sunnudagur, 6. desember 2009

Sýndarmennskan fullkomnuð

Umhverfisráðherra Íslands er yfirlýsingaglöð á loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn. Segir Íslendinga ekki mega við því að sýna ekki ábyrgð í loftslagsmálum og gefur út að Ísland muni ekki fara fram á viðhald undanþágu sem þeir hafa um leyfilega aukningu útblásturs gróðurhúsalofttegunda.

Fyrir mér er þetta fullkomun sýndarmennsku íslenskra stjórnmálamanna í alþjóðastjórnmálum.

Umhverfisráðherra lætur þess aldrei getið að Ísland er eitt fárra landa í heiminum ef ekki það eina þar sem stærstur hluti orkunotkunar er sjálfbær. Ísland er semsagt í fararbroddi á þessu sviði. Á þeim grundvelli fékk Ísland undanþágu og á þeim grundvelli ættu íslenskir stjórnmálamenn að halda uppi umræðu um þessi mál á alþjóðavettvangi. Vera stoltir af stöðu sinni í þessum málum og sýna ábyrgð í þeim ákvörðunum sem þeir taka. En NEI það er til of mikils mælst. Íslendingar kunna að tala hátt. Það er um það bil það sem þeir kunna best.

Umhverfisráðherra talar um að heimurinn þurfi að breyta lífsstíl sínum og sýna ábyrgð í verki í loftslagsmálum, þar geti Íslendingar verið í fararbroddi. Undir þessi orð umhverfisráðherra er hægt að taka. Sú ábyrgð felst í því að tala um hlutina af heiðarleika og upplýsa um raunverulega stöðu. Það gerir hún ekki frekar en aðrir sem hæst hafa um útblástur gróðuhúsalofttegunda á Íslandi.

Umræða hér um þessi mál eins og flest önnur sem skipta máli í stjórnmálum hér á landi er byggð á óheiðarleika. Að tala hátt og hafa uppi yfirlýsingar en tala ekki um það sem skiptir máli.

Það sem skiptir máli í stóra samhenginu um útblástur gróðurhúsalofttegunda heimsins er orkunotkun. Sjálfbær orkunotkun er markmiðið og það sem allir hljóta að stefna að ef að nást á einhver árangur sem skiptir máli. Þar hafa Íslendingar margt að kenna öðrum þjóðum.

Íslendingar eru umhverfissóðar í mörgu tilliti. En í því sem skiptir einhverju máli hvað varðar útblástur gróðurhúsalofttegunda heimsins eru þeir í fararbroddi. Þökk sé framsýnum stjórnmálamönnum fyrri tíma á Íslandi sem hugsuðu lengra en fram fyrir tærnar á sér.

Eitthvað annað en hægt er að segja um meirihluta stjórnmálamanna á Íslandi í dag sem virðist fyrirmunað að hugsa til framtíðar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...