Það er ábyrgðarhluti að tala niður stofnanir með þeim hætti sem ég hef hlustað á leikskólakennara og stjóra gera síðustu ár um leikskólann. Þær (langflestar konur) tala eins og þessar stofnanir sem þær stýra séu stofnanir myrkursins.
Þar er húsnæðið allt of lítið og þröngt. Þar
er allt of fátt starfsfólk pr barn. Þar er stór hætta á að alvarlegir hlutir
gerist vegna þessa. Manneklu og vondra aðstæðna.
Leikskólarnir eiga að stýrast að þeirri
hugmynd að vantraust sé normið. Enginn starfsmaður á nokkru sinni að fá að vera
einn með barni. Það er stórhættulegt og býður hættunni heim. Bandaríska
hugmyndafræðin þar sem við vantreystum öllum þar til annað sannast.
Hverjum líður vel í slíku umhverfi?
Þar sem vantraust er normið?
Þér?
Eins og ég kom inn á í grein minni í gær þá
sat ég Þjóðarspegilinn fyrir sennilega tveimur árum þar sem „sérfræðingar“ um
málefni leikskóla frá Háskólanum á Akureyri töluðu þessar stofnanir svo niður
að ég gekk út. Þær voru komnar á þann stað að tala um aðstæður í leikskólum á
Íslandi í dag væru hliðstæðar við vöggustofurnar sem við höfum öll heyrt
hryllingsfréttirnar um.
Hvert okkar hefur þessa reynslu af leikskóla
barnsins síns? Setjum við börnin okkar á hverjum degi í faðm stofnana þar sem við
eigum öll von á að eitthvað illt gerist?
Ég spyr – hver vill vinna á svona stað? Hver
sækist eftir að vinna í svona aðstæðum?
Í tengslum við þessa umræðu þar sem
leikskólarnir eru orðnir svona hættulegir er því beint til foreldra að þeir séu
svo vondir ef þeir vilja hafa barnið sitt allan daginn á leikskóla. Því slegið
föstu að það sé eftirsóknarverðast og best fyrir barnið að „eiga sem stystan
vinnudag“ og látið eins og það séu einhverjar rannsóknir þarna úti sem styðja
málstað þeirra. Það er vert að geta þess að þær rannsóknir finnast ekki. Það er
ekkert sem styður þá hugmynd leikskólakennara og stjóra að það sé börnunum
fyrir bestu að vera sem styst á leikskólanum. Það eru hins vegar til fullt af
rannsóknum sem sýna að gæði leikskólans skipta máli fyrir heill barnsins.
Að síðustu – á árum áður var mjög almenn
ánægja foreldra með leikskólana. 90% eða þar um bil var ánægð með leikskólana
ef ég man rétt. Því sama var hreint ekki að heilsa þegar skólarnir voru annars
vegar. Óánægja með skólana hefur verið landlæg á Íslandi í áratugi á minni ævi.
Nú vilja leikskólakennarar og stjórar endilega gera skólann að fyrirmynd sinni
og vinna að því öllum árum að við öll lítum á þessar stofnanir – leikskólana –
sem við höfum fyrst og fremst litið á sem stofnanir til að gæta barnanna okkar
á meðan við erum úti að vinna – sem skóla.
Ég skrifa þessar greinar vegna þess að mér er
annt um leikskólann – mjög annt um hann. Og ég elska börn – meira en annað
fólk. Ég hef verið miður mín lengi yfir þeirri vegferð sem ég hef horft á
leikskólakennara og stjórana vera á og nú er komið nóg.
Það er ekki þeirra hlutverk að vera í forystu
einhverrar teboðshreyfingar á Íslandi. Að vera í því hlutverki að senda
skömmina vegna þarfar fyrir gæslu barna yfir á mæður. En það er hlutverkið sem
þær hafa tekið að sér síðustu ár.
Það er ekki heldur þeirra hlutverk að tala
niður stofnanirnar sem þær starfa hjá og búa til þá mynd í huga okkar allra að
þær séu stofnanir myrkursins. Leikskólar á Íslandi hafa lengst af verið
yndislegar stofnanir sem foreldrunum og tala nú ekki um börnunum hefur þótt
vænt um. Þannig viljum við áreiðanlega öll hafa það áfram.
Þess vegna biðla ég til leikskólakennara og
stjóra – segið okkur hvað er að? Hvert vandamálið er? Og tökum á því.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli