Ég gerði að umræðuefni hér í smápistli áhyggjur mínar af því hvort að búið væri að gera klárt að allir sem koma að ESB samningaviðræðum viti hvert verkefnið er. Að verkefnið snýst um íslenska hagsmuni og ekkert annað. Að ná fram bestu mögulegum samningum við Evrópusambandið sem síðan verði lagðir í dóm þjóðarinnar.
Mig langar að halda aðeins áfram með þessar hugleiðingar. Þetta mál snýst um heiðarleika og er því vel við hæfi.
Ég hef raunverulegar áhyggjur af því ríkjandi viðhorfi margra að Ísland megi ekki sækja um undanþágur frá einu eða neinu . Að ekki megi leggja áherslu á sérstöðu Íslands um neitt. Því viðhorfi að það sé mikilvægt að Ísland undirgangist allt án þess að gera neinar kröfur. Slíkt viðhorf sýni svo mikla ábyrgð. Að með því að sækjast ekki eftir viðurkenningu á sérstöðu sýni Ísland svo mikla ábyrgð og sú afstaða geri landið að fyrirmyndarríki.
Ég hef raunverulega miklar áhyggjur af þessari afstöðu margra og þykir hún bera vott um hið gagnstæða við heiðarleika - sýndarmennsku. Sýndarmennsku sem oft er grunnt á í íslensku samfélagi.
Það skelfir mig að heyra málsmetandi fólk í áhrifastöðum tala af ábyrgðarleysi um sérstöðu Íslands í ýmsum málum, sérstöðu sem er raunveruleg og ástæða til að leggja áherslu og gera að aðalatriði.
Umræðan hér innanlands um umhverfismál er skýrasta dæmið sem ég á um þetta. Umræða þar sem lítið er gert úr undanþágu Íslands í Kyoto sem byggir fyrst og síðast á sérstöðu Íslands sem ríki sem náð hefur meiri árangri en aðrar þjóðir í notkun sjálfbærrar orku. Það er beinlínis sárt og vont að heyra talað um þessa undanþágu eins og hún sé af hinu vonda og eitthvað sem Íslendingar þurfa að skammast sín fyrir.
Fleiri skýr dæmi á ég í handraðanum um þetta sama viðhorf. Það hræðir mig að vita af því í viðræðunum framundan. Sá undirlægjuháttur og sýndarmennska sem að baki liggur hræðir mig raunverulega og skapar vantraust um að aðilar geri sér grein fyrir hvert verkefnið er. (Með "aðilum" er vísað til stórs hóps - baklands samninganefndarmanna sem erum við öll).
Reynsla af viðhorfi íslensku stjórnsýslunnar til núverandi stöðu Íslands á grundvelli EES samningsins er sama marki brennd. Viðhorf sem einkennist af vilja til að innleiða gerðir með meira íþyngjandi og harkalegri hætti en þarf þar sem skortur á skilningi íslensku atvinnulífi og íslenskum hagsmunum er áberandi er ekki til þess fallin að skapa traust til þessara aðila um að vera bestu samningamennirnir.
Það er ósk mín að Íslendingar vinni af heiðarleika í samningaviðræðunum framundan. Að þeir leggji til hliðar alla sýndarmennsku og sjálfsblekkingu og stefni að því einu að vinna að sem bestum samningi fyrir Ísland með heildarhagsmuni að leiðarljósi.
Aðalatriði þegar lagt er af stað er að vita hvar við erum. Við þurfum að vera heiðarleg og horfast í augu við stöðu okkar í dag. Við erum aðilar að EES samningnum - hvað þýðir það? Er ekki augljós ástæða til að við ræðum það? Eða viljum við halda áfram að vera óheiðarleg og lifa í sjálfsblekkingu um þá stöðu?
Heiðarleiki er stórt orð og mikilvægt í öllum mannlegum samskiptum. Erum við Íslendingar tilbúin að vera heiðarleg í raun?
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
sunnudagur, 15. nóvember 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli