sunnudagur, 22. nóvember 2009

Pólitík

Íslendingar hafa allt mitt líf umgengist þetta orð „pólitík" eins og það sé slæmt, skítugt - orð sem maður má helst ekki taka sér í munn. Ráðningastofur hafa verið ófeimnar við að segja það upphátt í fyrirlestrum að það sé beinlínis óæskilegt fyrir framgang einstaklinga í íslensku viðskiptalífi að vera „pólitískir". Ég hef þó aldrei séð á glæru frá hinum sömu að það þyki þó gott að vera í liði hins „ópólitíska" flokks Sjálfstæðisflokksins en það er eitthvað sem við öll vitum og höfum alltaf vitað. Það er bara eitt af mörgum hlutum sem aldrei er talað um.

Ég er kominn á þann stað í lífinu núna að ég neita að taka þátt í þessari þöggun og meðvirkni lengur í íslensku samfélagi. Eftir skelfilegustu tegund hagsveiflu sem hugsast getur,. Fyrst gullaldaræði í hæstu hæðum þar sem græðgin var ráðandi afl og síðar hruns þar sem smásálarhátturinn og sjálfsblekkingin eru allsráðandi er mál að linni. Nú er tími játninga og fullkomins heiðarleika runninn upp.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki meira virði en framtíð íslensku þjóðarinnar. Framtíð okkar allra byggir á þeim ákvörðunum sem teknar eru núna og þar er full aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru grundvöllur að betri lífskjörum til framtíðar. Það er einlæg sannfæring mín og sú sannfæring byggir á reynslu og aftur reynslu og engu öðru. Reynsu af alþjóðaviðskiptum, opnun innri markaðarins, tilkomu evru og síðast en ekki síst þess að hafa starfað í íslensku inn- og útflutningsumhverfi allan þennan tíma með íslenska krónu sem gjaldmiðil.

Þeir eru eflaust margir sem skilja ekki hvað ég er að fara. Skilja ekki hvað ég geri Sjálfstæðisflokknum hátt undir höfði. Það vill þannig til að Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem lengstum hefur talist flokkur atvinnulífsins því ber sá flokkur mun meiri ábyrgð í þeirri stöðu sem við erum í en nokkur annarr flokkur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengstum verið stærsti flokkurinn og hann hefur verið við stjórnvölinn í næstum tvo áratugi samfleytt. Hann hefur leitt okkur inn í mestu uppsveiflu íslensks samfélags sem reyndist byggð á fullkomnum sandi og leiddi til skelfilegra afleiðinga en nokkurt okkar gat ímyndað sér. Að sitja uppi með þennan flokk í dag með óbreytta stefnu er óþolandi staða. Óþolandi fyrir íslenskt atvinnulíf og óþolandi fyrir íslenskan almenning. Við eigum betra skilið.

Þetta er pólitík sem þarfnast endurskoðunar við. Þetta er pólitík sem setur Flokkinn í forgrunn en skilur Íslendinga og framtíð þeirra eftir. Sjálfsblekkinguna og afneitunina á stöðu gjaldmiðilsins var hægt að fyrirgefa í góðærinu - en nú eftir hrunið er þessi sama sjálfsblekking og afneitun ófyrirgefanleg. Hún ber þess merki að þessum Flokki - Sjálfstæðisflokknum - er ógerlegt að takast á við það sem verður að takast á við. Að Flokkurinn - er orðinn einn helsti dragbítur á framfarir í íslensku samfélagi. Viðtalið við formann Flokksins í Fréttablaðinu í gær gerir það endanlega ljóst.

Orð flokksformannsins í gær um íslensku krónuna eru sem blaut tuska framan í okkur öll sem búum við stórkostlega skert lífskjör vegna veikrar stöðu hennar. Að Flokkurinn hafi ekki aðra sýn en þá að allt sé í himnalagi vegna þess að útflutningsatvinnugreinarnar búa við betri stöðu núna til skamms tíma vegna veikrar krónu sýnir fullkomið skilningsleysi gagnvart öðrum atvinnugreinum. Atvinnugreinum sem er að blæða út mörgum hverjum vegna þess sama. Vegna erlendra skulda sem eru tvöfalt hærri en fyrir hrun. Vegna aðfangakaupa sem eru tvöfalt hærri í verði en fyrir hrun.

Er í lagi að mati aðildarfélaga Sjálfstæðisflokksins að fórna atvinnustarfsemi hægri, vinstri til eins að halda Flokknum saman?

Staða gjaldmiðilsins er ekkert grín. Staða gjaldmiðilsins er ekkert aukaatriði. Staða gjaldmiðilsins er aðalatriði og hefur verið aðalatriði í íslensku efnahagslífi allt mitt líf sem bráðum fyllir fimm tugi. Það er skýlaus krafa að stjórnmálaflokkar á Íslandi sem vilja láta taka sig alvarlega komi með framtíðarstefnu um gjaldmiðil til framtíðar sem mark er á takandi.

Krafan er sterkari á Sjálfstæðisflokkinn en aðra flokka beinlínis vegna þess að Sjálstæðisflokkurinn telur sig vera flokk atvinnulífsins á Íslandi. Slíkum flokki fyrirgefst ekki stefnuleysi í gjaldmiðilsmálum eftir ris og hrun íslensks efnahagslífs. Tími stefnu er runninn upp. Tími stefnuleysis er að baki.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...