Stjórnmálamenn og almenningur á Íslandi sjá ekki ástæðu til að ræða gengi gjaldmiðilsins þessa dagana. Það er enginn skortur á greinum í blöðum eða fréttum í fjölmiðlum sem fjalla um skuldir heimila og fyrirtækja en samhengi þess við gengi gjaldmiðilsins er sjaldnast nefnt. Mér finnst þetta vægt frá sagt stórundarlegt mál.
Ég var að koma frá Berlín. Keypti 400 evrur í flugstöðinni til að taka með mér. Þær kostuðu 72.000 krónur. Hefðu kostað 34. - 46.000 ef að gengið væri á bilinu 85 - 115 eins og raunin var hér einhvern tíma fyrir ekki löngu síðan. Semsagt meira en 100% hærri kostnaður af því að kaupa eyðslueyri í þessari útlandaferð en fyrir örstuttu síðan. Berlín var ekki dýr þegar horft er á verðið í evrum, en nokkuð annað er upp á tengingnum þegar umreiknað er í íslenskar krónur. Morgunverðurinn á hótelinu kostaði t.d. 13 evrur á manninn, ekki há upphæð í evrum en með gengi upp á 180 krónur eru það 2.340 krónur fyrir morgunverð á manninn, tæplega 5.000 krónur fyrir morgunverð á dag u.þ.b. 20. þúsund fyrir tvo í fjóra daga - fyrir morgunverð á hóteli.
Sama er uppi á tengingnum hjá okkur einstaklingunum á þessu litla heimili mínu í okkar daglega lífi á Íslandi vorið 2009. Höfuðstóll skuldarinnar á íbúðinni sem var 12 milljónir þegar lánið var tekið vorið 2004 stendur núna þetta á bilinu 23 - 24 milljónir. Skuldir litla fyrirtækisins sem sambýlismaður minn á hlut í er u.þ.b. 100% hærri í dag en þær voru fyrir nokkrum mánuðum síðan. Dóttirin sem var búin að skipuleggja Interrail ferð til Evrópu í haust verður að hætta við vegna þess að Evrópa er einfaldlega of dýr.
Allt er þetta vegna gengis gjaldmiðilsins sem er ónýt íslensk króna. Gjaldmiðillinn sem er búin að gera mér lífið leitt frá því ég man eftir mér á að halda áfram að eyðileggja líf dóttur minnar að því er virðist ef að stjórnmálamenn á Íslandi fá einhverju ráðið.
Og af hvaða ástæðu? Jú af þeirri ástæðu að "sjálfstæðið", "fullveldið" er svo mikils virði! Þið ættuð að skammast ykkur allir saman!
Dóttir mín viðhafði þau orð í Berlínarferðinni að hún tryði því ekki að þingmenn á Íslandi myndu ekki leyfa okkur að kjósa um það að ganga til aðildar við Evrópusambandið eftir að fyrir lægi hvað þar væri í boði. Þar hitti hún naglann á höfuðið eins og svo oft áður. Hún 19 ára gamall unglingurinn vill ekki trúa því fyrr en í fulla hnefana að íslenskir stjórnmálamenn ætli að standa í vegi fyrir því að hún fái að eiga valkosti um framtíð sína í þessu landi. Hún trúir því ekki að íslenskir stjórnmálamenn nútímans ætli henni þá framtíð að búa í samfélagi átthagafjötra. Átthagafjötra sem hún veit að móðir hennar og forfeður og mæður hafa þurft að búa við.
Ég vil trúa henni. Ég vil taka undir með henni að það geti hreinlega ekki verið að stjórnmálamenn á Íslandi sumarið 2009 taki þá ákvörðun að kjósa einangrun og höft fyrir komandi kynslóðir í þessu landi.
Gengi gjaldmiðils okkar er aðalatriði. Gengi gjaldmiðilsins hefur skert lífskjör okkar stórkostlega á nokkrum mánuðum. Gengi gjaldmiðilsins hefur fært líf mitt aftur til þess tíma sem mig langar ekkert til að upplifa aftur - fortíðarinnar þar sem litið var á utanlandsferðir sem bruðl á gjaldeyri.
Framtíð okkar, tækifæri til skamms tíma og lengri tíma eru öll undir því komin hvernig tekst að vinna okkur út úr gjaldmiðilskrísunni. Ekkert mál er jafnmikilvægt fyrir fyrirtæki og heimili í landinu, svo einfalt er það.
Þess vegna eiga Framsóknarmenn, Samfylkingarfólk, Sjálfstæðismenn, Vinstri grænir og Borgaraflokkur að tala um hvernig þeir ætli að vinna okkur út úr þessu máli. Alþingi á ekki að vera tala um neitt annað en nákvæmlega þetta mál. Ekkert er jafnmikilvægt fyrir lífskjör okkar í þessu landi, hvort sem litið er skamms eða lengri tíma.
Íslensk króna hefur runnið sitt skeið. Svo einfalt er það. Hvernig ætla menn að leysa þann vanda til framtíðar?
Lausnir óskast!
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
sunnudagur, 31. maí 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli