mánudagur, 8. september 2025

Slúbbertarnir og „hinir hæfu“

Í fyrirsögn fréttar frá í dag má lesa að „unnið sé að því jafna stöðu á opinbera og almennum vinnumarkaði“.  Þegar hlustað er á fréttina er farið mikinn og m.a. vitnað í Sigríði nokkra Indriðadóttur sem ku aldeilis vita að hér á landi sé stór hópur afætna á ríkisjötunni sem hægt væri að losa sig við hið snarasta og spara með þeirri aðgerð einni saman 30 – 50 milljarða – ég endurtek – milljarða – si svona! 

Það sem vakti sérstaklega athygli mína var að Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra mótmælti ekki þessari röksemdafærslu – mátti því sem næst skilja á honum að hann væri þessari yfirlýsingu sammála en það fór ekkert á milli mála að þáttastjórnendur höfðu tekið þessum yfirlýsingum Sigríðar eins og um sannleika væri að ræða sem ekki þyrfti að rökræða frekar. Þarna væri nú aldeilis hægt að hagræða í ríkisfjármálunum með því að reka einfaldlega „alla þessa slúbberta“ sem eru svíkja okkur um að hegða sér almennilega á hverjum einasta degi. Um það er Sigríður Indriðadóttir til vitnis og gott ef ekki líka Viðskiptaráð. 

Mér verður svo miklu rórra þegar ég heyri af fólki í forystu sem er svo afburða hæft að það er algjörlega með það á hreinu hvernig aðrir mega og eiga haga sér. Fólk eins og Sigríður og Viðskiptaráð sem eru algjörlega með það á hreinu að það er stór hópur fólks þarna úti sem þiggur laun frá ríkinu sem það á ekki skilið. Fólk sem ætti einfaldlega að slaufa um aldur og ævi því það kann ekki að haga sér. Er óalandi og óferjandi í samskiptum „skemmd epli“ sem nauðsynlegt er losa sig við. 

Það er nú eitthvað annað en „hinir hæfu“ sem vita allt um það hvernig á að haga sér. Hugsið ykkur bara ef við gætum nú búið til samfélag þar sem fólk eins og Sigríður og Viðskiptaráð fengju að ráða. 

Það er svo dásamlegt í nútímanum að hlusta á yfirlýsingar í þessa veru. Yfirlýsingar um það að vernd opinberra starfsmanna skipti engu máli. Fyrir háskólakennarann. Kennarann. Dómarann. Embættismanninn. Í Seðlabankanum. Í Þjóðhagstofnun. 

Í landi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið ráðandi um atvinnumöguleika fólks í áratugi! Þvílík guðs gjöf það væri ef hann fengi nú bara að ráða opinbera markaðnum líka! Hugsið ykkur bara þvílíkur léttir það væri! Við gætum treyst honum 100%. Það er nú líklega. Þar innan dyra eru nú aldeilis hæfileikabúntin. Fólk sem ber af svo lýsir af því langar leiðir. Fólk sem veit og skilur hvað það er sem skilur á milli „hæfra“ og „vanhæfra“ einstaklinga. 

Já skilningurinn og dýptin sem yfirlýsingar í þessa veru skilja eftir sig eru magnaðar. Stjórnendur dagins í dag eru guðlegt fólk sem þarf milljónir í laun vegna þess hversu þunga ábyrgð þeir bera. Stjórnendurnir á ríkisjötunni geta alls ekki staðið undir því að þurfa að áminna fólk áður en þeir reka það. Það er til of mikils ætlast af þeim greyjunum. Þeirra duttlungar eiga að ráða því fullkomlega hverja þeir reka og hverja ekki – þó um sé að ræða opinber störf. 

Það verð ég að segja að ég bíð eftir þeirri stund þar sem ég hitti svo fullkomna manneskju að hún „kunni fullkomlega að hegða sér“. Ég bíð eftir þeirri stund að kynnast stjórnanda sem er svo faglegur að hann viti nákvæmlega hver er „hæfur“ og hver er „vanhæfur“ og taki ákvarðanir byggðar á því. Ég bíð eftir þeirri stund að geta með einföldum hætti flokkað fólk í „slúbberta“ og „hæfa“.

Nei annars – ég bíð ekki eftir þeirri stund. Heimskan sem fullyrðingar í þessa veru lýsa ríða ekki við einteyming. Heimskan að telja sig þess umkominn að geta með einföldum hætti flokkað fólk í „gott fólk“ og „vont fólk“ og talað um „skemmd epli“ og annað í þeim dúr er ekki og á ekki að vera hlutverk nokkurs stjórnanda. Sannur leiðtogi veit að það er ekki hans að benda á fólk og útiloka það. Sannur leiðtogi er sannur leiðtogi allra í hópnum – „þeirra vondu“ og „þeirra góðu“. 

Það verða alltaf til „slúbbertar“ í einhverjum skilningi. Ég gæti verið slúbberti í dag og þú gætir verið það á morgun. Við erum öll alltaf að reyna að gera okkar besta og það koma upp alls kyns aðstæður í lífi fólks sem getur gert það þungt og erfitt að vakna á morgnana og takast á við daginn. Það er hlutverk stjórnanda að lesa í slíka hluti og það er á ábyrgð stjórnenda að vera vakandi og hlú að hópnum og ekki síður að einstaklingum innan hans. 

Þetta óábyrga sjálfbirgingslega tal þeirra sem telja sig „hæfa“ um að það séu allt í kringum okkur „óhæft“ fólk er óþolandi svo ekki sé dýpra í árinni tekið. 

Ábyrgðarlaust hjal um að vernd opinberra starfsmanna sé með öllu tilgangslaus og óverjandi er gjörsamlega óþolandi í samfélagi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið ráðandi afl í 100 ár.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...