sunnudagur, 14. september 2025

Meira um hina hæfu og þá vanhæfu

Áformað er af hálfu ríkisstjórnar að leggja fram frumvarp um aflagningu áminningar sem undanfara uppsagnar opinberra starfsmanna á Íslandi.

Ríkisstjórn sem kynnir sig fyrir okkur sem stjórn sem annt er um almannahagsmuni og í nöp við sérhagsmuni lyftir upp þessu gamla sérhagsmunamáli elítunnar – „hinna hæfu“ á haustþingi árið 2025.

Hugmyndir í þessa veru ganga út frá því að það sé til einn hópur manna sem er algjörlega fullkominn og óskeikull. Hópur sem alltaf er hæfur til að gegna þeim stöðum sem þeir fá – forstöðumenn – já yfirmenn stofnana. Þeir eru hópur sem ekki þarf nokkurn tíma að efast um. Þeir sitja í stöðum sem þeir eru hæfir til að gegna - alltaf - og þeirra hlutverk að hafa fullkomið frelsi til að reka og ráða starfsfólk að vild.

Lög um áminningar sem undanfara uppsagnar eru svo hamlandi fyrir þessa aumingja stjórnendur að það nær ekki nokkurri átt.

Við erum búin að sjá til þess að þessir stjórnendur hafa verið teknir í guðatölu og eru komnir á laun sem eru úr öllum tengslum við okkur hin. Það var regla sem sem var svo bráðnauðsynlegt að „samræma hinum almenna vinnumarkaði“. Nú skal gengið lengra og veita þessum sömu stjórnendum fulla heimild til að reka fólk sem þeim hugnast ekki.

Við öll höfum verið dugleg við að flytja inn hugmyndir í þessa veru. Hugmyndir sem ættaðar eru frá Bandaríkjunum þar sem því er trúað að tilteknir einstaklinga séu fæddir guðlegir að hæfni og þurfi þess vegna að fá greiddar milljónir – jafnvel milljónatugi á mánuði – til þess að hafa vald yfir öðrum. Vald til að reka fólk sem þeim hugnast ekki.

Röksemdafærslan fyrir þessum greiðslum eru að þetta fólk sé svo afburðahæft og að það beri svo mikla ábyrgð. Á sama tíma höfum við aldrei kynnst öðru eins ábyrgðarleysi af hálfu stjórnenda –  einmitt síðan þessar greiðslur voru teknar upp.

Mér finnst að það sé kominn tími til að takast á við þessa arfavitlausu hugmyndafræði. Að það sé kominn tími til að henda hugmyndafræði Apprentice á haugana og öllu sem henni tengist. Donald Trump er ekki fyrirmyndarstjórnandi. Hann er ekki fyrirmyndarmanneskja og umfram allt er hann ekki og hefur aldrei verið yfirburðahæfur.

Við erum öll manneskjur. Það er grundvallaratriði sem við þurfum öll að meðtaka. Stjórnendur líka. Þeir eru eins og við, meingallaðir og mannlegir.

Það er ekki forgangsmál að gefa stjórnendum hins opinbera sérstakar valdheimildir til að eiga auðveldara með að reka fólk. Reka fólk sem þeim hugnast ekki. Starfsfólk ríkisstofnana á að fá að lifa af einstaka stjórnendur. Það er grundvallarmál.

Opinberar stofnanir eru alls ekki sama eðlis og fyrirtæki á markaði. Hafa aldrei verið og verða aldrei. Það er fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að um opinberar stofnanir gildi sérstakar reglur sem eru í grundvallaratriðum frábrugðnar einkamarkaðnum. Störfin sem þar eru unnin eru í eðli sínu gjörólík störfum einkamarkaðarins og það er rökleysa að halda því fram að þær reglur sem gilda um starfsfólk á einkamarkaði þurfi að gilda um fólk á opinberum markaði.

Það hefur löngum verið lenska á Íslandi að þessi og hinn líti á það sem sjálfsagðan hlut að koma að máli við vini sína um að það sé bráðnauðsynlegt að reka þennan eða hinn. „Vegna þess að hann er svo óþægilegur ljár í þúfu. Hann stendur í vegi fyrir að viðkomandi fái að gera það sem honum sýnist…“ eða guð má vita hvað er undirliggjandi.

Þetta tól – heimild til reka aðra úr starfi  – er ekki eitthvað sem á að vera léttvægt verkfæri einstakra stjórnenda. Stjórnendur eru ekki óskeikulir. Þeir eru ekki allir afburðahæfir – þeir eru ekki einu sinni allir hæfir.

Á Íslandi hefur þótt sjálfsagt í áratugi að einstaklingar eigi ekki aðgang að störfum vegna pólitískra skoðana sinna. Um það er sjaldnast talað opinberlega en við vitum það öll. Að vera félagi í Sjálfstæðisflokknum þýðir að þú ert á grænni grein og þá eru pólitískar skoðanir þínar ekki hamlandi á vinnumarkaði en aðhyllistu aðrar skoðanir geta þær sannarlega verið hamlandi á þeim sama markaði.  

Fagmennska er ekki það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég hugsa til opinberra stofnana á Íslandi en það hvarflar ekki að mér að skortur á henni sé vegna þess að forstöðumenn hafi ekki nægilega miklar valdheimildir til að reka starfsfólkið sitt.

Hæfni og vanhæfni einstaklinga eru ekki meitluð í stein. Einstaklingar fæðast ekki hæfir eða vanhæfir. Við höfðum vit á því fyrir áratugum síðan að leggja niður tossabekki og hætta að raða fólki í bekki eftir hæfni. Við virðumst komin aftur á þann stað að vilja umfram allt lyfta hugmyndum í þessa veru. Að flokka fólk. Stimpla það. Slaufa því sem „skemmdum eplum“ og henda því á haugana því það á ekki að fá að spila með elítunni.

Þetta allt saman – þessi hugmyndafræði – er það sem við eigum að henda á haugana. Þetta blaður um að einn hópur í samfélaginu sé svo yfirburðahæfur á meðan hinn er vanhæfur. Þetta er kjaftæði sem brýnt er að við tökumst á við.

Góður stjórnandi veit að það er hans hlutverk að ná því besta út úr hverjum og einum starfsmanni og hann leitast við að ná því fram. Það getur auðvitað komið til þess að hans komist að þeirri niðurstöðu að hann þurfi að reka einstaka starfsmenn. Þá gerir hann það og hann fylgir reglum til þess. Hann veigrar sér ekki við að nota áminningar til að vara fólk við.

Það er sjálfsögð regla að í starfsmannalögum íslenska ríkisins sé gert ráð fyrir áminningarferli sem undanfara uppsagnar. Það er grundvallarregla sem stjórnvöld eiga ekki að hrófla við.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...