laugardagur, 9. janúar 2010

Meiri reisn að standa en sitja?

Við Aðalsteinn eigum okkur uppáhaldsveitingastað - Íslenska barinn við Pósthússtræti. Förum þangað oft. Helst á daginn þegar er rólegt og þægilegt andrúmsloft. Oft sitjum við úti þegar veður leyfir því við tilheyrum enn þeim fámenna minnihlutahópi sem reykir. Aðstaðan sem þetta kaffihús hefur boðið upp á fyrir reykingafólk er mjög notaleg og því höfum við kosið að fara þangað. Sitja undir gashitun í rólegheitum og horfa á mannlífið á þessum stað í miðborginni er notaleg tilbreyting frá hávaða öldurhúsanna. Þarna höfum við oft fundið griðastað áður en við höldum heim.

Í gærkvöldi var reynslan önnur. Þegar við ætluðum að koma við og setjast niður með einn drykk áður en við héldum heim voru engin borð eða stólar utandyra. Þegar við spurðum hverju þetta sætti fengum við þau svör að lögreglusamþykkt Reykjavíkur leyfði ekki veitingasölu utandyra eftir klukkan 12:00 á miðnætti og því væru þeir hættir að bjóða upp á þessa aðstöðu á þeim tíma!

Þarna stóð þó hópur fólks og reykti fyrir utan, talaði saman og róin sem einkenndi þennan stað áður var engin ró. Nú var þetta eins og hver annarr bar með háværu reykingafólki standandi fyrir utan.

Ég ætla að leyfa mér að opinbera vonbrigði mín með þessa afstöðu lögregluyfirvalda í þessari borg -Reykjavík - sem á stundum vill gefa sig út fyrir að vera alvöru heimsborg. Eru ákvarðanir í þessa veru sú framtíð sem vænta má hér í Reykjavík? Er meiri reisn yfir því að láta fólk standa utan dyra og reykja en að leyfa því að sitja við borð og láta fara vel um sig við þessa iðju?

Útikaffihús hafa breytt ásýnd Reykjavíkurborgar ótrúlega mikið síðustu ár. Hvaða rök eru fyrir því að banna slíkt í borginni eftir klukkan 12:00 á miðnætti? Ef að opið er á staðnum og annað borð?

Í tíðum ferðum mínum til Brussel hef ég oft verið gestur á Metropolitan hótelinu í þeirri borg. Ein helsta ástæða þess er að þar er stór verönd þar sem reykingar eru leyfðar utandyra. Veröndin er lokuð en samt augljóslega „úti"kaffihús þar sem fjöldi fólks lætur fara vel um sig fram yfir miðnætti. Er það hegðun sem ekki má viðhafa í Reykjavík?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...