Þá er ég ekki óvinur sjávarútvegs eða landbúnaðar á Íslandi. Ég vil ekki fórna þessum atvinnugreinum. Um það snýst aðild að ESB ekki. Aðildarsamningar að ESB snúast um að samningsaðilar séu með hagsmuni Íslands á hreinu og berjist fyrir þeim.
Við stöndum frammi fyrir því núna að gera aðildarsamning við ESB. Hvert mun málflutningur af því tagi sem formaður Sjálfstæðisflokksins bauð okkur upp á í gær leiða okkur í samningaviðræðunum framundan? Máflutningur af þessu tagi hér:
„...ESB vill einsleitni og hvorki undanþágur né frávik... Með því að ganga inn í Evrópusambandið gefum við frá okkur fullt forræði í mikilvægum málaflokkum eins og stjórn fiskveiðiauðlindarinnar. Það er niðurstaðan, sama hvaða skoðun menn hafa á kerfinu sem gildir í Brussel...
Er það svo? Er formaður Sjálfstæðisflokksins semsagt búinn að ákveða niðurstöðu samningaviðræðnanna fyrirfram? Er það góð samningatækni?
Er það samningatæknin sem aðildarfélagar Sjálfstæðisflokksins í fjölbreyttum fyrirtækjum út um allt land viðhafa í samningaumleitunum sínum við erlenda aðila út um allan heim sem þeir eiga viðskipti við?
Meira að segja faðir minn - bóndi sem kvatt hefur ævistarfið áttar sig á því hversu hættulegur áróður andstæðinga ESB er. Áróður Bændasamtakanna sem hann les um í Bændablaðinu á tveggja vikna fresti. Áróður sem byggir ekki á neinu öðru en því að fá aðila í landbúnaði til að vera móti aðild hvað sem það kostar. Áróður er ekki upplýsing. Áróður er innræting.
Máflutningur formanns Sjálfstæðisflokksins í viðtali við Fréttablaðið í gær er af sama meiði. Máflutningur andstæðinga aðildar Heimssýnar er af sama meiði. Áróður og innræting. Áróður í þá veru að fá landsmenn alla til að vera á móti án þess að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni.
Áróður sem felst í því að segja aftur og aftur og aftur að Íslendingar geti ekki náð árangri í samningunum framundan. Að baráttan sé fyrirfram töpuð. Áróður sem er til þess eins fallin að veikja samningsaðila því hvaða þrýsting fá þeir í þessari stöðu um að gera almennilegan samning?
Að sjálfsögðu leggjum við upp í leiðangurinn með þá skýru kröfu að íslenskur sjávarútvegur standi sjálfstæður eftir. Um það á ekki að þurfa að deila og um það geta allir verið sammála.
Verum minnug þess að samningur Möltu við ESB innifelur 77 undanþágur hvorki meira né minna. Hvernig væri nú að upplýsa okkur öll um hvað í þessum undanþágum felst? Maltverjar eru eyja með svipaðan mannfjölda og Ísland. Mun minni og aðstæður aðrar allt aðrar að flestu leyti en það sem sameinar augljóslega er stærð þjóðarinnar. Og að þjóðin býr á eyju sem ekki á áföst við meginlandið. Mikill meirihluti landsmanna á Möltu er mjög ánægður með aðildarsamning að ESB.
Hvernig væri nú að læra af því? Að leggja upp í samningaviðræður full sjálfstrausts og með hagsmuni okkar á hreinu í stað þess að leggja í leiðangurinn með tapaða stöðu fyrirfram?
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli