fimmtudagur, 3. desember 2009

Arfleifð Styrmis

Ég hef nokkrum sinnum leyft mér að hleypa út pirringi mínum út í Styrmi Gunnarsson fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins við Fésbókarvini mína. Ég verð að biðja þá hina sömu afsökunar á því. Því í flestum ef ekki öllum tilfellum er um að ræða alsaklaust fólk sem veit ekki hvað á það stendur veðrið þegar ryðjast fram fullyrðingar undirritaðrar uppfullar af reiði út í skoðanir sem hún vill meina að megi rekja til Styrmis sem ritstjóra Morgunblaðsins til margra ára.

Ég ætla að láta síðustu uppákomu í þessa veru verða til þess að ég geri grein fyrir hvaða skoðanir þetta eru helstar sem ég geri Styrmi Gunnarsson sem ritstjóra Morgunblaðsins ábyrgan fyrir að hafa innleitt hjá íslenskum almenningi og sem ég er svona ósátt við.

Fyrst af öllu verður að láta þess getið að þetta er ekki árás á manninn persónulega. Það er aftur á móti þannig að ég held að það sé vandfundinn sá maður sem ég er jafn ósammála í grundvallaratriðum og Styrmir Gunnarsson. Þau eru mörg „tabúin" í umræðu á Íslandi sem ég rek til hans fyrst og síðast og ætla ég hér að gera grein fyrir þeim helstu:

Þjóðareignarhugtakið

eigna ég honum og á honum litlar þakkir fyrir. Ég veit að vísu að hugmyndafræðingurinn er Þorsteinn Gylfason heitinn en sá maður sem fyrst og fremst á heiðurinn að því að þetta hugtak hefur náð þvílíku flugi í huga fólks og raun ber vitni er Styrmir Gunnarsson sem ritstjóri Morgunblaðsins og áróðursmeistari í að halda því á lofti í áratugi.

Fá hugtök hef ég heyrt og séð gera umræðu á Íslandi jafnmikið ógagn en þetta hugtak og gerir enn. Það væra að æra óstöðugan að skrifa meira um það, svo mikið hef ég reynt. Greinar um það eru allar meira og minna aðgengilegar hér á þessu bloggi eða í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu síðustu ár.

Í stuttu máli snúast þær allar um það að orðið „þjóð" og „eign" eiga ekki samleið og er glórulaus vitleysa. Við þekkjum öll orðið „ríki" og eigum að nota það í samhengi við orðið „eign" þegar fjallað er um eitthvað sem íslenskur ríkissjóður á eða vill eiga. Fyrir mér er ekki til betri skilgreining á orðinu „þjóð" en í bók Guðmundar Hálfdánarsonar um Íslenska þjóðríkið þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að þjóð sé í besta falli félagsleg ímyndun.

Fyrirmyndarríkið Sviss

Styrmir Gunnarsson hefur lengi verið baráttumaður fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum og reyndar gengið enn lengra og hefur barist fyrir atkvæðagreiðslum kjósenda um alla mögulega hluti innan sveitarfélaga og í stærra samhengi. Þetta túlka ég sem svo að fyrirmyndarríki hans sé Sviss.

Ég er þessum hugmyndum algjörlega ósammála og geri mér fulla grein fyrir því að ég á mér fáa fylgismenn í þeirri baráttu enda hef ég lítið haldið henni á lofti.

Ég vil sjá faglegt fulltrúalýðræði. Fulltrúalýðræði þar sem við sem kjósendur fáum tækifæri til að velja bestu mögulegu fulltrúana til þings. Fulltrúa sem hafa skoðanir sem þeir vilja berjast fyrir en eru ekki bundnir á klafa flokksátaka frá því þeir stíga inn á svið Alþingis. Ég vil að þessir fulltrúar afli sér bestu mögulegu upplýsinga, takist á við andstæð sjónarmið efnislega með rökum og taki ákvarðanir sem byggja á bestu þekkingu og skoðunum þeirra sjálfra á því hvað hentar heildarhagsmunum okkar best. Ég legg áherslu á orðið „heildar"hagsmunum og þá kem ég að enn einu atriði sem virðist eiga fáa fylgismenn þessa dagana en það er orðið...

Íbúalýðræði

Í þessu orði felst að mínu mati mótsögn. Lýðræði er merkilegt hugtak sem ekki á að leika sér með að vild. „Íbúalýðræði" er ekki til í mínum huga og gjörningar í þá veru að láta íbúa lítils sveitarfélags eða hverfis kjósa um eitthvað sem er fyrst og síðast mál sem snýr að öllum landsmönnum hefur ekkert að gera með orðið „lýðræði".

Besta dæmið til að skýra hvað ég á við er að ég eigi sem íbúi í Laugarneshverfi að eiga einhvern rétt umfram aðra Íslendinga að segja til um hvar Sundabraut skuli verða niðurkomin er fráleitt. Lega brautarinnar sem og staðsetning flugvallarins á að ákvarðast af heildarhagsmunum - ekki af hagsmunum lítils hóps í næsta nágrenni. Slík pólitík er stórhættuleg og býður upp á popúlisma eins og við verðum vör við á hverjum degi í umræðunni. Það getur aldrei verið „lýðræði" að lítill hópur manna geti ráðskast með heildarhagsmuni landsmanna að vild. Það er eins andstætt lýðræði og hugsast getur.

Og þá kem ég að síðasttalda atriðinu sem reyndar á mikið skylt við þessi tvö hér að ofan en það er

Prófkjör

Því hefur verið haldið mjög á lofti hér á landi að prófkjör séu hin „eina rétta lausn" til að velja fulltrúa á lista. Þetta sé lýðræðisleg aðferð og sú besta sem völ er á. Það tel ég algjörlega fráleitt og eins mikil afbökun á orðinu „lýðræði" og hugsast getur.

Prófkjör eru dýrasta fyrirkomulag sem hægt er að viðhafa til að velja fulltrúa á lista og þau eru jafnframt skelfilega óréttlát. Í stóru landsbyggðarkjördæmunum er það augljóst. Þeir sem eru vel þekktir og eiga stórt bakland t.d. úr íþróttafélögum eða félagsstarfi hvers konar, kannski bara þekktir einstaklingar í stórum sveitarfélögum innan kjördæmanna eiga mun auðveldara um vik en aðrir að komast á lista.

Til að prófkjör geti verið „lýðræðisleg" verður að tryggja öllum jafnan aðgang að fjármagni til að kynna sig því það er nú einu sinni svo í nútímasamfélagi að án kynningar veit enginn að þú sért til.

Peningaausturinn sem prófkjör óhjákvæmilega þýða ættu að hafa gert mönnum það löngu ljóst að þetta er ekki rétta aðferðin til að velja fólk á lista og þetta er ekki besta aðferðin heldur.

Það er í raun stórmerkilegt að flokkarnir hafi komist að niðurstöðu um að það að „lotta" með það sem þeir hafa að bjóða í kosningum sé besta aðferðin til að ná árangri.

Læt þetta duga að sinni sem upptalningu á hugmyndafræði Styrmis Gunnarssonar sem náð hefur að verða að „sannleika" í umræðunni síðustu áratugi. Sannleika sem í augum undirritaðrar eru fyrst og fremst tabú og eins fjarri því að vera „sannleikur" og hugsast getur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...