miðvikudagur, 25. nóvember 2009

Ég hef heldur aldrei skilið lógíkina hjá þeim sem segjast trúa á guð...

...sagði góður maður við mig rétt í þessu. Fullyrðingin kom í kjölfar ummæla af hálfu undirritaðrar um að það vantaði eitthvað í lógíkina hjá annars góðum mönnum sem kæmust að þeirri niðurstöðu að ESB-aðild væri ekki mál málanna fyrir Íslendinga til framtíðar. Tilvitnunin var svo góð að ég varð að fá að fá að nota hana í fyrirsögn.

Fyrsta frétt sjónvarpsins í kvöld var enn ein fréttin um íslenska krónan hjálpaði Íslendingum svo mikið af því að útflutningsatvinnugreinarnar ganga svo vel með þennan sjálfstæða gjaldmiðil... núna.

Skilaboðin má auðveldlega skilja sem svo að við Íslendingar getum nú aldeilis verið glöð og ánægð með þennan góða gjaldmiðil sem bjargar okkur nú út úr kreppunni.

Ekki ætla ég að gera lítið úr mikilvægi útflutningsatvinnugreinanna, hef verið einarður stuðningsmaður þeirra í öllum mínum skrifum og verð það alltaf. Á það ekki síst við um sjávarútveg í öllu því bulli sem viðhaft er um þá mikilvægu atvinnugrein.

En það eru takmörk. Það eru takmörk fyrir því hvað sá stuðningur getur gengið langt. Takmörkin eru mín persónulegu lífskjör og annarra borgara í þessu landi.

Ég hafna því alfarið að vegna þess að útflutningsatvinnugreinarnar lifa nú góðu lífi vegna krónunnar til skamms tíma þurfi ekki að taka stefnuna á framtíðarlífskjör mín og annarra í landinu til lengri tíma.

Að ég eigi að vera glöð og ánægð með að kaupa te-ið mitt fyrir 550 krónur, ólívudós fyrir sömu upphæð, kaffið mitt fyrir 900 krónur, hvítlauksbrauð fyrir 300 krónur. Eignalaus í sambúð með manni sem skuldar 3 milljónir í bíl sem sem kannski mögulega fást 900 þúsund fyrir.

Að ég eigi að vera glöð og ánægð með að utanlandsferðir heyra sögunni til vegna þess að þær kosta svo mikið. Glöð og ánægð á þessari eyju í Atlantshafinu vegna þess að útflutningsatvinnugreinunum gengur svo vel... í augnablikinu.

Nei þetta er ekki boðleg röksemdafærsla. Það eru takmörk og þau liggja hér.

Langtímastefnu á nothæfan gjaldmiðil sem býður mér lífskjör á við það sem annars staðar gerist er skilyrðislaus krafa og verður ekki fórnað. Ekki einu sinni fyrir útflutningsatvinnugreinarnar... í augnablikinu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...