Grein birt í Mbl 15. apríl 2009
Umræðan um stöðu mála í íslensku samfélagi síðustu misseri er mér stöðugt tilefni til hugleiðinga. Hvernig í ósköpunum getur ein þjóð verið jafn skilningslaus á eðli samfélags eins og ég upplifi að íslensk þjóð sé þessa dagana? Þessi þjóð sem ætti að vita betur en nokkur önnur um mikilvægi alþjóðlegra viðskipta fyrir heill samfélagsins?
Þjóð sem var beinlínis vanþróuð og fátæk fyrir stuttu síðan en gerðist rík fyrst og fremst vegna erlendra peninga. Það var „blessað stríðið" sem breytti samfélaginu á Íslandi. Seinni heimsstyrjöldin færði Íslandi erlent fjármagn sem breytti samfélaginu í það sem við þekkjum það. Marshallaðstoð og fé erlendra hermanna sem hér höfðu viðdvöl.
Við Íslendingar erum svo miklir þvergirðingar að okkur er ekki við bjargandi. Ef ég væri Breti, Þjóðverji, Hollendingur, Dani eða Svíi væri mér nákvæmlega sama um þessa þjóð. Af hverju í ósköpunum skildi ég hafa áhyggjur af þjóð sem hugsar ekki um neitt nema sjálfa sig? Hún á ekkert betra skilið en að enda í sömu stöðu og Bjartur í Sumarhúsum - allslaus og upp á sjálfa sig eina komin. Það er það samfélag sem við eigum skilið.
Þetta tal allt síðustu mánuði, alveg frá því að hrunið skall yfir, um að „slá skjaldborg um íslensk heimili", skynja ég sem enn eina klisju íslenskra stjórnmálamanna - pólitík eins og þeir hafa boðið mér upp á allt mitt líf. Fyrirgefið mér en þannig er það nú. Samfélagið gengur ekki nema að atvinnulífið standi í blóma. Það er atriði númer eitt, tvö og þrjú fyrir öll samfélög og það ættu Íslendingar að vita betur en nokkrir aðrir.
Samfélag þar sem ríkið á að bjarga öllu er samfélag ölmusumanna - samfélag sem ég þekki þjóð mína ekki af að kæra sig um. Ríkið hefur vissulega hlutverki að gegna en það hefur ekki því hlutverki að gegna að verða ráðandi aðili í samfélaginu. Ríkið er ekki boðberi réttlætis og sanngirni - hefur aldrei verið - og við eigum ekki að láta eins og svo sé.
Fyrir Íslendinga yrði umsókn um aðild að Evrópusambandinu ákvörðun um að losa sig úr fjötrum. Ákvörðun um að opna aðild að markaði fyrir inn- og útflutning Evrópuþjóða eins og það sé innanlandsmarkaður. Hvað er svona flókið við það? Fyrir skynsamt og vel gefið fólk sem veit vel hvað frjáls viðskipti skipta miklu máli?
Halda íslenskir neytendur í alvörunni að það sé þeirra hagur að allar bækur sem til sölu eru á Íslandi séu prentaðar á Íslandi, að allar niðursuðuvörur sem í boði eru á Íslandi séu framleiddar á Íslandi, að yfirhöfuð öll iðnaðarvara Á Íslandi sé framleidd á Íslandi? Skilur fólk á Íslandi ekki að aðild að Evrópusambandinu þýðir fyrst og fremst samkeppni? Samkeppni sem kemur því sjálfu til góða. Eru Íslendendingar alveg búnir að gleyma því að samkeppni leiðir til lægra verðs og bættra kjara fyrir neytendur?
Þessi pistill verður ekki öllu lengri að sinni. Mér ofbýður svo getuleysi íslenskra stjórnmálamanna til að fjalla um það sem máli skiptir - ofbýður svo að þjóðerniskennd og sjálfsbirgingsháttur skuli vera svo óyfirstíganlegur þröskuldur - að það eru takmörk fyrir því hversu mikilli orku er eyðandi í að reyna að hafa áhrif þar á.
Ég sem hef starfað í hringiðu inn- og útflutningsviðskipta Íslendinga í tuttugu ár, veit heilmikið um það hversu miklu máli alþjóðleg viðskipti skipta fyrir íslenska þjóð. Ég hef beinlínis haft fingurinn á þeim margföldunaráhrifum sem erlendir peningar hafa haft á íslenskt samfélag síðustu áratugi. En íslenska þjóðin vill ekki heyra það. Hún vill bara vera sjálfstæð eins og Bjartur í Sumarhúsum forðum og fara aftur til sjálfsþurftarbúskaparins og haftanna sem voru viðhöfð stærstan hluta tuttugustu aldar.
Við fáum yfir okkur þá stjórnmálamenn - og þá stefnu - sem við eigum skilið.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli