Haustið 1979 hóf ég menntaskólagöngu í Kvennaskólanum í Reykjavík. Um sumarið hafði ég sótt um skólavist í Fjölbrautaskólanum í Ármúla en einhver eða einhverjir ákváðu að þar sem ég væri umsækjandi utan af landi ætti ég að setjast á skólabekk í Kvennaskólanum í Reykjavík. Ég veit ekkert hverjir þetta voru en ég get upplýst það nú að ég er viðkomandi ævarandi þakklát.
Það var mikil gæfa fyrir mig persónulega að
hefja skólagöngu í Reykjavík í Kvennaskólanum. Ég hætti reyndar eftir eins árs
skólagöngu og byrjaði svo aftur eftir eitt og hálft ár að hausti 1982 og
útskrifaðist sem stúdent vorið 1984. Ég lít á það sem sérstaka gæfu að hafa
lent í þessum skóla af öllum skólum á þessum tíma og mig langar að segja ykkur
af hverju.
Það er vegna þeirra áhrifa sem kennarar og
námsval skólans hafði á mig sem unga manneskju á mótunarskeiði. Það er skemmst
frá því að segja að kennarar þessa skóla voru einstakar manneskjur upp til hópa
og andrúmsloftið milli þeirra og innan veggja skólans einkenndist af kærleika.
Virðing er orðið sem best lýsir því sem ég á við. Virðing í samskiptum innan
skólans. Virðing kennara gagnvart nemendum og virðing í samskiptum kennara
innbyrðis og við stjórnendur og nemendur og öfugt. Að búa almennt við virðingu
í samskiptum innan stofnunar eins og þessarar á mótunarskeiði verður seint
fullþakkað.
Ég hef oft sagt það og segi það hér að ég
elskaði kennarana mína í Kvennaskólanum í Reykjavík og ég er þeim svo
óumræðilega þakklát fyrir það allt það sem þeir færðu mér.
Og það er það sem varð til þess að mig langar
að skrifa þessa grein á laugardagsmorgni í nóvember 2025. Það sem kennarar
Kvennaskólans færðu mér sem manneskju á mótunarskeiði á árunum 1982–1984.
Mikilvægi hug- og félagsvísinda – ekki síst bókmennta á mig sem manneskju í
samfélagi.
Við heyrum sjaldnast um þetta í dag. Fáir sjá
ástæðu til að tala um mikilvægi félagsvísinda eða hugvísinda fyrir heill einstaklingsins.
Hins vegar er enginn skortur á því að heyra talað um mikilvægi STEM fyrir
einstaklinginn á þroskaskeiði.
Ég skrifa þessa grein til að gera grein fyrir
þakklæti mínu í garð kennara og skólastofnunar sem færðu mér innsýn inn í heim
félags- og hugvísinda sem hafa fylgt mér allar götur síðan og hafa mótað mig og
haft áhrif á mig og hafa enn sem manneskju í samfélagi.
Í dag þegar fasisminn virðist enn einu sinni
ætla að eiga greiða leið að okkur mannfólkinu er gott að eiga sannfæringu.
Sannfæringu sem ekkert fær haggað. Þá sannfæringu sæki ég ekki síst í
bókmenntirnar. Bókmenntirnar sem hafa að geyma sögu mannskynsins frá upphafi
vega. Bókmenntirnar sem segja frá öllu sem okkur getur dottið í hug.
Bókmenntirnar sem við getum speglað okkur í. Bókmenntirnar sem við getum grátið
yfir. Bókmenntirnar sem við getum hlegið með. Bókmenntirnar sem við getum
reiðst yfir. Bókmenntirnar sem við getum þjáðst með. Bókmenntirnar sem geta
opnað hjörtu okkar upp á gátt … Bókmenntir hafa að geyma allt það sem þú sem
manneskja þarft á að halda að geta speglað þig í og samsamað þig með.
Í Kvennaskólanum í Reykjavík lærði ég m.a. sálfræði,
uppeldisfræði, íslensku, siðfræði, þýddar bókmenntir, barnabókmenntir, félagsfræði
og sögu. Ég nefni þessar greinar sérstaklega því ég er svo þakklát fyrir margt
af því sem kynnt var fyrir mér í þessum fögum. Eitthvað sem hefur fylgt mér
allar götur síðan og hefur skipt mig svo miklu máli að ég tárast þegar ég
skrifa þetta núna.
Það að vera manneskja í samfélagi er ekkert
einfalt mál. Tæknirisarnir núna halda að þeir haldi á sannleikanum en mér er
mikið niðri fyrir þegar ég segi þeim að það gera þeir ekki.
Það sem kveikt á þessum hugleiðingum var
pistill Sifjar Sigmarsdóttur í morgun um jólabókaflóðið og þá staðreynd að
enginn hefur orð á því á dánarbeðinu „bara að hann hefði nú keypt þetta eða
hitt“ – frekar en enginn hefur sagt á dánarbeðinu „bara að hann hefði nú eytt
meiri tíma á skrifstofunni“ (eins og stendur í einhverri bók sem snert hefur
marga).
Við vitum öll þegar grannt er skoðað hvað það er sem skiptir máli en samt látum
við alla daga eins og við vitum það ekki.
Við getum verið nokkuð viss um að enginn á
eftir að segja á dánarbeðinu „bara að ég hefði nú horft meira á skjáinn“ – en
samt eyðum við lífinu í það. Að horfa á skjá. Alla daga. Og við lítum á það sem
forgangsmál að leyfa börnunum okkar að fá aðgang að skjá – aðgang sem opnar
fyrir þeim leiðina að glæpahópum heimsins og fasistum og kvenhöturum. Við höfum
ákveðið að bandarísku og kínversku tæknirisarnir séu þeir sem við ætlum að treysta
fyrir uppeldi barnanna okkar. Að lesa bækur hins vegar er afgangsstærð.
Við tölum mikið um aukinn kvíða barna og
ungmenna en sjaldan heyri ég í því samhengi mikilvægi þess að börn og ungmenni
lesi bækur.
Við tölum mikið um aukinn einmanaleika fólks í
samfélaginu. Við tölum um aukna skautun. Að við skiljum ekki lengur hvert
annað.
Við sjáum ekki ástæðu til að setja það í
samhengi við hvað við tölum niður hug- og félagsvísindi í samfélaginu. Nei.
Allt sem er þess virði að vera upphafið í samfélagi 21. aldar er tækni og
peningar. Stærðfræði. Verkfræði. Náttúruvísindi. STEM. Það er kjörorðið. Og
viðskiptafræðin hefur alla öldina verið álitin sannleikurinn. Guð 21. aldar.
Ég ætla að gerast svo hrokafull að segja ykkur
að þetta er misskilningur. Að það eru þessar áherslur sem eru að fara með
samfélög okkur til helvítis.
Manneskjan þarfnast fegurðarinnar. Hún
þarfnast heimspekinnar. Hún þarfnast bókmenntanna. Við mannfólkið þurfum á hug-
og félagsvísinum að halda sem aldrei fyrr.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli