laugardagur, 25. apríl 2009

Sjálfstæðisflokksheilkennið

Úr mér er allur vindur. Er búin að skrifa svo marga pistla um sama málefni að það er komin þurrð.

Hef setið eins og brjáluð manneskja á facebook í nokkrar vikur í þeim eina tilgangi að reyna mitt besta til að hafa áhrif auk, þess að skrifa nokkuð reglulega pistla sem engin viðbrögð hafa verið við. Því tímabili lýkur eftir morgundaginn og sannarlega tími til kominn.

Það er svo skrítið hvernig staða stjórnmála er í þessu landi og ég veit eiginlega ekki hvernig mér datt það í hug að mér tækist að hafa einhver áhrif þar á. Öllu er snúið upp í svart eða hvítt, rétt eða rangt, algott eða alvont.

Af því að ég er sannfærð um að ESB aðild sé það sem við þurfum að setja í forgang er það túlkað sem svo að ég hljóti að líta svo á að ESB sé algott fyrirbæri og allt sem frá því kemur stórgott. Af því ég berst fyrir því að fá kjósendur til að greiða Samfylkingunni atkvæði sitt þá hlýt ég að trúa á flokkinn og allt sem frá honum kemur hljóti að vera í mína þágu. Það er skemmst frá því að segja að hvorutveggja er fjær sanni.

Ég vinn í því alla daga að berja niður ofstækistúlkun íslenskra stjórnvalda á ESB-tilskipunum og reglugerðum. Það er mitt aðalstarf. Því fer fjarri að ég telji að Evrópusambandið sé algott og raunar eins fráleitt að halda því fram - eins og halda því fram að öll löggjöf frá Alþingi sé algóð. Gagnrýnisleysi einkennir alla upptöku ESB reglna hér á landi og er efni í margar greinar. En um það vilja íslenskir stjórnmálamenn ekki tala. Það er svo ágætt að hafa blóraböggul til að kenna um allt slæmt.

ESB er samband Evrópuþjóða og fyrir mér orkar allt sem frá sambandinu kemur tvímælis. Sumt er gott og annað vont - eins og gengur og gerist með flest í mannlegu samfélagi. Ég hef satt að segja aldrei kynnst neinu sem er yfir gagnrýni hafið og á ekki von á því að ég eigi eftir að kynnast slíku.

Sjálfstæðisflokkurinn er eitt þessara „algóðu" fyrirbæra. Forystumenn í íslensku atvinnulífi hafa litið á það sem sjálfsagt mál að styðja flokkinn og það verður að segjast að lítið hefur verið um gagnrýni á þeim bænum. Slíkir hallelújakórar eru engum hollir og það er mín sannfæring að við súpum nú seyðið af því gagnrýnisleysi.

Stjórnmálaflokkar þurfa aðhald. Karlaklúbburinn í íslensku atvinnulífi þarf aðhald. Það er beinlínis ógnvekjandi að upplifa að þrátt fyrir ástandið sem ríkt hefur hérlendis á þessum fyrsta áratug 21. aldar ætli framvarðasveit íslensks atvinnulífs að kjósa sama flokkinn yfir sig áfram.

Það verða engar breytingar nema við krefjumst þeirra. Á meðan forystumenn í íslensku atvinnulífi kjósa Sjálfstæðisflokkinn slag í slag án þess að gera nokkurn tíma kröfu um að flokkurinn hafi stefnu sem skiptir máli - verða engar breytingar.

Mig grunar að það sé staðan sem við eigum eftir að vakna upp við einu sinni enn...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...