þriðjudagur, 5. janúar 2010

Dýr er Sjálfstæðisflokkurinn allur

Ákvörðun forseta Íslands liggur fyrir, lög um samþykkt ríkisábyrgðar á ICESAVE skuldbindingum skulu sett í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Forseti Íslands valdi að taka ákvörðun í anda valdaflokkanna í stað þess að vera ósamkvæmur sjálfur sér, taka ábyrgð og skrifa undir og segja af sér í kjölfarið. Með því hefði verið hægt að bera virðingu fyrir einstaklingnum Ólafi Ragnari Grímssyni. Með þessari ákvörðun hans er það ekki hægt.

Flokkakerfinu íslenska ætlar að takast að keyra okkur endanlega á kaf eins og allt hefur bent til frá upphafi hruns. Ísland skal ekki vera hluti af samfélagi þjóðanna. Sjálfstæðisflokkurinn er meira virði en framtíð okkar allra það vitum við nú.

Málflutningur af þeim toga að stærstu hagsmunir Íslendinga nú í upphafi árs 2010 séu að deila um vexti skuldbindinganna, hvort að eftirstöðvar þeirra þurrkist út árið 2024 eða hvað það nú er annað sem Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn hafa haldið svo fjálglega á lofti mánuðum saman eru svo hróplega fráleitir að því verður ekki með orðum lýst.

Málflutningur af þessu tagi snýst um testesterónpólitík - karllæga þjóðrembu -þeirra sömu manna og komu okkur í þá stöðu sem við erum í. Stór hluti Íslendinga hefur leyft þessum hópi að teyma sig á asnaeyrunum á sama hátt og hann hefur ávallt gert.

Þessum hópi hefur tekist það sem hann ætlaði sér. Að fá fjórðung Íslendinga til að sýna fullkomið ábyrgðarleysi og sjálfhverft andlit sitt með undirskriftum til forseta Íslands í þá veru að Íslendingar ætli sko ekki að standa við skuldbindingar sínar. Íslendingar sem nutu góðærisins í vellystingum praktuglega og líkaði vel ætla sko ekki að bera ábyrgð á afleiðingum gerða sinna.

Ábyrgðin á því að Ísland er nú komið í ruslflokk er fyrst og fremst á ábyrgð fullkomlega sjálfhverfrar og óábyrgrar stjórnarandstöðu sem hugsar ekki um neitt annað en viðhalda sjálfum sér.

Svei þeim.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...