miðvikudagur, 23. desember 2009

Jólakveðja...

Guðjón Freyr frændi minn sendi mér fallega kveðju á fésbók á dögunum. Ekki flókna -einfaldlega lét mig vita að honum líkaði að ég talaði fallega til dóttur minnar á sama vettvangi.

Við þessa litlu kveðju fór um mig hlýr straumur - væntumþykja - streymdi um æðarnar og mér varð hugsað til Melafjölskyldunnar og Mela. Hvað mér þykir óskaplega vænt um ræturnar, átthagana og allt þetta fólk og hvað það skiptir mig miklu máli.

Er ekki vön að vera persónuleg hér á þessum vettvangi en langar til þess núna þegar jólin eru í nánd.

Fjölskylda mín er ekki bara mín nánasta fjölskylda - foreldrar og systkini - heldur stór hópur fólks. Sextán vorum við samtals börn þriggja hjóna, erum fimmtán eftir að Krummi frændi minn dó. Hópurinn er orðinn miklu stærri, makar, börn og barnabörn, hef ekki tölu á fjöldanum lengur - en - þekki þau öll.

Tengslum við þetta fólk allt saman verður ekki lýst með orðum. Sagan sem við eigum saman verður aldrei tekin frá okkur og þó samskiptin okkar á milli séu ekki mikil er ólýsanlegur þráður okkar á milli sem aldrei mun hverfa. Að alast upp við þær aðstæður að eiga stóran hóp uppalenda og áhrifavalda er eitthvað sem verður aldrei frá manni tekið.

Að þykja vænt um átthagana ekki heldur. Tilfinnarnar sem ég ber til Mela í Hrútafirði eru þeirrar gerðar að enginn staður annarr getur eignast slíkan sess. Söknuðurinn eftir því að eiga ekki lengur griðastað á æskuheimilinu hverfur aldrei - mun verða hluti af mér það sem eftir lifir ævi.

Veit að það er eins með dóttur mína, þó að hennar reynsla spanni mun styttri tíma er það tími sem aldrei gleymist og mun verða hluti af henni alla hennar ævi. Minningar frá jólum ekki síst. Jólin verða þrátt fyrir allt aldrei aftur söm. Ekki sagt með eftirsjá heldur ást á því sem var og er ekki lengur.

Við fjölskyldan frá Melum III kusum að kveðja staðinn þegar foreldrar okkar seldu jörðina. Eigum ekki sumarhús eða athvarf á staðnum eins og hinar fjölskyldurnar tvær. Það var okkar val - sem getur vel átt eftir að breytast einhvern tíma í framtíðinni þó ekkert bendi til þess nú.

Þessi breyting hefur haft mikil áhrif á okkur öll - mig grunar meiri áhrif en við gerum okkur grein fyrir. Eins og ég hef komið inn á hér í pistlum mínum áður er saga okkar sumpart saga breytinga í íslensku samfélagi. Flutningur úr sveit í borg.

Með þessum litla pistli þar sem ég opinbera væntumþykju mína til æskuheimilins og allra þeirra sem bjuggu í því samfélagi með mér sendi ég hlýjar jólakveðjur til ykkar allra sem mér þykir svo vænt um - hvar sem þið eruð í heiminum!

Elsku Jón, Þóra, Himmi, Sigga, Gústi, Dídí, Helga, Óli, Ingunn, Lilla, Sigurgeir, Kalli, Didda, Ella Dís, Elsa, Gunnar, Ína, Eggert, Þóra, Birna, Gunnar... og þið öll börn og barnabörn!

Ástarþakkir fyrir allt liðið - mér þykir vænt um ykkur öll og ég veit að þið vitið það!

Sendi engin jólakort í ár - þessi kveðja kemur í staðinn.

Fjölskyldan mín - foreldrar og systkini eiga að sjálfsögðu hlutdeild í þessari jólakveðju en eru ekki talin upp því ég ætla að eyða jólunum með þeim.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...