Leikskólakennarar og stjórar vilja að við kokgleypum hugmyndina um lengingu „skólastigsins“ niður á við um 5 ár. Ég er hjartanlega ósammála þeim og ætla að gera grein fyrir þeim skoðunum hér.
Leikskólinn snýst um allt aðra hluti en grunnskólinn og hann á að snúast um allt aðra hluti. Börn á aldrinum 1 til 5 ára hafa ekkert með „skólagöngu“ í þeim skilningi að gera og við eigum ekki að fjalla um þessar stofnanir leikskólana sem slíka.
Ég sendi ekki barnið mitt í leikskóla vegna þess að sú stofnun þyrfti að kenna því. Ég sótti um fyrir barnið mitt á leikskóla vegna þess að ég þurfti á gæslu að halda allan daginn á meðan ég sinnti störum mínum utan heimilis. Í 40 tíma á viku. Ég var og er kvenkyns og ég fæddi barnið. Barnið kom út úr mér og var á mína ábyrgð.
Ég hafði mikinn metnað og langaði til að ná langt í starfi og það hvarflaði aldrei að mér að sinna hlutastarfi. Ég skammast mín ekki fyrir þessa afstöðu. Ekki þá og ekki núna.
Ég elskaði barnið mitt takmarkalaust og geri enn. Ég reyndist henni ekki fullkomið foreldri – langt því frá. Ég gerði sannarlega mitt besta og sárin á hennar sál eru engin vegna þess að „hún var svo lengi á leikskóla“. Hún ber örugglega sár á sálinni vegna mín og vegna okkar foreldranna en þau eru ekki til staðar „vegna þess að hún var svo lengi á leikskóla“ á hverjum degi á aldrinum 3ja-5 ára.
Leikskólinn er til orðinn vegna þess að konur börðust grimmt fyrir honum á síðustu áratugum síðustu aldar. Hér var kvennafrídagur 24. október 1975. Grundvallaratriði þeirrar baráttu sem í hönd fór var leikskólavist fyrir börn allan daginn. Það atriði var allan tímann í forgrunni baráttunnar. Augljóslega. Vegna þess að til þess að konan sem ber barnið undir belti – geti farið að vinna að fæðingu lokinni þarf hún að eiga kost á gæslu fyrir barnið. Hún fer ekki langt án þess.
Virðingarleysið sem leikskólakennarar og stjórar – sem flestar eru kvenkyns – sýna kynsystrum sínum í dag með því að kannast ekkert við þessa baráttu er ótrúleg. Þær halda því fram án þess að blikna að forgangsatriði dagsins í dag ársins 2025 sé að stytta leikskólatíma barnsins eins og kostur er „því langur leikskóladagur er svo óhollur fyrir sálarheill barnsins“!
Þær stinga upp á því að „kennsla“ barnanna fari fram fyrstu 5-6 klst dagsins og eftir það sé einhvers konar „frístund“ í gangi. Sem sagt leikskólakennarar og stjórar vilja að grunnskólinn verði hafður til fyrirmyndar að módeli leikskólans. Þeirra starf er orðið fyrst og fremst „kennsla“ og við eigum að horfa á leikskólana eyðilagða sem stofnanir vegna þess að leikskólakennarar og stjórar vilja fá styttri vinnudag.
Leikskólar í þeirri mynd sem við búum við á Norðurlöndum eru ekki til staðar í öðrum Evrópulöndum. Jafnrétti kynjanna er langt frá því að vera á sama stað í Evrópu almennt og það er á Norðurlöndunum.
Atvinnuþátttaka kvenna er ekki sú sama í Evrópu og hún er á Íslandi. Ísland hefur trónað á toppnum fyrir jafnrétti kynjanna um árabil og sú staða er fyrst og fremst tilkomin vegna leikskólanna. Vegna þess að almenn leikskólavist barna á Íslandi náðist fyrir áralanga baráttu kvenna fyrir henni.
Nú vilja leikskólakennarar og stjórar brjóta niður þessa mynd. Þeir eru forgrunni þeirrar baráttu að tala um hvað „lengd“ leikskólavistarinnar skipti öllu máli fyrir heill barnsins. Alveg sama þó að engar rannsóknir styðji þær hugmyndir. Rannsóknir sýna allar að það eru gæði leikskólavistarinnar sem skipta öllu máli. Ekki lengd.
Sérhagsmunagæsla leikskólakennara og stjóra er fullkomnuð í þessari baráttu. Þær eru tilbúnar að tala um leikskólana svo niður núna að ég hefði aldrei haft hugmyndaflug í annað eins einu sinni.
Sat á fyrirlestri Þjóðarspegilsins um árið þar sem „sérfræðingarnir“ hver um annan þveran töluðu um leikskólann eins og stórhættulegar stofnanir og voru komnar á þann stað að tala um „vöggustofurnar“ í sömu andrá.
Tal á þessum nótum er grafalvarlegt og ég býð ekki í það hvar við verðum eftir nokkur ár ef við leyfum þessu að grassera lengi enn.
Að síðustu ætla ég að stinga því að stjórnendum sveitarfélaganna að þeir ættu kannski að reikna það út hvað stjórnunarkostnaður þessara stofnana – leikskólanna - er orðinn mikill niður á barn síðustu árin í samanburði við það sem áður var. Þeir ættu kannski að reikna það út hvað skriffinnskan í kringum vinnutíma starfsfólks leikskólanna tekur mikinn tíma frá stjórnendum þeirra. Þeir ættu kannski að reikna það út hvað kostnaður við „tímabundnar ráðningar“ er mikill niður á barn og svo mætti lengi áfram telja.
Ég ber enga virðingu fyrir skriffinnsku. Hef aldrei gert og mun aldrei gera. Ég ber gríðarlega virðingu fyrir góðum leikskólum þar sem umönnun, hlýja og ást er forgrunni leikskólastarfsins.
Ég er ekki sérfræðingur um þessi mál. Ég er manneskja. Ég er móðir. Ég er kona. Kona sem hef upplifað gríðarlegar breytingar á stöðu kvenna á einni ævi.
Ég ætla ekki að horfa á leikskólakennara og stjóra taka að sér það hlutverk að brjóta þann árangur á bak aftur án þess að stinga niður fæti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli