miðvikudagur, 24. desember 2025

Hugleiðing á jólum

Á dögunum horfði ég á myndina The Boat That Rocked á RÚV. Ég elska þessa mynd – hún gerir mig alltaf svo glaða. Tíminn sem hún lýsir er svo ólíkur tímanum sem við lifum á nú og ég kann svo rosalega miklu betur við hann en þennan ferkantaða nútíma. Það er mín trú að við hefðum rosalega gott af svolitlu rokki núna. Svolítilli óhlýðni. Óþekkt. Ég væri til í að unga fólkið okkar væri óhlýðnara, óþekkara. Í stað þess að samsama sig hægri öfgamönnum væri ég til í hippa. Fleiri sem gæfu skít í að leggja allt sitt í að vera sætir á samfélagsmiðlum. Mikið rosalega held ég að það myndi gera okkar tímum gott. Okkur öllum. 

Hér í Svíþjóð þar sem ég er stödd með dóttur, tengdasyni og dótturdætrum horfði ég á dögunum á jóladagatalið um Randalín og Munda – dásamlegt sjónvarpsefni sem á það sammerkt með bíómyndinni sem ég nefndi hér að ofan að vera undursamlega fyndin. Fullorðna fólkið allt saman fullkomlega sjálfhverft með hausinn uppi í eigin rassi – svolítið eins og við erum í nútímanum. 

Að síðustu horfði ég á jóladagatalið um Snæholt – fyrstu útgáfuna. Dásamleg áminning um hvað það er sem skiptir máli. Við vitum það í raun öll innst inni. Við vitum að það er gott að vera þar sem við megum vera þau sem við erum. Að það er frelsi til þess að vera sá sem maður er sem býr til gott samfélag. Samfélag gleði þar sem okkur líður vel. 

Við vitum það öll að kærleikurinn er það eina sem skiptir máli og að stjórnlyndi er vont. 

Samfélag þar sem við erum rænd gleðinni er vont samfélag þar sem illt er að eiga heima. Gleði er mælikvarði á líðan mannsins.

Í lok síðasta árs las ég tvær bækur sem höfðu mikil áhrif á mig – bækur sem ég setti í jólapakka til margra sem mér þykir vænt um: Mennska eftir Bjarna Snæbjörnsson og Konan sem í mér býr eftir Britney Spears. 

Sú fyrri, Mennska, fjallar um samfélag sem kennir ungum manni frá fyrstu tíð að hann sé ekki eins og hann eigi að vera. Sögumaður er næmur einstaklingur sem nemur sterkt þau skilaboð sem hann fær frá barnæsku og það hefur gríðarleg áhrif á hann. Þau áhrif að hann þróar með sér sjálfshatur sem hann áttar sig ekki á fyrr en hann er orðinn fullorðinn. Á sama tíma er hann einstaklega ástríkur einstaklingur sem þykir vænt um allt og alla – það skynjar maður sterkt frá hverri blaðsíðu. Þessa bók mundi ég vilja að við fengjum ungt í skólum landsins til að lesa og ræða. Einstök bók sem lýsir með skýrum hætti andlegri baráttu einstaklings sem er öðruvísi gerður en þorpið þar sem hann býr í samþykkir. Hann veit það þó ekki sjálfur. Hefur ekki hugmynd um að hann sé öðruvísi – áttar sig ekki á því fyrr en hann er kominn á fullorðinsár – svo sterk áhrif hafði þorpið á hann. Þorpið þar sem hann á heima gæti verið hvar sem er í heiminum. Í Rússlandi. Bandaríkjunum. Þýskalandi. Litháen. Albaníu. Ítalíu. Hvar sem er.  

Hin bókin, Konan sem í mér býr, eftir Britney Spears, lýsir þeirri hræðilegu reynslu þegar stjórnun sjálfsins er fullkomlega yfirtekin af öðrum einstaklingi. Þessi hæfileikaríka og klára unga kona þurfti að þola helvíti af hálfu föður síns í vel á annan áratug áður en hún losnaði undan valdstjórnun hans. 

Þetta gerist í Bandaríkjunum – ríkinu sem við höfum lært að tengja við einstaklingsfrelsið. Það sviptir þessa heimsfrægu og hæfileikaríku ungu konu sjálfræði og veitir föður hennar valdið yfir henni. Skelfileg en holl lesning sem fyllir mann ólýsanlegri reiði og réttlætiskennd. 

Af hverju er ég að segja frá þessu hér? Á Þorláksmessu árið 2025. Ég er að því vegna þess að ég hræðist þá þróun sem á sér stað í samfélaginu sem ég bý í. Í heiminum allt um kring. Ég hræðist það að fólk aðhyllist stjórnlynda brjálæðinga sem vilja ráða því hverjir mega vera til og hverjir ekki. Brjálæðinga sem vilja að konur séu sætar heimavinnandi húsmæður og karlar snyrtilega klipptir í jakkafötum. Brjálæðinga sem vilja færa heiminn aftur á bak í öllu tilliti þangað sem hvíti karlinn er við stjórnvölinn. 

Mig langar ekki þangað. Charlie Kirk og Snorri Másson voru ekki og eru ekki handhafar kærleikans og þar með ekki boðskapar Jesú Krists þótt þeir stæri sig af því að standa vörð um „kristileg gildi“. 

Mig langar í heim þar sem við fáum öll að vera eins og við erum. Heim eins og íslenska kirkjan auglýsir núna. Heim eins og Jesús Kristur boðaði. Heim þar sem við erum öll jöfn. Heim umburðarlyndis. Heim kærleika. 

Fæðingarhátíð frelsarans – hátíð ljóssins – fer í hönd. Jesús Kristur hefur alltaf verið boðberi kærleikans í mínum huga og verður alltaf. 

Gleðileg jól og hafið það sem allra best yfir hátíðarnar og á nýju ári!


sunnudagur, 14. desember 2025

Testósterón og þjóðernisrembingur

Testósterón og þjóðernisrembingur er einhver versta blanda sem ég veit. Íslensk stjórnmál í mínum uppvexti voru uppfull af hvoru tveggja. Testósteróni og þjóðernisrembingi. Það var alveg sama hvort stjórnmálakarlarnir voru vinstra eða hægra megin í pólitík – þeir voru uppfullir af rembu alla daga. Það var eitt það fyrsta sem ég lærði um stjórnmál að fá óbeit á þessum þætti í fari íslenskra stjórnmálakarla. Þannig er ég enn.

Fátt á ég erfiðara með að þola en þennan rembing – stöðuga rembing þar sem íslenskir karlar halda að þeir séu miklu betur gerðir til allra hluta en karlar annars staðar. Sömu menn halda því á lofti að Íslendingar séu svo miklu klárari og betri en aðrir. Þetta er svo óskaplega þreytandi viðhorf. Yfirlæti og sjálfsupphafning.

Íslendingar geta verið ágætir en þeir geta líka verið gjörsamlega óþolandi á stundum og við mættum svo gjarna við smáskammti af auðmýkt og lítillæti alla jafna. Það mundi gera okkur gott.

Ég hef oft velt því fyrir mér hverju þetta sæti. Hvernig stendur á því að Íslendingar sem voru bláfátækir fyrir aðeins 100 árum, láta alltaf eins og þeir séu vitrari og klárari en allir aðrir? Hvaðan kemur þessi oflátungsháttur? Svarið hef ég auðvitað ekki en líklega liggur það í því hvað þjóðin er ung - að Íslendingar séu eins og unglingar, oft – með lítið sjálfstraust undir niðri en temji sér oflátungshátt út á við.

Því geri ég þessa þætti að umfjöllunarefni dagsins að mér sýnist sem þetta tvennt sé að yfirtaka heiminn – testósterón og þjóðernisrembingur – og það er vont. Vont fyrir okkur öll sem byggjum þennan heim. Oflátungsháttur.

Donald Trump og hans kónar. Nigel Farage sem ég les núna að sé kominn í forystu fyrir stærsta stjórnmálaflokki Bretlands, Sigmundur Davíð. Allt eru þetta karlar fullir af rembingi. Rembingi sem segir að þeir séu svo miklu betri en annan fólk. Þeirra húðlitur, þeirra kyn, þeirra þjóðir eru svo miklu betur gerðar en allar aðrar. Það er ekki þannig. Bandaríkjamenn, Bretar eða Íslendingar eru ekki best gefna fólk sem uppi hefur verið. Það hefur hins vegar aldrei verið skortur á yfirlæti hjá þessum þjóðum. Rembingi.

Ég var 25 ára þegar ég hóf störf í alþjóðlegum viðskiptum. Ég lærði fljótt að Íslendingar voru ekki sérfræðingar á neinu þeirra sviða sem ég starfaði innan. Samt létu þeir alltaf þannig. Karlarnir. Þeir létu eins og þeir vissu allt best.

Íslendingar þróuðu viðskipti í fullkomlega spilltu umhverfi. Helmingaskiptum Sambandsins og íhaldssins. Við sem ólumst upp á síðari hluta tuttugustu aldar á Íslandi vissum öll að viðskipti byggðu miklu fremur á stjórnmáskoðunum fólks en nokkru öðru. Aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu árið 1994 gjörbreytti öllu. Og stofnun Bónuss í lok níunda áratugarins.

Að vera þátttakandi í þeim gríðarlegu breytingum sem urðu á alþjóðlegu viðskiptaumhverfi á tíunda áratug síðustu aldar og í byrjun þessarar með upptöku innri markaðarins í Evrópu 1. janúar 1993, evrópska efnahagssvæðinu 1. janúar 1994 og síðast en ekki síst upptöku evrunnar, gerði mig að sannfærðum Evrópusambandssinna sem ekkert fær haggað.

Í störfum mínum átti ég í viðskiptum við Evrópska markaðinn áður en innri markaðurinn tók gildi. Ég upplifði breytinguna. Þessa gríðarlega breytingu sem varð við að markaðurinn varð einn í stað tólf. Síðar einn í stað 15, 25 og að lokum 27 eins og hann er samsettur nú.

Upptaka evrunnar var samt enn meiri breyting. Að þurfa ekki lengur að umreikna í þýsk mörk, franska og belgíska franka, ítalskar lírur, spænska peseta, hollensk gyllini o.s.frv., o.s.frv. var bylting – ekkert minna.

Mér varð strax ljóst hversu byltingarkennd breyting þetta var fyrir viðskipti í álfunni. Markaður með einn gjaldmiðil í stað fjölda tryggði gagnsæi. Það varð strax svo augljóst að þjónusta og vörur til sölu í mismunandi löndum álfunnar myndu leita samræmis. Einfaldlega vegna þess að kaupandinn átti auðveldara með samanburðinn. Það gat til lengri tíma ekki verið neitt eðlilegt við að ein tegund þjónustu væri miklu dýrari í einu landi en öðru. Og hér verð ég að leggja áherslu á þetta orðasamband – til lengri tíma. Það varð mér ljóst strax að breytingin mundi taka  langan tíma.

Á sama tíma bjó ég í landi þar sem alltaf var hið sama uppi á teningnum hvað efnahagsástandið varðaði. Gjörsamlega óþolandi hagsveiflur endalaust. Fyrst og síðast gengi íslensku krónunnar sem stöðugt sveiflaðist og hafði þannig grundvallaráhrif á efnahagslega stöðu mína sem íslensks borgara. Verðbólga og vextir í tveggja stafa tölu viðvarandi ástand, meira og minna.

Þegar ég hóf störf á íslenskum vinnumarkaði 1983 fór verðbólgan yfir 100%. Þannig lærði ég strax í upphafi starfsævinnar að það eina sem skipti máli væri að eyða peningum sem fyrst. Í kjölfarið tóku svo við stöðugar gengisfellingar og uppsveiflur til skiptis þar sem við  – hinn almenni borgari – hafði nákvæmlega enga stjórn á eigin afkomu. Það eina sem skipti máli var að reyna að komast yfir húsnæði og geta haldið því – átt það með bankanum ævina á enda – þar sem ljóst varð strax í upphafi að með verðtryggða íslenska krónu mundi aldrei takast að eignast neitt. Hlutskiptið væri í besta falli að geta átt eignina með bankanum ævina á enda.

Blessað hrunið og eftirmálar þess – blessaðir vogunarsjóðirnir og erlendi túristinn hafa leitt til þess að gengissveiflurnar eru nú að mestu úr sögunni að því er virðist. Seðlabankinn hefur á að skipa góðum gjaldeyrisvaraforða svo fátt virðist fá haggað stöðugleika krónunnar. Það breytir miklu fyrir hag íslenskra launþega en verðbólgan er viðvarandi áfram og vextir þar af leiðandi háir.

Ég er komin á þann aldur að styttist í starfslok. Ekki mörg ár í það. Og þetta er enn staðan. Gjörsamlega óþolandi staða efnahagsmála. Ég var ein hinna heppnu sem ekki missti allt sem ég hafði áunnið í hruninu en það var fyrir einskæra heppni. Ég mun væntanlega eiga íbúðina sem ég á hlut í með bankanum ævina á enda. Þykist þó góð að vera laus undan verðtryggingunni – gerðist loksins núna þegar ég er komin á sjötugsaldurinn.

Þetta eru efnahagsmálin sem remburnar í landinu eru svo stoltar af og vilja umfram allt fá að viðhalda. Þær vilja fá að halda áfram að leika sér með hag fólksins í landinu eins og alla mína starfsævi. Vilja halda áfram að búa í haginn fyrir þá sem hafa orðið forríkir í þessu umhverfi síðustu áratugi. Menn eins og Sigmundur Davíð og hans kónar.

Til þess að geta gert það – til þess að hafa fullkomið frelsi til þess –  þurfa þeir að hafa tækin. Íslenska krónan er þar í forystusæti. Hún er gríðarlega mikilvægt tæki til misskiptingar auðs. Að loka íslenska markaðnum fyrir útlendingum er annað tæki. Gríðarlega mikilvægt tæki. Að tryggja að íslensku hrægammarnir einir hafi opinn aðgang að markaðnum. Það er grundvallarmál.

Ég vil losna undan þessum kónum. Losna undan þessu testósteróni og þjóðernisrembingi. Og það er mín sannfæring að til að svo megi verða þurfum við að horfa annað en til nýlenduherranna í Bretlandi eða forríkra, gjörspilltra karla í vestri.

Það er kominn tími til að Íslendingar sýni sjálfstraust til að standa á eigin fótum og gangi með opin augun til samstarfs við Evrópuþjóðir þar sem við eigum heima.

laugardagur, 6. desember 2025

Þankar að loknum lestri Hlöðunnar eftir Bergsvein Birgisson

Vorið 2015 gekk ég í björg – ég hrundi saman með þeim hætti að ég hefði aldrei ímyndað mér fyrirfram að slíkt ætti fyrir mér að liggja. Að upplifa slíkt er lífsreynsla – lífsreynsla sem aldrei verður frá manni tekin.

Því sem gerðist verður best lýst með því að segja að það var eins og sjálfið væri ekki lengur til. Það hefði verið yfirtekið af harðstjóra sem var til staðar í þessu sama höfði og hafði tekist ætlunarverkið að berja niður sjálfið sem fyrir var í mél. Þessi harðstjóri hafði verið lengi að verki og hann átti eftir að vera lengur að áður en hann gaf eftir.

Það sem kom mér aftur af stað í bata var lítið appelsínugult kver sem heitir Servant as leader. Ég hafði sem betur fer haft krafta til þess að ákveða að nota tímann til að gera eitthvað sem mögulega gæti verið mér til gagns. Að tillögu dóttur minnar ákvað ég að klára BS gráðu í viðskiptafræði og Sigurður Ragnarsson, þá forstöðumaður viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst, var svo indæll að leyfa mér það þótt diploman mín væri orðin 14 ára.

Það reyndist gera mér gott að setjast aftur á skólabekk – þó það verði að viðurkennast að viðskiptafræði var ekki fagið sem ég brann fyrir. Þar inn á milli reyndust þó sem betur fer fög sem gáfu manni færi á að hugsa og það voru þau sem héldu í mér lífi. Og það var einmitt þar sem ég fann þetta litla appelsínugula kver sem fyrr er getið.

Það er ástæða þess að ég rita þessar línur í dag. Ég var að ljúka lestri bókarinnar Hlaðan – þankar til framtíðar eftir Bergsvein Birgisson. Fyrir mér var lesturinn sérstök upplifun sem mig langar að gera grein fyrir hér.

Bergsteinn Birgisson fjallar í þessari bók um hluti sem eru nákskyldir þeim ég upplifði og gerði að umtalsefni í BS-ritgerð minni í viðskiptafræði það sama ár – árið 2016 – árið sem Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna fyrra sinni.

Lestur þessa appelsínugula kvers vorið 2016 snart mig eins og vitrun. Það gerðist eitthvað stórmerkilegt í höfðinu á mér sem ég upplifði með þeim hætti að það var eins og ég hefði endurheimt sjálfið sem ég hafði tapað. Það var eins og sjálf mitt væri aftur „heilt“ án þess að ég hefði hugmynd um af hverju. Þessi reynsla varð til þess að ég varð að kafa ofan í hvað eiginlega gerðist. Ég henti BS ritgerðarefni sem ég hafði fyrir löngu ákveðið að vinna að og leitaði til kennara að þeim áfanga sem kenndi þetta litla kver  þetta vor „þjónandi forystu“ og fékk hann til að samþykkja að verða leiðbeinandi minn. Verkefnið var að  kafa ofan í hvað gerðist  í hausnum á mér – án þess að hafa hugmynd um hvernig ég færi að því. Vissi bara að ég ætlaði að gera það!

Það er skemmst frá því að segja að þessi hugmynd átti eftir að leiða mig inn á braut sem var ólýsanlega gaman að upplifa eftir það sem á undan var gengið. Sjálfið var í ham þetta sumar árið 2016. Ástríðan sem alltaf hafði verið mitt aðalsmerki kviknaði svo um munaði. Ég var að tapa mér, það var svo gaman. Ég las heimspeki og ég las Freud. Ég las Pál Skúlason og ég las Sókrates, Nietzsche, Kirkegaard og Schiller. Ég las og las og las og ég var á lífi – guð hvað það var gott að vera aftur á lífi! Það var undursamlegt – verður eiginlega ekki lýst þannig að aðrir sem ekki hafa upplifað það sama geti skilið.

Ég varð fyrir mörgum uppljómunum þetta sumar sem ekki er hægt að gera grein fyrir í einni stuttri umfjöllun á laugardagsmorgni í desember 2025. En aðalmálinu get ég gert grein fyrir – því sem ég er enn algjörlega sannfærð um að var það sem bjargaði sjálfi mínu þetta sumar – það var heimspeki. Það var heimspekin sem „heilaði“ sjálf mitt þetta sumar. Heimspekin í kverinu Servant as leader. Það var hún sem bjargaði mér og að halda áfram að kafa ofan í hana var það sem kom mér á réttan kjöl. Ég er ekki í vafa. Ekki eitt augnablik. Þið hin getið ekki vitað þetta, því ekkert ykkar var inni í höfðinu á mér. Ég veit það og mun alltaf vita það.

Það fór svo að ég skrifaði tvær BS ritgerðir – þeirri fyrri var hafnað af leiðbeinandanum – enda ekki nema von – hún var óreiðan ein – ástríðufullur persónulegur óður um það sem gerðist í sjálfi höfundar þetta vor og sumar. Ég varð fyrir áfalli þegar það gerðist en gaf mig ekki því ég vissi upp á hár hvernig ég ætlaði að klára ritgerðina og mér tókst það.

Ég kláraði ritgerð í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst sem byggir á kveri Roberts K. Greenleaf Servant as leader, Sigmund Freud, heimspeki Páls Skúlasonar, Sókratesar og Nietzsche. Það var mikil spenna yfir jólin 2016 um hvort ritgerðin yrði samþykkt enda var hún algjörlega mín afurð frá A-Ö – leiðbeinandinn hafði ekkert fengið um hana að segja annað en að samþykkja hvernig ég ætlaði að taka á efninu í annarri tilraun. Tímaþröngin var slík að ég skilaði ritgerðinni inn óyfirlesinni og þannig er hún enn á vef Háskóla Íslands með orða- og stafsetningarvillum – en hún er þar. Mér tókst að útskrifast sem viðskiptafræðingur með BS gráðu með einkunnina 7 fyrir ritgerðina og þóttist góð. Það hafðist.

Því er ég að segja frá þessu hér að þessi saga mín fjallar um sama efni og Bergsveinn Birgisson gerir að umtalsefni í bók sinni Hlaðan – þankar til framtíðar. Hún fjallar um að maðurinn er heimspekileg vera. Ég skrifaði grein á dögunum þar sem ég fjallaði um sama efni. Um mikilvægi hug- og félagsvísinda fyrir heill mannsins.

Ég hef fundið það á eigin skinni að hug- og félagsvísindi eru mér lífsnauðsynleg. Ég get ekki lifað þar sem greiningin og mælingin ein ræður ríkjum. Fyrir mér boðar hugmyndafræði Trump og hans kóna – tæknirisa Bandaríkjanna – dauða mennskunnar.

þriðjudagur, 25. nóvember 2025

Að vera kona

Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og allt sem er „karllegt“. Konum ekki síður en körlum finnst þetta.

Þetta birtist m.a. í því sem ég hef verið að gagnrýna fullum hálsi síðustu vikur og mánuði. Því að búið er þurrka út tengslin á milli þarfar mæðra fyrir gæslu barna að loknu fæðingarorlofi og leikskólavistar. Af hálfu kerfisins og stjórnmálanna. Ég sat pólitískan fund á laugardaginn þar sem það þótti sjálfsagt að tala um leikskólavandann án þess að minnst væri einu orði á að tengja það við þarfir mæðra fyrir leikskólavist. Þ.e. af hálfu frummælenda í stjórnmálum. Þessi staðreynd gerði mig gjörsamlega bit. Og reyndar öskureiða og mér finnst ég hafa leyfi til að vera reið yfir því og ætla að gera grein fyrir þeirri reiði hér.

Ég á dóttur og ég á tvær dótturdætur. Þrír afkomendur mínir eru af kvenkyni. Ég ætlast til þess að þær þurfi ekki hver og ein að byrja sömu baráttu og ég þurfti að heyja í fortíð en samkvæmt því sem ég heyri allt í kringum mig þessa dagana virðist vera sem það sem það sé ætlan kerfisins og stjórnmálanna.

Það að „gæta barna“ er svo ómerkilegt starf að það má ekki segja upphátt að það sé hlutverk leikskólanna. Enda hefur það lengst af verið „kvennastarf“. „Fóstra“ var ómerkilegt orð sem nauðsynlegt var að þurrka út úr tungumálinu, enda vísaði það til þessa ómerkilega starfs sem konur sinntu – „að gæta barna“. „Kennsla“ er miklu merkilegra orð enda vísar það til karlastarfs í fortíð og „leikskólakennari“ er miklu merkilegra starfsheiti en „fóstra“ enda vísar það að sama skapi til veraldar karla í fortíð en ekki kvenna.

Ég mæli með því að við konur horfumst í augu við þennan veruleika. Ég neita því staðfastlega að það „að gæta barna“ sé ómerkilegt starf. Ég er reyndar sannfærð um að það sé merkilegasta starf sem um getur, enda ekkert til í veröldinni merkilegra en að koma barni til manns. Að veita því ást og umhyggju sem það þarf á að halda á fyrstu árum ævinnar. Það er hlutverk leikskólakennara og það er merkilegt – skiptir okkur öll meira máli en nokkuð annað.

Konur mega gera þá kröfu að loknu fæðingarorlofi að þær geti gengið að leikskólaþjónustu vísri fyrir börnin sín allan daginn. Það er þjónusta sem sveitarfélögin eiga að bjóða upp á og þau verða að finna leiðir til þess að geta gert það. Það er forgangsmál í nútímasamfélagi. Ef það truflar þau að sú þjónusta sé ekki bundin í lög þá gerum við þá kröfu að stjórnmálamenn bindi þá þjónustu í lög. Ekki skólaskyldu, því börn á aldrinum 1–6 ára hafa ekkert með skólaskyldu að gera. Þau þurfa aftur á móti góða umönnun. Þau þurfa ást og örvun í góðu og frjóu leikskólastarfi og þá þjónustu eiga sveitarfélögin á Íslandi að bjóða upp á allan daginn. Vegna þess að það er sú þjónusta sem mæður þurfa á að halda að sé í boði fyrir þær þegar fæðingarorlofi þeirra lýkur.

Ráði sveitarfélögin ekki við þessa þjónustu verðum við að endurskoða málið í heild sinni. Við leysum ekki vandann með því að senda mæðrum vandamálið af því að það er svo þægilegt. Svo þægilegt og einfalt að senda mæðrum skömmina af því að þær hafa þarfir sem sveitarfélögin geta ekki svarað. Viðbrögð sem eru lýsandi fyrir það að vandamálið snýr að konum. Ef að við værum að tala um vandamál sem sneri að körlum sérstaklega hefði sveitarfélögunum aldrei dottið í hug að leysa það með þessum hætti. Að senda körlum skömm er ekki eitthvað sem gert er, enda taka þeir hana ekki til sín heldur. Þeir skammast sín ekki fyrir að hafa þarfir – hafa aldrei þurft þess. Konur gera það hins vegar. Alltaf. Þær eru vanar að skammast sín fyrir tilvist sína og hefur verið innrætt það frá blautu barnsbeini.

Það sem fyrir mér vakir með þessari grein er að vekja okkur öll til vitundar um hvað við erum að gera. Við erum að gera mæður ábyrgar fyrir rekstrarvanda sem sveitarfélögin eiga við að glíma. Við gerum það af því að vandamálið snýr að konum sérstaklega. Af því að það er svo þægilegt að gera það. Við myndum aldrei láta okkur detta í hug að gera það nema af því að það snýr að konum.

Kerfinu – sveitarfélögunum hefði aldrei dottið í hug að leysa vandamálið sem snýr að styttingu vinnuvikunnar með því að senda mæðrum ábyrgðina, nema af því að það eru konur sem taka við henni. Konurnar sem stóðu að breytingunum vissu alveg hvað þær voru að gera. Þær sendu vandann til þeirra sem þær vissu að myndu taka við honum og gera hann að sínum. Svo þægilegt. Svo óskaplega þægilegt.

Leikskólar eru ekki fyrstu vinnustaðir í veröldinni þar sem þarf að skipuleggja starfsemi sem nær yfir lengri tíma en daglegan vinnutíma starfsmannanna. Fullt af alls kyns fyrirtækjum og stofnunum hafa þurft að gera það og gera það hér og annars staðar í veröldinni. Að bjóða upp á leikskólaþjónustu fyrir foreldra allan daginn er úrlausnarefni. Stjórnunarlegs eðlis. Það kostar peninga og það krefst mannafla. Góðs mannafla. Mannafls sem við treystum fyrir því verðmætasta sem við eigum. 

Við höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi hér á landi áratugum saman að bera mikla virðingu fyrir leikskólunum. Á einhverjum tímapunkti gerðist það að þeir sem stjórna þessum stofnunum ákváðu að tala þær niður með þeim hætti að ég hef satt að segja aldrei upplifað annað eins.

Það er tími til kominn að stöðva þá þróun. Það er tími til kominn að stjórnmálamenn og stjórnendur leikskólanna tali saman um vandann sem við er að etja án þess að ætla foreldrum að leysa vandamálið sem við er að etja með því að sætta sig við minni þjónustu.

Það voru stjórnmálamenn sem tóku ákvörðun um að lengja nám leikskólakennara í 5 ár. Það átti að leiða til þess að auka virðingu fyrir starfinu og meta það til hærri launa. Það voru stjórnmálamenn sem ákváðu að sameina leyfisbréf kennara og leikskólakennara og gáfu þannig þeirri slæmu hugmynd undir fótinn að leikskólakennarar væru að sinna sama starfi og kennarar, sem er alls ekki raunin og á alls ekki að vera raunin.

Það voru stjórnmálamenn sem sömdu um styttingu vinnuvikunnar til handa starfsmönnum ríkisins og sveitarfélaganna. Allt eru þetta ákvarðanir sem hafa haft áhrif á þetta starfsumhverfi. Starfsumhverfi leikskólanna.

Sem móðir og amma ætlast ég til þess að stjórnmálamenn og sveitarfélögin í landinu beri virðingu fyrir sögu kvenna og séu með hana í farteskinu alltaf í allri nálgun og ákvarðanatöku. Að þau séu þess meðvituð að til að konur hafi sömu tækifæri og karlar þarf að bjóða þeim upp á góða leikskólavist fyrir börnin allan daginn. Það er grundvallarmál hvað varðar jafnrétti kynjanna.

 

laugardagur, 15. nóvember 2025

Mikilvægi hug- og félagsvísinda á heill mannsins

Haustið 1979 hóf ég menntaskólagöngu í Kvennaskólanum í Reykjavík. Um sumarið hafði ég sótt um skólavist í Fjölbrautaskólanum í Ármúla en einhver eða einhverjir ákváðu að þar sem ég væri umsækjandi utan af landi ætti ég að setjast á skólabekk í Kvennaskólanum í Reykjavík. Ég veit ekkert hverjir þetta voru en ég get upplýst það nú að ég er viðkomandi ævarandi þakklát.

Það var mikil gæfa fyrir mig persónulega að hefja skólagöngu í Reykjavík í Kvennaskólanum. Ég hætti reyndar eftir eins árs skólagöngu og byrjaði svo aftur eftir eitt og hálft ár að hausti 1982 og útskrifaðist sem stúdent vorið 1984. Ég lít á það sem sérstaka gæfu að hafa lent í þessum skóla af öllum skólum á þessum tíma og mig langar að segja ykkur af hverju.

Það er vegna þeirra áhrifa sem kennarar og námsval skólans hafði á mig sem unga manneskju á mótunarskeiði. Það er skemmst frá því að segja að kennarar þessa skóla voru einstakar manneskjur upp til hópa og andrúmsloftið milli þeirra og innan veggja skólans einkenndist af kærleika. Virðing er orðið sem best lýsir því sem ég á við. Virðing í samskiptum innan skólans. Virðing kennara gagnvart nemendum og virðing í samskiptum kennara innbyrðis og við stjórnendur og nemendur og öfugt. Að búa almennt við virðingu í samskiptum innan stofnunar eins og þessarar á mótunarskeiði verður seint fullþakkað.

Ég hef oft sagt það og segi það hér að ég elskaði kennarana mína í Kvennaskólanum í Reykjavík og ég er þeim svo óumræðilega þakklát fyrir það allt það sem þeir færðu mér.

Og það er það sem varð til þess að mig langar að skrifa þessa grein á laugardagsmorgni í nóvember 2025. Það sem kennarar Kvennaskólans færðu mér sem manneskju á mótunarskeiði á árunum 1982–1984. Mikilvægi hug- og félagsvísinda – ekki síst bókmennta á mig sem manneskju í samfélagi.

Við heyrum sjaldnast um þetta í dag. Fáir sjá ástæðu til að tala um mikilvægi félagsvísinda eða hugvísinda fyrir heill einstaklingsins. Hins vegar er enginn skortur á því að heyra talað um mikilvægi STEM fyrir einstaklinginn á þroskaskeiði.

Ég skrifa þessa grein til að gera grein fyrir þakklæti mínu í garð kennara og skólastofnunar sem færðu mér innsýn inn í heim félags- og hugvísinda sem hafa fylgt mér allar götur síðan og hafa mótað mig og haft áhrif á mig og hafa enn sem manneskju í samfélagi.

Í dag þegar fasisminn virðist enn einu sinni ætla að eiga greiða leið að okkur mannfólkinu er gott að eiga sannfæringu. Sannfæringu sem ekkert fær haggað. Þá sannfæringu sæki ég ekki síst í bókmenntirnar. Bókmenntirnar sem hafa að geyma sögu mannskynsins frá upphafi vega. Bókmenntirnar sem segja frá öllu sem okkur getur dottið í hug. Bókmenntirnar sem við getum speglað okkur í. Bókmenntirnar sem við getum grátið yfir. Bókmenntirnar sem við getum hlegið með. Bókmenntirnar sem við getum reiðst yfir. Bókmenntirnar sem við getum þjáðst með. Bókmenntirnar sem geta opnað hjörtu okkar upp á gátt … Bókmenntir hafa að geyma allt það sem þú sem manneskja þarft á að halda að geta speglað þig í og samsamað þig með.

Í Kvennaskólanum í Reykjavík lærði ég m.a. sálfræði, uppeldisfræði, íslensku, siðfræði, þýddar bókmenntir, barnabókmenntir, félagsfræði og sögu. Ég nefni þessar greinar sérstaklega því ég er svo þakklát fyrir margt af því sem kynnt var fyrir mér í þessum fögum. Eitthvað sem hefur fylgt mér allar götur síðan og hefur skipt mig svo miklu máli að ég tárast þegar ég skrifa þetta núna.

Það að vera manneskja í samfélagi er ekkert einfalt mál. Tæknirisarnir núna halda að þeir haldi á sannleikanum en mér er mikið niðri fyrir þegar ég segi þeim að það gera þeir  ekki. 

Það sem kveikt á þessum hugleiðingum var pistill Sifjar Sigmarsdóttur í morgun um jólabókaflóðið og þá staðreynd að enginn hefur orð á því á dánarbeðinu „bara að hann hefði nú keypt þetta eða hitt“ – frekar en enginn hefur sagt á dánarbeðinu „bara að hann hefði nú eytt meiri tíma á skrifstofunni“ (eins og stendur í einhverri bók sem snert hefur marga).

Við vitum öll þegar grannt er skoðað hvað það er sem skiptir máli en samt látum við alla daga eins og við vitum það ekki.

Við getum verið nokkuð viss um að enginn á eftir að segja á dánarbeðinu „bara að ég hefði nú horft meira á skjáinn“ – en samt eyðum við lífinu í það. Að horfa á skjá. Alla daga. Og við lítum á það sem forgangsmál að leyfa börnunum okkar að fá aðgang að skjá – aðgang sem opnar fyrir þeim leiðina að glæpahópum heimsins og fasistum og kvenhöturum. Við höfum ákveðið að bandarísku og kínversku tæknirisarnir séu þeir sem við ætlum að treysta fyrir uppeldi barnanna okkar. Að lesa bækur hins vegar er afgangsstærð.

Við tölum mikið um aukinn kvíða barna og ungmenna en sjaldan heyri ég í því samhengi mikilvægi þess að börn og ungmenni lesi bækur.

Við tölum mikið um aukinn einmanaleika fólks í samfélaginu. Við tölum um aukna skautun. Að við skiljum ekki lengur hvert annað.

Við sjáum ekki ástæðu til að setja það í samhengi við hvað við tölum niður hug- og félagsvísindi í samfélaginu. Nei. Allt sem er þess virði að vera upphafið í samfélagi 21. aldar er tækni og peningar. Stærðfræði. Verkfræði. Náttúruvísindi. STEM. Það er kjörorðið. Og viðskiptafræðin hefur alla öldina verið álitin sannleikurinn. Guð 21. aldar.

Ég ætla að gerast svo hrokafull að segja ykkur að þetta er misskilningur. Að það eru þessar áherslur sem eru að fara með samfélög okkur til helvítis.

Manneskjan þarfnast fegurðarinnar. Hún þarfnast heimspekinnar. Hún þarfnast bókmenntanna. Við mannfólkið þurfum á hug- og félagsvísinum að halda sem aldrei fyrr.

laugardagur, 8. nóvember 2025

Saga kvenna – saga mín

Þetta tvennt hefur verið mér ofarlega í huga síðustu vikur. Það hversu sjálfsagt okkur finnst að þurrka út sögu kvenna og hversu dugleg við erum við það – konur og karlar alla daga.

Það er merkilegt að upplifa það á sjálfum sér og það er ástæðan fyrir að ég hef tekið upp á því undarlega atferli síðustu daga að birta á Fésbókinni gamlar greinar sem ég hef skrifað og birtar hafa verið í dagblöðum. Aldurinn gefur manni þetta frelsi. Allt í einu er mér orðið skítsama þó ég hneyksli einhvern með sjálfhverfunni. Það er gott. Það er gott að losna undan þessari ótrúlega þungu byrði. Þessari byrði verunnar sem alltaf hefur fylgt manni í bakhöfðinu – þessari sem segir „hver heldurðu að þú sért“? Hvað hefur þú svo sem fram að færa?

Ég tek hér sterkt til orða – ég er ekki viss um að ég sé alveg laus við hana – þessa veru – en ég er alla vega komin á þann stað að ég leyfi mér að hundsa hana. Leyfi mér að vera sjálfhverf og ætla að leyfa mér það áfram um nokkra hríð. Í þeim tilgangi einum að endurheimta mína sögu. Því ég var horfin. Gjörsamlega horfin og saga mín ekki til.

Saga mín sem manneskju á vinnumarkaði. Saga mín sem manneskju með skoðanir. Hvort tveggja var horfið. Ég ætla að rifja upp hvort tveggja. Ég ætla að halda áfram næstu daga að draga fram í dagsljósið greinar og myndir sem sem bera vitni um hver ég var. Hvort ég muni hafa seiglu eða áhuga á að gera allt það sem ég hugsa núna mun koma í ljós. Kannski mun ég hætta jafn snöggt og ég byrjaði – kannski ekki.

Af hverju? Hverjum kemur „saga mín“ við? Hvers virði er hún svo sem þessi „saga“ – ef hún er þá yfirleitt til?

Ég á frænkur, ég á dóttur, ég á stjúpdóttur, ég á dótturdætur. Þeim öllum kemur saga mín við. Frændum líka. Konur eru til og þær eiga sér sögu. Sögu sem við eigum að viðhalda en ekki þurrka út.

Það sem kemur þessu af stað er sú staðreynd að hafa upplifað það á sjötugsaldri að horfa á konur – íslenskar konur - í forystu fyrir því að þurrka út mikilvæga þætti úr sögu kvennabaráttunnar eins og hendi sé veifað.

Að hafa horft á það á árinu 2025 þykir það enn ekki sjálfsagt að konur hafi þarfir þó þær leyfi sér að eignast börn.

Að upplifa það á árinu 2025 að orðið „konur“ þykir allt of byltingarkennt orð á meðal ungra kvenna. Reynum helst alltaf að draga úr því. Notum aldrei orðið „konur“ eitt og sér. Aldrei. Þurrkum kynin út úr tungumálinu og þar með konur.

Það má túlka orð mín hér að ofan eins og hótun eða sjálfbirgingslegt raus síð-miðaldra konu. Og það má. Hvort tveggja. Það er allt í lagi.

Það sem er ekki í lagi er þurrka út sögu kvenna. Sögu okkar kvenna.

föstudagur, 24. október 2025

Kvennabaráttan og kynhvötin

24. október 2025. Fimmtíu ár síðan kvennafrídagurinn var haldinn og konur flykktust út í hópum um allt land til að gera kröfur. Dagur sem við minnumst allar með lotningu vona ég og er fyrir löngu orðinn að einhvers konar minni sem við allar horfum til. Þetta var dagurinn sem markaði upphafið. Dagurinn þar sem allt breyttist og ekkert varð aftur samt. 

Þennan dag árið 1975 var ég 12 ára og bjó á Melum í Hrútafirði. Mamma var að leysa af á símanum í Brú á þessum tíma og hún tók sér ekki frí. 

Mér finnst táknrænt að hugsa til þess að á þessum tíma var ég tólf ára. Mér lá alltaf rosalega mikið á að verða fullorðin og mér fannst ég rosalega þroskuð. Ég var þá þegar komin með skoðanir á öllu milli himins og jarðar og ég fylgdist andaktug með þessum baráttufundi. Hann hafði djúp og mikil áhrif á mig þó ég fylgdist bara með úr fjarlægð. Ég spilaði plötuna „Áfram stelpur“ endalaust og kunni hvern einasta texta utanbókar. Held að ég kunni þá enn. 

Ég var stuðningsmaður kvennabaráttunnar frá fyrstu stundu en samt er það svo undarlegt að ég gekk aldrei alla leið. Ég gekk aldrei í Kvennalistann og ég syrgi það ævina á enda. Hvernig stendur á því að ég gerði það aldrei?

Mig langar til að segja ykkur það, því það er ástæða fyrir því. Mig langaði – langaði mjög mikið – en ég gat það ekki. Hef alltaf verið „sérvitur“ eins og pabbi sagði alltaf um mig á góðlátlegan hátt og sú sérviska birtist með margvíslegum hætti. 

Það var vegna þess að ég upplifði að kvennabaráttunni fylgdi að ég mætti ekki vera kynvera. Þegar ég var tólf ára gömul var ég nýbúin að gera stórkostlega uppgötvun – uppgötvun sem breytti öllu fyrir mig og gaf mér leyfi til að finna til þeirra kennda sem ég fann fyrir. Mér er ómögulegt að segja frá því nákvæmlega hér hver uppgötvunin var en hún skipti mig öllu máli. Hún bókstaflega, í orðsins fyllstu merkingu, sagði mér að ég væri ekki óeðlileg. Ég var í lagi. Ég mátti vera kynvera. Ég mátti finna til þeirra kennda sem ég fann fyrir og ég mátti stunda sjálfsfróun án þess að skammast mín. Þessi staðreynd var „breakthrough“ fyrir mig sem tólf ára gamla stelpu. Hún valdefldi mig með þeim hætti að ég kann ekki einu sinni að lýsa því. Þetta var eitthvað sem skipti mig gríðarlega miklu máli og ég var ekki til í að láta neinn segja mér að væri ljótt.

Hér er mikilvægt að segja jafnframt að með þessu er ég ekki að segja að tólf ára gamlar stelpur séu orðnar að leyfilegum „viðföngum“ karlkynsins. Aldeilis ekki. Það er langur vegur þar frá. Það er aftur á móti mikilvægt að við leyfum stelpum að kynnast þessari hvöt innra með sér og kennum þeim ekki að skammast sín fyrir hana. 

Kvennaframboðið og Kvennalistinn börðust alltaf hart fram gegn klámi og feministahreyfingar dagsins í dag gera það enn. Svo langt var gengið að ég minnist Helgu Thorberg mótmæla listasýningu á Hótel Borg þar sem um var að ræða japanska list sem sýndi fólk í ýmsum samfarastellingum. (Held að rétt sé með farið en það getur vel verið að smáatriðin séu misminni). Þetta þótti í lagi að líta á sem argasta klám. Ég upplifði þetta sem púritanisma og þoldi það ekki. Þennan hluta af baráttu Kvennalistans átti ég alltaf mjög erfitt með að þola og gat ekki staðið með. 

Á sama hátt þoli ég ekki í dag þegar farið er taka niður listaverk í opinberum stofnunum sem sýna ber brjóst kvenna. Ég hef hreinan ímugust á púritanisma og lít svo á að hann verði fyrst og fremst til að þagga niður í konum. 

Á sama tíma tek ég fram að ég hef hreina fyrirlitningu á þegar strákar ganga fram í því að gera stúlkur að kynlífsviðföngum fyrir þá til að hafa gaman. Íslenskt samfélag hefur oft á 21. öldinni gengið gjörsamlega fram af mér í aðra hvora áttina. Í þá átt að ala á og upphefja greddu strákanna á kostnað stelpna. Eða þess að útskúfa drengjum fyrir það eitt að vera klaufalegir í umgengni við þessa hvöt – kynhvötina. Stúlkur hafa gengist upp í því að vera púritanískar verur og ég spyr mig hverjum það gagnist. Er það gott fyrir þær? Ég er ekki sannfærð. 

Ég skil ekki af hverju við þurfum alltaf að vera á þessum stað. Alltaf í öfgunum í aðra hvora áttina? Er alveg ómögulegt að við leyfum ungu fólki að hafa kynhvöt? Kenna því að það þurfi að læra að umgangast hana og læra að sýna öðrum virðingu númer eitt. Að kynhvötin gefur aldrei leyfi til að níðast á öðrum. Aldrei. Þau bera ábyrgð hvert og eitt á sjálfum sér og því að sýna öðrum virðingu?

Ég veit það ekki. Veit ekki hvernig á að vera hægt að tala um kynhvötina án þess að allt fari til fjandans. Veit ekki hvernig á að vera hægt að tala um þessa hluti án þess að allt fari til fjandans. 

Ég veit það bara að mér hefur fundist Ísland á leiðinni á þann stað í kjölfar „MeToo“ að stúlkur séu orðnar að fullkomlega púritönskum verum fram á fullorðinsár. Og ég er ekki sannfærð um að það verði þeim til góðs. Ég held að það þýði að stúlkur séu að gangast upp í því að hafa vald yfir strákum til að segja þeim hvernig þeir eigi að haga sér. Og ég held að það sé ekki gott. Ekki fyrir þær og ekki fyrir þá. Ég er ekki sannfærð um að þetta fyrirkomulag leiði til góðs samfélags fyrir neinn.

Við erum með múslimasamfélagið á aðra hliðina. Samfélag kaþólsku kirkjunnar á hina. Allt gengur út á að halda stúlkum og konum niðri. Kynhvöt þeirra. Þær eru ekki til. Ósýnilegar. Þarf að ganga svo langt að hylja þær frá toppi til táar til að verja aumingjans karlana fyrir því að falla fyrir feistingum þeirra. 

Hér fyrr á öldum drekktum við konum fyrir glæpi sem karlar frömdu á þeim. Þær þurftu að greiða fyrir glæpi þeirra með lífi sínu. Ég gleymi aldrei áhrifamiklu verki Rúríar sem sýndi þetta. Íslenskum þjóðbúningum stillt upp með nöfnum og ártölum kvenna sem drekkt hafði verið í Drekkingarhyl vegna þess að feður þeirra, bræður eða frændur höfðu misnotað þær.

Gæti kannski verið að þetta sé næsta mál í feministabyltingunni? Gæti verið kominn tími til að við tækjumst á við kynhvötina? Ekki með þeim formerkjum að banna hana eða fela, heldur umfaðma hana? Leyfa unga fólkinu okkar að hafa kynhvöt og viðurkenna það? Viðurkenna að það er kynhvötin sem býr okkur öll til? Að takast á við kynferðisglæpina og ofbeldið með ákveðnum og markvissum hætti en rugla því ekki saman við að ungt fólk megi ekki hafa kynhvöt?

Ég get bara talað fyrir mig. Ég er búin að bíða eftir þessu augnabliki frá því ég var tólf ára stelpa. Ég held að það sé löngu kominn tími til að við vöndum okkur meira í þessari baráttu. Að við opnum meira og umföðmum meira. Sýnum meiri kærleika og minna valdboð. 

Ég held að valdboðið geri engum gott – allra síst samfélaginu sem við lifum í. Kærleikurinn gerir það hins vegar. Alltaf. 

Ég held að við þurfum að gangast við kynhvötinni. Að hún er þarna frá unga aldri. Og hún er hluti af því að vera strákur og hún er líka hluti af því að vera stelpa. Hún er ekki ljót í sjálfri sér. 

Það þarf ekki að verja ungar stúlkur fyrir kynhvötinni. En við búum í samfélagi sem hefur kennt ungum strákum frá aldaöðli að stúlkur séu kynferðisleg viðföng þeirra. Þann þátt í samfélagsgerðinni þurfum við að takast á við. Því það er ekki í lagi. 


mánudagur, 20. október 2025

Valdefling karlrembunnar

Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangri að nú tala karlremburnar um það fullir sjálfstrausts að að sjálfsögðu eigi konur ekki að vinna fullan vinnudag frá ungum börnum sínum. Það sé hneyksli. Svona er talað á árinu 2025. Á Íslandi. Landi jafnréttisins. Að upplifa þetta verður til þess að það stendur í mér. Mig langar að hlaupa út og hafa hátt á torgum.

Og mig langar ekkert að taka þátt í Kvennafrídegi þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir messar. Þið verðið að fyrirgefa – en svona líður mér.

Það eru svo sem engar fréttir. Ég tók ekki þátt í kvennafrídeginum árið 2023 enda fann ég enga tilfinningu fyrir því að tilheyra og þegar maður tilheyrir ekki þá langar mann ekki að vera memm.

Ég bjó í samfélagi framan af ævi þar sem lengst af ein kona sat á Alþingi hverju sinni. Engin kona sást í stjórnunarstöðu – nema þá um væri að ræða fjölskyldufyrirtæki. Konur skrifuðu ekki greinar. Konur voru ósýnilegar. Alveg eins og þær eru enn í stórum hluta heimsins.

Ótrúlega kjarkmikill hópur kvenna tók sig saman og var í forystu fyrir Kvennafrídeginum á Íslandi 24. október 1975. Rauðsokkur. Konur sem þurftu að þola ótrúlegt mótlæti – þar sem þær voru talaðar niður og gert lítið úr þeim. Eitthvað sem við getum fræðst um með því að horfa á myndina sem sýnd var á RÚV í gær „Dagurinn sem Ísland stöðvaðist“. Stórkostleg mynd sem blæs manni brjóst baráttuanda.

Í kjölfar Rauðsokkanna varð Kvennaframboðið og síðar Kvennalistinn til. Kvennalistinn sem umbreytti – kollvarpaði – stöðu kvenna á Íslandi. Ísland fyrir konur í dag er ekki sams konar samfélag og ég ólst upp í. Það er gjörbreytt. Konur eru helmingur þingmanna. Það eru konur í öllum æðstu embættum ríkisins. Það eru konur alls staðar – hver sem litið er. Nema kannski helst í æðstu stjórnunarstöðum fyrirtækja. Þar ræður karlkynið enn ríkjum að mestu.

Þetta samfélag er ekki einu sinni líkt því samfélagi sem ég ólst upp í. Og ástæðan fyrir því er ekki síst leikskólarnir.

Uppbygging heilsdagsleikskóla fyrir börn var grundvallarkrafa Kvennalistans og síðar R-listans. Það var byltingin sem R-listinn lagðist í og það var það mál sem breytti öllu. Það eru konur sem ganga með börn og það eru konur sem stóðu – og standa – frammi fyrir því að þurfa að koma barninu fyrir vilji þær fara út að vinna. Heilsdags leikskóli er grundvallarmál jafnréttis kynjanna. Það var það árið 1994 og það er það enn 30 árum síðar árið 2025.

Hvernig talað er til kvenna í almannarýminu í dag er óþolandi svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Að heill barnsins sé undir því komin að þau séu ekki lengur en 5-6 stundir í leikskóla á dag er skáldskapur til þess eins fallinn að brjóta niður áunnin réttindi.

Næst verður það gamla fólkið. Reyndar er það líklega ekkert „næst“. Mér skilst það hafi komið út bók á dögunum sem fjallar um nákvæmlega það. Hvernig konum er send skömmin ef þær hugsa ekki nógu vel um foreldra sína.

Að senda konum skömmina er ekkert nýtt. Það er elsta verkfærið í töskunni. Það hefur alltaf verið gert – í gegnum aldirnar.

Í gær hlustaði ég á þátt Önnu Sigríðar Þráinsdóttur og Guðrúnar Línberg Guðjónsdóttur þar sem þær gera grein fyrir því hversu mörg orð eru til í íslenskunni til að lýsa konum með niðrandi hætti. Þetta var bráðskemmtilegur þáttur um leið og hann er svo dásamlega lýsandi fyrir það samfélag sem við búum í. Hlustið á hann – mana ykkur!

Og hér eru það konur sem eru hlutverki dómaranna. Það eru konur sem eru að senda konum skömmina. Það eru þær sem eru forystu fyrir því að gera lítið úr kynsystrum sínum.

Ætlum við að hafa þetta svona? Ætlum við að kyngja því að við séum „vondar mæður“ ef við höfum persónulegar þarfir? Ætlum við að hlusta á ræður í þá veru á Kvennafrídaginn 25. október 2025? Á 50 ára afmælinu?

mánudagur, 13. október 2025

Meira um stétt leikskólakennara og stjóra

Það er ábyrgðarhluti að tala niður stofnanir með þeim hætti sem ég hef hlustað á leikskólakennara og stjóra gera síðustu ár um leikskólann. Þær (langflestar konur) tala eins og þessar stofnanir sem þær stýra séu stofnanir myrkursins.

Þar er húsnæðið allt of lítið og þröngt. Þar er allt of fátt starfsfólk pr barn. Þar er stór hætta á að alvarlegir hlutir gerist vegna þessa. Manneklu og vondra aðstæðna.

Leikskólarnir eiga að stýrast að þeirri hugmynd að vantraust sé normið. Enginn starfsmaður á nokkru sinni að fá að vera einn með barni. Það er stórhættulegt og býður hættunni heim. Bandaríska hugmyndafræðin þar sem við vantreystum öllum þar til annað sannast.

Hverjum líður vel í slíku umhverfi?
Þar sem vantraust er normið?
Þér?

Eins og ég kom inn á í grein minni í gær þá sat ég Þjóðarspegilinn fyrir sennilega tveimur árum þar sem „sérfræðingar“ um málefni leikskóla frá Háskólanum á Akureyri töluðu þessar stofnanir svo niður að ég gekk út. Þær voru komnar á þann stað að tala um aðstæður í leikskólum á Íslandi í dag væru hliðstæðar við vöggustofurnar sem við höfum öll heyrt hryllingsfréttirnar um.

Hvert okkar hefur þessa reynslu af leikskóla barnsins síns? Setjum við börnin okkar á hverjum degi í faðm stofnana þar sem við eigum öll von á að eitthvað illt gerist?

Ég spyr – hver vill vinna á svona stað? Hver sækist eftir að vinna í svona aðstæðum?

Í tengslum við þessa umræðu þar sem leikskólarnir eru orðnir svona hættulegir er því beint til foreldra að þeir séu svo vondir ef þeir vilja hafa barnið sitt allan daginn á leikskóla. Því slegið föstu að það sé eftirsóknarverðast og best fyrir barnið að „eiga sem stystan vinnudag“ og látið eins og það séu einhverjar rannsóknir þarna úti sem styðja málstað þeirra. Það er vert að geta þess að þær rannsóknir finnast ekki. Það er ekkert sem styður þá hugmynd leikskólakennara og stjóra að það sé börnunum fyrir bestu að vera sem styst á leikskólanum. Það eru hins vegar til fullt af rannsóknum sem sýna að gæði leikskólans skipta máli fyrir heill barnsins.

Að síðustu – á árum áður var mjög almenn ánægja foreldra með leikskólana. 90% eða þar um bil var ánægð með leikskólana ef ég man rétt. Því sama var hreint ekki að heilsa þegar skólarnir voru annars vegar. Óánægja með skólana hefur verið landlæg á Íslandi í áratugi á minni ævi. Nú vilja leikskólakennarar og stjórar endilega gera skólann að fyrirmynd sinni og vinna að því öllum árum að við öll lítum á þessar stofnanir – leikskólana – sem við höfum fyrst og fremst litið á sem stofnanir til að gæta barnanna okkar á meðan við erum úti að vinna – sem skóla.

Ég skrifa þessar greinar vegna þess að mér er annt um leikskólann – mjög annt um hann. Og ég elska börn – meira en annað fólk. Ég hef verið miður mín lengi yfir þeirri vegferð sem ég hef horft á leikskólakennara og stjórana vera á og nú er komið nóg.

Það er ekki þeirra hlutverk að vera í forystu einhverrar teboðshreyfingar á Íslandi. Að vera í því hlutverki að senda skömmina vegna þarfar fyrir gæslu barna yfir á mæður. En það er hlutverkið sem þær hafa tekið að sér síðustu ár.

Það er ekki heldur þeirra hlutverk að tala niður stofnanirnar sem þær starfa hjá og búa til þá mynd í huga okkar allra að þær séu stofnanir myrkursins. Leikskólar á Íslandi hafa lengst af verið yndislegar stofnanir sem foreldrunum og tala nú ekki um börnunum hefur þótt vænt um. Þannig viljum við áreiðanlega öll hafa það áfram.

Þess vegna biðla ég til leikskólakennara og stjóra – segið okkur hvað er að? Hvert vandamálið er? Og tökum á því.

sunnudagur, 12. október 2025

Leikskólinn og skólinn


Leikskólakennarar og stjórar vilja að við kokgleypum hugmyndina um lengingu „skólastigsins“ niður á við um 5 ár. Ég er hjartanlega ósammála þeim og ætla að gera grein fyrir þeim skoðunum hér.

Leikskólinn snýst um allt aðra hluti en grunnskólinn og hann á að snúast um allt aðra hluti. Börn á aldrinum 1 til 5 ára hafa ekkert með „skólagöngu“ í þeim skilningi að gera og við eigum ekki að fjalla um þessar stofnanir leikskólana sem slíka. 

Ég sendi ekki barnið mitt í leikskóla vegna þess að sú stofnun þyrfti að kenna því. Ég sótti um fyrir barnið mitt á leikskóla vegna þess að ég þurfti á gæslu að halda allan daginn á meðan ég sinnti störum mínum utan heimilis. Í 40 tíma á viku. Ég var og er kvenkyns og ég fæddi barnið. Barnið kom út úr mér og var á mína ábyrgð. 

Ég hafði mikinn metnað og langaði til að ná langt í starfi og það hvarflaði aldrei að mér að sinna hlutastarfi. Ég skammast mín ekki fyrir þessa afstöðu. Ekki þá og ekki núna. 

Ég elskaði barnið mitt takmarkalaust og geri enn. Ég reyndist henni ekki fullkomið foreldri – langt því frá. Ég gerði sannarlega mitt besta og sárin á hennar sál eru engin vegna þess að „hún var svo lengi á leikskóla“. Hún ber örugglega sár á sálinni vegna mín og vegna okkar foreldranna en þau eru ekki til staðar „vegna þess að hún var svo lengi á leikskóla“ á hverjum degi á aldrinum 3ja-5 ára. 

Leikskólinn er til orðinn vegna þess að konur börðust grimmt fyrir honum á síðustu áratugum síðustu aldar. Hér var kvennafrídagur 24. október 1975. Grundvallaratriði þeirrar baráttu sem í hönd fór var leikskólavist  fyrir börn allan daginn. Það atriði var allan tímann í forgrunni baráttunnar. Augljóslega. Vegna þess að til þess að konan sem ber barnið undir belti – geti farið að vinna að fæðingu lokinni þarf hún að eiga kost á gæslu fyrir barnið. Hún fer ekki langt án þess. 

Virðingarleysið sem leikskólakennarar og stjórar – sem flestar eru kvenkyns – sýna kynsystrum sínum í dag með því að kannast ekkert við þessa baráttu er ótrúleg. Þær halda því fram án þess að blikna að forgangsatriði dagsins í dag ársins 2025 sé að stytta leikskólatíma barnsins eins og kostur er „því langur leikskóladagur er svo óhollur fyrir sálarheill barnsins“! 

Þær stinga upp á því að „kennsla“ barnanna fari fram fyrstu 5-6 klst dagsins og eftir það sé einhvers konar „frístund“ í gangi. Sem sagt leikskólakennarar og stjórar vilja að grunnskólinn verði hafður til fyrirmyndar að módeli leikskólans. Þeirra starf er orðið fyrst og fremst „kennsla“ og við eigum að horfa á leikskólana eyðilagða sem stofnanir vegna þess að leikskólakennarar og stjórar vilja fá styttri vinnudag. 

Leikskólar í þeirri mynd sem við búum við á Norðurlöndum eru ekki til staðar í öðrum Evrópulöndum. Jafnrétti kynjanna er langt frá því að vera á sama stað í Evrópu almennt og það er á Norðurlöndunum. 

Atvinnuþátttaka kvenna er ekki sú sama í Evrópu og hún er á Íslandi. Ísland hefur trónað á toppnum fyrir jafnrétti kynjanna um árabil og sú staða er fyrst og fremst tilkomin vegna leikskólanna. Vegna þess að almenn leikskólavist barna á Íslandi náðist fyrir áralanga baráttu kvenna fyrir henni.

Nú vilja leikskólakennarar og stjórar brjóta niður þessa mynd. Þeir eru forgrunni þeirrar baráttu að tala um hvað „lengd“ leikskólavistarinnar skipti öllu máli fyrir heill barnsins. Alveg sama þó að engar rannsóknir styðji þær hugmyndir. Rannsóknir sýna allar að það eru gæði leikskólavistarinnar sem skipta öllu máli. Ekki lengd. 

Sérhagsmunagæsla leikskólakennara og stjóra er fullkomnuð í þessari baráttu. Þær eru tilbúnar að tala um leikskólana svo niður núna að ég hefði aldrei haft hugmyndaflug í annað eins einu sinni. 

Sat á fyrirlestri Þjóðarspegilsins um árið þar sem „sérfræðingarnir“ hver um annan þveran töluðu um leikskólann eins og stórhættulegar stofnanir og voru komnar á þann stað að tala um „vöggustofurnar“ í sömu andrá.

Tal á þessum nótum er grafalvarlegt og ég býð ekki í það hvar við verðum eftir nokkur ár ef við leyfum þessu að grassera lengi enn. 

Að síðustu ætla ég að stinga því að stjórnendum sveitarfélaganna að þeir ættu kannski að reikna það út hvað stjórnunarkostnaður þessara stofnana – leikskólanna - er orðinn mikill niður á barn síðustu árin í samanburði við það sem áður var. Þeir ættu kannski að reikna það út hvað skriffinnskan í kringum vinnutíma starfsfólks leikskólanna tekur mikinn tíma frá stjórnendum þeirra. Þeir ættu kannski að reikna það út hvað kostnaður við „tímabundnar ráðningar“ er mikill niður á barn og svo mætti lengi áfram telja.

Ég ber enga virðingu fyrir skriffinnsku. Hef aldrei gert og mun aldrei gera. Ég ber gríðarlega virðingu fyrir góðum leikskólum þar sem umönnun, hlýja og ást er forgrunni leikskólastarfsins. 

Ég er ekki sérfræðingur um þessi mál. Ég er manneskja. Ég er móðir. Ég er kona. Kona sem hef upplifað gríðarlegar breytingar á stöðu kvenna á einni ævi. 

Ég ætla ekki að horfa á leikskólakennara og stjóra taka að sér það hlutverk að brjóta þann árangur á bak aftur án þess að stinga niður fæti. 


laugardagur, 11. október 2025

Mennskan og sparðatíningurinn


Alla síðustu viku sótti ég RIFF stíft – sá 10 myndir af 11 sem hugðist sjá. Ég elska RIFF eins og ég elska Alþjóðlegu bókmenntahátíðina og Stockfish kvikmyndahátíðina. Þetta eru hátíðir þar sem mennskan er altumlykjandi – óður til mennskunnar. 

Það er annað en ég upplifi flesta daga aðra í almannarýminu. Mér finnst við vera á hraðri leið til andskotans og þá er dvöl í mennskunni kærkomin. 

Ein kvikmynd stendur upp úr öllum öðrum af þeim sem ég sá. Kvikmynd sem ég mun hugsa um oft og mikið – kvikmyndin Sirát eftir Óliver Laxe. Stórkostleg kvikmynd sem hefur þannig áhrif á tilfinningaskalann að því verður illa lýst með orðum. 

Ég settist niður í Háskólabíói að kvöldi föstudagsins 3. október kl. 15 mínútur yfir 9 vitandi ekkert hvað ég var að fara að sjá. Jú ég vissi að myndin fjallaði um „ferðalag feðga í leit að dóttur/systur í eyðimörkinni í Marokkó“ - það var svona um það bil það sem ég vissi. Að það ætti eftir að fara með mig í slíkt ferðalag sem raunin varð hafði ég ekki einu sinni grun um. Hughrifin sem þessi mynd skóp innra með mér eru ólýsanleg. Altumvefjandi vellíðanin í fyrri hluta myndarinnar og skelfingin og sorgin í síðari hlutanum – allt var það með miklum ólíkindum. Ég varð persónulegur vinur persónanna í myndinni og ég upplifði raunverulega sorg. 

Ég var uppgefin að mynd lokinni. Ég skildi ekki hvað ég hafði verið að upplifa eða hvað hafði eiginlega gerst og ég skil það varla enn. Að takast það að fá mann til að tengjast persónum myndar með þeim hætti sem raunin varð er einhvers konar snilligáfa sem ég kann ekki skil á. En mikið rosalega er ég þakklát. Þakklát Oliver Laxé og félögum hans að fá mig til að finna þvílíka samkennd og ég upplifði í Háskólabíói að kvöldi 3. október 2025. 

Það er eitthvað alveg rosalegt við það að upplifa listaverk svona sterkt. Mann langar að hrópa upp yfir allan heiminn og biðja hann að koma með í ferðalagið. Mig langaði að gera það þarna að mynd lokinni. Mig langaði til að hrópa yfir heiminn að fara að sjá þessa mynd og mig langaði til að skilja hvað hafði eiginlega gerst. Hvers vegna fann ég svona rosalega til?

Ég sagði bróður mínum frá myndinni og þá hafði hann verið að hlusta á endalokin á Rás 1 þar sem Þórunn Gréta Sigurðardóttir og Hera Guðmundsdóttir tala við Höllu Harðardóttur um myndina. Ég hlustaði loksins á þær stöllur og reyndar allan þáttinn í gær og ég er svo glöð að hafa gert það. Í þættinum eru þær ekki bara að taka undir hrifnæmni mína um þessa einstöku kvikmynd Sirát heldur eru þær manneskjur að halda uppi merkjum mennskunnar með þeim hætti að ég má til að deila því hér. 

Þær segja með upphátt með orðum það sem mig langaði svo að hrópa yfir almannarýmið í síðustu viku þegar enn einu sinni þessi hryllilega umræða skaut upp kollinum um listamannalaunin í hundraðasta skipti. Þessi umræða þar sem mennskan er troðin niður í svaðið með hryllilegum sparðatíningi byggðri á einhverri „vísindahyggju“ að hætti Frederick Winslow Taylor þar sem ekkert er raunverulegt eða þess virði að vera nema það sé „mælanlegt“. Þessi heimspeki viðskiptafræðinnar í Bandaríkjunum sem er samfélagið okkar að drepa og er stór hluti þess að við erum á leiðinni til andskotans sem fyrr er getið.

Í þættinum eru ekki bara þær þrjár heldur er í honum einnig Hrafnkell Kaktus Einarsson og fjallar um myndina „Jörðina undir fótum okkar“ eftir Yrsu Roca Fannberg. Sú umfjöllun er líka „óður til mennskunnar“ og því hvet ég ykkur til að hlusta. Ég á sjálf eftir að horfa á þessa kvikmynd sem ég ætla svo sannarlega að gera. 

Af hverju er ég að setja þennan pistil saman hér? Ég geri það til að vekja athygli á því sem skiptir máli. 

Ég hef lengi verið sannfærð um að heimspeki Bandaríkjanna er okkur lifandi að drepa. Þessi „heimspeki“ sem gegnsýrir fagið sem ég valdi mér að ævistarfi – viðskiptafræðina – þar sem allt gengur út á skilgreiningar dauðans og að allt sé „mælanlegt“. Alveg eins og vísindaleg stjórnun Frederick Winslow Taylor boðaði. Allt skuli „mælt“ og að „mælingin“ sé eini mælikvarðinn sem skiptir máli. Þetta er í heild sinni hugmyndafræði sem við eigum að henda á haugana. 

Við þörfnumst heimspeki og við þörfnumst bókmennta. Við þörfnumst fegurðarinnar sem felst í mennskunni. Við þörfnumst tengslanna. Við þörfnumst hvers annars. Við þörfnumst þess að hlusta á nið kynslóðanna í gegnum eldra fólk. Við þörfnumst kærleika. Hann kemur til okkar í gegnum heimspekina og bókmenntirnar. Heimspekin er móðir allra fræða og einkynja viðskiptafræðin dugar okkur ekki. Hún drepur okkur. Páll Skúlason var alltaf að reyna að segja okkur þetta en við hlustuðum ekki. 

Það er eitthvað rétt að gerjast. Í vikunni var líka viðtal  í Lestinni á Rás 1 við Guðrúnu Steinþórsdóttur bókmenntafræðing um kennslu hennar í bókmenntafræði í Læknadeild HÍ. Í þættinum talar hún mikilvægi þess að ræða bókmenntir við læknanema og hún gerir grein fyrir þessu hugtaki „læknahugvísindi“ sem mér skilst að sé núna gerð grein fyrir í Ritinu. 

Það nærir sálina að heyra þessar hugmyndir. Við þörfnumst skilnings. Við þörfnumst samlíðunar. Samhygðar. Við þörfnumst ekki meiri flokkadrátta. Ábendinga. Trumpisma. 


sunnudagur, 14. september 2025

Meira um hina hæfu og þá vanhæfu

Áformað er af hálfu ríkisstjórnar að leggja fram frumvarp um aflagningu áminningar sem undanfara uppsagnar opinberra starfsmanna á Íslandi.

Ríkisstjórn sem kynnir sig fyrir okkur sem stjórn sem annt er um almannahagsmuni og í nöp við sérhagsmuni lyftir upp þessu gamla sérhagsmunamáli elítunnar – „hinna hæfu“ á haustþingi árið 2025.

Hugmyndir í þessa veru ganga út frá því að það sé til einn hópur manna sem er algjörlega fullkominn og óskeikull. Hópur sem alltaf er hæfur til að gegna þeim stöðum sem þeir fá – forstöðumenn – já yfirmenn stofnana. Þeir eru hópur sem ekki þarf nokkurn tíma að efast um. Þeir sitja í stöðum sem þeir eru hæfir til að gegna - alltaf - og þeirra hlutverk að hafa fullkomið frelsi til að reka og ráða starfsfólk að vild.

Lög um áminningar sem undanfara uppsagnar eru svo hamlandi fyrir þessa aumingja stjórnendur að það nær ekki nokkurri átt.

Við erum búin að sjá til þess að þessir stjórnendur hafa verið teknir í guðatölu og eru komnir á laun sem eru úr öllum tengslum við okkur hin. Það var regla sem sem var svo bráðnauðsynlegt að „samræma hinum almenna vinnumarkaði“. Nú skal gengið lengra og veita þessum sömu stjórnendum fulla heimild til að reka fólk sem þeim hugnast ekki.

Við öll höfum verið dugleg við að flytja inn hugmyndir í þessa veru. Hugmyndir sem ættaðar eru frá Bandaríkjunum þar sem því er trúað að tilteknir einstaklinga séu fæddir guðlegir að hæfni og þurfi þess vegna að fá greiddar milljónir – jafnvel milljónatugi á mánuði – til þess að hafa vald yfir öðrum. Vald til að reka fólk sem þeim hugnast ekki.

Röksemdafærslan fyrir þessum greiðslum eru að þetta fólk sé svo afburðahæft og að það beri svo mikla ábyrgð. Á sama tíma höfum við aldrei kynnst öðru eins ábyrgðarleysi af hálfu stjórnenda –  einmitt síðan þessar greiðslur voru teknar upp.

Mér finnst að það sé kominn tími til að takast á við þessa arfavitlausu hugmyndafræði. Að það sé kominn tími til að henda hugmyndafræði Apprentice á haugana og öllu sem henni tengist. Donald Trump er ekki fyrirmyndarstjórnandi. Hann er ekki fyrirmyndarmanneskja og umfram allt er hann ekki og hefur aldrei verið yfirburðahæfur.

Við erum öll manneskjur. Það er grundvallaratriði sem við þurfum öll að meðtaka. Stjórnendur líka. Þeir eru eins og við, meingallaðir og mannlegir.

Það er ekki forgangsmál að gefa stjórnendum hins opinbera sérstakar valdheimildir til að eiga auðveldara með að reka fólk. Reka fólk sem þeim hugnast ekki. Starfsfólk ríkisstofnana á að fá að lifa af einstaka stjórnendur. Það er grundvallarmál.

Opinberar stofnanir eru alls ekki sama eðlis og fyrirtæki á markaði. Hafa aldrei verið og verða aldrei. Það er fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að um opinberar stofnanir gildi sérstakar reglur sem eru í grundvallaratriðum frábrugðnar einkamarkaðnum. Störfin sem þar eru unnin eru í eðli sínu gjörólík störfum einkamarkaðarins og það er rökleysa að halda því fram að þær reglur sem gilda um starfsfólk á einkamarkaði þurfi að gilda um fólk á opinberum markaði.

Það hefur löngum verið lenska á Íslandi að þessi og hinn líti á það sem sjálfsagðan hlut að koma að máli við vini sína um að það sé bráðnauðsynlegt að reka þennan eða hinn. „Vegna þess að hann er svo óþægilegur ljár í þúfu. Hann stendur í vegi fyrir að viðkomandi fái að gera það sem honum sýnist…“ eða guð má vita hvað er undirliggjandi.

Þetta tól – heimild til reka aðra úr starfi  – er ekki eitthvað sem á að vera léttvægt verkfæri einstakra stjórnenda. Stjórnendur eru ekki óskeikulir. Þeir eru ekki allir afburðahæfir – þeir eru ekki einu sinni allir hæfir.

Á Íslandi hefur þótt sjálfsagt í áratugi að einstaklingar eigi ekki aðgang að störfum vegna pólitískra skoðana sinna. Um það er sjaldnast talað opinberlega en við vitum það öll. Að vera félagi í Sjálfstæðisflokknum þýðir að þú ert á grænni grein og þá eru pólitískar skoðanir þínar ekki hamlandi á vinnumarkaði en aðhyllistu aðrar skoðanir geta þær sannarlega verið hamlandi á þeim sama markaði.  

Fagmennska er ekki það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég hugsa til opinberra stofnana á Íslandi en það hvarflar ekki að mér að skortur á henni sé vegna þess að forstöðumenn hafi ekki nægilega miklar valdheimildir til að reka starfsfólkið sitt.

Hæfni og vanhæfni einstaklinga eru ekki meitluð í stein. Einstaklingar fæðast ekki hæfir eða vanhæfir. Við höfðum vit á því fyrir áratugum síðan að leggja niður tossabekki og hætta að raða fólki í bekki eftir hæfni. Við virðumst komin aftur á þann stað að vilja umfram allt lyfta hugmyndum í þessa veru. Að flokka fólk. Stimpla það. Slaufa því sem „skemmdum eplum“ og henda því á haugana því það á ekki að fá að spila með elítunni.

Þetta allt saman – þessi hugmyndafræði – er það sem við eigum að henda á haugana. Þetta blaður um að einn hópur í samfélaginu sé svo yfirburðahæfur á meðan hinn er vanhæfur. Þetta er kjaftæði sem brýnt er að við tökumst á við.

Góður stjórnandi veit að það er hans hlutverk að ná því besta út úr hverjum og einum starfsmanni og hann leitast við að ná því fram. Það getur auðvitað komið til þess að hans komist að þeirri niðurstöðu að hann þurfi að reka einstaka starfsmenn. Þá gerir hann það og hann fylgir reglum til þess. Hann veigrar sér ekki við að nota áminningar til að vara fólk við.

Það er sjálfsögð regla að í starfsmannalögum íslenska ríkisins sé gert ráð fyrir áminningarferli sem undanfara uppsagnar. Það er grundvallarregla sem stjórnvöld eiga ekki að hrófla við.

mánudagur, 8. september 2025

Slúbbertarnir og „hinir hæfu“

Í fyrirsögn fréttar frá í dag má lesa að „unnið sé að því jafna stöðu á opinbera og almennum vinnumarkaði“.  Þegar hlustað er á fréttina er farið mikinn og m.a. vitnað í Sigríði nokkra Indriðadóttur sem ku aldeilis vita að hér á landi sé stór hópur afætna á ríkisjötunni sem hægt væri að losa sig við hið snarasta og spara með þeirri aðgerð einni saman 30 – 50 milljarða – ég endurtek – milljarða – si svona! 

Það sem vakti sérstaklega athygli mína var að Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra mótmælti ekki þessari röksemdafærslu – mátti því sem næst skilja á honum að hann væri þessari yfirlýsingu sammála en það fór ekkert á milli mála að þáttastjórnendur höfðu tekið þessum yfirlýsingum Sigríðar eins og um sannleika væri að ræða sem ekki þyrfti að rökræða frekar. Þarna væri nú aldeilis hægt að hagræða í ríkisfjármálunum með því að reka einfaldlega „alla þessa slúbberta“ sem eru svíkja okkur um að hegða sér almennilega á hverjum einasta degi. Um það er Sigríður Indriðadóttir til vitnis og gott ef ekki líka Viðskiptaráð. 

Mér verður svo miklu rórra þegar ég heyri af fólki í forystu sem er svo afburða hæft að það er algjörlega með það á hreinu hvernig aðrir mega og eiga haga sér. Fólk eins og Sigríður og Viðskiptaráð sem eru algjörlega með það á hreinu að það er stór hópur fólks þarna úti sem þiggur laun frá ríkinu sem það á ekki skilið. Fólk sem ætti einfaldlega að slaufa um aldur og ævi því það kann ekki að haga sér. Er óalandi og óferjandi í samskiptum „skemmd epli“ sem nauðsynlegt er losa sig við. 

Það er nú eitthvað annað en „hinir hæfu“ sem vita allt um það hvernig á að haga sér. Hugsið ykkur bara ef við gætum nú búið til samfélag þar sem fólk eins og Sigríður og Viðskiptaráð fengju að ráða. 

Það er svo dásamlegt í nútímanum að hlusta á yfirlýsingar í þessa veru. Yfirlýsingar um það að vernd opinberra starfsmanna skipti engu máli. Fyrir háskólakennarann. Kennarann. Dómarann. Embættismanninn. Í Seðlabankanum. Í Þjóðhagstofnun. 

Í landi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið ráðandi um atvinnumöguleika fólks í áratugi! Þvílík guðs gjöf það væri ef hann fengi nú bara að ráða opinbera markaðnum líka! Hugsið ykkur bara þvílíkur léttir það væri! Við gætum treyst honum 100%. Það er nú líklega. Þar innan dyra eru nú aldeilis hæfileikabúntin. Fólk sem ber af svo lýsir af því langar leiðir. Fólk sem veit og skilur hvað það er sem skilur á milli „hæfra“ og „vanhæfra“ einstaklinga. 

Já skilningurinn og dýptin sem yfirlýsingar í þessa veru skilja eftir sig eru magnaðar. Stjórnendur dagins í dag eru guðlegt fólk sem þarf milljónir í laun vegna þess hversu þunga ábyrgð þeir bera. Stjórnendurnir á ríkisjötunni geta alls ekki staðið undir því að þurfa að áminna fólk áður en þeir reka það. Það er til of mikils ætlast af þeim greyjunum. Þeirra duttlungar eiga að ráða því fullkomlega hverja þeir reka og hverja ekki – þó um sé að ræða opinber störf. 

Það verð ég að segja að ég bíð eftir þeirri stund þar sem ég hitti svo fullkomna manneskju að hún „kunni fullkomlega að hegða sér“. Ég bíð eftir þeirri stund að kynnast stjórnanda sem er svo faglegur að hann viti nákvæmlega hver er „hæfur“ og hver er „vanhæfur“ og taki ákvarðanir byggðar á því. Ég bíð eftir þeirri stund að geta með einföldum hætti flokkað fólk í „slúbberta“ og „hæfa“.

Nei annars – ég bíð ekki eftir þeirri stund. Heimskan sem fullyrðingar í þessa veru lýsa ríða ekki við einteyming. Heimskan að telja sig þess umkominn að geta með einföldum hætti flokkað fólk í „gott fólk“ og „vont fólk“ og talað um „skemmd epli“ og annað í þeim dúr er ekki og á ekki að vera hlutverk nokkurs stjórnanda. Sannur leiðtogi veit að það er ekki hans að benda á fólk og útiloka það. Sannur leiðtogi er sannur leiðtogi allra í hópnum – „þeirra vondu“ og „þeirra góðu“. 

Það verða alltaf til „slúbbertar“ í einhverjum skilningi. Ég gæti verið slúbberti í dag og þú gætir verið það á morgun. Við erum öll alltaf að reyna að gera okkar besta og það koma upp alls kyns aðstæður í lífi fólks sem getur gert það þungt og erfitt að vakna á morgnana og takast á við daginn. Það er hlutverk stjórnanda að lesa í slíka hluti og það er á ábyrgð stjórnenda að vera vakandi og hlú að hópnum og ekki síður að einstaklingum innan hans. 

Þetta óábyrga sjálfbirgingslega tal þeirra sem telja sig „hæfa“ um að það séu allt í kringum okkur „óhæft“ fólk er óþolandi svo ekki sé dýpra í árinni tekið. 

Ábyrgðarlaust hjal um að vernd opinberra starfsmanna sé með öllu tilgangslaus og óverjandi er gjörsamlega óþolandi í samfélagi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið ráðandi afl í 100 ár.


sunnudagur, 23. febrúar 2025

Þingkosningar í Þýskalandi

 


Mig langar að birta þessa mynd af mér í dag fyrir framan þinghúsið í Berlín.

Árið 2009 varð dóttir mín tvítug. Ég gaf henni í afmælisgjöf ferð okkar tveggja til einhverrar evrópskrar borgar að hennar vali – hún valdi Berlín. Hún gerði ekki bara það – hún skipulagði að við fórum í gönguferð með leiðsögn um slóðir SS manna og hún skipulagði að við fórum saman til Sachsenhausen búðanna – líka með sögulegri leiðsögn.

Þessi heimsókn er greypt í minni mitt og mun verða það til dauðadags. Ég hef lesið ótal, ótal bækur um hryllilega glæpi nasista í síðari heimsstyrjöldinni en ég hafði aldrei skynjað hvað gerðist með sama hætti og ég gerði í þessari heimsókn. Hryllingurinn varð áþreifanlegur. Óhugnanlegt skipulagið í þessari verksmiðju illskunnar líður mér aldrei úr minni og ég sannfærðist um það sem ég vissi fyrir að þessir glæpir voru á einstakir í mannkynssögunni. Einmitt fyrir það. Skipulagið.

Íslendingurinn Leifur Muller var í Sachsenhausen. Leifur Muller sem Garðar Sverrisson skrifaði um í bókinni „Býr Íslendingur hér?“

Mamma og pabbi fluttu til Reykjavíkur árið 2002 og fluttu í sama hús og ekkjan hans átti heima. Það er ekki lengra síðan þessir atburðir gerðust en þetta.

Ég var 25 ára þegar ég fékk starf við það að sjá um útflutning lagmetis - starf þar sem ég var í sambandi við Þýskaland og Þjóðverja alla daga og þannig átti það eftir að verða næstu 17 árin eða svo. Mér líkaði vel að vinna með Þjóðverjum. Mér fannst þeir vinalegir og mér fannst þeir almennt alls ekki taka sjálfa sig of hátíðlega. Þeir voru áreiðanlegir og það var auðvelt að treysta þeim. Ég fór í ferðir til Þýskalands í frí og ég heimsótti Þjóðverja sem ég átti viðskiptasambönd við. Þýskaland var og er í uppáhaldi.

Á morgun verða þingkosningar í Þýskalandi. Þingkosningar þar sem allar líkur eru á að Afd - Alternative für Deutschland fái í það minnsta 20% atkvæða. Ég játa að ég er hrædd við þessar kosningar. Logandi hrædd.

Hægri öfgamennirnir Elon Musk og J.D. eiga enga ósk heitari en Afd verði sigurvegarar morgundagsins. Ég hef marga íslenska hægri (karl-) menn grunaða um að fylgja þeim að málum. Þá sem langar svo til að hrinda feminismanum á Íslandi. Þá sem langar svo til að endurheimta karlaveldið eins og það var fyrir 30 árum síðan. Þá sem fyrirlíta manneskjur sem eru öðruvísi en við á litinn og líta á hvíta vestræna karlinn sem æðstu og merkilegustu tegund sem uppi hefur verið nokkurn tíma.

Ég er hjartanlega ósammála þeim. Ég er sannfærð um að manneskjan er söm hvar sem hún fæðist og hvernig sem hún er á litinn. Ég veit hins vegar að saga okkar og menning er ólík frá einu svæði til annars og tækifæri okkar til mannsæmandi lífs gjörólík frá einu svæði til annars.

Að Netanyahu og Ísraelar skuli hafa gert Hitler og nasista að fyrirmynd sinni í framkomu sinni og tali gagnvart Palestínumönnum gerir ekkert annað en sannfæra mig um að manneskjan er söm við sig. Sagan endurtekur sig sífellt.

Ég vona samt að hún geri það ekki á morgun. Ég vona með öllu sem ég á til að dagurinn á morgun slökkvi ekki vonina.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...