laugardagur, 8. nóvember 2025

Saga kvenna – saga mín

Þetta tvennt hefur verið mér ofarlega í huga síðustu vikur. Það hversu sjálfsagt okkur finnst að þurrka út sögu kvenna og hversu dugleg við erum við það – konur og karlar alla daga.

Það er merkilegt að upplifa það á sjálfum sér og það er ástæðan fyrir að ég hef tekið upp á því undarlega atferli síðustu daga að birta á Fésbókinni gamlar greinar sem ég hef skrifað og birtar hafa verið í dagblöðum. Aldurinn gefur manni þetta frelsi. Allt í einu er mér orðið skítsama þó ég hneyksli einhvern með sjálfhverfunni. Það er gott. Það er gott að losna undan þessari ótrúlega þungu byrði. Þessari byrði verunnar sem alltaf hefur fylgt manni í bakhöfðinu – þessari sem segir „hver heldurðu að þú sért“? Hvað hefur þú svo sem fram að færa?

Ég tek hér sterkt til orða – ég er ekki viss um að ég sé alveg laus við hana – þessa veru – en ég er alla vega komin á þann stað að ég leyfi mér að hundsa hana. Leyfi mér að vera sjálfhverf og ætla að leyfa mér það áfram um nokkra hríð. Í þeim tilgangi einum að endurheimta mína sögu. Því ég var horfin. Gjörsamlega horfin og saga mín ekki til.

Saga mín sem manneskju á vinnumarkaði. Saga mín sem manneskju með skoðanir. Hvort tveggja var horfið. Ég ætla að rifja upp hvort tveggja. Ég ætla að halda áfram næstu daga að draga fram í dagsljósið greinar og myndir sem sem bera vitni um hver ég var. Hvort ég muni hafa seiglu eða áhuga á að gera allt það sem ég hugsa núna mun koma í ljós. Kannski mun ég hætta jafn snöggt og ég byrjaði – kannski ekki.

Af hverju? Hverjum kemur „saga mín“ við? Hvers virði er hún svo sem þessi „saga“ – ef hún er þá yfirleitt til?

Ég á frænkur, ég á dóttur, ég á stjúpdóttur, ég á dótturdætur. Þeim öllum kemur saga mín við. Frændum líka. Konur eru til og þær eiga sér sögu. Sögu sem við eigum að viðhalda en ekki þurrka út.

Það sem kemur þessu af stað er sú staðreynd að hafa upplifað það á sjötugsaldri að horfa á konur – íslenskar konur - í forystu fyrir því að þurrka út mikilvæga þætti úr sögu kvennabaráttunnar eins og hendi sé veifað.

Að hafa horft á það á árinu 2025 þykir það enn ekki sjálfsagt að konur hafi þarfir þó þær leyfi sér að eignast börn.

Að upplifa það á árinu 2025 að orðið „konur“ þykir allt of byltingarkennt orð á meðal ungra kvenna. Reynum helst alltaf að draga úr því. Notum aldrei orðið „konur“ eitt og sér. Aldrei. Þurrkum kynin út úr tungumálinu og þar með konur.

Það má túlka orð mín hér að ofan eins og hótun eða sjálfbirgingslegt raus síð-miðaldra konu. Og það má. Hvort tveggja. Það er allt í lagi.

Það sem er ekki í lagi er þurrka út sögu kvenna. Sögu okkar kvenna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...