24. október 2025. Fimmtíu ár síðan kvennafrídagurinn var haldinn og konur flykktust út í hópum um allt land til að gera kröfur. Dagur sem við minnumst allar með lotningu vona ég og er fyrir löngu orðinn að einhvers konar minni sem við allar horfum til. Þetta var dagurinn sem markaði upphafið. Dagurinn þar sem allt breyttist og ekkert varð aftur samt.
Þennan dag árið 1975 var ég 12 ára og bjó á Melum í Hrútafirði. Mamma var að leysa af á símanum í Brú á þessum tíma og hún tók sér ekki frí.
Mér finnst táknrænt að hugsa til þess að á þessum tíma var ég tólf ára. Mér lá alltaf rosalega mikið á að verða fullorðin og mér fannst ég rosalega þroskuð. Ég var þá þegar komin með skoðanir á öllu milli himins og jarðar og ég fylgdist andaktug með þessum baráttufundi. Hann hafði djúp og mikil áhrif á mig þó ég fylgdist bara með úr fjarlægð. Ég spilaði plötuna „Áfram stelpur“ endalaust og kunni hvern einasta texta utanbókar. Held að ég kunni þá enn.
Ég var stuðningsmaður kvennabaráttunnar frá fyrstu stundu en samt er það svo undarlegt að ég gekk aldrei alla leið. Ég gekk aldrei í Kvennalistann og ég syrgi það ævina á enda. Hvernig stendur á því að ég gerði það aldrei?
Mig langar til að segja ykkur það, því það er ástæða fyrir því. Mig langaði – langaði mjög mikið – en ég gat það ekki. Hef alltaf verið „sérvitur“ eins og pabbi sagði alltaf um mig á góðlátlegan hátt og sú sérviska birtist með margvíslegum hætti.
Það var vegna þess að ég upplifði að kvennabaráttunni fylgdi að ég mætti ekki vera kynvera. Þegar ég var tólf ára gömul var ég nýbúin að gera stórkostlega uppgötvun – uppgötvun sem breytti öllu fyrir mig og gaf mér leyfi til að finna til þeirra kennda sem ég fann fyrir. Mér er ómögulegt að segja frá því nákvæmlega hér hver uppgötvunin var en hún skipti mig öllu máli. Hún bókstaflega, í orðsins fyllstu merkingu, sagði mér að ég væri ekki óeðlileg. Ég var í lagi. Ég mátti vera kynvera. Ég mátti finna til þeirra kennda sem ég fann fyrir og ég mátti stunda sjálfsfróun án þess að skammast mín. Þessi staðreynd var „breakthrough“ fyrir mig sem tólf ára gamla stelpu. Hún valdefldi mig með þeim hætti að ég kann ekki einu sinni að lýsa því. Þetta var eitthvað sem skipti mig gríðarlega miklu máli og ég var ekki til í að láta neinn segja mér að væri ljótt.
Hér er mikilvægt að segja jafnframt að með þessu er ég ekki að segja að tólf ára gamlar stelpur séu orðnar að leyfilegum „viðföngum“ karlkynsins. Aldeilis ekki. Það er langur vegur þar frá. Það er aftur á móti mikilvægt að við leyfum stelpum að kynnast þessari hvöt innra með sér og kennum þeim ekki að skammast sín fyrir hana.
Kvennaframboðið og Kvennalistinn börðust alltaf hart fram gegn klámi og feministahreyfingar dagsins í dag gera það enn. Svo langt var gengið að ég minnist Helgu Thorberg mótmæla listasýningu á Hótel Borg þar sem um var að ræða japanska list sem sýndi fólk í ýmsum samfarastellingum. (Held að rétt sé með farið en það getur vel verið að smáatriðin séu misminni). Þetta þótti í lagi að líta á sem argasta klám. Ég upplifði þetta sem púritanisma og þoldi það ekki. Þennan hluta af baráttu Kvennalistans átti ég alltaf mjög erfitt með að þola og gat ekki staðið með.
Á sama hátt þoli ég ekki í dag þegar farið er taka niður listaverk í opinberum stofnunum sem sýna ber brjóst kvenna. Ég hef hreinan ímugust á púritanisma og lít svo á að hann verði fyrst og fremst til að þagga niður í konum.
Á sama tíma tek ég fram að ég hef hreina fyrirlitningu á þegar strákar ganga fram í því að gera stúlkur að kynlífsviðföngum fyrir þá til að hafa gaman. Íslenskt samfélag hefur oft á 21. öldinni gengið gjörsamlega fram af mér í aðra hvora áttina. Í þá átt að ala á og upphefja greddu strákanna á kostnað stelpna. Eða þess að útskúfa drengjum fyrir það eitt að vera klaufalegir í umgengni við þessa hvöt – kynhvötina. Stúlkur hafa gengist upp í því að vera púritanískar verur og ég spyr mig hverjum það gagnist. Er það gott fyrir þær? Ég er ekki sannfærð.
Ég skil ekki af hverju við þurfum alltaf að vera á þessum stað. Alltaf í öfgunum í aðra hvora áttina? Er alveg ómögulegt að við leyfum ungu fólki að hafa kynhvöt? Kenna því að það þurfi að læra að umgangast hana og læra að sýna öðrum virðingu númer eitt. Að kynhvötin gefur aldrei leyfi til að níðast á öðrum. Aldrei. Þau bera ábyrgð hvert og eitt á sjálfum sér og því að sýna öðrum virðingu?
Ég veit það ekki. Veit ekki hvernig á að vera hægt að tala um kynhvötina án þess að allt fari til fjandans. Veit ekki hvernig á að vera hægt að tala um þessa hluti án þess að allt fari til fjandans.
Ég veit það bara að mér hefur fundist Ísland á leiðinni á þann stað í kjölfar „MeToo“ að stúlkur séu orðnar að fullkomlega púritönskum verum fram á fullorðinsár. Og ég er ekki sannfærð um að það verði þeim til góðs. Ég held að það þýði að stúlkur séu að gangast upp í því að hafa vald yfir strákum til að segja þeim hvernig þeir eigi að haga sér. Og ég held að það sé ekki gott. Ekki fyrir þær og ekki fyrir þá. Ég er ekki sannfærð um að þetta fyrirkomulag leiði til góðs samfélags fyrir neinn.
Við erum með múslimasamfélagið á aðra hliðina. Samfélag kaþólsku kirkjunnar á hina. Allt gengur út á að halda stúlkum og konum niðri. Kynhvöt þeirra. Þær eru ekki til. Ósýnilegar. Þarf að ganga svo langt að hylja þær frá toppi til táar til að verja aumingjans karlana fyrir því að falla fyrir feistingum þeirra.
Hér fyrr á öldum drekktum við konum fyrir glæpi sem karlar frömdu á þeim. Þær þurftu að greiða fyrir glæpi þeirra með lífi sínu. Ég gleymi aldrei áhrifamiklu verki Rúríar sem sýndi þetta. Íslenskum þjóðbúningum stillt upp með nöfnum og ártölum kvenna sem drekkt hafði verið í Drekkingarhyl vegna þess að feður þeirra, bræður eða frændur höfðu misnotað þær.
Gæti kannski verið að þetta sé næsta mál í feministabyltingunni? Gæti verið kominn tími til að við tækjumst á við kynhvötina? Ekki með þeim formerkjum að banna hana eða fela, heldur umfaðma hana? Leyfa unga fólkinu okkar að hafa kynhvöt og viðurkenna það? Viðurkenna að það er kynhvötin sem býr okkur öll til? Að takast á við kynferðisglæpina og ofbeldið með ákveðnum og markvissum hætti en rugla því ekki saman við að ungt fólk megi ekki hafa kynhvöt?
Ég get bara talað fyrir mig. Ég er búin að bíða eftir þessu augnabliki frá því ég var tólf ára stelpa. Ég held að það sé löngu kominn tími til að við vöndum okkur meira í þessari baráttu. Að við opnum meira og umföðmum meira. Sýnum meiri kærleika og minna valdboð.
Ég held að valdboðið geri engum gott – allra síst samfélaginu sem við lifum í. Kærleikurinn gerir það hins vegar. Alltaf.
Ég held að við þurfum að gangast við kynhvötinni. Að hún er þarna frá unga aldri. Og hún er hluti af því að vera strákur og hún er líka hluti af því að vera stelpa. Hún er ekki ljót í sjálfri sér.
Það þarf ekki að verja ungar stúlkur fyrir kynhvötinni. En við búum í samfélagi sem hefur kennt ungum strákum frá aldaöðli að stúlkur séu kynferðisleg viðföng þeirra. Þann þátt í samfélagsgerðinni þurfum við að takast á við. Því það er ekki í lagi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli