þriðjudagur, 3. nóvember 2009

Vitlaus pólitík

Árum saman hafa íslensk stjórnvöld haft það að sérstöku markmiði að flytja ríkisstofnanir út á land með tilheyrandi kostnaði og óhagræði fyrir alla. Rökin að baki þessari hugmynd hafa verið þau að búa til störf úti á landsbyggðinni.

Ég hef aldrei skilið þessa pólitík. Hefur fundist hún lykta af því að stjórnmálamenn átti sig ekki á því hvað það er sem skiptir máli. Að það eitt sé eftirsóknarvert að „búa til störf" úti á landsbyggðinni óháð því hvers konar störf það eða hvað þau leiða af sér.

Núverandi ríkisstjórn þarf að fást til þessa vitlausu pólitík í núverandi ástandi. Nú þegar ekki þýðir annað en draga saman eins og kostur er í ríkisrekstrinum og leita þarf mestu mögulegu hagkvæmni og skilvirkni í stjórnsýslunni sem annars staðar er augljóslega eftirsóknarvert að fækka embættum ríkisins og draga sem kostur er úr dreifingu þeirra. Þá mótmæla landsbyggðar- og sveitarstjórnarmenn og tala um „aðför að landsbyggðinni" og orðfæri í sama dúr. Þar með er hagræði í ríkisrekstri orðin að byggðamáli.

Þetta er dæmi um hvert vitlaus pólitík leiðir okkur. Hún leiðir okkur á rangar brautir og leiðir til meiri kostnaðar til lengri tíma. Það skiptir máli að fara vel með peninga ríkisins - alltaf - líka þegar vel árar.

Það fer best á því alltaf að hugsa sem mest um skilvirkni og mesta hagkvæmni ríkisrekstrarins og að stjórnsýslan sé staðsett þar sem best fer á því að hún sé staðsett út frá heildinni en ekki út frá einstökum byggðarlögum eða skorti á framboði starfa þar á tilteknum tíma.

Skort á störfum á landsbyggðinni á ekki að reyna að svara með því að færa störf ríkisins þangað - það er röng stefna. Skort á störfum á landsbyggðinni verður aðeins mætt með raunverulegri verðmætasköpun - atvinnurekstri sem skiptir máli og hefur þýðingu til lengri tíma fyrir byggðarlagið.

Skortur á langtímahugsun og framtíðarsýn er Íslendingum dýr í þessu tilliti sem öðru.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...