Alla síðustu viku sótti ég RIFF stíft – sá 10 myndir af 11 sem hugðist sjá. Ég elska RIFF eins og ég elska Alþjóðlegu bókmenntahátíðina og Stockfish kvikmyndahátíðina. Þetta eru hátíðir þar sem mennskan er altumlykjandi – óður til mennskunnar.
Það er annað en ég upplifi flesta daga aðra í almannarýminu. Mér finnst við vera á hraðri leið til andskotans og þá er dvöl í mennskunni kærkomin.
Ein kvikmynd stendur upp úr öllum öðrum af þeim sem ég sá. Kvikmynd sem ég mun hugsa um oft og mikið – kvikmyndin Sirát eftir Óliver Laxe. Stórkostleg kvikmynd sem hefur þannig áhrif á tilfinningaskalann að því verður illa lýst með orðum.
Ég settist niður í Háskólabíói að kvöldi föstudagsins 3. október kl. 15 mínútur yfir 9 vitandi ekkert hvað ég var að fara að sjá. Jú ég vissi að myndin fjallaði um „ferðalag feðga í leit að dóttur/systur í eyðimörkinni í Marokkó“ - það var svona um það bil það sem ég vissi. Að það ætti eftir að fara með mig í slíkt ferðalag sem raunin varð hafði ég ekki einu sinni grun um. Hughrifin sem þessi mynd skóp innra með mér eru ólýsanleg. Altumvefjandi vellíðanin í fyrri hluta myndarinnar og skelfingin og sorgin í síðari hlutanum – allt var það með miklum ólíkindum. Ég varð persónulegur vinur persónanna í myndinni og ég upplifði raunverulega sorg.
Ég var uppgefin að mynd lokinni. Ég skildi ekki hvað ég hafði verið að upplifa eða hvað hafði eiginlega gerst og ég skil það varla enn. Að takast það að fá mann til að tengjast persónum myndar með þeim hætti sem raunin varð er einhvers konar snilligáfa sem ég kann ekki skil á. En mikið rosalega er ég þakklát. Þakklát Oliver Laxé og félögum hans að fá mig til að finna þvílíka samkennd og ég upplifði í Háskólabíói að kvöldi 3. október 2025.
Það er eitthvað alveg rosalegt við það að upplifa listaverk svona sterkt. Mann langar að hrópa upp yfir allan heiminn og biðja hann að koma með í ferðalagið. Mig langaði að gera það þarna að mynd lokinni. Mig langaði til að hrópa yfir heiminn að fara að sjá þessa mynd og mig langaði til að skilja hvað hafði eiginlega gerst. Hvers vegna fann ég svona rosalega til?
Ég sagði bróður mínum frá myndinni og þá hafði hann verið að hlusta á endalokin á Rás 1 þar sem Þórunn Gréta Sigurðardóttir og Hera Guðmundsdóttir tala við Höllu Harðardóttur um myndina. Ég hlustaði loksins á þær stöllur og reyndar allan þáttinn í gær og ég er svo glöð að hafa gert það. Í þættinum eru þær ekki bara að taka undir hrifnæmni mína um þessa einstöku kvikmynd Sirát heldur eru þær manneskjur að halda uppi merkjum mennskunnar með þeim hætti að ég má til að deila því hér.
Þær segja með upphátt með orðum það sem mig langaði svo að hrópa yfir almannarýmið í síðustu viku þegar enn einu sinni þessi hryllilega umræða skaut upp kollinum um listamannalaunin í hundraðasta skipti. Þessi umræða þar sem mennskan er troðin niður í svaðið með hryllilegum sparðatíningi byggðri á einhverri „vísindahyggju“ að hætti Frederick Winslow Taylor þar sem ekkert er raunverulegt eða þess virði að vera nema það sé „mælanlegt“. Þessi heimspeki viðskiptafræðinnar í Bandaríkjunum sem er samfélagið okkar að drepa og er stór hluti þess að við erum á leiðinni til andskotans sem fyrr er getið.
Í þættinum eru ekki bara þær þrjár heldur er í honum einnig Hrafnkell Kaktus Einarsson og fjallar um myndina „Jörðina undir fótum okkar“ eftir Yrsu Roca Fannberg. Sú umfjöllun er líka „óður til mennskunnar“ og því hvet ég ykkur til að hlusta. Ég á sjálf eftir að horfa á þessa kvikmynd sem ég ætla svo sannarlega að gera.
Af hverju er ég að setja þennan pistil saman hér? Ég geri það til að vekja athygli á því sem skiptir máli.
Ég hef lengi verið sannfærð um að heimspeki Bandaríkjanna er okkur lifandi að drepa. Þessi „heimspeki“ sem gegnsýrir fagið sem ég valdi mér að ævistarfi – viðskiptafræðina – þar sem allt gengur út á skilgreiningar dauðans og að allt sé „mælanlegt“. Alveg eins og vísindaleg stjórnun Frederick Winslow Taylor boðaði. Allt skuli „mælt“ og að „mælingin“ sé eini mælikvarðinn sem skiptir máli. Þetta er í heild sinni hugmyndafræði sem við eigum að henda á haugana.
Við þörfnumst heimspeki og við þörfnumst bókmennta. Við þörfnumst fegurðarinnar sem felst í mennskunni. Við þörfnumst tengslanna. Við þörfnumst hvers annars. Við þörfnumst þess að hlusta á nið kynslóðanna í gegnum eldra fólk. Við þörfnumst kærleika. Hann kemur til okkar í gegnum heimspekina og bókmenntirnar. Heimspekin er móðir allra fræða og einkynja viðskiptafræðin dugar okkur ekki. Hún drepur okkur. Páll Skúlason var alltaf að reyna að segja okkur þetta en við hlustuðum ekki.
Það er eitthvað rétt að gerjast. Í vikunni var líka viðtal í Lestinni á Rás 1 við Guðrúnu Steinþórsdóttur bókmenntafræðing um kennslu hennar í bókmenntafræði í Læknadeild HÍ. Í þættinum talar hún mikilvægi þess að ræða bókmenntir við læknanema og hún gerir grein fyrir þessu hugtaki „læknahugvísindi“ sem mér skilst að sé núna gerð grein fyrir í Ritinu.
Það nærir sálina að heyra þessar hugmyndir. Við þörfnumst skilnings. Við þörfnumst samlíðunar. Samhygðar. Við þörfnumst ekki meiri flokkadrátta. Ábendinga. Trumpisma.

Engin ummæli:
Skrifa ummæli