mánudagur, 20. október 2025

Valdefling karlrembunnar

Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangri að nú tala karlremburnar um það fullir sjálfstrausts að að sjálfsögðu eigi konur ekki að vinna fullan vinnudag frá ungum börnum sínum. Það sé hneyksli. Svona er talað á árinu 2025. Á Íslandi. Landi jafnréttisins. Að upplifa þetta verður til þess að það stendur í mér. Mig langar að hlaupa út og hafa hátt á torgum.

Og mig langar ekkert að taka þátt í Kvennafrídegi þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir messar. Þið verðið að fyrirgefa – en svona líður mér.

Það eru svo sem engar fréttir. Ég tók ekki þátt í kvennafrídeginum árið 2023 enda fann ég enga tilfinningu fyrir því að tilheyra og þegar maður tilheyrir ekki þá langar mann ekki að vera memm.

Ég bjó í samfélagi framan af ævi þar sem lengst af ein kona sat á Alþingi hverju sinni. Engin kona sást í stjórnunarstöðu – nema þá um væri að ræða fjölskyldufyrirtæki. Konur skrifuðu ekki greinar. Konur voru ósýnilegar. Alveg eins og þær eru enn í stórum hluta heimsins.

Ótrúlega kjarkmikill hópur kvenna tók sig saman og var í forystu fyrir Kvennafrídeginum á Íslandi 24. október 1975. Rauðsokkur. Konur sem þurftu að þola ótrúlegt mótlæti – þar sem þær voru talaðar niður og gert lítið úr þeim. Eitthvað sem við getum fræðst um með því að horfa á myndina sem sýnd var á RÚV í gær „Dagurinn sem Ísland stöðvaðist“. Stórkostleg mynd sem blæs manni brjóst baráttuanda.

Í kjölfar Rauðsokkanna varð Kvennaframboðið og síðar Kvennalistinn til. Kvennalistinn sem umbreytti – kollvarpaði – stöðu kvenna á Íslandi. Ísland fyrir konur í dag er ekki sams konar samfélag og ég ólst upp í. Það er gjörbreytt. Konur eru helmingur þingmanna. Það eru konur í öllum æðstu embættum ríkisins. Það eru konur alls staðar – hver sem litið er. Nema kannski helst í æðstu stjórnunarstöðum fyrirtækja. Þar ræður karlkynið enn ríkjum að mestu.

Þetta samfélag er ekki einu sinni líkt því samfélagi sem ég ólst upp í. Og ástæðan fyrir því er ekki síst leikskólarnir.

Uppbygging heilsdagsleikskóla fyrir börn var grundvallarkrafa Kvennalistans og síðar R-listans. Það var byltingin sem R-listinn lagðist í og það var það mál sem breytti öllu. Það eru konur sem ganga með börn og það eru konur sem stóðu – og standa – frammi fyrir því að þurfa að koma barninu fyrir vilji þær fara út að vinna. Heilsdags leikskóli er grundvallarmál jafnréttis kynjanna. Það var það árið 1994 og það er það enn 30 árum síðar árið 2025.

Hvernig talað er til kvenna í almannarýminu í dag er óþolandi svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Að heill barnsins sé undir því komin að þau séu ekki lengur en 5-6 stundir í leikskóla á dag er skáldskapur til þess eins fallinn að brjóta niður áunnin réttindi.

Næst verður það gamla fólkið. Reyndar er það líklega ekkert „næst“. Mér skilst það hafi komið út bók á dögunum sem fjallar um nákvæmlega það. Hvernig konum er send skömmin ef þær hugsa ekki nógu vel um foreldra sína.

Að senda konum skömmina er ekkert nýtt. Það er elsta verkfærið í töskunni. Það hefur alltaf verið gert – í gegnum aldirnar.

Í gær hlustaði ég á þátt Önnu Sigríðar Þráinsdóttur og Guðrúnar Línberg Guðjónsdóttur þar sem þær gera grein fyrir því hversu mörg orð eru til í íslenskunni til að lýsa konum með niðrandi hætti. Þetta var bráðskemmtilegur þáttur um leið og hann er svo dásamlega lýsandi fyrir það samfélag sem við búum í. Hlustið á hann – mana ykkur!

Og hér eru það konur sem eru hlutverki dómaranna. Það eru konur sem eru að senda konum skömmina. Það eru þær sem eru forystu fyrir því að gera lítið úr kynsystrum sínum.

Ætlum við að hafa þetta svona? Ætlum við að kyngja því að við séum „vondar mæður“ ef við höfum persónulegar þarfir? Ætlum við að hlusta á ræður í þá veru á Kvennafrídaginn 25. október 2025? Á 50 ára afmælinu?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...