Þar kom að því hugsaði ég þegar ég hlustaði á fréttir kvöldsins, þá er komið að hápunktinum. Verður veldi Jóns Ásgeirs endanlega hrundið eða ekki? Ég skal játa að fréttaflutningur helgarinnar um málefni þessa fyrirtækis og mögulegar afskriftir skulda þess fóru algjörlega framhjá mér og því veit ég ekkert um hvað það mál snýst nema það sem ég gat ályktað af fréttum kvöldsins.
Ég hef aftur á móti haft áhuga á Jóni Ásgeiri Jóhannessyni lengi sem viðskiptajöfri á Íslandi og ætla ekki að fara í neinar grafgötur með það. Mig hefur lengi langað til að vita hvort að Jón Ásgeir Jóhannesson sé óheiðvirður drullusokkur sem svífst einskis til þess að svíkja og pretta eða hvort að hann sé ótrúlega klár businessmaður sem nýtur trausts og virðingar hjá þeim aðilum sem hann á viðskipti við... Erlendis er óhjákvæmilegt að láta koma á eftir því Jón Ásgeir Jóhannesson hefur lengi verið hataður af þeim aðilum innanlands sem áttu meira og minna öll fyrirtæki landsins áður en hann kom til og því ekki alveg sanngjarnt að halda að hann gæti nokkru sinni notið sannmælis þeirra á meðal.
Jón Ásgeir Jóhannesson er sá maður í íslensku viðskiptalífi sem gerði hvorki meira né minna en að hrinda áratugaveldi sérhagsmunahóps Sjálfstæðisflokksins og fyrir þær sakir hefur hann ekki átt stóran vinahóp í röðum áhrifamanna á Íslandi. Forsætisráðherra landsins var í grímulausu stríði við manninn opinberlega árum saman og leyndi því ekkert. Ekkert sem frá forsætisráðherranum kom var þess eðlis að sú sem þetta ritar hafi lagt trúnað á það, til þess var forsætisráðherrann margnefndi of tengdur þeim sérhagsmunahópi sem tapaði stórum hluta sinna áhrifa á kostnað samkeppni sem þessi maður innleiddi svo myndarlega að íslenskur markaður varð ekki samur eftir.
Yfirlýsingar forsætisráðherra og annarra honum tengdum voru allaf persónugerðar gegn veldi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Einmitt það gerði málflutninginn svo ótrúverðugan fyrir manneskju eins og mig sem hafði allt mitt líf búið við viðskiptablokkir Kolkrabbans og Sambandsins. Það voru ekki eðlilegir viðskiptahættir viðhafðir á þeim markaði og þess vegna var ekki nóg að heyra fullyrðingar um sá sem hrinti þeim markaði væri glæpamaður sem ætti að taka úr umferð án dóms og laga.
Af því að fullyrðingar forsætisráðherrans einar og sér um þennan einstakling dugðu ekki til að maður tryði var maður settur í hóp með honum - óvininum. Það að leyfa sér að gagnrýna málflutning forsætisráðherrans um að veldi þessa manns skildi hrundið með öllum ráðum var nægilegt til þess að maður var í liði með honum - á móti forsætisráðherranum og fylgdarliði hans.
Ég þekki ekki Jón Ásgeir Jóhannesson persónulega og hef aldrei notið fyrirgreiðslu hans af einu eða neinu tagi en hann hefur vakið áhuga minn og sá áhugi er enn til staðar. Áhugi á að vita meira um hann og hvað er rétt og hvað er rangt af því sem um hann er sagt.
Það er ekki vafi í mínum huga að honum tókst það sem engum öðrum hafði tekist á undan honum og kannski ekki einu sinni gert tilraun til. Hann stofnaði verslun þar sem leiðarljósið var mest möguleg hagkvæmni í innkaupum og flutningum sem skilaði sér til neytenda. Bónus varð til og þó að Jóhannes faðir Jóns Ásgeirs hafi alltaf verið andlitið á bak við Bónus grunar mig að sonurinn hafi stjórnað fyrirtækinu og stefnu þess og framkvæmd frá upphafi og að hans hugmyndir hafi gert það að því veldi sem það er.
Ég heyrði af því sögur að Jón Ásgeir hafi ekki átt marga vini þegar hann var að byggja upp Bónus en einhvern veginn tókst honum það nú samt. Honum tókst að opna verslun sem leiddi af sér meiri kjarabætur fyrir almenning og láglaunafólk á Íslandi en nokkur önnur aðgerð stjórnvalda, stéttarfélaga eða annarra fyrirtækja hafði haft fram að því í minni tíð.
Hann hvorki meira né minna en bylti verðlagningu á neysluvöru á Íslandi og þó ekki sé nema fyrir það ætti hann að eiga einhverjar þakkir skildar. Bara sú stefna fyrirtækisins að selja vörur í verslunum keðjunnar út um allt land á sama verði og þannig jafna flutningskostnaðinn fyrir neytendur úti á landi var meiri kjarabót en almenningur hafði áður fengið að njóta í verslunum út um land.
Hann lét ekki þar við sitja heldur braut hann niður verðlagningu skipafélaganna líka með stofnun innkaupafyrirtækisins Baugs en nú eru sennilega allir búnir að gleyma því að upphaflega var Baugur innkaupafyrirtæki. Eftir tilkomu Baugs þýddi ekki lengur að selja flutning á gámum algjörlega eftir innihaldi þeirra heldur varð gámaflutningur eining sem varð að verðleggja sem slíka. Bara það atriði grunar mig að hafi haft meiri áhrif á hagkvæmni annarra fyrirtækja í innflutningi til landsins en hvarflar að okkur og þar með væntanlega og vonandi á verðlagningu á innflutningi til okkar allra.
Starfsmannastefna fyrirtækja í eigu Jóns Ásgeirs hefur komið manni fyrir sjónir sem öðruvísi en annarra fyrirtækja á Íslandi. Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að Jón Ásgeir hafi hlustað á hugmyndir einstaklinga í fyrirtækjum sem hann keypti og leyft þessum einstaklingum að koma hugmyndum sínum í framkvæmd sem ekki einu sinni fékkst áheyrn hjá stjórnendum um áður. Ég hef líka oft hugsað hvað það er eftirtektarvert hversu marga einstaklinga ég hef komist í kynni við sem hafa nánast verið aldir upp í Bónusverslunum og eru bara þar ár eftir ár og fá með tímanum að njóta meiri ábyrgðar.
Bókhald fyrirtækja í eigu Jóns Ásgeirs hefur bókstaflega verið í gjörgæslu stjórnvalda árum saman án þess að nokkur skapaður hlutur hafi komið út úr því nema einn vafasamur reikningur.
Það getur vel verið að þetta séu allt saman tilviljanir og Jón Ásgeir sé meiri drullusokkur og óheiðarlegri en aðrir. Til þess að sannfæra mig um það er þó ekki nóg að Lilja Mósesdóttir, Margrét Tryggvadóttir eða Bjarni Benediktsson segi það frekar en forsætisráðherrann Davíð Oddsson forðum.
Ekki heldur er nægilegt fyrir mig að heyra dómstól götunnar hrópa að veldi hans skuli brotið á bak aftur hvað sem það kostar af því að hann sé „útrásarvíkingur".
Nei hér þarf að vanda sig eins og í öllu sem gert er - alltaf. Það er ekki hægt að gera kröfu á Nýja Kaupþing um að gera eitt eða annað núna - af því að almenningur krefst þess. Það væri skelfileg niðurstaða.
Mér er fyrir löngu síðan orðið ljóst að það er tómt mál að tala um að allar ákvarðanir sem teknar eru innan bankanna núna verði okkur öllum ljósar eða að skapi að ekki sé talað um sanngjarnar að okkar mati. Það er ótrúlegt verk sem unnið er innan bankanna núna og það fólk sem hefur þann starfa er svo sannarlega ekki öfundsvert, ekki síst þar sem þakklætið fyrir verkin er ekkert nema vanþakklæti og óánægja. Annað er óumflýjanlegt í því andrúmslofti ofsókna sem hér hefur verið komið á. Ofsókna sem títtnefndur fyrrverandi forsætisráðherra ýtti úr vör og öll þjóðin tekur undir ómeðvitað.
Traust fyrirtækja ávinnst ekki á einum degi með því að skipta út. Það er grundvallarmisskilningur sem margir vilja halda á lofti. Traust Alþingis hefur ekki aukist nema síður sé við öll þau útskipti sem þar hafa orðið á síðustu tveimur þingum. Nei traust ávinnur maður sér með hegðun sinni á löngum tíma.
Skyldi það geta verið að Jón Ásgeir njóti trausts innan Kaupþings banka? Gæti verið pínulítill möguleiki á því að hann eigi slíkt traust skilið?
Hér verður að vera alveg skýrt að sú er þetta ritar hefur ekki hugmynd um það - frekar en hún hefur hugmynd um hvort hann eigi ekki að njóta trausts. Höfundur þessa pistils er ekki blind eða heyrnarlaus og er vel meðvituð um að krosseignatengsl aragrúa fyrirtækja sem Jón Ásgeir stendur á bak við eða hefur staðið á bak við hljóta að vekja spurningar sem þarft er að upplýsa. Það getur vel verið að allt sem á manninn hefur verið borið eigi eftir að koma í ljós að sé rétt.
En þangað til það liggur fyrir á ég enga ósk heitari en að til málsins verði vandað sem kostur er. Fyrst og síðast að stjórnmálamennirnir okkar geri okkur öllum þann greiða að láta vera að taka Davíð Oddsson sér til fyrirmyndar í þessu máli með því að skipa sér í flokka með og á móti einstaklingnum Jóni Ásgeiri - eða reyna að hafa áhrif á ákvörðun bankans í málinu. Það er hlutverk stjórnmálamanna að búa til ramma fyrir fyrirtæki að starfa eftir. Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að kveða upp úr sekt eða sakleysi manna - jafnvel ekki einu sinni þó um sé að ræða Jón Ásgeir Jóhannesson.
Sagan sem að baki þessu liggur er einfaldlega of stór og of fyrirferðarmikil til þess að hægt sé að einfalda málið með því að taka ákvörðun sem byggir á nafni hans. Ísland vill ekki vera land sem afgreiðir hlutina með sama hætti og Pútin gerði í Rússlandi - er það?
Ef við ætlum að reisa nýtt Ísland úr rústum og gera það með þeim hætti að þjóðfélagið sem rís úr rústunum verði öðruvísi en það sem fyrir var verðum við að hafa þolinmæði og þrek til að standa gegn dómstól götunnar hvar sem hann finnst - hvort sem hann er á Alþingi eða annars staðar.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli