 2009

Um hvað snúast kosningar á Íslandi að vori 2009?

Á morgun eru kosningar á Íslandi. Ég hef síðustu vikur skrifað marga pistlana um hvað þær kosningar snúast fyrir mér. Aðild að Evrópusambandinu. Þess vegna ætla ég að kjósa Samfylkinguna. Það er illskásti kosturinn eins og einn frambjóðandi þess flokks orðaði það svo skemmtilega fyrir mig á dögunum.

Ég kýs ekki Samfylkinguna vegna þess að ég sé sannfærð um að allt sé gott og blessað sem sá flokkur hefur á stefnuskránni, það er langur vegur þar frá. Ég er til dæmis í grundvallaratriðum ósammála flokknum um "þjóðar"eignarhugtakið og stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum. En mér er nauðugur einn kostur, ég verð að forgangsraða og núna er ESB aðild forgangsatriði íslenskra stjórnmála.

Um tíma eftir að ég sagði mig úr Samfylkingunni á haustdögum bar ég í brjósti þá von að Framsóknarflokkurinn gæti mótað stefnu sem ég gæti samsamað mig við. Formaðurinn slökkti þá von strax og hann tók við embætti þegar hann gaf út þá yfirlýsingu að ESB aðild væri seinni tíma mál og ekki forgangsatriði.

Ég er ekki sátt. Ekki sátt við þá óraunsæju pólitík sem einkennt hefur íslenska stjórnmálaumræðu fyrir þessar kosningar en þetta er einfaldlega það umhverfi sem mér er boðið upp á og aðrir kostir eru ekki í stöðunni.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði klofnað gæti vel verið að ég hefði fundið stað fyrir mínar pólitísku skoðanir en það gerðist ekki. Ég hef leyft mér hér á facebook að gera athugasemdir við það að kjósendur þess flokks sem eru sannfærðir um að ESB aðild sé forgangsatriði íslenskra stjórnmála í dag ætli samt að kjósa þann flokk. Það er eitthvað sem ég skil ekki en hef heldur betur fengið skýr skilaboð um að með því gekk ég of langt. Trúarbragðapólitíkin er svo sterk hér á landi að jafnvel þó Ísland sé í þeirri stöðu sem það er - er það ekki nægileg forsenda til að kjósa annan flokk.

Ég er alin upp í svona trúarbragðapólitík og veit vel út á hvað hún gengur en hún veldur mér ómældri sorg. Mér finnst það sorglegt að þetta skuli vera staðan.

Ég er í alvörunni hrædd við niðurstöðuna eftir morgundaginn. Ég er hrædd við að Íslendingar kjósi einangrun og "sjálfstæði" í anda Bjarts í Sumarhúsum sem við öll munum súpa seyðið af um langa framtíð.

Ég ætla samt að leyfa mér að vona hið gagnstæða. Ég ætla að leyfa mér að vona að í þessum kosningum munu kjósendur forgangsraða og meirihlutinn kjósa flokka sem hafa yfirlýsta stefnu um aðild að ESB. Þar eru ekki nema tveir kostir í stöðunni, annars vegar Samfylkingin og hins vegar Framsóknarflokkurinn.

Gleðilegan kosningadag!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...