fimmtudagur, 12. nóvember 2009

Stendur til að gera besta mögulega samning fyrir Ísland og Íslendinga?

Er örugglega hægt að treysta því að það standi raunverulega til að gera besta mögulega samning við ESB fyrir Ísland og Íslendinga? Er búið að ganga frá því að allir sem að koma viti að samningaviðræðurnar snúast um hagsmuni. Að verkefni samningamanna er að ná bestu mögulegu samningum með hagsmuni Íslands og Íslendinga að leiðarljósi?

Hversu líklegir eru forsvarsmenn stjórnmálaflokka og hagsmunsamtaka sem fyrirfram eru harðir í andstöðu sinni við aðild til þess að gefa fulltrúum sínum skýr skilaboð um hvert verkefnið er? Hversu líkleg er íslensk stjórnsýsla sem í mörg ár hefur unnið af miklum metnaði fyrir erlendar eftirlitsstofnanir til að breyta því viðhorfi sínu og hugsa um íslenska hagsmuni fyrst og fremst?

Er það svo að allir þessir aðilar séu með á hreinu að besta mögulega samningi til að leggja fyrir Íslendinga skuli náð? Fulltrúar allra stjórnmálaflokka, fulltrúar stjórnsýslu, fulltrúar hagsmunasamtaka?

Samingaviðræður við ESB eru svo óþægilegt mál í kolvitlausu umhverfi stjórnmálaflokka landsins að það skapar óöyggi og vantraust. Undirrót þeirra tilfinninga liggur í hræðslu allra við að tala um það sem skiptir máli og ekki síður gera kröfur til þess sem skiptir máli. Vantraustið snýr ekki að samninganefndinni sem slíkri - alls ekki - heldur að samfélagi sem gefur engar vísbendingar um að skilja um hvað málið snýst.

Flokknum sínum fylgir stór hluti kjósenda enn þrátt fyrir allt sem á undan er gengið. Ónýtan gjaldmiðil sem skerðir lífskjör okkar meira en nokkuð annað þarf ekki að ræða vegna þess að flokkurinn minn sér ekki ástæðu til þess. Flokkurinn er heilagari en allt. Flokkurinn er mikilvægari en lífskjör okkar allra eða framtíðarhorfur.

Ekkert hefur farið verr með lífskjör almennings á Íslandi í áratugi en þessi skelfilegi gjaldmiðill og hann gerir það enn. Það er þó ekkert til umræðu. Meirihluti stjórnmálaflokkanna er enn með óbreytta stefnu um að íslensku krónunni skuli viðhaldið. Það þrátt fyrir að allur íslenskur almenningur horfist í augu við stórkostlega skert lífskjör vegna stöðu hans. Utanlandsferðir eru lúxus fortíðar, laun lækka, skattar hækka, vextir eru jafnháir og fyrr, neysluvara og öll þjónusta hefur hækkað stórkostlega í verði. Allt vegna þess að krónan er ónýt.

Það er svo skrítið að þó að enginn fari í grafgötur með að pistlahöfundur hér sé sannfærður ESB sinni þá hefur hún jafnsterkar skoðanir á því að það sé mikilvægara en allt annað í því ferli sem framundan er að allir séu með á hreinu hvert verkefnið er. Það er aðalatrði málsins og það eina sem skiptir máli.

Hefur verið gert ljóst hver núverandi staða er? Eru Íslendingar almennt meðvitaðir um það? Umræðan bendir ekki til þess - miklu fremur bendir hún til þess gagnstæða. Enginn hefur í öllu þessu ferli frá því að umræðan kom fyrst upp af krafti séð ástæðu til að ræða að „reglugerðarfarganið" er meira og minna að koma yfir okkur nú þegar og það sem meira er túlkað eins þröngt og íþyngjandi og mögulegt er frá sjónarhóli lögfræðinga sem líta á ESB gerðir sem lög sem verði að fylgja í hvívetna. Hugleiðingar um það hafa verið birtar hér áður:http://signysig.bloggar.is/blogg/436638/Loggjafarvald_eda_logfraedingavald

Ef að við öll - landsmenn lifum í sjálfsblekkingu varðandi stöðuna í dag - hversu líkleg erum við þá til að veita það aðhald sem þörf er á í þessari umræðu?

Það er vont að treysta því ekki að allir séu meðvitaðir um hvert verkefnið er. Hlutverk samningamanna getur ekki verið neitt annað en að ná bestu mögulegu samningum til að leggja í dóm þjóðarinnar að samningaferli loknu. Er einhver von til þess að landsmenn sjái til þess að passað verði upp á hagsmunina í málinu ef meirihluti þeirra er búinn að ákveða niðurstöðuna fyrirfram?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...